Svanhildur Árný Sigurjónsdóttir fæddist 5. maí 1927 á Sæbóli í Haukadal við Dýrafjörð. Hún lést mánudaginn 30. desember 2019 á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.
Foreldrar hennar voru Sigurjón Guðmundsson, f. 24. maí 1885, d. 7 des. 1963, og Kristjana Sigríður Guðmundsdóttir, f. 11. ágúst 1901, d. 26. apríl 1981. Fósturforeldrar Svanhildar voru Magnús Jón Samúelsson, f. 13. september 1869, d. 26. júní 1931, og Halldóra Gestsdóttir, f. 19. mars 1884, d. 6. júlí 1972.
Systkini Svanhildar eru Snjáfríður, f. 1922, Kristmundur, f. 1923, d. 1989, Guðmunda Erla, f. 1928, d. 2008, og Kristín, f. 1932, d. 2016. Samfeðra systkin eru Árni Sigurður, f. 1911, d. 1982, Guðmundur, f. 1913, d. 2000, Sigurjón, f. 1915, d. 1979, og Svanhildur, f. 1917, d. 1922. Uppeldissystkin Svanhildar voru Guðmunda, f. 1922, d. 2016, Ingibjörg, f. 1918, d. 1993, og Gestur, f. 1924, d. 2015.
Svanhildur giftist Sigurði Sigurjónssyni framreiðslumanni, f. 18. október 1928, d. 25. janúar 1967. Þau skildu. Börn þeirra eru: Halldór, f. 1945; Páll, f. 1948; Daði, f. 1949, d. 2000; og Sigurður, f. 1954, d. 1988. Barn Svanhildar og Kristmundar Antons Jónassonar er Edda, f. 1963.
Störf o.fl. .............................................................
Útför .................................
Elsku Svana, sumt fólk sem maður kynnist á lífsleiðinni hefur djúpstæð
áhrif á líf manns og þannig kona varst þú. Ég tel það gæfu mína að hafa
þekkt þig allt mitt líf.
Þó að þú hafir verið mágkona ömmu minnar og við ekki bundin blóðböndum
hefur mér alltaf fundist þú vera frænka mín. Líklega segir það meira um þig
og mínar tilfinningar til þín en mörg önnur orð.
Leiðir okkar lágu saman á ýmsan máta í gegnum lífið. Í fyrstu voru það
óteljandi fjölskylduboð því þú stóðst alltaf þétt við bakið á ömmu og
hennar fjölskyldu. Á milli ykkar var sönn vinátta og kærleikur. Þú tókst
þátt í gleði hennar og sorg með bjarta brosinu þínu, gjallandi hlátrinum og
hlýja faðmlaginu.
En þú fylgdist einnig náið með því sem við, afkomendur ömmu, tókum okkur
fyrir hendur í lífinu hverju sinni. Þar var ég engin undantekning. Þegar ég
hóf daður mitt við skáldgyðjuna sýndir þú því mikinn áhuga enda hafðir þú
gaman af skáldskap og kunnir sjálf að beita pennanum.
Þú mættir í útgáfuhófin vegna útgáfu bókanna minna og komst þeim jafnvel á
framfæri á ýmsum stöðum. Þegar ég kynntist manninum mínum þá þurfti engra
útskýringa við af hverju ég batt trúss mitt við karlmann en ekki konu. Þú
varst spennt að kynnast honum, en síðar kom í ljós að leiðir ykkar höfðu
einnig legið saman áður. Hann lærður þjónn og þú að sjálfsögðu löngu orðin
goðsögn í þeirri atvinnugrein. Frumkvöðull, fyrsta konan sem útskrifaðist
sem þjónn á Íslandi.
En það er eitt sem stendur upp úr í samskiptum okkar, elsku Svana. Þegar ég
var ungur maður leitaðir þú til mín og fólst mér ábyrgðarfullt verkefni.
Það verkefni er okkar trúnaðarmál og þótt það hafi ekki staðið yfir í
langan tíma fékk það mig til að spyrja áleitinna spurninga um sjálfan mig
og fyrir hvað ég stend. Það þroskaði mig sem einstakling og ég er þér
ævinlega þakklátur fyrir traustið sem þú sýndir mér.
Þegar ég skrifa þessi orð kemur upp í huga minn þrettánda vers í fyrra
bréfi Páls postula til Korintumanna þar sem hann talar um kærleikann.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur. (1. Kor. 13, 13)
Þú varst trúuð kona og líkt og svo margir aðrir í minni fjölskyldu gafstu
tíma þinn óeigingjarnt til starfa innan Óháða safnaðarins. Ég er einnig
sannfærður um að innra með þér bjó vonin. Vonin um eilífa sælu að loknu
þessu jarðlífi sem ekki fór alltaf um þig mjúkum höndum. Þú tókst á við
lífið með kærleikann að vopni og eins og segir réttilega í versinu er hann
mikilvægastur.
Elsku Svana, hugur minn á þessari stundu er hjá þér og aðstandendum þínum.
Þeim votta ég mína dýpstu samúð. Ég veit að ég tala einnig fyrir hönd Nonna
og allra afkomenda ömmu þegar ég þakka þér fyrir alla hlýjuna, öll brosin
og kærleikann sem þú sýndir okkur í gegnum árin.
Ég vil með þessum orðum kveðja þig að sinni en þó með þeirri vissu að
þangað sem för þinni er nú heitið, að þar muni einnig verða áfangastaður
minn þegar þessu jarðlífi sleppir og við munum brosa, hlæja og ef til vill
daðra örlítið við skáldgyðjuna saman á ný.
Bæn
Ég krýp við krossinn þinn,
ó kom þú Jesú minn
og blessa mig í dag.
Mitt hjarta geri gott
og gæsku beri vott
svo allt mér gangi í hag.
/
Ég vil að verkin mín
vitni um ást til þín.
Þú aldrei gleymist mér.
Ó haltu hendi minni,
hún aldrei sleppi þinni
og þjóni aðeins þér.
/
Þótt gatan hún sé grýtt
og gjarnan mér sé strítt.
Með þér hún verður greið.
Minn fótur fylgir þér,
fús ef lofar mér
að komast alla leið.
/
Ég bið að líf mitt allt
þér launi þúsundfalt.
Af allri gæsku þinni.
Til þín taktu mig,
til þess ég sjái þig
er lýkur göngu minni.
(Steindór Ívarsson)
Steindór Kristinn Ívarsson.