Erlingur Loftsson fæddist 22. júní 1934. Hann lést 20. október 2019.
Útför Erlings fór fram 9. nóvember 2019.

Í dag kveðjum við systkinin föður okkar, Erling Loftsson eða Guðjón Erling Loftsson eins og hann hét fullu nafni.  Hann lést á sjúkrahúsi eftir um sjö vikna margþætt veikindi, 85 ára gamall eftir farsæla ævi.  Pabbi var svo lánsamur að njóta góðrar heilsu þar til nú í haust og fullri heilbrigðri hugsun alveg til síðasta dags.  Hann hafði mömmu sér við hlið í um 65 ár, og saknaði hennar sárt þau tæplega þrjú ár sem eru síðan hún lést.

Pabbi var fæddur og uppalinn á Sandlæk í fjörugum hópi systkina og frændfólks.  Leikirnir snerust um búskap, vegagerð og alls konar fjörugri bolta- og hlaupaleiki. Loftur afi hafði sest í bú á Sandlæk hjá Lovísu systur sinni, sem missti manninn frá stórum smábarnahópi árið 1918.  Síðan tók hann við búi með ömmu sér við hlið árið 1931.   Símstöð var á Sandlæk á þessum árum og kom það í hlut pabba og bræðra hans að sendast með skilaboð og skeyti á nágrannabæina og ömmu að taka á móti öllum þeim er áttu erindi í símann.  Þannig mótuðust góð samskipti við fólkið á nágrannabæjunum sem erfst hafa milli kynslóða.  Vinskapur milli foreldra smitaðist yfir til barnanna.

Á uppvaxtarárum pabba var fjölmennt á frambæjunum svokölluðum, börnin 5-7 á hverjum bæ á sama aldri auk frændfólks sem bættist við á sumrin og því oft ansi fjörugt þegar farið var á milli bæja.  Sumarhátíðin á Álfaskeiði átti sinn blómatíma á þessum árum.  Þangað fóru allir sem vettlingi gátu valdið úr Hreppum og Skeiðum, allt frá ungum börnum til gamalmenna.  Fyrst ung börn og gamalt fólk í hestakerrum.  Þegar börn uxu úr grasi fóru þau á hesti, fyrst á hnakknefi fyrir framan fullorðinn og síðan ríðandi sjálf. Í heimavist Ásaskóla kynntust börnin enn betur.  Þar þróuðust leikir yfir í samvinnu við kvöldvökur á vegum Ungmennafélagsins (UMFG), leiksýningar sem settar voru upp, ballferðir, sem gjarnan voru farnar á vörubílspöllum eða í vörubílsboddíum, æfingar fyrir danssýningar eða íþróttir á héraðsmótum HSK í Þjórsártúni eða landsmótum UMFÍ þar sem gist var í tjöldum.

Pabbi lifði miklar tæknibreytingar á sinni löngu ævi.  Hann mundi þegar hann sat framan í Taðhólnum með Lofti afa þaðan sem þeir horfðu á þúfnabanann slétta kargaþýfða mýri í Óskróknum sem erfitt var að slá og heyja með orfi og ljá.  Hestar voru notaðir fyrir tækin þar sem sléttara var.  Sama svæðið átti pabbi eftir að endurrækta margsinnis og að síðustu að sá þar byggi til reynslu, fyrstur bænda í uppsveitum Árnessýslu.  Hann fæddist í burstabæ og ólst upp í baðstofu þar sem allir nema húsráðendur sváfu í sama rými, þar sem bera þurfti vatn í bæinn og eldað var á kolaeldavél og rjóminn af mjólkinni sem ekki var sendi í mjólkurbúið, strokkaður í smjör.  Næst komu dísildrifinn mjaltamótor fyrir mjaltavélina og traktor á allra fyrstu árum vélaaldar.

Loftur afi og Gummi frændi sungu í Hreppakórnum á þeim tíma sem enn var búið í gamla bænum og sofið í baðstofu.  Þar kynntist pabbi og heimilisfólkið því að hlusta á raddaðan söng þegar þeir æfðu raddirnar sínar í hvíldinni eftir matinn.  Loftur afi og Ella amma á Sandlæk eignuðust orgel snemma í sínum búskap.  Þarna milli áranna 1940 og 1950 var farandkennari í sveitinni sem fór á bæi þar sem til var hljóðfæri og kenndi börnum og fullorðnum.  Pabbi og öll systkin hans lærðu því ung á orgel en þar með var grunnurinn lagður að því að öll hljóðfæri sem náðist í voru prófuð og æft með árangri sem leiddi til þess að tvö systkin pabba enduðu ýmist sem tónlistarkennarar, og hin þrjú sem tómstundahljóðfæraleikarar og/eða kórfólk.

