Sveinbjörn Sveinbjörnsson fæddist hinn 16. mars 1950 á Lyngási í Holtum í Rangárvallasýslu. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 14. janúar 2020. Foreldrar hans voru hjónin Sveinbjörn Stefánsson, verkstæðisformaður á Hellu, f. 15.7. 1914, d. 9.7. 1990, og Sigríður Tómasdóttir, f. 24.7. 1911, d. 25.10. 1995. Systkini Sveinbjörns voru Þórir, f. 16.3. 1936, d. 29.1. 2011, Kristín Höbbý, f. 23.7. 1937, gift Magnúsi Jenssyni, d. 2008, Eygló, f. 29.8. 1938, d. 5.2. 1990, Bergur, f. 15.6. 1943, kvæntur Pálínu Kristinsdóttur, Anna, f. 5.8. 1945, gift Birni Bergmann Jóhannssyni, Áslaug, f. 27.3. 1947, gift Ragnari Hafliðasyni, og Sighvatur, f. 21.12. 1953, fyrr kvæntur Báru Guðnadóttur d. 2006, nú kvæntur Laima Jakaite.

Sveinbjörn var giftur Hönnu Soffíu Jónsdóttur (gift 4.7. 1970), f. 10.7. 1952 á Böggvisstöðum Dalvík, foreldrar Jón Jónsson, f. 25.5. 1905, d. 21.2. 1988, og Anna Arnfríður Stefánsdóttir, f. 1.12. 1909, d. 29.1. 1985. Börn þeirra: 1) Sveinbjörn, f. 27.6. 1971, maki Dröfn Áslaugsdóttir, f. 3.8. 1972, dætur þeirra Gyða Dröfn, f. 16.1. 1992, maki Heiðar Ernest Karlsson, f. 29.4. 1989, Hulda Dröfn, f. 20.10. 1998, og Áslaug Dröfn, f. 7.9. 2004. 2) Anna Berglind, f. 12.2. 1974, sonur Alexander Elí Sigvaldason, f. 25.3. 2002. 3) Sigríður Erla, f. 12.2. 1974, synir Júlíus Fannar Arnarsson, f. 21.12. 1993, maki Thelma Björk Sævarsdóttir, f. 25.3. 1997, börn Efemía Von Bergland með fyrrverandi maka, f. 10.12. 2015, og með núverandi maka Maísól Mjöll, f. 25.1. 2019. Sveinbjörn Heiðar Stefánsson, f. 11.5. 2011. 4) Eygló, f. 25.6. 1979, maki Bergþór Ásgrímsson, f. 3.5. 1965. Sonur Kristján Loftur Jónsson, f. 14.12. 1999, dætur Bergþórs eru Bergþóra Heiðbjört, f. 25.1. 1995, maki Orri Blöndal, f. 10.10. 1990, börn Hafdís Hekla, f. 4.8. 2017, og Margrét Heiða, f. 15.6. 2019, Júlía Rós, f. 3.8. 2001. 5) Jón Helgi, f. 28.9. 1985.

Ungur hóf Sveinbjörn vinnu hjá Jarðborunum ríkisins og vann þar í allmörg ár. Einnig vann hann mikið við virkjanir á hálendinu á vegum Landsvirkjunar. Þá starfaði Sveinbjörn mikið á trukkum og vinnuvélum. 1985 opnaði hann hjólbarðaverkstæði á Dalvík meðfram fullu starfi hjá bíla- og vélaverkstæði Hjalta Sigfússonar á Árskógsströnd. Ennfremur starfaði hann á bílaverkstæði Dalvíkur og sinnti leigubílakstri þar í bæ. Sveinbjörn stofnaði sitt eigið fyrirtæki ásamt eldri syni sínum, SxS Cargoline ehf. á Dalvík, árið 1998 þar sem þeir unnu við viðgerðir og nýsmíði fyrir stærstu flutningafyrirtæki landsins. Árið 2000 flutti hann til Akureyrar og stofnuðu þeir feðgar fyrirtækið Trukkinn ehf., fyrst á Óseyri en fyrirtækið flutti síðar á Hjalteyrargötuna. Í október 2006 seldu þeir feðgar Trukkinn og héldu báðir til starfa hjá Íslenskum orkurannsóknum. Áður en hann lauk svo atvinnuferli sínum rak hann sitt eigið verkstæði og hlaut það nafnið SS bíla- og vélaviðgerðir ehf. Hjá honum störfuðu börn og barnabörn sem honum var ansi kært því að hann vildi ávallt hafa fjölskyldu sína með í hverju því sem að hann tók sér fyrir hendur.

Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju 24. janúar klukkan 13.30.

Elsku pabbi minn, nú ertu kominn á vit nýrra ævintýra. Ég er viss um að foreldrar þínir, Þórir bróðir þinn og Eygló systir þín hafa tekið vel á móti þér. Eins mikið og ég er viss um að þér líði vel þar sem þú ert núna, er það samt ofboðslega sárt að þú sért ekki lengur hér með okkur. Það er fyrst núna sem ég virkilega skil textann við lagið Söknuð sem Villi Vill söng svo fallega. Þú hélst einmitt svo mikið upp á þann frábæra söngvara.

Þegar ég lít til baka yfir farinn veg dettur mér fyrst í hug þetta textabrot úr lagi með Mugison: Þú kenndir mér svo margt. Eitt er mér sérstaklega eftirminnilegt varðandi hugarfar þitt sem þú reyndir að kenna mér. Birtist það meðal annars í þessum frasa þínum sem þú sagðir mér fyrst þegar ég var á grunnskólaaldri: Aldrei að segja aldrei því að aldrei getur aldrei verið aldrei. Á öðru formi en með sama boðskap voru svo lífsreglurnar tvær sem þú kenndir mér. Þú sagðir að það væru bara tvær reglur í lífinu; regla nr. 1: Aldrei gefast upp! og regla nr. 2: Muna eftir reglu nr. 1.

Þú kenndir mér þó ekki bara þetta magnaða lífsviðhorf heldur líka mörg góð gildi, t.d. að fólk ætti að vera gott við þá sem minna mega sín. Þú hafðir sterka réttlætiskennd og varst ákaflega barngóður. Dýrum varstu einnig mjög góður og man ég hve vel þú talaðir um hestinn þinn hann Jarp og hundinn Lappa og hvernig þessi tvö dýr náðu ákaflega vel saman.

Annað sem ekki er hægt að minnast ekki á er ást þín á ýmsu amerísku; svo sem country-músík, bílategundunum GMC og Chevrolet ásamt ýmsu sem tengist kúrekamenningunni. Að sumu leyti fannst mér að þú hefðir ef til vill fæðst í vitlausu landi, að þú hefðir í raun átt að fæðast í einhverju kúrekaríkinu í Norður-Ameríku. Þú hafðir þó sérstaklega mikið dálæti á að ferðast um Ísland og þá einna helst hálendið. Það var þinn heimavöllur og man ég hversu vel þér leið alltaf þegar þú varst kominn upp á fjöllin. Þær voru nú nokkrar ferðirnar sem við fórum saman upp á hálendið, m.a. yfir Kjöl, Sprengisand, í Veiðivötn, í Herðubreiðarlindir og Öskju, fjallabaksleiðirnar og upp í Kverkfjöll. Þú þekktir hálendið og fjöllin eins og handarbakið á þér og mundir nöfnin á mörgum fjöllum, sérstaklega á æskuslóðum þínum nálægt Heklu.

