Auður Tryggvadóttir fæddist 25. ágúst 1953. Hún lést 26. desember 2019.
Foreldrar hennar eru Tryggvi Kristjánsson, f. 31. mars 1931, og Guðrún Bryndís Eggertsdóttir, f. 29. apríl 1932. Systkini Auðar eru Sigríður Tryggvadóttir, f. 26. desember 1957, og Tryggvi Tryggvason, f. 31. júlí 1963.
Auður giftist Ólafi Sævari Sigurgeirssyni 8. júlí 1974, f. 10. febrúar 1952, d. 2. febrúar 1995. Börn Ólafs og Auðar eru Arnar, f. 2. ágúst 1979, Harpa Rún, f. 4. janúar 1982, og Hlynur, f. 1. febrúar 1988. Arnar á börnin Úlf og Kolku með Ásbjörgu Unu Björnsdóttur, Harpa á börnin Sögu Eiri og Iðu Karitas með James Weston og Hlynur á börnin Sylvíu Ýri og Theodór Birni með Elínu Ósk Hjartardóttur.
Eftirlifandi sambýlismaður Auðar er Magnús Ketilsson, f. 29. apríl 1951, hann á fyrir tvo syni: Svein Ingiberg, f. 31. október 1970, og Róbert Aron, f. 23. maí 1974, og barnabörn Magnúsar eru Elín Helga, Sveinn Fannar, Magnús Ingi og Oliver Einar.
Auður bjó allt sitt líf í Reykjavík, meðal annars á Reynimel og Ásenda. Frá árinu 1983 bjó hún í Hæðargarði 4.
Auður útskrifaðist úr Fósturskólanum árið 1974 og starfaði ávallt við umönnun barna og fjölskyldna, á Dalbraut, Vistheimili barna Hraunbergi og við Stuðninginn heim á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Útför Auðar fór fram 3. janúar 2020 í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Hópurinn, sem hertekur alltaf sama borðið í setustofunni í Hreyfingu að afloknum leikfimitíma, er ekki bara leikfimihópur, hann er nefnilega líka raunverulegur vinkvennahópur þar sem allt er sagt, gleði og sorgum deilt, ferðast og skemmt sér saman.
Sumarbústaðaferðirnar eru orðnar margar, út og suður og austur og vestur. Í þeim ferðum birtist svo skýrt fagurkerinn í Auði þar sem hún skreytti borðin með servírttum og lifandi rósum og skapaði þannig fallega umgjörð og þægilegt andrúmsloft til að allir gætu notið sín. Ferðin til Brighton er þeim sem í hana fóru ógleymanleg. Þar naut brandara- og sagnakonan Auður sín. Þar urðu til svo margar skemmtilegar sögur, orðatiltæki og atvik sem enn eru rifjuð upp og hlegið að. Lengi hafði staðið til að endurtaka Brighton-ferðina en þá til einhverrar annarrar enn meiri verslunarborgar en af því varð ekki. Í lok október sl. var ákveðið að fara í heldur styttri ferð og heimsækja sunnlenska efnahagssvæðið. Verslanir á Selfossi og í Hveragerði voru keyptar upp undir handleiðslu Auðar og nú í kuldanum nýtur hópurinn sín í Hveragerðistúttunum á breiðstrætum borgarinnar.
Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Auði. Þegar við fjölskyldunni blasti lífið með öllum þeim vonum og draumum sem það býður upp á þurfti hún skyndilega að bergja á bikarnum beiska þegar eiginmaður hennar féll frá í blóma lífsins og lífið breyttist á svipstundu. Þá kom í ljós úr hverju hún var gerð. Auður var útsjónarsamur dugnaðarforkur og einlæg fjölskyldukona, fjölskyldan var í fyrirrúmi hjá henni. Við í hópnum höfum svo oft fundið hve foreldrarnir, börnin, tengdabörnin og barnabörnin voru henni mikils virði. Þau voru henni allt.
Auður gerði sér strax grein fyrir því þegar hún greindist með þetta illvíga krabbamein að hverju gæti stefnt. Hún ákvað hins vegar að takast á við það eins og annað mótlæti sem hún hafði mætt í lífinu af yfirvegun og staðfestu með það eitt að markmiði að ætla að sigrast á því. Þegar það hins vegar lá fyrir að það gekk ekki mætti hún örlögum sínum af yfirvegun, skapfestu og miklu æðruleysi. Stundinni sem við áttum með henni í hinu árlega jólaboði okkar hjá tveimur úr hópnum nú fáum dögum fyrir jól munum við aldrei gleyma. Það var dýrmæt stund sem mun lifa.
Auður lifði heilbrigðu lífi og var mikið í mun að borða hollt og hugsaði vel um sig. Sömu fyrirhyggjuna var hún líka með fyrir okkur hinar. Hún bjó til heilsusamlegt múslí og hrökkbrauð undir merkinu homemade with love sem hún var alltaf að gefa okkur. Í hverju kaffispjallinu að afloknum æfingum skar hún niður í okkur prótínstangir með litla hnífnum sínum sem hún kallaði Stúf. Hún afhenti okkur Stúf þegar hún sá að leikfimitímarnir yrðu ekki fleiri hjá sér og bað okkur að varðveita hann og nota til sömu verka og hún hafði gert. Stúfur mun því halda minningu hennar á lofti í hópnum og minna okkur á allt það góða sem hún Auður gaf af sér.
Nú á kveðjustund þökkum við heilshugar fyrir vináttu og kærleika og að hafa fengið að njóta þeirra fjölmörgu skemmtilegu stunda sem hún Auður gaf okkur. Við sendum Magga sambýlismanni hennar, foreldrum, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.
F.h. leikfimihópsins í Hreyfingu,
Kristín Vigfúsdóttir.