Pabbi og systkini hans voru studd til náms eftir barnapróf úr Ásaskóla þar sem flestir voru í heimavist.   Þau fóru öll í héraðsskólann á Laugarvatni og tóku landspróf.  Laugarvatn skipaði sérstakan sess í hjarta foreldra okkar, en þar hafði rómantíkin svifið yfir vötnum þegar þau voru þar bæði í skóla og pabbi síðan verið tíður gestur veturinn sem mamma var þar í húsmæðraskóla.  Á Laugarvatni var einnig kórsöngur á námskránni en þar stjórnaði Þórður Kristleifsson skólakór af andríki og kveikti áhuga á alþýðukórsöng sem fylgdi foreldrum okkar alla ævi og veitti kórastarf þeim mikla lífsfyllingu.  Síðasta árið hans pabba starfaði hann enn í tveimur kórum og hafði af því ómælda ánægju bæði félagslega og andlega.

Það varð síðan hlutskipti foreldra okkar að taka þar við búskap um leið og afi og amma drógu saman og halda áfram ræktun lands og bústofns.  Þau innréttuðu sér íbúð árið 1955 í nýja húsinu sem afi og amma reistu með hjálp barna sinna.  Þar var rennandi vatn en húsið fyrst kynt með olíu og eldað á gasi.  Það kom í hlut foreldra okkar að leggja rafmagn og taka þátt í samstarfi með nágrönnunum um stærri vatnsveitu og hitaveitu seinna meir.  Þau ráku blandað meðalstórt bú með sóma, héldu bókhald yfir rekstur og einnig viðkomandi búfjárræktun og afurðum alla tíð.  Pabbi var bjartsýnismaður og mikill jarðræktarmaður, þótti skemmtilegast að plægja, sá og uppskera.  Hann var alltaf fús að prófa eitthvað nýtt eins og skjólbelta- og nytjaskógrækt og kornrækt.  Hann lifði það að sjá plöntur sem þau mamma plöntuðu í tilraunaverkefni á Sandlækjarmýrinni verða höggvin sem nytjavið með stórvirkum skógarhöggsvélum.

Pabbi var mikill félagsmálamaður.  Í Ásaskóla kynntist hann blómlegu ungmennafélagsstarfi og alla tíð síðan var pabbi mjög virkur í félagsmálum í hreppnum og utan hans.  Hann leit á það sem skyldu sína hafa skoðun og að leggja af mörkum.  Það var hans mottó að láta gott af sér leiða, draga fólk ekki í dilka, leiða deilur á sáttaveg og leggja jákvæð viðhorf í alla umræðu.  Pabbi var mikill náttúrunnandi og naut þess að ferðast og kynnast öðrum landshlutum.   Þau mamma kenndu okkur að ferðast, njóta náttúrufegurðar og skilja að landslagið væri lítils virði ef það héti ekki neitt (úr Fjallgöngu eftir TG). Um ævina fóru þau um allt land, nánast alla króka og kima, bæði í byggð og óbyggðum.  Eftir miðjan aldur fóru þau oftar og oftar til útlanda og síðustu árin jafnan samferða einhverju okkar systkinanna.  Það var gaman að eiga þátt í því að þau næðu að láta nokkra drauma rætast varðandi það að skoða önnur lönd og sjá aðra menningu og aðstæður jafningja sinna handan Atlantshafsins.   Pabbi hafði einnig gaman af því að standa á bakka með veiðistöngina sína, hlusta á fuglana og virða fyrir sér fjallahringinn.  Pabbi las mjög mikið, allar tegundir bóka og horfði mikið á sjónvarp og ræddi það sem hann las og sá.

