Jónas Ásmundsson, fæddist á Bíldudal 24. september 1930. Hann lést á dvalarheimilinu Grund 19. október 2019.
Foreldrar Jónasar voru Martha Ólafía Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 4. apríl 1892, d. 18. febrúar 1960, og Ásmundur Jónasson, sjómaður og verkamaður á Bíldudal, f. 24. apríl 1899, d. 5. mars 1995.
Systur Jónasar voru Ásta Ásmundsdóttir, f. 25. júlí 1923, d. 29. ágúst 2000, og Svandís Ásmundsdóttir, f. 28. júní 1925, d. 5. júlí 2010.
Jónas útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1950. Að skólagöngu lokinni starfaði hann sem fulltrúi sýslumanns á Patreksfirði. Árið 1954 gerðist Jónas oddviti Suðurfjarðarhrepps og framkvæmdastjóri fiskvinnslu og útgerðar hreppsins á Bíldudal. Árið 1971 tók hann við starfi aðalbókara Háskóla Íslands og gegndi því starfi til ársins 1999.
Meðfram öðrum störfum var Jónas jafnframt organisti í Bíldudalskirkju um nokkurra ára skeið. Hann starfaði innan Lions hreyfingarinnar um árabil og kom m.a. að stofnun Lionsklúbbsins Týs í Reykjavík. Jónas var jafnframt virkur í starfi SFR og BSRB og sat í stjórn SFR 1975-1985.
Jónas kvæntist 17. júní 1955 Guðríði Soffíu Sigurðardóttur, húsmóður og kaupmanni, f. 23. febrúar 1928, d. 7. janúar 2017. Foreldrar hennar voru Sigurður Andrés Guðmundsson, skipstjóri og bóndi á Geirseyri við Patreksfjörð, f. 29. nóvember 1886, d. 23. desember 1948, og Svandís Árnadóttir húsmóðir, f. 9. september 1893, d. 29. febrúar 1968.
Dóttir Jónasar og Jónu Magnúsdóttur, f. 8. maí 1929, d. 31. desember 1952, er Guðrún Jóna fulltrúi, f. 31. desember 1952. Sambýlismaður hennar er Ingi Halldór Árnason tækjamaður og á hún þrjú börn, Jónu Dís, Þóreyju og Ottó Inga Þórisbörn. Börn Jónasar og Guðríðar eru: A) Ásmundur yfirlæknir, f. 20. júlí 1957, kvæntur Guðrúnu Vignisdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau tvo syni, Jónas og Tómas Vigni. Áður eignaðist Ásmundur soninn Jón Kristinn og Guðrún soninn Heimi Snorrason. B) Gylfi framkvæmdastjóri, f. 24. júní 1960, kvæntur Ásdísi Kristmundsdóttur verkefnastjóra og eiga þau tvær dætur, Gígju og Hrefnu Björgu. C) Helgi Þór hagfræðingur, f. 20. júlí 1964, kvæntur Kristínu Pétursdóttur löggiltum fasteignasala og eiga þau tvö börn, Hinrik og Mörthu Sunnevu. Barnabarnabörn Jónasar eru fjórtán.

Jónas var jarðsunginn 31. október 2019.

Í minningu afa míns, Jónasar Ásmundssonar, sem lést 19. október síðastliðinn.

Sú mynd sem hugarfylgsni mitt málar af afa mínum þegar ég minnist hans tekur okkur til baka um miðjan níunda áratug síðustu aldar þegar hann og amma mín bjuggu á Sunnubrautinni í vesturhluta Kópavogs. Þar byggði hann fjölskyldu sinni reisulegt húst við sjávarsíðuna.

Það er ákveðin erkiminning sem ég hef af honum og ömmu minni frá því ég var ungur strákur. Hún hefst einhvern veginn þannig að Gýja amma mín biður mig á laugardagsmorgni í eitt þeirra skipta sem ég hafði verið í pössun hjá þeim að fara og vekja afa sem enn lá og svaf í rúmi sínu. Oft var ég sendur nokkrum sinnum yfir í svefnherbergið til að vekja hann þar sem hann svaf oft langt fram yfir hádegi um helgar. Líklegast hafði hann verið að skála með góðum vinum kvöldið áður en ekki hvarflaði það þó að mér á þessum tíma. Ég hlýddi bara ömmu þegar hún bað mig um að vekja þennan mögulega timbraða eldri mann sem aldrei varð pirraður þrátt fyrir að ungur sonarsonur kæmi og raskaði ró hans.