Þú varst líka alveg frábær kennari þegar kom að því að kenna manni handtökin og virkni hluta í bílvélum svo ég nefni dæmi. Ég byrjaði minn atvinnuferil hjá þér og þú kenndir mér meðal annars rafsuðu. Eitt það fyrsta sem við gerðum saman á verkstæðinu var að smíða skiptikassagrindurnar sem þú hannaðir sjálfur á 10. áratug síðustu aldar. Við smíðuðum þær svo saman og er ég ákaflega stoltur að hafa fengið að taka þátt í því með þér. Þú varst alveg ótrúlegur þegar kom að viðgerðum og að smíða eitthvað úr járni. Það var í raun og veru eins og að þú hefðir eitthvert æðra skilningarvit á því sviði. Þú byrjaðir náttúrlega mjög ungur, einungis örfárra ára gamall, að fara með föður þínum út í bílskúr og áttir þú eftir að lifa og hrærast í svoleiðis bransa allt þitt líf.

Þú varst svo magnaður sögumaður og sagðir þú okkur margar skemmtilegar sögur í gegnum tíðina. Mér fannst alltaf svo magnað hvað þú mundir skýrt ýmsa atburði lífs þíns og þó að maður fengi stundum að heyra einhverjar af þessum sögum oftar en einu sinni leiddist manni það aldrei vegna þess að það var svo gaman að hlusta á þig segja þær. Þú hafðir líka gaman af góðum kveðskap og læt ég hér því fylgja eitt kvæði eftir frænda þinn:

Það liðna, það sem var og vann,
er vorum tíma yfir;
því aldur deyðir engan mann,
sem á það verk sem lifir.
Já, blessum öll hin hljóðu heit,
sem heill vors lands voru' unnin,
hvern kraft, sem studdi stað og sveit
og steina lagði' í grunninn.

(Einar Benediktsson.)

Fjölskyldan var þér afskaplega mikilvæg og varst þú alveg ótrúlega óeigingjarn í okkar garð. Þú vildir alltaf hafa fjölskylduna með þér í því sem þú varst að gera, bæði í vinnu og einkalífi. Þú varst okkur algjör klettur og gerðir svo ótrúlega margt fyrir okkur.

Elsku pabbi, nú hefst næsta vegferð þín. Ég er afskaplega þakklátur fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig í þessu lífi og þakka allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Ég óska þér góðrar ferðar og við sjáumst aftur þegar minn tími kemur.

Jón Helgi Sveinbjörnsson.

Þann 14. janúar síðastliðinn var höggvið stórt skarð í hjörtu okkar fjölskyldunnar þegar þú féllst frá elsku pabbi minn eftir erfið og mikil veikindi. En það er svo margs að minnast og er ég óendanlega þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman í gegnum tíðina. Ég man lítið eftir uppvaxtarárunum mínum á Lyngási enda bara 5 ára þegar við fluttum norður á Dalvík þann 21. des 1979, fórst þú með mömmu, þrjú börn og búslóð á vörubíl svona rétt fyrir jólahátíðina og við eignuðumst nýtt heimili að Sólgörðum á Dalvík. Ég minnist þess að þegar á Dalvík var komið þá fékkst þú næga vinnu og varst því litið heima við og það var bara rétt svo að maður sæi þig við morgunverðarborðið. Svo til að bæta aðeins meiri vinnu á þig þá fórstu í það að byggja í Dalbrautinni og þangað fluttum við 1981 í mjög svo fallegt hús. Þaðan eru margar ljúfar minningar en ég mun aldrei gleyma því hvernig aðfangadagskvöldin voru þar. Þegar búið var að borða jólamatinn og opna pakka þá var allt rusl hreinsað í burtu og að því loknu var kveikt í arninum og það fannst mér vera algerlega toppurinn á aðfangadagskvöldi.

Þú varst mikið jólabarn í þér og hafðir virkilega gaman að því að skreyta og hafa fínt í kringum þig Fagurkeri með meiru og skapa ljúfa og góða stemmingu, rómantískur fram í fingurgóma.

Um 14 ára aldur fór ég að vinna hjá þér á Hjólbarðaverkstæði Dalvíkur, við bókhald, umfelganir og bílaþrif ásamt því að hjálpa þér í hinu og þessu.

