Kristjón Guðmannsson fæddist 26. mars árið 1953 í Efri-Sjólyst í Garði. Hann lést 17. janúar síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Guðmann Sigurðsson, f. 1914, dáinn 1983 og Ingibjörg Guðlaug Þórðardóttir, fædd 1920, dáin 1998.
Stjáni, eins og hann var alltaf kallaður, átti eina hálfsystur sammæðra, Kristínu Þóru Jóhannesdóttur, sem fædd var 1944, dáin 1982 og einn albróður, Þórð, fæddan 1951.
Úr Efri-Sjólyst flutti fjölskyldan í Lund, sem nú er Melbraut 12, árið 1958 og bjó hann þar þangað til hann flutti í Kríulandið árið 2007.
Stjáni gekk í Gerðaskóla. Að því loknu fór hann í Iðnskóla Suðurnesja og útskrifaðist þaðan sem trésmiður árið 1976.
Snemma byrjaði hann að vinna á sumrin í Hraðfrystihúsi Gerðabáta, fór svo fyrst á sjó árið 1975 en síðan í smíðarnar að lokinni útskrift sem var hans ævistarf. Hann hafði verið á samningi hjá Húsabyggingu hf. Hann stofnaði trésmíðafyrirtækið Tréborgu ásamt Pálma Einarssyni og störfuðu þeir saman í nokkur ár. Um tíma vann hann hjá Ásgeiri Kjartanssyni en lengst af starfaði hann hjá Braga Guðmundssyni.
Stjáni festi kaup á bát árið 1979 ásamt Þórði bróður sínum og Guðmundi Knútssyni vini sínum. Báturinn fékk nafnið Æsa í höfuðið á ömmu Stjána og Þórðar og gerðu þeir félagar út Æsu í 37 ár, einkum á færi á sumrin.
Stjáni stundaði íþróttir á sínum yngri árum. Hann hóf feril sinn í markinu hjá Víði í Garði og stundaði svo handbolta með Reyni í Sandgerði og Njarðvík.
Útför Kristjóns fer fram frá Útskálakirkju miðvikudaginn 29. janúar kl. 15.
Leiðir okkar Stjána eins og hann var alltaf kallaður lágu saman þegar hann flutti í Lund (Melbraut 12) og ég í Heiði (Melbraut 25). Þetta var í kringum 1960 við vorum fimm og sjö ára þannig að þetta er búið að vera langt og skemmtilegt ferðalag.
Samgangur fjölskyldna okkar var mjög mikill, húsin okkar stóðu þarna hlið við hlið ein og sér og engin hús í kringum okkur þannig að við höfðum gott rými í kringum okkur sem var vel nýtt, það voru smíðaðir bílar og vegir lagðir um móann þvers og kruss.
Svo liðu unglingsárin og ýmislegt brallað en Stjáni var tveimur árum eldri en ég þannig að aðeins slitnaði í sundur með okkur um tíma þó svo að alltaf hafi verið kíkt í Lundinn. Þeir bræður Doddi og Stjáni keyptu nokkra flotta bíla saman sem þurfti að kíkja á, skemmtilegt fyrir gutta með bíladellu sem hafði ekki bílpróf að fá að fara í bíltúr með bræðrunum, kannski bera þeir bræður ábyrgð á ólæknandi bíladellu minni. Stjáni spilaði fótbolta með Víði, hann var markmaður og þrátt fyrir að vera ekki hár í loftinu var hann ótrúlega lipur á milli stanganna og sérfræðingur í úthlaupum, þar stóðust honum fáir snúninginn, það var kraftur í karlinum.
Það var svo á Iðnskólaárunum sem við Stjáni fórum að starfa meira saman. Við Anna fórum að byggja á Lyngbrautinni og leituðum auðvitað til Stjána um að aðstoða okkur með smíðina, fyrst með sökkulinn 1974 og svo var hæðin byggð 1977. Við vorum ekki gamlir eða reyndir þarna enda rétt um tvítugt en Stjáni fór létt með þetta enda með eindæmum útsjónarsamur og góður smiður.
Alltaf höfðum við Stjáni haft mikinn áhuga á bátum, aldir upp í fiskinum í frystihúsinu á sumrin og í kringum útgerðina; kíktum í kjallarann hjá afa í Garðhúsum og fórum í róður með Hólmsteini, það var því rökrétt framhald hjá okkur að kaupa bát. Við fengum Dodda bróður Stjána með okkur í lið og fórum að spá og spekúlera, fundum svo einn sem okkur leist bara nokkuð vel á en ákváðum að fá álit hjá reyndum manni, Ingvari á Bjargi, og fengum hann til að kíkja á gripinn. Skemmst er frá því að segja að Ingvari leist ekkert á fleytuna: Þið farið ekki á sjó á þessu, þetta er manndrápsfleyta! Þar fór það. Við fundum svo ókláraðan bát (færeying) sem við keyptum og kláruðum, græjuðum og gerðum sjókláran, þetta var 1979. Báturinn var skírður Æsa eftir ömmu strákanna Stjána og Dodda og hlutafélagið skírðum við svo Heiðarlund ehf. eftir heimilum okkar Heiði og Lundi. Þennan bát áttum við í 10 ár, þá var keyptur stærri bátur (sómi) sem við áttum saman í 27 ár, aðallega var róið á færi á sumrin en einnig gerðum við út á línu og grásleppu um tíma. Á þeim tíma sem við áttum sómabátinn var hann lengdur, dekkaður og skipt um vél þrisvar þannig að við brösuðum mikið saman til sjós og lands á þeim 37 árum sem við áttum saman Æsu.
