Ketill Ágúst Kierulf Larsen fæddist 1. september 1934.
Hann lést 26. apríl 2018.
Útför hans fór fram 14. maí 2019.

Undir lok nóvembermánaðar árið 2017 sátum við þrír félagar og vinir, ég, Ketill Larsen og Sigurður bróðir minn, á bókakaffi Eymundsson við Skólavörðustíg. Fátt skyggði á gleði okkar við þetta tækifæri. Við höfðum ekki hist lengi og áttum þarna ákaflega ánægjulega stund. Ég dvaldi erlendis en hugði á langa veru heima að vori. Sannarlega var inni í myndinni að við félagar hittumst að nýju með hækkandi sól og ættum góðar stundir saman.
En maðurinn með ljáinn lætur sér í léttu rúmi liggja áform og óskir okkar dauðlegra manna. Ketill lést 26. apríl þá um vorið og Sigurður bróðir minn kvaddi þennan heim rétt tveimur mánuðum síðar. Og þá var heilsu minni þannig varið að ég gat ekki komið því við að heimsækja föðurlandið né heldur fylgt þessum dýrmætu vinum og samferðamönnum seinasta spölinn. Ekki heldur hafði ég líkamlegt þrek til að skrifa minningargrein um Ketil vin minn sem ég hafði þó ætlað mér. Skal nú bætt úr því þó að seint sé.
Þó að liðin sé tæplega hálf öld síðan er mér enn í fersku minni dagurinn þegar leiðir okkar Ketils lágu saman í fyrsta sinn. Er grunur minn sá að ég sé ekki sá eini sem svo er farið. Þetta mun hafa verið sumarið 1960 og ég 10 ára gamall. Mér hafði verið boðið að vera liðléttingur á Engi, aðallega til að vera jafnaldra mínum og vini, Guðlaugi Magnússyni, Dengsa, til aðstoðar og skemmtunar. Ég kom að áliðnum degi heim að Engi. Á hlaðvarpanum var hópur fólks, fjölskylda og nágrannar. Síðar komst ég að því að það var algengt að mannmargt væri á Engi því þjóðleið lá um hlað og öllum tekið vel. Einn maður skar sig úr í hópnum. Hann var hávaxinn og myndugur að sjá og allt fas og yfirbragð var með öðrum hætti en títt var þá og síðar. Þó að honum lægi ekki hátt rómur var hann miðpunktur athyglinnar. Þetta var að sjálfsögðu Ketill Larsen.
Fyrstu dagana gaf Ketill sig lítið eða ekkert að okkur strákunum. Hann fór burt á morgnana og kom heim síðdegis. Þessa fyrstu daga gaf hann sig heldur ekkert að bústörfum enda of fínn í tauinu til þess eins og þá var sagt. Satt að segja var ég nánast smeykur við Ketil til að byrja með vegna þess að mér virtist hann fjarrænn, strangur og fáskiptinn.
Svo kom sá dagur að Ketill fór ekki að heiman um morguninn. Hins vegar var hann mættur á vettvangi bústarfanna, kominn í vinnuföt og hóf þegar að stjórna búinu og okkur strákunum þar með. Við gengum yfirleitt þrír saman að öllum verkum því sennilega er tíu ára strákum ekki treystandi til að vera sjálfráða í bústörfunum.
Ketill var greinilega mjög vel að sér í öllum verkum er snertu búið og kunni allt sem kunna þurfti og vel það. Samt eyddi hann ekki miklum tíma í að ræða þá þætti við okkur. Honum lágu allt aðrir hlutir á hjarta. Þarna birtist allt annar Ketill en hingað til og nú hófst eitt eftirminnilegasta tímabil í lífi mínu. Dögum saman átti hann til að segja okkur framhaldssögu af krökkum sem ferðuðust um heiminn í alls konar farartækjum, jafnt á láði sem í legi og í lofti. Þau lentu í ævintýrum sem mig grunar að erfitt sé að toppa því ímyndunarafli Ketils virtust engin takmörk sett.