Þegar hann hafði svo komið á fætur hafði amma lagað handa honum kaffi og tekið til morgunmatinn sem ekki breyttist sama hvaða dagur vikunnar var. Seríós með berjasafa, súrmjólk og léttmjólk. Ég man alltaf hvað mér fannst þetta einkennileg leið til að hefja daginn. Þessu fylgdu svo íslenskar pönnukökur og kaffi ásamt helgardagblöðunum og Gufunni sem ómaði á bak við. Oft á tíðum hafði amma rekist á eitthvað merkilegt í Lesbók Morgunblaðsins sem henni fannst nauðsynlegt að afi læsi. Ég man lauslega eftir grein sem hafði verið tileinkuð Steini Steinarr og höfðu nokkur ljóða hans fengið að fylgja með. Amma hóf lestur á einu ljóðanna sem var í nokkrum erindum. Eftir að hafa klárað fyrstu setningu fyrsta erindis var eins og hún vissi hvað tæki við. Afi kláraði ljóðið eftir minni eins og hann hefði samið það sjálfur. Hann var af kynslóð fólks sem ekki ólst upp við sjónvarp, samfélagsmiðla eða internet. Kynslóð hans hafði lestur bóka og ljóða sem sitt helsta skemmtiefni og gat hann munað heilu ljóðabálkana eftir minni.

Allt frá fyrstu tíð minni hef ég verið minntur á mannkosti hans og kannski sérstaklega vegna þess að ég erfði nafn hans. Allir sem hann þekktu báru honum vel söguna og hafði fólk á orði að hann væri leikinn með orð, færi létt með að halda ræður við hátíðartilefni og hefði kveðist á eins og gert var í gamla daga. Hann var líka vinur vina sinna og naut virðingar samferðamanna sinna enda mættu rúmlega tvö hundruð manns í áttræðisafmæli hans. Hann var reffilegur karl og bar sig ávallt vel. Hann var með kjálkasíða barta og þykkan hökutopp. Hann greiddi sleikt dökkgrátt hárið aftur og var óaðfinnanlega klæddur þegar hann tók sig til. Hann hafði litla skrifstofu sem hann nýtti til að sjá um bókhaldsreikninga heimilisins en eigi síður var það athvarf þar sem hann gat kveikt sér í pípu og horft spekingslega út um gluggann. Hann var rólegur í fasi og yfir honum hvíldi stóísk ró sem var hughreystandi.

Hans besti kostur var að hann gerði ekki upp á milli fólks. Hann var ekki dómharður og tók fólki eins og það var. Hann var tilbúinn að hlusta og í stað þess að bjóða ráð trúði hann því alltaf að ég fyndi mína eigin leið. Nú síðustu ár þegar hann dvaldi á Grund heimsótti ég hann oft og sagði honum fréttir af því sem var að gerast í lífi mínu. Hann gat átt misjafna daga sökum heilsu sinnar en hann var alltaf glaður að sjá mig. Hann var orðinn gleyminn og stundum þekkti hann mig ekki í sjón en það gladdi mig alltaf að hann myndi hver ég var ef ég sagðist vera nafni.

Það er einnig mikilvægt fyrir mig að fylla út í eyður þeirrar mósaíkur sem myndaði persónuleika hans og fá að kynnast honum í gegnum sögur sem ekki endilega mála rósrauða mynd af lífshlaupi hans. Það gerir hann mennskari og færir hann nær mér en áður. Nú dagana og vikurnar eftir andlát hans hafa margir deilt endurminningum sínum af honum. Það er á margan hátt hughreystandi að vita að lífshlaup hans hafi verið barátta eins og hjá okkur flestum. Hann lifði tímana tvenna og brimrót lífsins gat stundum skollið fast að ströndum hans. Snemma á lífsleiðinni þurfti hann að takast á við erfiða atburði sem líklegast hafa haft djúpstæð áhrif á hann. Um það leyti sem ég fer sjálfur að muna eftir mér lendir hann í veikindum sem urðu til þess að hann varð hlédrægari og einkenni ellinnar komu fram fyrr en ella. Eina eftirsjá mín er að hafa ekki fengið að kynnast honum sem fullorðinn maður fyrir þann tíma.

Engu að síður hef ég ekkert nema hlýjar minningar um afa minn og nafna og ímynd hans tók þátt í að móta mig sem persónu og gera mig að þeim manni sem ég er í dag. Betri fyrirmynd af forvera mínum hefði ég ekki getað fengið og þakka ég honum minningarnar og árin.

Guð blessi minningu afa míns. Þinn vinur og nafni,



Jónas Ásmundsson.