Hulda Kristjánsdóttir fæddist í Heimabæ á Hvallátrum í Rauðasandshreppi 24. desember 1926. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 7. október 2019.
Foreldrar hennar voru Kristján Hjálmar Sigmundsson, f. 6.9. 1889, d. 4.11. 1976, og Sigríður Eggertsdóttir, f. 12.10. 1900, d. 17.11. 1981. Hulda var fimmta í röðinni af 10 systkinum. Systkini Huldu eru: Ragnheiður, f. 20.7. 1917, d. 22.4. 1982; Gísli, f. 21.4. 1921, d. 1.10. 2011; Ingibjörg Kristín, f. 18.5. 1923, d. 12.9. 2005; Eggert Halldór, f. 7.12. 1925; Sigurður Ágúst, f. 1.8. 1929, d. 26.2. 2011; Arndís Guðrún, f. 14.4. 1931; Kristín Hrefna, f. 27.12. 1932, d. 3.9. 2017; Einar Sigmundur, f. 4.10. 1936, d. 8.2. 2017; Jóna Margrét, f. 29.11. 1941.
Hulda giftist Knúti Gísla Friðriki Kristjánssyni 19. nóvember 1948. Börn Huldu og Knúts eru:
1) Guðrún Jóna hársnyrtir, f. 31.8. 1946, gift Rúnari Sigursteinssyni, húsasmið, f. 14.6. 1946. Börn þeirra eru tvö: Knútur, f. 20.12. 1966, giftur Ragnhildi Lindu Wessmann, f. 23.7. 1966, og eiga þau eina dóttur, Söru Liang Wessmann, f. 25.2. 2006; Aðalsteinn, f. 27.4. 1981, sambýliskona hans er Bettina Björg Hougaard, f. 10.8. 1980. Börn þeirra eru Alma Rún, f. 26.1. 2017, og Elín Ylfa, f. 18.2. 2019. Dætur Bettinu eru Telma Ósk Sigurgeirsdóttir, f. 10.6. 2005, og Milla Kristín Sigurgeirsdóttir, f. 21.6. 2009. 2) Ágúst byggingatæknifræðingur, f. 16.12. 1947. 3) Kristján byggingatæknifræðingur, f. 6.1. 1954, giftur Grétu Benediktsdóttur tækniteiknara, f. 2.12. 1958. Börn þeirra eru fimm; Benedikt Bjarni, f. 6.4. 1982, giftur Sóleyju Zachariasen Sjúrðadóttur, f. 15.3. 1990. Börn þeirra eru Sjúrður Kristján, f. 20.7. 2017, og Gréta Gurli, f. 2.4. 2019; Knútur, f. 30.3. 1984; Marteinn, f. 7.12. 1987; Kristján Tómas, f. 28.6. 1989; Hjörtur Ágúst, f. 15.2. 1993. 4) Sigrún Edda, tækniteiknari og framhaldsskólakennari, f. 24.9. 1955, gift Janusi Friðriki Guðlaugssyni, PhD-íþrótta- og heilsufræðingi, f. 7.10. 1955. Börn þeirra eru þrjú; Lára, f. 3.7. 1974, gift Haraldi Guðjónssyni, f. 19.5. 1974. Börn Láru og Haraldar eru Helena Ingibjörg, f. 17.6. 2004, og Aron Knútur, f. 13.7. 2008; Daði, f. 20.11. 1984, giftur Guðríði Steingrímsdóttur, f. 13.7. 1984. Börn þeirra eru Sigrún Vala, f. 10.2. 2015, Karen Jana, f. 24.8. 2016, og Kristín Lára, f. 24.8. 2016, d. 24.8. 2016; Andri, f. 27.6. 1986, sambýliskona hans er Birna Dís Birgisdóttir, f. 21.11. 1986. Börn þeirra eru Alexander Jan, f. 21.5. 2011, og Brynjar Daði, f. 9.7. 2015.
Árið 1941, þegar Hulda var á fimmtánda ári, fór hún fyrst að heiman og var ráðin í vist á Patreksfirði. Árið 1942 sótti hún nám í Sauðlauksdal hjá séra Þorsteini Kristjánssyni. Fyrri hluta árs 1945 fluttist Hulda í Mosfellssveit og hóf vinnu í ullarverksmiðjunni á Álafossi. Þar kynntist hún Sigurrós Kristjánsdóttur. Í gegnum vináttu þeirra kynntist Hulda bróður hennar Knúti, sem seinna varð eiginmaður hennar. Fluttist hún til Hafnarfjarðar til Knúts þar sem hann bjó ásamt foreldrum sínum en Knútur hafði flust til Hafnarfjarðar lýðveldisárið 1944 ásamt foreldrum sínum.