Honum voru hugleikin tæknileg mál og átti það til að segja frá uppfinningum sem hvergi voru til nema í frjóum huga hans. Ekki kæmi mér á óvart þó að sumt það sem Ketill sá fyrir hugskotssjónum sé orðið að veruleika í dag. Aðra daga var hann meira heimspekilega þenkjandi. Þá átti hann til að varpa fram spurningu sem okkur strákunum var ætlað að svara. Þetta voru spurningar sem virtust meinleysislegar í fyrstu. Þegar til átti að taka var hins vegar gjarnan fátt um svör því spurningarnar leyndu á sér og reyndust vel ígrundaðar. Þó að svörin létu á sér standa gekk Ketill mildilega eftir svari. Þegar svarið loks kom tók hann ævinlega vel í það en kom svo með mótbárur eða önnur sjónarhorn. Þetta gerði hann vingjarnlega eins og alltaf og vildi greinilega ekki kveða okkur í kútinn með harkalegum mótbárum. Við svöruðum síðan mótbárum hans og þá kom hann með enn ný sjónarhorn. Svona gengu samræðurnar koll af kolli þar til umræðuefnið var rætt til þrautar og lausn fengin. Síðar á ævinni þegar ég las um Sókrates og leit hans að sannleikanum, datt mér strax Ketill í hug. Sókrates kallaði sig ljósmóður sannleikans og aðferð hans, hin sókratíska aðferð, var að leiða í ljós eigin vanþekkingu og annarra með spurningum sem í lokin leiddu sannleikann í ljós. Aðferðir þessara tveggja hugsuða til að finna sannleikann voru sannarlega mjög keimlíkar.
Framkoma Ketils við okkur strákana var með þeim hætti að vel mætti skrifa um hana bók sem hægt væri að nota sem leiðbeiningarrit um það hvernig fullorðnir ættu að umgangast börn. Aldrei kom sá dagur að hann hækkaði róminn eða brýndi raustina við okkur né heldur ávítti hann okkur fyrir nokkurn hlut. Var þetta óvenjulegt á þeim tíma því þá var algengt að fullorðið fólk væri höstugt í framkomu við börn. Ketill var þvert á móti ævinlega mildur og hlýr við okkur strákana og held ég þegar litið er til baka að framkoma hans hafi mótast af því að hann hafði gaman af að umgangast krakka og tel ég hann hafa verið á réttri hillu í lífinu hvað þau störf varðar er hann vann á lífsleiðinni. Annað sem varla þarf að nefna er að aldrei notaði hann óviðeigandi orðalag eða málfar við okkur. Þegar ég lít til baka yfir öll árin sem við þekktumst og rifja upp samskiptin minnist ég ekki eins tilviks þar sem Ketill hafi verið grófur í orðalagi. Þvert á móti finnst mér einmitt að hann hafi ævinlega vandað mál sitt og orðanotkun sem og fas allt og framkomu.
Þær stundir komu hins vegar að Ketill taldi orðin óþörf, að upplifunin ein væri nóg. Eitt sinn sagði hann okkur strákunum að sækja gömlu jörpu merina á bænum. Svo dró hann fram gamla hestakerru sem ég hafði haldið að væri forngripur frá löngu liðnum tíma. Svo var þó ekki. Ketill beitti merinni fyrir kerruna og settist á bekkinn með okkur félagana sinn til hvorrar hliðar, báða upphafna yfir þessari mögnuðu lífsreynslu. Svo var haldið af stað. Merin virtist hin sáttasta með hlutskipti sitt, fór fetið og hlýddi góðlátlega hverri skipun ekilsins. Hægt var farið enda alls óvíst hversu mikið álag merin eða kerran þyldu. Ekið var sem leið lá út veginn að Vesturlandsveginum. Þar var beygt til hægri. Eftir stutta stund stöðvaði Ketill för og bað okkur um að hjálpa sér við að taka niður gamla gaddavírsgirðingu og rúlla vírnum upp og setja á kerruna. Verkið gekk fljótt og vel. Að svo búnu var haldið til baka. Enginn sagði stakt orð á bakaleiðinni heldur því þetta var mögnuð reynsla fyrir höfuðborgarstráka, að sitja á hestakerru og hlusta á letilegt en taktfast hófatak merarinnar og njóta kyrrðarinnar og friðarins sem ferðamátinn gaf.
