Anna Hjaltested fæddist 23. maí 1932 á Vatnsenda við Elliðavatn. Hún lést á Hömrum í Mosfellsbæ 8. nóvember 2019.
Foreldrar Önnu voru Lárus Hjaltested, 22. febrúar 1892, dáinn 8. júní 1956, og Sigríður Guðný Jónsdóttir, 6. janúar 1896, dáin 12. febrúar 1980. Systkini hennar eru Sigurður Kristján, f. 11. júní 1916, d. 13.nóvember 1966, Georg Pétur, f. 11. apríl 1918, d. 26. september 1996, Katrín, f. 21. maí 1920, d. 22. nóvember 2008, Sigurveig, f. 10. júní 1923, d. 20. júlí 2009, Jón Einar, f. 27. ágúst 1925, d. 22. apríl 2002, og Ingveldur, f. 22. maí 1934.
Anna giftist 30. nóvember 1951 Þórði B. Sigurðssyni, f. 9. júlí 1929, fv. forstjóra Reiknistofu bankanna. Foreldrar hans voru Sigurður Þórðarson, f. 2. apríl 1903, d. 24. desember 1965, og Ólafía Hjaltested, f. 9. júní 1898, d. 14. júlí 1954. Fósturforeldrar Björn Vigfússon, f. 5. júlí 1899, d. 28. desember 1989, og Anna Hjaltested, f. 7. mars 1895, d. 6. janúar 1958. Börn Önnu og Þórðar eru:
1) Magnús Þrándur, f. 2. maí 1952, d. 19. mars 2019, k. Helga Þorvarðardóttir, f. 16. júlí 1949. Börn: a) Ragnhildur, f. 13. október 1974, dóttir Stella Lúna. b) Illugi, f. 23. mars 1976, k. Michele K. Magnússon. c) Pétur Gautur, f. 31. mars 1980.
2) Björn Þráinn, f. 30. október 1954, k. Sigurveig Sigurðardóttir, f. 22. september 1952. Börn: a) Sigurður Sævarsson, f. 24. desember 1971, k. Ásdís Líndal, börn Snædís Björk, Daníel Þór og Ísak Már. Maki Snædísar er Per S. Lund, sonur Nóa. b) Viðar Másson, f. 18. júní 1974, k. Sigurlaug Jóna Hannesdóttir, dætur Sigurlín og Sólveig. c) Héðinn, f. 20. júní 1981. Móðir Guðbjörg Pálsdóttir. K. Susanne Lilja Buchardt, dætur Elín og Astrid. d) Þórður, f. 30. desember 1989. e) Sigríður Lóa, f. 13. mars 1993. Uppeldissonur: f) Róbert Logi Benediktsson, f. 31. mars 1973. Dóttir Rebekka Ósk. Fósturbörn Björns: g) Vaka Antonsdóttir, f. 1. febrúar 1978, m. Björn Lindberg, dætur Ása, Saga og Hulda. h) Sigurður Þórðarson, f. 11. janúar 1974, börn Alvin og Blædís.
3) Sigurður Þengill, f. 6. ágúst 1956, k. Anna Lísa Sigurjónsdóttir, f. 30. mars 1958. Börn: a) Þórður Björn, f. 29. desember 1976, k. Aðalheiður Guðjónsdóttir, börn Þula Katrín og Esja Sigurdís, móðir Helga Dís Sigurðardóttir, Benedikt og María Rósalind, faðir Richard Fazakerley og Pétur Steinn. b) Sveinlaug, f. 6. janúar 1982, m. Stefán Þór Bjarnason, synir Bjarni Dagur og Bragi Leó, móðir Birna Ásgeirsdóttir.
4) Anna Sigríður, f. 3. febrúar 1964, m. Gunnar Þorsteinsson, f. 13. september 1964. Börn Önnu og Magnúsar Guðlaugssonar: a) Erla, f. 20. júní 1984, d. 24. júní 1984, b) Guðlaug Erla, f. 14. júní 1985, m. Sveinn Akerlie, dætur Erla María og Arna Katrín. c) Sigrún, f. 5. júlí 1989, m. Nicholas Herring, dóttir Freyja Sif. d) Þóra Kristín Hjaltested, f. 17. júní 1993, m. Karl Stefánsson. e) Lárus, f. 28. mars 1995, k. Emilía Helgadóttir. Dóttir Gunnars er Birgitta Jóna Fanndal, f. 27. desember 1984, börn Sandra Ýr, Róbert Snær, Indíana Rós og Ágúst Leó.
