Pálína Margrét Stefánsdóttir fæddist 12. febrúar 1925 á Hvalskeri í Rauðasandshreppi. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 20. september 2019 eftir stutt veikindi.Foreldrar hennar voru Valborg Pétursdóttir, f. 8. janúar 1893, d. 17. júlí 1975, og Stefán Ólafsson, f. 10. janúar 1891, d. 3. maí 1942.
Pálína var þriðja í röð fimm systkina sem voru Þórir, d. 1999, Guðbjörg (Stella), d. 1984, Pétur Eysteinn, d. 2010, Arnfríður Ásta lifir systkini sín.
Pálína giftist 29. maí 1952 Herði Sigurjóni Kristóferssyni bifvélavirkjameistara, f. 9. október 1917, d. 21. september 2006. Foreldrar hans voru Kristófer Bjarni Jónsson, d. 1923, og Guðjónía Stígsdóttir, d. 1963.
Dætur Pálínu og Harðar eru Valborg Stella, f. 4. september 1953, d. 24. október 2016. Hennar maki var Eggert Þór Jóhannsson, f. 21. október 1952, synir þeirra eru Hörður Páll, maki Karen Ómarsdóttir, saman eiga þau fimm börn, Anton Ingi, unnusta Nicola Willis, Stefán Jóhann, maki Jóhanna Brynjólfsdóttir, þau eiga tvær dætur.

Guðný Kristín, f. 12. febrúar 1955, maki Bjarni Hermann Halldórsson, f. 28. júní 1955, börn þeirra eru Heiða Björg, maki Eiríkur Aðalsteinsson, eiga þau þrjá syni, Hörður Sigurjón, maki Emilía Gísladóttir, eiga þau einn son. Vignir Ingi, maki Rebekka Rúnarsdóttir, saman eiga þau fjórar dætur.
Pálína fór ung í Söngskóla þjóðkirkjunnar og menntaði sig í orgelleik. Hún spilaði í kirkjum fyrir vestan og einnig við sérstök tilefni svo sem afmæli. Hún var ein af stofnendum Samkórs Kópavogs. Einnig var hún félagi í Freyju, félagi framsóknarkvenna í Kópavogi. Eftir að dætur hennar stálpuðust fór hún að vinna utan heimilis. Vann hún lengst af við verslunarstörf, hjá Mjólkursamsölunni, Hannyrðaversluninni Storkinum og mötuneyti Seðlabanka Íslands til starfsloka.
Útför Pálínu fór fram í kyrrþey að hennar ósk frá Kópavogskirkju 4. október 2019.