Stjáni var fastagestur á heimili okkar Önnu og fylgdist með krökkunum okkar vaxa úr grasi og var alltaf mjög góður við þau. Þó að heimsóknum hans á Lyngbrautina hafi fækkað seinni árin (Stjáni varð heimakærari með aldrinum) fjölgaði í staðinn mínum ferðum í Kríulandið til hans, oft til að kíkja saman á enska boltann sem hann hafði mjög gaman af og fylgdist mjög vel með, hans lið voru Leeds og Chelsea. Oft voru nokkrir góðir vinir Stjána mættir að fylgjast með boltanum með honum.
Einn mann langar mig að minnast sérstaklega á sem var einstaklega tryggur og góður vinur Stjána en það er Óli Tryggva. Þeir voru einstakir vinir og félagar síðustu árin, ferðuðust og skemmtu sér saman, ræddu málin, þrösuðu stundum aðeins en alltaf í góðu, flottir vinir enda öðlingar báðir tveir. Mikill missir fyrir Óla en svona getur lífið tekið óvænta stefnu.
Doddi bróðir Stjána hringdi reglulega í bróður sinn, ég held að það hafi verið a.m.k einu sinni á dag til að fá fréttir og fylgjast með bróður sínum. Stjáni kallaði þessi símtöl tilkynningaskylduna.
Kæri Doddi, vinur og félagi, þó að tilkynningaskyldunni sé ekki lengur svarað þá geymum við minningu um góðan dreng, bróður og vin. Það er margs að minnast og margt að þakka, hér er aðeins minnst á fáein atriði. Við fjölskyldan á Lyngbrautinni þökkum þér, kæri vinur, innilega allt sem þú gerðir fyrir okkur. Minningin lifir um góðan dreng.
Guðmundur Jens og Anna Marý.
Það má með sanni segja að Stjáni hafi verið hluti af okkur fjölskyldunni og það sama má segja um Dodda bróðir Stjána sem á einnig sérstakan stað í hjörtum okkur systkina.
Þó svo að hann hafi ekki verið mikið heima hjá okkur á Lyngbrautinni í seinni tíð (það fór svo rosalega vel um hann í Kríulandinu góða) að þá var hann mikið í kringum okkur systkinin þegar við vorum yngri. Stjáni átti alltaf sitt sæti við matarborðið þegar hann kíkti í heimsókn sem var nú bara nánast daglega og þótti okkur nærvera hans notaleg.
Doddi og Stjáni voru alltaf svo góðir við okkur og þótti þeim alltaf jafn gaman að stríða okkur og ennþá betra var ef við fórum aðeins hjá okkur við það í leiðinni.
Það má segja að þeir bræður hafi svolítið skipt okkur systkinunum á milli sín án þess endilega að átta sig á því sjálfir. Sveinlaug var Stjánastelpa, Hafdís Doddastelpa og svo var litla örverpið hann Knútur þeirra beggja því auðvitað væri annað ekki sanngjarnt. Rétt skal vera rétt og jafnt skal vera jafnt.
Okkur þótti alltaf gaman að kíkja við í heimsókn í Lund með mömmu og pabba til þeirra bræðra og svo má auðvitað ekki gleymda páfagauknum sem alltaf flaug um frjáls á sínu heimili. Okkur stóð nú ekkert alltaf á sama þegar hann kom fljúgandi á ógnarhraða í átt að okkur en það brást ekki að eftir að flestir sem sátu í eldhúsinu voru búnir að beygja sig til þess að vera ekki fyrir prinsinum að þá lenti hann yfirleitt alltaf öruggur á öxlinni á húsbónda sínum, jú eða við eldhúsvaskinn til þess að fá sér að drekka þar sem lítil buna var yfirleitt látin renna svo blessaður fuglinn myndi nú ekki þorna upp. Við segjum páfagaukurinn eða fuglinn vegna þess að hann fékk aldrei nafn greyið en það þótti þeim bræðrum ekkert tiltökumál því að fuglinn er bara svo asskoti þægilegt og af hverju að breyta einhverju sem virkar? Hvað er að þegar ekkert er að myndi einhver segja.
Æsan okkar góða, trillan sem pabbi, Doddi og Stjáni keyptu svo saman færði okkur systkinum óteljandi skemmtilegar og góðar minningar og munum við alltaf vera svo þakklát fyrir þær. Trilluna áttu þeir saman í 37 ár eða frá því við öll munum eftir okkur og höfum við ekki tölu á því hversu marga rúnta við fengum að fara í henni. Í Æsunni var veitt, hlegið, grátið, sofið, fíflast og stökum sinnum ælt en alltaf var gaman því félagsskapurinn var dásamlegur. Eldri strákar okkar systra fengu einnig að njóta góðs af henni fyrstu árin sín áður en Æsan var svo seld, en sá dagur var alveg svolítið erfiður, við verðum nú að viðurkenna það. En vonandi er hún komin á stað þar sem aðrar fjölskyldur fá að upplifa það sama og við fengum að upplifa öll þessi ár.
Nú kveðjum við einn af þessum mönnum sem átti stóran þátt í æsku okkar systkina
Elsku Stjáni var með mjög fallegt hjartalag, góður við allt og alla og aldrei klikkaði að maður fékk alltaf einlægt bros frá honum þegar við hittum hann.
Við viljum meina að hann Stjáni okkar sitji núna með fólkinu sínu sem er einnig búið að yfirgefa þennan heim, hrisstandi á sér fótinn, glottandi með aðra hendina í vasanum og auðvitað með rettu í munnvikinu. Honum líður vel og við vitum að hann mun vaka yfir okkur og bróðir sínum þangað til við hittumst næst.
Takk fyrir hlýjuna og kærleikann.
Sveinlaug, Hafdís og Knútur.