Eins var þegar Ketill sagði okkur strákunum að koma með sér niður að á. Þegar þangað var komið, lá við festar í bugðu á ánni þar sem hún var einna dýpst, ein fallegasta julla sem ég hef séð. Hún var greinilega spónný og máluð í þremur litum með olíumálningu. Ketill sagði okkur að vinur hans hefði smíðað julluna. Bað hann okkur að sitja á afturþóftu. Sjálfur leysti hann landfestar, settist á framþóftu og greip til ára. Síðan var róið fram og aftur um nokkrar bugður á ánni sem var spegilslétt og djúp. Vatnið var kristaltært þannig að vel sást til botns og seiðum sást bregða fyrir innan um steina og botngróður. Ekki sagði Ketill eitt einasta orð meðan á ævintýrinu stóð. Hann vissi að hér var orðum ofaukið, rétt eins og í kerruferðinni áður.
Stundum stytti Ketill okkur stundir með ýmiss konar raddleikfimi. Hann gat flautað með eyrunum og kunni búktal svo fátt eitt sé nefnt. Einnig hermdi hann listilega eftir fuglum og öðrum dýrum. Komu þessir hæfileikar hans sér einkar vel síðar á ævinni þegar hann tók þátt í Ínúk-sýningunum þar sem hljóðmynd þeirra sýninga var að stórum hluta sköpuð og flutt af honum. Ketill sagði mér einu sinni frá því þegar Ínúk-sýningarnar stóðu sem hæst, að hann hefði hitt leikhúsmann á erlendri grundu sem hafði mikinn áhuga og þekkingu á raddbeitingu. Þá var Ketill að æfa það sem hann kallaði double talk sem þýðir eiginlega að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri eins og máltækið segir, þannig að það var eins og tveir einstaklingar væru að tala í senn. Hafði Ketill eftir leikhúsmanninum að þetta væri einstök kunnátta og að hann vissi ekki um neinn sem gæti þetta nema Ketil.
Stundum tók Ketill sig til og söng kafla úr ítölskum óperuaríum. Þegar hann var spurður hvernig hann gæti þetta, svaraði hann því til að hann kynni ekki að syngja og enn síður kynni hann ítölsku. Honum var lagið að tala langtímum saman á framandi tungumáli að því er virtist, oftast frönsku eða ítölsku en í raun var Ketill að herma eftir hljóðgerð viðkomandi tungumáls án þess í raun og veru að kunna það. Er það list sem ekki er öllum gefin. Ketill hafði gaman af að segja þá sögu af kollega sínum Charlie Chaplin þegar Chaplin stóð eitt sinn upp á mannamóti og söng ítalska aríu frá upphafi til enda með miklum tilþrifum. Þegar lófatakinu linnti sögðu viðstaddir að þeir hefðu ekki vitað að hann kynni að syngja, hvað þá svona vel. Svaraði Chaplin þeim að hann kynni ekkert að syngja, hann hefði bara verið að herma eftir Caruso!
Eftir dvöl mína á Engi liðu nokkur ár án þess að ég hitti Ketil. Svo gerðist það að við eignuðumst sameiginlega vini. Þá fórum við að hittast öðru hvoru og fréttum gjarnan hvor af öðrum gegnum þessa sameiginlegu vini okkar. Þó að leiðir okkar hafi ekki oft legið saman um margra ára skeið, þá gerðist ævinlega eitthvað sem varð til þess að við hittumst á ný og endurnýjuðum gömul kynni. Alltaf var gaman og uppörvandi að hitta Ketil.