5) Ingveldur Lára, f. 5. september 1965, m. Jan Murtomaa, f. 12. ágúst 1965. Sonur Adam, f. 15. desember 1994, k. Dagný Lóa Kristjánsdóttir.
6) Ólafur Þórður, f. 24. desember 1967, k. Margrét Sigríður Sævarsdóttir, f. 13. júlí 1966. Börn: a) Sævar Orri, f. 22. október 1988. b) Anna Kristjana Hjaltested, f. 19. desember 1992, m. Björn Gunnarsson, börn Ólafía Arndís og Björn Orri.
7) Katrín Þ., f. 6. febrúar 1973, m. Peter Hjorth Olsen, f. 29. nóvember 1970. Börn: a) Baldur Sebastian, f. 17. apríl 2006. b) Gudrun Úlfhildur, f. 26. desember 2009.
Anna og Þórður tóku einnig að sér frændur sína Lárus, Halldór og Sigurstein Hjaltested, og Þorvald Geir Sveinsson, sem allir bjuggu hjá þeim um hríð.
mbl.is/andlat
Útför Önnu fór fram í kyrrþey.
Elsku hjartans amma. Takk fyrir að hugsa vel um okkur barnabörnin þegar við vorum lítil. Ég á ófáar minningar af okkur frændsystkinunum að leika og spila á Langó og þá oftast niðri í hlýja góða kjallaranum. Takk fyrir að búa um okkur í stofunni til að gista, í risastóra mjúka sófanum ásamt dýnum um öll gólf. Takk fyrir að baka piparkökur með okkur. Í hvert skipti sem ég baka piparkökur þá hugsa ég til þín og hvernig þú kenndir okkur að nýta deigið sem best ekkert mátti fara til spillis. Nýtni var ömmu mikilvæg og í raun nauðsynleg á árum áður með risastórt heimili. Margar af mínum minningum um ömmu eru einmitt úr eldhúsinu á Langó. Þar varði amma ófáum stundum, með rauðröndóttu svuntuna, að elda ofan í stóra hópinn sinn og spjalla um hin ýmsu málefni í leiðinni. Amma var góður kokkur og kunni að búa til alls konar mat í miklu magni úr ýmsum hráefnum sem ég fékk hvergi annars staðar. Amma og afi áttu líka alls kyns græjur í eldhúsinu sem enginn annar átti sem ég þekkti, eins og t.d. sodastream-tæki og örbylgjuofn sem var óspart nýttur fyrir normalbrauð með aromati.
Elsku amma, takk fyrir allan góða matinn í gegnum árin rabarbaragraut, stökka kjúklingavængi, salat með eplum og vínberjum og að ógleymdum öllum pönnukökunum. Ef amma bakaði pönnukökur þá var það alltaf stærsti bunki af pönnukökum sem hugsast getur, bakaður á tveimur pönnum í einu. Ekkert jafnaðist þó á við miðnæturkalkúninn hennar ömmu á jólanótt. Það var einn af hápunktum jólanna. Eftir pakkana röltum við alltaf yfir til ömmu og afa þar sem stórfjölskyldan sameinaðist í nætursnarl, fíflaskap og stærstu púsluspil sögunnar. Jólapúslið var órjúfanlegur hluti jólanæturinnar ásamt dýrindis bananakökunni hennar ömmu. Amma kunni líka að spila á píanó og spilaði stundum jólalög fyrir okkur og við sungum með, það fannst mér gaman takk fyrir það.
Og takk fyrir allan sönginn saman í kirkjuferðunum á aðfangadag ár eftir ár þegar ég var orðin unglingur. Alltaf var rútínan okkar eins sama kirkjan, sömu sætin og sama umræðuefnið á heimleiðinni frammistaða söngvaranna í kirkjunni. Og þar lá amma ekki á skoðunum sínum, ekki frekar en í öðru. Hún amma var nefnilega hreinskilin, þó skoðanir hennar hafi ekki alltaf verið vinsælar. Það kunni ég vel að meta. Og þar erum við amma óneitanlega örlítið líkar.
