Elín Svafa Bjarnadóttir fæddist á Stokkseyri 18. maí 1921. Hún andaðist á LSH Fossvogi 1. nóvember sl.
Foreldrar hennar voru hjónin Jóhanna Hróbjartsdóttir, f. 20. nóvember 1879, og Bjarni Grímsson, f. 4. desember 1870. Systkinin voru sjö talsins en eru nú öll látin.
Hinn 21. október 1944 giftist Elín Eyjólfi Thoroddsen, f. 25. október 1919, d. 13. júlí 2006. Foreldrar hans voru hjónin Ólína Andrésdóttir, f. 23. september 1883, og Ólafur Thoroddsen, f. 4. janúar 1873. Elín og Eyjólfur bjuggu lengst af á Látraströnd á Seltjarnarnesi þar sem þau reistu hús sitt en minnkuðu við sig árið 1990 og fluttu á Boðagranda 4. Börn Elínar og Eyjólfs eru: 1) Bjarni, maki Ásta H.Þ. Börn þeirra eru þrjú: a) Eyjólfur Már, b) Bryndís Erna, c) Elín Svafa, tengdabörn og tíu barnabörn. 2) Ólafur Örn, maki Sigríður Jónsdóttir. Hún á einn son með Hallgrími Ó. Guðmundssyni: a) Jón Óskar. Þau eiga eina dóttur: b) Halldísi, tengdabörn og fimm barnabörn. 3) Jóhann, maki Katla Kristvinsdóttir. Börn þeirra eru þrjú: a) Dröfn, b) Jökull, c) Silja, tengdabörn og fjögur barnabörn. 4) Ólína Elín, hún á eina dóttur með fyrrum eiginmanni, Georg Magnússyni: a) Hrafnhildi Yrsu, tengdason og þrjú barnabörn.
Eftir hefðbundna skólagöngu lagði Elín stund á nám við Verzlunarskóla Íslands en það var ekki sjálfgefið að stúlkur færu í framhaldsnám á þeim tíma. Eftir námið starfaði hún við skrifstofustörf allan sinn starfsaldur utan þess tíma er hún sinnti heimilisstörfum og börnum þeirra hjóna eða þar til þau komust á legg. Fyrst starfaði Elín hjá Bæjarskrifstofu Reykjavíkur en lengst af hjá Mælingastofu pípulagningamanna samhliða hlutastarfi við skráningar hjá Jens Ó.P. Pálssyni, prófessor í mannfræði.
Elín naut þess að vera heima við í hárri elli en það tókst með dyggri aðstoð barna hennar og heimaþjónustu.
Elín Svafa verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 15. nóvember 2019, kl. 13.
Þá er elsku Ella okkar horfin frá okkur. Aldurinn var orðinn hár en
vitanlega eru engin tímamörk á því hvenær á að hætta að syrgja sitt besta
fólk, hvort sem það kveður seint eða snemma.
Okkur mæðginum er þó efst í huga þakklæti fyrir kærleikann og bjarta
ljósið sem alltaf stöfuðu af þessari yndislegu konu. Veit að hennar góða
fólk er sátt við að við mæðgin tölum um hana sem okkar því okkur fannst við
eiga svo mikið í henni - og hún í okkur.
Elín Bjarnadóttir var einstök manneskja, góð og greind, með svo stórt
hjarta að þar virtist vera ótakmarkað rými.
Við erum ríkari af því að hafa átt hana að frá fyrstu ferð enda var hún
æskuvinkona móður minnar og ömmu Óðins Páls, Ólafar Pálsdóttur.
Þær höfðu þekkst síðan þær voru litlar stúlkur á Sólvallagötunni í
Vesturbænum. Seinna voru þær skólasystur í Verslunarskóla Íslands og
þó
að leiðir þeirra og æviferill væru um margt ólík hélst vináttan óskert fram
á hinsta dag. Held að þær hafi talað saman í síma daglega þangað til mamma
lést í fyrra. Hún var árinu eldri en Ella, þannig að þær hafa kvatt á
svipuðum tíma á sinni ævi. Það var alltaf nóg að ræða hjá þeim vinkonum,
sama hvort voru heimsmálin, pólitík og dægurmál hér heima, eða bara nýjasti
þátturinn af Leiðarljósinu. En um það sögðu þær báðar að það væri nú best
að fara að hætta að horfa á þessa bévítans vitleysu.