Hulda og Knútur giftu sig árið 1948 og bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði. Húsmæðrastarfið skipaði stærstan sess í lífi Huldu. þar sem hún naut þess að sjá um börn sín og sinna barnabörnum meðan þau voru að vaxa úr grasi. Hún sinnti einnig tengdaforeldrum sínum en þau bjuggu á heimili hennar og Knúts.
Útför Huldu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 4. nóvember 2019, klukkan 13.
Í Heimabæ, á framangreindum stað á Vestfjörðum, þann 24. desember 1926, fæddist jólabarnið Hulda Kristjánsdóttir, dóttir Kristjáns Hjálmars Sigmundssonar, fæddur 6. september 1889, dáinn 4. nóvember 1976, og Sigríðar Eggertsdóttur, fædd 12. október árið 1900, dáin 17. nóvember 1981. Hulda var fimmta í röðinni af 10 systkinum, fimm stúlkum og fimm piltum. Öll systkinin hafa náð fullorðinsaldri og þrjú systkini Huldu lifa systur sína.
Foreldrar Huldu, Sigríður og Kristján, stunduðu búskap á Heimabæ, æskuheimili Huldu, í hartnær 50 ár eða frá árinu 1920 til 1968 er þau fluttust alfarið til Reykjavíkur. Heimabær, sumarhús byggt á bæjarstæðinu, er nú griðastaður afkomenda Sigríðar og Kristjáns. Byggðin ekki eins afskekkt og áður með bættum samgöngum en Atlantshafið er hið sama með sig auk þess sem bjargið og náttúran er full af lífi eins og áður.
Hulda bar þess merki að alast upp í framangreindu umhverfi. Hún kunni að bjarga sér og naut útiveru, náttúru og ferðalaga. Hún var aðeins tæplega 15 ára gömul þegar hún fór fyrst að heiman til að vinna fyrir sér. Hún fer þá til Patreksfjarðar þar sem hún er ráðin í vist. Hún snéri ekki aftur til langdvala að Hvallátrum enda þröngt á þingi á Heimabæ á þeim tíma þótt matur væri ávallt nægur. Byggðin og staðurinn var henni þó ávallt ofarlega í huga og kom það vel í ljós þegar þau systkin réðust í að byggja sumarhús þar sem Heimabær stóð áður. Knútur maður hennar lét þar ekki sitt eftir liggja.
Árið 1942 sótti Hulda nám í Sauðlauksdal hjá séra Þorsteini Kristjánssyni ásamt öðru ungu fólki, meðal annars æskuvinkonu sinni, Björgu Ólafsdóttur. Hulda átti auðvelt með að læra og þótti skörp og minnug. Meðan Hulda dvelur á Patreksfirði er hún í bréfasamskiptum við bróður sinn Eggert sem á þeim tíma starfaði í ullarverksmiðunni að Álafossi í Mosfellssveit. Hún biður hann um að athuga hvort hann geti útvegað sér vinnu. Eggert hafði samband við Sigurjón Pétursson, eiganda Álafossverksmiðjunnar, sem tekur vel í bón hans og ræður Huldu í vinnu. Hún flyst suður fyrri hluta árs 1945 og dvelur í sér herbergi að Álafossi eins og flestir starfsmenn ullarverksmiðjunnar. Þar kynntist hún Sigurrós Kristjánsdóttur. Í gegnum vináttu þeirra kynntist Hulda bróður hennar Knúti, sem seinna varð eiginmaður hennar. Knútur var Dýrfirðingur, fæddur á Þingeyri 13. júlí 1926. Hann lést 22. júní 2005.
Árið 1945 flutti Hulda til Knúts í Hafnarfirði. Frá þeim tíma má segja að hún hafi helgað sig heimilisstörfum og bjó eiginmanni sínum og börnunum fjórum, Guðrúnu Jónu, Ágústi, Kristjáni og Sigrúnu Eddu, einstaklega gott og hlýlegt heimili. Hulda var ekki kona margra orða en vissi hvað hún vildi og hvert hún stefndi. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau á Strandgötu 50 þar sem nú er veitingastaðurinn Fjaran. Þar fæddist fyrsta barn þeirra, Guðrún Jóna. Þá fluttu þau á Selvogsgötu 26 í Hafnarfirði þar sem yngri systkini Jónu, Ágúst, Kristján og Sigrún Edda, fæddust öll. Húsið við Selvogsgötu byggði Knútur ásamt föður sínum á árunum 1946 til 1947. Fjölskyldan flutti síðan á Arnarhraun 23 árið 1959 en það hús byggði Knútur einnig. Hjá þeim Huldu og Knúti bjuggu einnig foreldrar Knúts, Kristján Guðmundur Tómasson og Jóna Þuríður Bjarnadóttir, en þau fluttu með syni sínum Knúti til Hafnarfjarðar frá Þingeyri árið 1944.
