Gunnar Vilmundarson fæddist í Efsta-Dal 1, Laugardal, 29. júlí 1953. Hann lést í faðmi fjölskyldu sinnar á heimili sínu Dalseli, Laugarvatni 5. desember 2019.

Foreldrar hans voru Kristrún Sigurfinnsdóttir, f. 3. janúar 1919, d. 17. mars 2019, og Vilmundur Indriðason, f. 13. apríl 1916, d. 21. ágúst 1999. Bræður Gunnars eru Sigurfinnur, f. 10. maí 1947, og Theodór Indriði Vilmundarson, f. 17. september 1950.

Hinn 25. ágúst 1977 kvæntist Gunnar Jónu Bryndísi Gestsdóttur, f. 2. september 1954. Synir þeirra: 1) Gestur, f. 28. júlí 1976, kvæntur Sigríði Soffíu Sigurjónsdóttur. Synir þeirra eru Sverrir Styrkár og Styrmir Steinn. 2) Rúnar, f. 7. febrúar 1979, kvæntur Evu Hálfdanardóttur. Börn þeirra eru Ásta Rós, Gunnar Geir og Þórhildur Eva. 3) Arnar, f. 27. maí 1987, kvæntur Helgu Björtu Bjarnadóttur.

Gunnar ólst upp í Efsta-Dal 1 og sótti sína skólagöngu á Laugarvatni og í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann fluttist til Reykjavíkur og vann hjá Vélamiðstöð Reykjavíkur þar sem hann lærði vélvirkjun og lauk sveinsprófi 12. nóvember 1975 og meistararéttindum 12. febrúar 1979.

Árið 1981 flutti fjölskyldan að Laugarvatni þar sem hún hefur búið síðan. Gunnar rak verkstæði í Efsta-Dal 1 í nokkur ár en þar byggði hann skemmu ásamt bróður sínum. Árið 1988 flutti fjölskyldan inn í nýbyggt hús sitt Dalsel á Laugarvatni. Gunnar flutti síðar verkstæði sitt að Laugarvatni en þar byggði hann myndarlega skemmu fyrir reksturinn. Þau hjón ráku tjald- og hjólhýsahverfið á árunum 1988-1996 en árið 1996 hófu þau rekstur Farfuglaheimilisins á Laugarvatni og hafa rekið það allar götur síðan. Árið 2000 keyptu þau húsið á Dalbraut 10, gamla pósthúsið, undir rekstur farfuglaheimilisins. Gunnar var alla tíð einstaklega vinnusamur og hóf hann fljótlega að byggja við það hús og breyta því til að sníða það betur að þörfum gistirekstursins. Síðustu árin vann Gunnar eingöngu við farfuglaheimilið.

Gunnar var um tíma í slökkviliði staðarins og félagi í björgunarsveitinni Ingunni en áhugi hans var alla tíð mestur á skákinni sem hann æfði stíft og keppti í undir flaggi Ungmennafélags Laugdæla.

Útför hans fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 13. desember 2019, klukkan 14.