Þær horfðu nú samt enda kærkomið tækifæri fyrir þessar tvær vinnusömu konur
að leggja sig aðeins á eftirmiðdögunum og slaka á yfir vitleysunni.
Mér þótti svolítið draga af Ellu eftir að mamma dó í fyrra enda var alltaf
vitað að brotthvarf annarrar myndi leggjast þungt á þá sem eftir
lifði.
Samt var Elín klár og skýr til hinsta dags, eins og þær báðar
vinkonurnar, hátt á tíræðisaldri. Það var alltaf unun að hlusta á
þær spjalla saman og hlæja eins og þær gerðu svo oft.
Það hefur verið sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. Ella
og Eyjólfur, hennar góði eiginmaður, voru ómetanlegur hluti þess
litla
þorps sem sinnti mér og bróður mínum þegar við vorum að alast upp
sem börn og unglingar á Íslandi, oftast sitt á hvorum staðnum,
misgóðum, meðan foreldrar okkar sinntu skyldustörfum erlendis.
Aldrei var þar um neina óþarfa afskiptasemi að ræða, heldur bara
elskulegheit og umhyggju. Alltaf var hægt að leita til þeirra góðu
hjóna ef eitthvað bjátaði á. Þar var nú ekki dómharkan á ferðinni heldur
bara skilningur og hlýja. Þau buðu líka stundum í mat þar sem þau bjuggu á
Seltjarnarnesinu og það var ekki amalegt fyrir tvo svolítið umkomulausa
krakka að fá góðan heimilismat og hlýju í faðmi glaðlyndrar stórfjölskyldu.
Áratugum saman kom svo alltaf Ellukaka, eins og við mæðgin kölluðum bestu
marengstertu í heimi, í hús á afmælisdögum okkar Óðins Páls. Ella mundi
allt.
Mér fannst líka alltaf óskaplega gaman að koma til Ellu með mömmu
þegar ég var smástelpa. En þá var Eyjólfur oft á sjó sem
loftskeytamaður.
Strákarnir þeirra þrír áttu ógrynni af kvikmyndadagskrám sem þá var mikill
fengur í að fá að skoða. Einkadóttirin Ólína safnaði flottustu servíettum
sem ég hafði séð. En Ólína kom sem sannkallaður bónusvinningur í kjölfar
þriggja
myndarlegra bræðra, Bjarna, Ólafs og Jóhanns.
Öll reyndust þau systkin, tengdabörn og barnabörn, foreldrum sínum
afar vel svo hún Ella okkar var sko ekki ein í heiminum.
Er hins vegar næsta viss um að það er fólk á ýmsum stöðum sem
hefði verið mun meira eitt í þessum heimi hefði Ellu ekki notið við.
Hún snart líf svo margra, eflaust sumra sem fæstir vita um, en geyma
minningarnar um hana í hjarta sínu.
Ella hafði óbilandi og sterka guðstrú, sem hún flíkaði aldrei, en ég trúi
að hafi hjálpað mörgum á erfiðum stundum.
Eitt sterkasta dæmið um óbilandi trú Elínar held ég að hafi verið
æðruleysið sem hún sýndi þegar Eyjólfur hennar lést nokkrum árum á
undan henni. Það var eins og hún væri þess fullviss að þau hjónin myndu
hittast aftur á enn þá betri stað innan tíðar. Því væri óþarfi að
æðrast.
Ella hefur sem sagt verið óaðskiljanlegur hluti af lífi mínu frá
fyrstu ferð. Þegar ég eignaðist Óðin Pál var Ella aldrei langt undan með
sína jákvæðni og hvatningu. Ómetanlegt fyrir nýorðna móður. Man þegar
drengurinn, nokkurra mánaða, var að læra, eða kenna sjálfum sér, að skríða
niður stóru tröppurnar í holinu í fjölskylduhúsinu í Útsölum við Nesveg,
hélt sér í handriðið og fór fetið. Þá stóðum við þrjár, mamman, amman og
Ellan, niðri á gólfi og hvöttum okkar mann til dáða. Það fór nú líka allt
vel, enda lagði Ella okkar alltaf gott til allra mála.
Svona stundir er gott að muna.
Veri þessi yndislega kona kært kvödd.
Hildur Helga Sigurðardóttir og Óðinn Páll Ríkharðsson.