Ég á líka ófáar minningarnar úr sumarbústaðaferðum sem barn með ömmu og afa ásamt fleiri frændsystkinum. Þá voru dýnurnar úr bústaðnum gjarnan teknar út á pall og flatmagað í sólinni, spilað, lesið og notið lífsins. Takk fyrir þær góðu samverustundir ásamt notalegum stundum í garðinum á Langó, þar sem ýmist var lesið á pallinum eða brasað við gróðurinn. En gróðurinn í garðinum var ekki sá eini sem var ömmu hugleikinn. Gróðurinn í Móakoti var henni mikilvægur og átti sá staður stóran sess í hennar hjarta. Mér þykir undurvænt um allar minningarnar þaðan með ömmu og fjölskyldunni við gróðursetningu og áburð, árlega í kringum afmælisdag ömmu í þónokkur ár.
Amma átti mikið af gömlum myndum sem ég hafði unun af að skoða og mikið er ég þakklát fyrir helgina góðu sem við frænkurnar settum saman albúm úr öllum gömlu myndunum og amma sagði okkur sögur af fólkinu á meðan. Með myndunum og sögunum lifa minningarnar áfram.
Og ég mun aldrei gleyma öllum dýrmætu minningunum um góða ömmu. Ég var svo heppin að fá að alast upp í næsta húsi við ömmu og afa á Langó og fyrir það er ég ótrúlega þakklát. Nálægðinni fylgdi töluverður samgangur og mér er það minnisstæð sjón að sjá ömmu og afa rölta yfir til okkar á inniskóm og baðsloppum til að skreppa með okkur í pottinn. Kvöldgöngur ömmu og afa voru líka fastur liður á ákveðnu tímabili og þá enduðu þau oft göngurnar í tesopa hjá okkur í eldhúsinu. Það voru notalegar stundir.
Ég hugsa líka með mikilli hlýju til stundanna sem ég átti oft með ömmu eftir skóla þegar enginn var heima hjá mér, en þá var ómetanlegt að geta kíkt í næsta hús til ömmu sem var oft heima þegar hún var ekki á vakt. Takk fyrir allar óteljandi stundirnar síðdegis að borða saman ristað brauð og spjalla um lífið og tilveruna. Við fórum oft á trúnó, ræddum tilfinningar og einstaka atburði sem höfðu áhrif á lífið. Þessi samtöl voru mér mjög lærdómsrík og gáfu mér dýpri og heildstæðari mynd af lífshlaupi ömmu, upplifunum og áskorunum og hvernig hún tókst á við þær. Takk, elsku amma, fyrir alla einlægnina, fallegu og stundum erfiðu sögurnar, góðu ráðin og hvatninguna. Takk fyrir að draga mig út í kvöldgöngur þegar ég var djúpt sokkin í ástarsorg. Takk fyrir að hughreysta mig og benda mér á það hvernig lífið tekur stundum erfiðar dýfur sem á endanum móta mann að þeirri manneskju sem maður er í dag. Takk fyrir að veita mér styrk og kenna mér seiglu. Litla tutlan eins og amma kallaði mig stundum varð fyrir vikið örlítið stærri og sterkari.
Eitt gerði amma sem ég skildi ekki sem barn en skil mjög vel í dag. Stundum fórum við saman í gömlu gufuna á Laugarvatni og þá man ég eftir ömmu að synda í ísköldu vatninu. Ég skildi ekki hvernig hún gat verið svona mikill nagli því ég komst ekki lengra en upp að hnjám vegna kuldans. Í dag get ég synt í ísköldum sjó eins og ekkert sé og stundum þegar ég finn vellíðanina streyma um mig í köldu vatninu og horfi á sólina glitra á haffletinum þá hugsa ég hlýlega til ömmu í vatninu góða.
Með söknuð í hjarta en full af þakklæti kveð ég elsku hjartans ömmu á Langó í síðasta skipti. Megi hún hvíla í friði.
Sveinlaug Sigurðardóttir.
Móðir mín, Anna Lárusdóttir Hjaltested, ólst upp í foreldrahúsum á Vatnsenda við Elliðavatn, í stórum systkinahópi, umvafin kærleik og gleðskap. Systkini mömmu voru henni afar mikilvæg alla tíð og samband þeirra náið. Hún var næstyngst, yngst var Ingveldur sem nú er ein eftirlifandi þeirra systkina.