Við munum pabba sem las fyrir okkur fyrir svefninn og raulaði vísur.  Hann var lífsglaður, léttstígur, brosandi og gjarnan syngjandi í búverkunum.  Við fylgdum honum eitt af öðru eftir því sem við höfðum aldur til.  Hann var góður kennari, sanngjarn verkstjóri og kunni að hrósa og hvetja til dáða.  Hann hafði lag á að ræða málin og fá okkur til að opna hjartað um það sem brann á hverju sinni.  Hann varð trúnaðarvinur okkar og lagði alltaf gott til málanna, lausnarmiðaður og bjartsýnn, var eiginlegra að horfa á björtu hliðarnar en hinar.  Þau mamma voru foreldrar sem stóðu með sínum í gegnum þykkt og þunnt og lögðu ómetanlegar línur í mannlegum samskiptum og jákvæðni sem eru eitt það allra dýrmætasta sem við meðtókum í uppvextinum.  Börnin okkar og barnabörnin voru svo lánsöm að fá að kynnast þeim.  Sem afi og langafi naut pabbi sín í botn, sýndi nýjum fjölskyldumeðlimum ást og virðingu, hafði alltaf tíma til að taka á móti litlum gestum og taka þátt í leikjum þeirra og vangaveltum um lífið og tilveruna.  Þannig smitaði hann frá sér jákvæðni í garð alls sem andar.  Það skilar sér sannarlega inn í framtíðina.

Eitt af því sem pabbi innrætti okkur var að þegar við rötuðum í einhverja óheppni eða mótlæti dyndi á okkur skipti mestu máli að mæta því með því hugarfari að á öllum málum væru líka bjartar hliðar, allavega sá möguleiki að læra af og standa sterkari eftir.  Bjartsýnishugarfarið birtist í setningum eins og  þetta gengur yfir, þetta lagast, það væri ekkert varið í lífið ef það væri bara dans á rósum.

Hans eigin erfiðustu áföll vegna hans nánustu voru þrjú.  Það fyrsta árið 1966 þegar Lolli bróðir hans, sem stefndi á búskap við hlið hans á Sandlæk, slasaðist illa og lenti í hjólastól.  Annað hófst 1981 þegar Helgi bróðir okkar lést af slysförum, en líklega hefur pabbi aldrei losnað við þá tilfinningu að hans eigin augnabliksgáleysi hafi þar skipti sköpum.  Þriðja áfallið var þegar mamma dó, nú fyrir næstum þremur árum, eftir nokkurra vikna erfið veikindi. Þau höfðu tilheyrt hvort öðru í næstum 65 ár og átt farsælt líf, án hennar var hann hálfur maður þótt hann ynni ötullega í því að lifa lífinu lifandi eftir sem áður.  Hundurinn Táta var honum ómetanlegur félagsskapur þessi rúmlega tvö síðustu ár.  Við nutum hverrar samverustundar vitandi það að allt gott hefur sinn tíma.  Síðasta sunnudagsferðin okkar saman var í tilefni 85 ára afmælis hans nú í sumar.  Það hafði runnið upp fyrir okkur að hann átti eftir að koma út í Viðey, þar áttum við systkinin og hann saman dásamlegan góðviðrisdag og nutum þess að skoða okkur um og njóta útsýnis til allra átta.

Eins og fram hefur komið missti pabbi heilsuna nú fyrir um tveimur mánuðum.  Örþreyttur og saddur lífdaga tók hann ákvörðun sem hann deildi með okkur börnunum sínum og óskaði liðsinnis.  Hann bar fram þá ósk að læknarnir aftengdu tækin sem viðhéldu veiku lífi sem hann kaus að ljúka með reisn.  Við sátum hjá honum til skiptis eða öll saman þá 5 sólarhringa sem hann dró andann eftir það.  Það var síðasta einstaka verkefnið sem hann úthlutaði okkur, börnunum sínum,  í skóla lífsins.  Það var að fylgjast með því hvernig maður, saddur lífdaga í hárri elli  lætur náttúruna hafa sinn framgang, leyfir lífinu að fjara út á eðlilegan hátt.

Það er okkar systkinanna sem eftir stöndum og okkar afkomenda að halda áfram að byggja brýr milli kynslóða.  Best munum við heiðra minningu pabba með því að halda uppi merki hans sem lífsglaðs, bjartsýns og jákvæðs mannvinar sem bar virðingu fyrir fegurð náttúrunnar. Í þakklæti fyrir það sem hann gerði fyrir okkur systkinin, börnin okkar og barnabarnabörnin öll. Hvíli hann í eilífum friði.



Elín Erlingsdóttir, Valgerður Erlingsdóttir, Loftur Erlingsson.