Páll Heimir Pálsson fæddist í Reykjavík 26. september 1962. Hann lést á heimili sínu 24. nóvember 2019. Foreldrar voru Páll Friðriksson, f. 16. maí 1930, og Susie Bachmann, f. 20. febrúar 1929, d. 4. október 2009. Páll var kvæntur Bryndísi Skaftadóttur.
Páll Heimir átti dótturina Unni Anítu, f. 3. júní 1991. Börn Páls og Bryndísar eru Hrafn Jökull, f. 11. júlí 2000, Regína Gréta, f. 4. október 2001 og Páll Jökull, f. 19. september 2003. Synir Bryndísar og uppeldissynir Páls eru Stefán Birgir, f. 18. janúar 1993, og Benedikt Arnar, f. 23. febrúar 1995.
Páll var stúdent frá MS. Árið 1996 lauk hann prófi frá Myndlista- og handíðaskólanum. Hann stundaði síðan framhaldsnám við Hochschule für Gestaltung í Offenbach, háskólann í Barcelona og Ecole Nationale Supérieure d‘Art de Bourges í París. Árið 1999 lauk hann meistaraprófi í listum og prentlist frá Listaháskóla Íslands.
Páll vann ýmsa vinnu sem ekki tengdist námi hans þar til hann hóf störf á verkfræðistofunum Höfn og S Sögu. Þar fór hann strax að vinna að hönnun þrívíddarlíkana. Mörg undanfarin ár hefur hann starfað sjálfstætt á því sviði, mest í tengslum við verk- og fornleifafræði.
Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 6. desember 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er fallegt en sorglegt að vera manneskja. Þessi mótsögn prýðir kærleikskúluna mína sem ég set upp á aðventunni. Mér varð hugsað til bróður míns þegar ég rakst á þessa sönnu mótsögn við undirbúning aðventunnar í ár. Það er óhætt að segja að lífið hafi ekki alltaf farið mjúkum höndum um hann bróður minn. En lífið er aldrei annaðhvort eða; annaðhvort sorglegt eða gleðilegt, svart eða hvítt. Við lifum og deyjum á gráa svæðinu. Og hlutskipti okkar hvers og eins er bæði sorglegt og fallegt.

Það er óhætt að fullyrða að mesta gæfa þessa ljúfa drengs hafi verið að hitta hana Dísu sína og ganga með henni lífsins veg. Fallegra samband og vinátta er vandfundin. Börnin þeirra, demantarnir sex, bera því glöggt vitni. Hann var kletturinn í lífi þeirra. Hann var aldrei spar á að hæla þeim og hvetja. Daglega sagði hann fjölskyldunni sinni hversu heitt hann elskaði þau. Ef þau fóru út úr húsi án þess að hann næði að kveðja heyrðist fljótlega lítið bling úr símanum og við blasti falleg kveðja. Það munu ekki oftar heyrast lítil bling frá pabba en þau geta nú yljað sér um hjartarætur við öll litlu og stóru hvatningarorðin sem þau geyma frá honum.


Það má segja að það hafi orðið straumhvörf í lífi bróður míns þegar hann rakst á bókina Alkemistann eftir Paulo Coelho. Hann færði mér bókina með þeim orðum að nú hefði hann fundið ró í lífi sínu. Sú speki sem þessi bók hefur að geyma leysti kvíða- og óróahnútinn í hjarta hans. Við gátum endalaust velt fyrir okkur boðskap bókarinnar. Hún fjallar um mann sem nær tökum á tilverunni með því að skoða líf sitt. Í draumi hefur ungur fjárhirðir í Andalúsíu fengið að vita af fjársjóði sem kann að bíða hans í fjarlægu landi og fullur eftirvæntingar leggur hann af stað að leita hans. Það verður margt á vegi hans og hann uppgötvar aðra og dýrmætari fjársjóði; þau verðmæti sem búa hið innra. Þetta er mannbætandi og hrífandi vitnisburður um gildi þess að fylgja draumum sínum og láta hjartað ráða för, eins og stendur á bókarkápu.
Palli bróðir minn var gríðarlega fjölhæfur, sannkallaður snillingur. Hann gat allt. Hann teiknaði frímerki sem gefin voru út, var snillingur í tölvuvinnslu í þrívídd, málaði, fangaði raddbylgju Geirs Haarde þegar hann bað Guð að blessa Ísland og skar út í tré með leysi, teiknaði hús, byggði sjálfur hús og hannaði legsteininn hennar Susie Rutar, einstakt listaverk. Ég gæti haldið upptalningunni endalaust áfram. Ef eitthvað fór úrskeiðis eða bilaði heima hjá mér var viðkvæðið ávallt: Palli getur lagað þetta. Ég hef alltaf sagt að í öllum fjölskyldum ætti að vera einn Palli. Í vinkvennahópi mínum var hann aldrei kallaður annað en Palli bróðir okkar. Allir vildu eiga hann. Hann átti stóran erlendan vinahóp í tölvuheiminum og þar var hann eiginlega í dýrlingahópi. Þeir nefndu hann St. Pall.

Þegar hann fæddist kom það í minn hlut að vera pössunarpía. Mér var það mjög ljúft og sinnti starfi mínu af mikilli ábyrgð. Hann var bæði fallegur og sérlega ljúfur og ég trítlaði með hann um allar trissur, rígmontin af undrinu. Þegar hann var fimm ára taldi ég tíma vera til kominn að kenna honum að lesa. Ég útbjó litla skólastofu í einu horni herbergisins og þar varð hann að mæta daglega í lestrarkennslu. Hann var spenntur fyrsta daginn, en spenningurinn rjátlaðist fljótt af honum. Hann var til í að gera allt frekar en að sitja í skólastofunni minni við lestrarnám. Kvartanirnar bar hann þó að mestu í hljóði, mætti daglega í leiðindin hjá systur sinni og kláraði verkefnið með frábærum árangri.


Já, hann Palli bróðir minn var einstakt ljúfmenni. Hann faðmaði fast. Hann var sérlega æðrulaus. Hann lét ekki öfund og græðgi halda fyrir sér vöku. Við Palli bróðir minn munum ekki hringjast á fleiri vor til að tékka á hvort lestur á sjálfstæðu fólki Laxness sé hafinn. Spjalla um hvort einhver nýr vinkill sé á sögunni, en sú hefð skapaðist hjá okkur fyrir margt löngu að endurlesa bókina að vori. Síðustu orðin hans til mín voru að ekki stæði annað til en að bretta upp ermar í veikindunum og berjast. Hann ætlaði svo sannarlega ekki að gefast upp. Það er þyngra en tárum taki að í þessum bardaga hafði maðurinn með ljáinn betur. Í nístandi sorg verðum við, sem eftir lifum, að viðurkenna tapaða orrustu. Kletturinn er horfinn og eftir stendur hnípin fjölskylda og vinir sem syrgja yndislegan eiginmann, föður, son, bróður og vin. En það er stolt stóra systir sem horfir á demantana hans Palla bróður síns sem bera því glöggt vitni hversu frábært veganesti þau hafa fengið út í lífið. Þeirra bíður nú það erfiða verkefni að halda áfram lífsins för án föður og besta vinar. Við munum öll hjálpast að. Ég mun sakna elsku bróður míns alla daga.

Regína Gréta Pálsdóttir.