Mamma átti ástríka foreldra sem hún dáði og virti og tók sér til fyrirmyndar í lífinu. Á Vatnsenda bjó einnig afabróðir hennar, Magnús Hjaltested, sem hún kallaði afa og var henni skjól þegar lífið var hávært. Sem barn gekk hún í Austurbæjarskóla og Mýrarhúsaskóla. Það var ekki auðvelt fyrir feimið og heimakært barn, henni þótti það bæði langt í burtu og leiðinlegt. Mömmu leið best heima á Vatnsenda, í náttúrunni við vatnið sitt, að lesa í skýin með sína nánustu innan seilingar. Síðar eignaðist hún sitt eigið litla skjól við vatnið.
Mamma nam við Húsmæðraskólann í Reykjavík 1951-1952 þegar þau pabbi voru að hefja sinn búskap og leggja drög að sinni stóru fjölskyldu. Þau eignuðust fyrra barnahollið, þrjá drengi, á fyrstu fimm árunum. Fljótlega bættust þrír frændur á táningsaldri í hópinn og loks fjórði frændinn, fóstursynirnir þeirra. Svo kom Sjana frænka, föðursystir mömmu og hennar tryggasta vinkona, sem bjó hjá okkur árum saman og tók dyggan þátt í uppeldi okkar systkina. Seinna hollið bættist við á árunum 1964-7 og að lokum örverpið sem fæddist 1973. Þura frænka bjó hjá okkur um tíma á meðan Inga, mamma hennar, var í söngnámi erlendis. Amma Sigga flutti líka reglulega inn. Mamma var alltaf með nóg pláss, í húsi og hjarta, fyrir þá sem á þurftu að halda. Sjálf settist ég upp á þau í heilt ár með mína fjölskyldu eftir búsetu erlendis á meðan safnað var fyrir útborgun í íbúð. Það var ómetanlegur tími fyrir okkur öll.
Mamma lærði til sjúkraliða í Námsflokkum Reykjavíkur og Sjúkraliðaskóla Íslands á áttunda áratugnum, þá komin á fimmtugsaldur og orðin sjö barna móðir. Hún hóf sinn starfsferil á Borgarspítalanum, starfaði þar á gjörgæsludeild og á handlækningadeild, en lengst af vann hún á sjúkrahúsi SÁÁ á Vogi. Henni þótti gott að vinna á Vogi og þótti vænt um vinnufélaga sína og skjólstæðinga.
Foreldrar mínir hófu búskap í Vogahverfinu í Reykjavík og bjuggu þar nánast samfleytt í hálfa öld, þar af í rúma þrjá áratugi á Langholtsvegi 179. Nokkrum árum eftir aldamót, þegar bæði voru sest í helgan stein, fluttu þau í Klapparhlíð 3 í Mosfellsbæ. Síðustu þrjú árin bjó mamma á hjúkrunarheimilinu Hömrum, þar sem hún naut einstakrar umönnunar og átti gott heimili. Fjölskyldan er þakklát starfsfólkinu á Hömrum fyrir hina miklu góðvild og alúð sem mömmu hefur verið sýnd þar.
Mamma var listræn og listhneigð. Hún spilaði á píanó eins og engill og tónlist var stór hluti af uppeldi okkar systkina. Óperur og bókmenntir voru hennar helsta skemmtun sem hún naut með fulltingi pabba fram á síðasta dag, en hann heimsótti hana daglega á Hamra og las fyrir hana og spilaði eftirlætisverkin. Ástarsamband þeirra, sem hófst fyrir um sjö áratugum, er fegursta minningin um mömmu.
Minningar um mína hjartkæru móður eru margar og dýrmætar og hún mun fylgja mér alla tíð í huga mér og hegðun. Hún hafði sterkar skoðanir og lá ekki á þeim, kom endalaust á óvart, var umhugað um menn og málefni og mátti ekkert aumt sjá. Hún hafði stærsta faðminn og hlýjasta hjartað, var móðirin og amman sem hlustaði og hlúði að, huggaði og siðaði og leiddi okkur áfram á lífsins braut. Hún krafðist þess að við höguðum okkur eins og manneskjur en fyrirgaf öll okkar feilspor. Hún skildi allt og umbar allt. Hún var kærleikurinn holdi klæddur.
Elsku pabbi minn og fjölskyldan öll sem minnist og saknar svo sárt. Það er huggun harmi gegn að þrautagöngu mömmu er lokið. Nú liggur hún í mjúkum mosa með Magga bróður hinumegin regnbogans og les fyrir hann sögur úr skýjunum.
Ingveldur Lára Þórðardóttir.