Á heimili þeirra hjóna var oft mannmargt en það stóð ávallt opið fyrir ættmennum að vestan. Í minningargrein um Knút segja systkini Huldu frá Heimabæ: Hulda var fyrst af okkur systkinunum til að stofna heimili á höfðuborgarsvæðinu og það var því ómetanlegt fyrir okkur hin að eiga athvarf hjá henni og Knúti. Við vorum alltaf velkomin í heimsókn eða til dvalar hvort sem það var í litla húsinu á Strandgötunni eða eftir að þau fluttust í rýmra húsnæði.
Það var einstök gæfa fyrir mig að eiga Huldu og Knút að eftir að hafa kynnst Sigrúnu. Árið 1974 fæddi Sigrún okkar fyrsta barn, Láru. Þá var gott að eiga að tengdamóður sem hljóp í öll foreldrastörf hjá ungum, óreyndum og uppteknum foreldrum þegar á þurfti að halda. Árið sem Lára fæddist og næstu tvö ár þar á eftir var ég við íþróttakennaranám á Laugarvatni og Sigrún við nám og vinnu á þeim tíma. Það var því mikil öryggistilfinning, sem aldrei verður fullkomlega þökkuð, að vita til þess að dóttir okkar væri í góðum höndum hjá ömmu sinni og afa meðan foreldrarnir gátu sinnt námi og störfum. Vil ég nota tækifærið og þakka þá hlýju og umhyggju sem Hulda og Knútur sýndu mér og okkur á þessum árum og öll ár eftir það meðan þau lifðu. Önnur börn okkar, Daði og Andri, sem og börn systkina Sigrúnar, fengu einnig að njóta ríkulegrar ástar, umhyggju og hlýju þeirra hjóna.
Fæðingarheimili Huldu, Heimabær við Látrabjarg, er í dag griðastaður afkomenda Huldu og Knúts sem og allra annarra afkomenda Kristjáns og Sigríðar. Þar hafa afkomendur hennar fengið að kynnast einstakri náttúru Vestfjarða og þeim heimi sem fylgdi því að alast upp fjarri þéttbýli og munaði í nútíma samfélagi.
Griðastaður afkomenda Huldu og Knúts er einnig Látrasel við Þingvallavatn. Þar byggði Knútur sumarhús sem þau hjónin skírðu síðan í höfuðið á Selinu, stað sem Látramenn þekkja ofarlega í Seljadal. Sú gagnkvæma virðing, ást og umhyggja sem þau hjón höfðu hvort fyrir öðru var skýr og greinileg. Þau höfðu einnig gaman af að ferðast og nutu sín í nærveru barna sinna og barnabarna. Það færðist líf yfir Huldu þegar barnabarnabörnin heimsóttu hana með foreldrum sínum eftir að hún flutti á Hrafnistu í Hafnarfirði.
Hulda og Knútur ferðuðust ekki til útlanda fyrr en þau voru um fimmtugt. Það var því ánægjulegt að geta boðið þeim í heimsókn til Þýskalands, Sviss og Danmerkur meðan við Sigrún bjuggum þar, þó ekki væri nema að gjalda þeim greiðann við einstaka umönnun barna okkar. Þá höfðu þau unun af því að ferðast með börnum og barnabörnum erlendis en ekki síður um landið okkar.
Þegar Knútur kvaddi þetta líf árið 2005 kom skýrt í ljós hve mikið Hulda missti sem og fjölskyldan öll. Hún þurfti að kveðja ást sína í lífinu fyrr en hún hafði gert ráð fyrir. Hún saknaði hans alla tíð. Endurfundir þeirra tveggja er ef til vill það sem hún hefur þráð síðustu vikurnar, fegin hvíldinni eftir langa starfsævi, þar sem hennar megin lífsmarkmið var að þjóna öðrum og láta gott af sér leiða.
Vil ég votta aðstandendum Huldu, börnum hennar og fjölskyldum þeirra, sem og eftirlifandi systkinum, mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning einstakrar konu og tengdamóður.
Janus Guðlaugsson.