Það eru blendnar tilfinningar sem bærast innra með mér þar sem andstæður lífsins mæta nú af fullum þunga. Systurnar sorg og gleði. Sorgin kemur upp þar sem pabbi er ekki lengur til staðar, en gleðin og spennan er vegna ófæddrar dóttur minnar sem von er á í kringum jólin.
Mér finnst það sorglegt að dóttir mín fái ekki að kynnast þeim góða manni sem afi hennar var. Hún mun aldrei fá að kynnast því hvað afi hennar var hjartahlýr, hjálpsamur og heill maður. Pabbi var metnaðarfullur og vinnusamur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Ef eitthvað bjátaði á var hann mættur til að aðstoða, þrátt fyrir að hann hefði ekki alltaf tíma til þess. Hvort sem það var bíllinn sem bilaði eða ofnarnir sem voru orðnir kaldir í húsinu. Skrúfjárnið sem virtist alltaf vera við höndina, geymt í úlpuvasanum, kom þá að góðum notum, sem og skrúfur og smáhlutir sem hann hafði geymt ef þeir gætu nýst í eitthvað.
Pabbi var einstaklega uppátækjasamur, því fengum við bræðurnir að kynnast. Það er fyrst núna í seinni tíð sem hann sagði okkur frá uppátækjum sínum frá því hann var yngri, því honum fannst við loksins vera orðnir nógu gamlir til að apa uppátækin ekki upp eftir honum. Ég mun aldrei fá nóg af því að heyra sögur af uppátækjunum hans pabba. Þær eru mér dýrmætar. Þar sem pabbi verður ekki lengur til að segja frá þeim sjálfur mun ég sjá til þess að halda þeim lifandi.
Pabbi var skemmtilegur maður sem fólki fannst gaman að vera í kringum. Það var alltaf stutt í húmorinn og stríðnin var aldrei langt undan. Það sýndi sig best í því hvað hann var vinmargur og gestagangurinn mikill hér heima í Dalseli síðustu vikurnar í veikindum hans. Pabbi hafði gaman af að hitta allt þetta fólk, sem voru bæði ættingjar og vinir frá nýjum og gömlum tíma, og ljómaði hann upp við heimsóknirnar. Hjá mörgu af því fólki sem pabbi hafði þekkt lengst var hann búinn að stúdera hverja hreyfingu og svipbrigði og var orðinn mjög lunkinn við að herma eftir, enda athugull á hegðun annars fólks.
Mér er svo minnisstætt brosið sem hann setti upp þegar hann var að fela sig bak við kaffibollann. Þetta bros dúkkaði reglulega upp þegar hann var að atast í einhverjum og náði kannski ekki alveg að halda andliti. Þá lyftist kaffibollinn upp að vörunum og hann reyndi að fela brosið. Það mátti þó alltaf sjá glottið í augum hans sem gaf til kynna að það var kannski ekki mikil alvara í gangi og átti ekki að taka mark á því sem var sagt á þessari stundu.
Mamma og pabbi voru vön að fara til Kanarí á hverju ári í desember og janúar og dvelja þar yfir jól og áramót í sælureitnum sínum. Þar hafa þau notið lífsins m.a. við að spila mínígolf, læra spænsku og hitta vini sína þar. Um jólin í fyrra varð hins vegar breyting á og eyddu þau áramótunum hér heima á Íslandi vegna 100 ára afmælis ömmu Rúnu, mömmu hans pabba. Gamlárskvöldi eyddu mamma og pabbi hjá okkur Helgu Björtu, ásamt Rúnari bróður og fjölskyldu, og fórum við öll saman á áramótabrennuna þar sem nýju ári var fagnað. Enginn vissi hvað það ár átti eftir að bera í skauti sér. Aldrei datt mér í hug að þetta yrðu síðustu áramót pabba en ég er þakklátur fyrir þetta kvöld þar sem var hlegið og sungið langt fram á nótt.
Ég er einnig þakklátur fyrir tímann sem við fengum saman í Perú árið 2013 þegar við allir feðgarnir, ásamt Einari Rúnari frænda, ákváðum að ferðast á mótorhjólum um þetta magnaða land í þrjár vikur. Á þessum vikum spændum við upp Perú og komum við á öllum þeim stöðum sem við gátum hugsað okkur og upplifðum eitthvað nýtt á hverjum degi. Það var ótrúlegt hversu magnþrungið andrúmsloftið var og hvernig tilfinningarnar flæddu morguninn sem við fórum á fætur um miðja nótt til að njóta þeirrar fjallaparadísar sem Perú býður upp á, í þykkri þoku, að bíða eftir að fá að labba upp í Inkaþorpið. Ég man hvað ég var þakklátur fyrir að fá að upplifa þessa spennu með pabba, bræðrum mínum og frænda og ég get svo svarið að það var ekki þurrt auga á svæðinu í allri þessari dýrð.
Það var einnig ótrúlega magnað hversu hraustur karlinn hann pabbi var. Á meðan við urðum allir lasnir á ferðalagi okkar í Perú, hvort sem það var vegna háfjallaveiki eða matareitrunar, var pabbi sá eini sem ekki veiktist og virtist standa allt af sér. Þannig var pabbi, hann stóð allt af sér. Það voru þó ein veikindi sem pabbi náði ekki að standa af sér en það var heilaæxlið sem hann greindist með í mars sl. Hann barðist þó sem hetja allan tímann og það var alltaf stutt í húmorinn og hjartahlýjuna hans pabba. Ég mun sakna þess að geta ekki labbað upp götuna og kíkt í kaffi og hlegið með þessum besta vini mínum sem pabbi var. Pabbi, þín verður sárt saknað.
Hvíldu í friði.

Arnar Gunnarsson.