Síðar á ævinni lá leið mín lengra en sem nemur upp í Mosfellssveit. Þá urðu samfundir okkar enn færri. Þá gerist það eitt kvöldið fyrir allnokkrum árum að síminn hringir í Túngötu 6, Suðureyri. Ég tek upp tólið og heyrði gamalkunna rödd, Blessaður. Var þar Ketill kominn. Tókum við tal saman og það var eins og öll árin hyrfu og við værum aftur komnir í Mosfellssveitina þar sem ævintýrin eiga heima. Ketill sagði mér frá verkefni sem hann stæði að með hópi mannvina sem gengi út á það að hjálpa þeim sem minna mættu sín með margvíslegum hætti og bauð mér að taka þátt í starfinu. Var ég reiðubúinn til þess en því miður kom fjarlægðin og margvíslegar annir mínar á þeim tíma í veg fyrir að ég gæti tekið þátt í því göfuga verkefni.
Ketill lét ekki þar við sitja enda áhugamálin mörg og margvísleg. Honum var hugstæð margs konar tækni og hann sagði mér frá bílum sem ganga fyrir ýmist vatni eða lofti og fleiri tækninýjungum sem væri verið að þróa úti í hinum stóra heimi. Einnig sagði hann mér frá heimasætu í afskekktum og einangruðum dal. Þar bar að einn góðan veðurdag ungan mann sem einhvern veginn tókst að komast í dalinn yfir fjöllin sjö. Honum var boðið að dvelja á bænum og hóf hann þegar margs konar endurbætur á búinu. Einnig tókst honum að rjúfa einangrun dalsins með nýstárlegum samgöngubótum sem Ketill kunni öll deili á. Ungi maðurinn giftist að lokum heimasætunni. Stóðu þau fyrir myndarlegu búi og eignuðust börn og buru. Margar aðrar sögur sagði Ketill mér og hafði ég stórgaman af þeim öllum. Ekki létum við nægja að tala saman í síma. Hittumst við ósjaldan á Mokkakaffi yfir kaffibolla þegar leiðin lá í höfuðborgina.
Svo gerist það eitt sinn í spjalli við Sigurð bróður minn að hann fer að tala um Ketil Larsen eins og þeir Ketill væru vel kunnugir. Þegar ég spyr hann nánar út í málið kemur í ljós að þeir eru miklir og góðir vinir og hafa verið um árabil. Þetta var enn eitt atvikið í langri keðju atvika þar sem leiðir okkar Ketils lágu saman með óvæntum en skemmtilegum hætti. Þegar mig svo rak upp á strendur landsins kalda haustið 2017 fannst okkur félögunum upplagt að hittast yfir kaffibolla og meðlæti á bókakaffi Eymundsson sem fyrr segir. Minningin er dýrmæt en um leið blandin söknuði og vitund þess hversu allt er hverfult í heimi okkar.
Katli Larsen var gefin sýn inn í annan heim, heim þar sem ævintýrin eiga sér stað og fjöllin og blómin eru litskrúðugri en jafnvel þau íslensku. Með sögum sínum og myndum reyndi hann að miðla okkur hinum þeirri sýn er honum stóð fyrir hugskotssjónum og var annars heims eins og hann sagði sjálfur. Sennilega eru myndirnar hans aðeins fölleitar spegilmyndir þess veruleika er honum opinberaðist í þeim heimum. Aldrei er að vita nema við félagarnir þrír hittumst síðar í einhverjum hinna fullkomnu heima Ketils Larsen þar sem ævintýrin og litirnir ríkja og setjumst niður yfir kaffibolla og kleinu annars heims og ræðum málin út frá enn nýjum sjónarhól.

Valdimar Hreiðarsson.

Valdimar Hreiðarsson.