Þá fyrst fór ég fyrir alvöru að kynnast þér elsku pabbi og þú hafðir svo sannarlega mikinn mann að geyma. Ég dáist svo að dug þínum, óbilandi bjartsýni alveg sama hvað lífið hafði upp á að bjóða. Eins og fiskurinn (fæddur í fiska stjörnumerkinu) þá gastu synt lygnan sjó en það var líka alveg sama hvað mótstreymið var mikið þú lést ekkert buga þig og hélst ótrauður áfram sama hvað gekk á. Þegar ég byrjaði að vinna hjá þér ásamt Erlu systir þá sagði þú strax við okkur frá upphafi að það væri ekkert sem við gætum ekki gert og kenndir okkur það að vera sjálfstæðar og að við gætum þetta jafnt og karlkynið. Fyrir það er ég svo þakklát og það sem þú kenndir okkur hefur farið með mér í gegnum lífið og oft á tíðum verið gott að hafa þínar leiðbeiningar að leiðarljósi. Það verður sárt að geta ekki lengur leitað til þín með það sem fyrir höndum ber, en ég trúi því samt í hjarta mínu að þú munir leiðbeina mér sama hvar þú ert. Þrátt fyrir að vera mikið að heiman vegna vinnu þinnar þá var fjölskyldan samt alltaf nr. 1. Það gladdi þig fátt meira heldur en þegar fjölskyldan kom saman og gerði sér glaðan dag, eða ef þú varst að leysa einhver verkefni hvort sem það var í húsabyggingum, viðgerðum, vinna í garðinum eða bara hvað sem er, þá vildir þú alltaf hafa fjölskylduna með þér. Að koma mömmu á óvart, fara með hana í óvissuferð eða halda henni veislu án þess þó að hún vissi hvað til stæði var alveg listavel gert hjá þér og lagðir þú mikinn metnað í það og hafðir virkilega gaman af því. Tónlist skipti þig líka mjög miklu máli og lærði maður fljótt að hlusta á allskonar tónlist og varstu mikil country unnandi. Það var svo dásamlegt að sjá hversu fylgin þú varst sjálfum þér og það skipti þig hið minnsta hvað aðrir sögðu eða hugsuðu, þú bara fórst þína leið. Þegar þú varst að klæða þig upp þá skarstu þig verulega úr hópnum í country fatnaðinum en þú varst alltaf flottur og barst klæðin með mikilli reisn. Þú bara þorðir að vera þú sjálfur og það er algjörlega til fyrirmyndar. Einkunnarorðin þín voru Þetta reddast allt og það var alltaf málið þú fannst alltaf lausn á málunum og hafðir lítt áhuga á að staldra við í veseni. Það eru ekki ófá verkin sem eftir þig liggja. Þú byggðir hús fyrri fjölskylduna á Lyngási þar sem þín fjölskylda bjó, afi, amma og systkini þín á æskuslóðum. Einnig byggðir þú á Dalvík og í lokin á Akureyri í Hraungerði 1 sem var þitt síðasta heimili og þar leið ykkur mömmu vel.
Þær eru orðnar ansi margar og góðar stundirnar þar með fjölskyldunni hvort sem var um jól, áramót, á þorranum og já bara allt árið. Mikið á ég eftir að sakna þín þegar við höldum áfram að hittast þar.

Leiðir ykkar mömmu lágu saman fyrir rúmum 50 árum á Dalvík þegar þú varst að vinna þar við að bora eftir heitu vatni á vegum Jarðboranna ríkisins. Þið voruð bæði heppin þar, það að geta deilt lífinu með maka í svo langan tíma eins og þið gerðuð er ekki alveg sjálfsagt. Ólík voruð þið með eindæmum en samt stóðuð þið við bakið á hvort öðru allan þennan tíma og voruð kletturinn í lífi hvors annars. Það væri alveg sama hvað við systkinin reyndum en við getum ekki fyllt í það tómarúm hjá mömmu sem hefur myndast eftir að þú kvaddir. En svo sannarlega munum við öll gera okkar besta í að gera lífið sem bærilegast fyrir hana. Þú myndir líka alltaf vilja að henni liði vel og grunar mig að þú verðir áfram nærri og styrkir hana með ráðum og dáðum frá sumarlandinu. Þú varst mikið náttúrubarn og hafðir unun að ferðast um hálendið, en gafst þér þó allt of sjaldan tíma til þess þar sem vinnan átti hug þinn allan.