Pála frænka, Pálína Margrét Stefánsdóttir, sem lést aðfaranótt 20. september síðastliðinn, hátt á 95. aldursári, var jarðsett í dag. Hún var í miðju systkinahópsins á Hvalskeri við Patreksfjörð, sem fæddist á fyrrihluta síðustu aldar, hún fædd 1925. Þau voru fimm systkinin frá Hvalskeri, og sú eina eftirlifandi nú er móðir mín, Arnfríður Ásta. Það atvikaðist þannig að faðir hennar lést langt fyrir aldur fram, einungis 51 árs 1942, í miðju stríðinu, og eftir stóð móðir hennar með fimm börn, fædd á árunum 1921 til 1934 og bújörð í skuld. Ég hef á stundum gluggað í stílabók frá föður hennar, hvar hann tíundar m.a. búskap og tíðarfar. Þar kemur glöggt fram hversu þröngt var í búi þegar Pála og systkini hennar voru að alast upp. Það þurfti allar hendur á dekk til að hafa í sig og á og halda sjálfstæðinu. Þar að auki var Hvalsker stoppistöð almenningssamgangna þeirra tíma frá Rauðasandi á Eyrar og það kom alveg fyrir að fólk sem átti ekki athvarf annars staðar stoppaði endanlega á Hvalskeri og eyddi síðustu árunum þar í skjóli Hvalskershjóna. Kaupfélögin sem kennd voru við Rauðasand höfðu líka starfsstöð eins og það myndi heita nú til dags, gott ef ekki höfuðstöðvar, á Brandarstöðum rétt vestan Hvalskers og því fylgdi umstang fyrir heimafólkið á Hvalskeri. Skólaganga var með farskólahætti þess tíma. Þess utan gat Pála stundað nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar um skeið. Þetta var sum sé umhverfið sem mótaði Pálu frænku. Pála kynntist í Reykjavík eiginmanni sínum, honum Herði, Hadda frænda (sem var reyndar ekkert skyldur okkur en var kallaður Haddi frændi samt, enda frændi í þess orðs bestu merkingu) og þau bjuggu lengst af á Digraneshæðinni í Kópavogi. Þau fluttu þangað úr húsnæðisleysinu í Reykjavík (jú, það var skortur á íbúðarhúsnæði í Reykjavík líka þá) í sumarbústað efst á hæðinni og stækkuðu hann og bættu með eigin handafli og hugkvæmni enda Haddi afskaplega handlaginn maður. Bústaðurinn var þá nánast úti í sveit og þótti þetta ekki vænlegt til frambúðar að aðrir töldu, en Pála spurði bara á móti hvar fólk héldi að framtíðarbyggingarland væri. Pála og Haddi voru sum sé eiginlega frumbyggjar þess tíma og langt á undan hefðbundinni þjónustu sveitarfélaga en þetta kom nú allt saman með tíð og tíma. Bústaðnum fylgdi stór lóð og nóg pláss fyrir hænur og kartöflur og rabarbara og ýmislegt í þeim dúr sem kom sér vel. Og þar var sko nóg af villiköttum, sem áttu aldeilis hauka í horni þar sem Pála og Haddi voru og ég er viss um að allir hvæsikettirnir og þangbröndurnar hafa beðið í ofvæni eftir Pálu með hafnargrautarskálarnar fullar til að launa henni velgjörðirnar hér í den. Það voru líka aðrir villikettir sem höfðu í seli hjá Pálu og Hadda í Garðshorni en þessir eiginlegu kettir. Þegar systkinabörn Pálu vestur á fjörðum komust á legg og fóru að sækja sér menntun syðra vorum við ansi mörg sem bjuggu í kjallaranum hjá Pálu og Hadda í mislangan tíma og þar að auki voru ýmsir aðrir sem höfðu þar bústað. Alltaf var nóg pláss. Digranesvegur 112 var sum sé með líkt stoppistöðvarhlutverk og Hvalsker hafði. Þar voru líka haldnar hinar ýmsustu útskriftarveislur fyrir ættingjana og selkjötspartý og ég veit ekki hvað. Og þar höfðu bæði amma og Stella frænka síðustu stoppistöð í þessari vist. Þegar fræðingar nútímans höfðu líka áttað sig á hvar byggingarland framtíðarinnar var, og fóru að ásælast lóðina þeirra Pálu og Hadda þá seldi Pála ekki bara lóðina og húsið, heldur líka útsýnið, og þau hjón fluttu í íbúð á Kópavogsbrautinni, hvar þau bjuggu til æviloka og þar heima lést Haddi árið 2006. Þar bjó Pála svo ein og án heimilishjálpar nema allra síðustu árin, sjálfstæð kona sem ekki gat hugsað sér að vera upp á aðra komin og fór aldrei í varanlega vist á hjúkrunarheimili þó hún hafi nú litið inn á svoleiðis stofnanir öðru hverju síðustu árin. Pála og Haddi eignuðust 2 dætur, Valborgu, sem lést langt fyrir aldur fram fyrir 3 árum, og Kristínu. Rétt eins og sú sjálfstæða kona Kristrún í Hamravík var ekki par sátt við skapara sinn þá var Pála ekki par sátt við veikindi og andlát Valborgar en tók því af æðruleysi. Á sínum yngri árum tók hún þátt í starfi Framsóknarflokksins í Kópavogi, tók þátt í stofnun Samkórs Kópavogs, tók þátt í að safna fyrir Kópavogskirkju, og var almennt mjög samfélagslega sinnuð. Hún fór oft á tíðum á tónleika með sinfóníunni og hlustaði á tónlist og bjó til súpur með píkant smag og borðaði osta og bergði á rauðvíni á síðkvöldum löngu áður en það varð móðins og hún átti það til að reykja vindil með. Pála var ekki það sem í dag kallast langskólagengin, en hún var mjög vel menntuð, vel lesin, fylgdist með og las dagblöðin lengst af og hafði skoðanir á hlutunum. Það var aldrei komið að tómum kofanum hjá henni Pálu. Arnfríður Ásta og Ari úr Ásgarði á Patró biðja fyrir kveðjur til Pálu og allra afkomenda hennar og fjölskyldna þeirra.

Eygló Aradóttir.