Spor okkar í vinnu hafa legið mikið saman þar sem ég vann fyrir þig fyrst á Hjólbarðaverkstæði Sveinbjörns á Dalvík þar á eftir á Trukknum á Akureyri sem þú síðan seldir 2006 og þá lágu leiðir okkar í vinnu aftur saman 2016 á SS bíla- og vélaviðgerðum ehf. og ég er svo þakklát fyrir það og þann tíma. Það var aðdáunarvert að sjá hvað þú hafðir mikinn áhuga á trukkum, vinnuvélum og að ég tali nú ekki um amerískum bílum, Þú lagðir mikinn metnað í að gera bílana þína fínna svo eftir var tekið og það er alveg með ólíkindum hvað þú lagðir á þig til þess að svo mætti verða, í byrjun ágúst á síðasta ári þá lagðir þú það á þig að fara frá Akureyri til Ásgarðs í Reykholti í Borgarfirði og fór ég með þig í þessa ferð til þess að keyra þar sem heilsa þín leyfði það ekki. Þér var svo mikið í mun að fara þessa ferð og sjá hvað var til af varahlutum sem kannski gætu nýst þér í Lettann þinn. Þetta var góð ferð og lögðum við í hann upp úr hádegi og komum heim aftur um 10 leytið um kvöldið. Heilsu þinnar vegna hefði verið bara auðveldara að láta senda þetta og spara þér ferðina en nei þú vildir fara þessa ferð, njóta landslagsins og vera svolítið til og njóta þín. Svo ég tali nú ekki um að komast í skúrinn í Ásgarði til að sjá allt djásnið sem mátti finna þar. Þér fannst þetta alveg æðislegt og mér fannst ég heppin að fara þessa ferð með þér og við gátum spjallað um heima og geima, gamalt og nýtt og allt þar á milli.

Pabbi takk fyrir að taka mig með. Eins fórum við saman til Reykjavíkur rétt fyrir jólin, flugum suður og komum með flugi til baka norður tveimur dögum seinna. Það var erfið ferð en samt svo dásamleg og þar hittum við fyrir Áslaugu systur þína og manninn hennar Ragnar og skutluðust þau með okkur það sem við þurftum. Þetta var þitt síðasta ferðalag hér á þessari jarðvist og því muna ég ekki gleyma. Þú stóðst þig eins og hetja.


Takk elsku pabbi fyrir allar samverustundirnar,

fyrir alla hjálpina í gegnum tíðina,

fyrir öll knúsin og öll brosin þín.

Takk fyrir að hafa haft trú á mér og að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á að halda.

Þetta er það erfiðasta sem ég hef tekist á við í lífinu að kveðja þig,

en það hjálpar að vita að þú hefur fengið hvíldina og friðinn.

Ansi oft hefur það verið sagt við mig í gegnum tíðina pabbi að ég sé alveg eins og þú, en ég á langt í land með að ná þér en það fyllir mig afar miklu stolti að líkjast þér og mun ég vaðveita minninguna um þig í hjarta mér og halda ljósi þínu lifandi fyrir mig og okkar fjölskyldu.

Ég trúi því að vel hafi verið tekið á móti þér af fólkinu okkar í sumarlandinu og nú sé þér loksins farið að líða vel.

Farðu í friði elsku pabbi.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.



Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
x
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
x
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
x
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
x
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Anna Berglind Sveinbjörnsdóttir.