Sigurður Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 9. október 1936. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 18. janúar 2020. Foreldrar hans voru Steinunn Guðbrandsdóttir, f. 9. júní 1899, d. 23. apríl 1982, og Þorsteinn Guðbert Sigurðsson skólastjóri, f. 14. maí 1886, d. 19. ágúst 1954. Sigurður var yngstur af fimm systkinum og eru þau öll látin. Þau voru: Egill, f. 1920, d. 1976, María, f. 1924, d. 1988, Guðbrandur, f. 1928, d. 2009, og Guðný, f. 1934, d. 1989.
Sigurður kvæntist 14. maí 1966 Ásdísi Minný Sigurðardóttur frá Keflavík, f. 19. september 1941. Faðir hennar var Sigurður Benóný Helgason, f, 1901, d. 1969. Móðir hennar var Karólína María Karlsdóttir, f. 1909, d. 1988. Börn Sigurðar og Ásdísar Minnýjar eru: 1) Karólína Sigríður, f. 1969, maki Jón Sigurðsson, f. 1967. Þau eiga tvo syni og eitt barnabarn. 2) Steinunn Björk, f. 1972. 3) Þorsteinn Sigurður, f. 1977, maki Sandra Skuld Kolbeinsdóttir, f. 1989.
Sigurður ólst upp í Reykjavík í kreppunni miklu. Fjölskyldan var á hrakhólum með leiguhúsnæði og bjó víðsvegar um borgina, þar á meðal um tíma í Miðbæjarskólanum við Tjörnina þar sem Þorsteinn var kennari. Sigurður var fjögurra ára þegar Bretar hertóku borgina. Hann bjó í Reykjavík með foreldrum sínum til 18 ára aldurs þegar faðir hans lést skyndilega, en þá flutti hann ásamt móður sinni og bróður, Agli, sem þá hafði fengið vinnu í tollinum á Keflavíkurflugvelli, til Keflavíkur. Sigurður starfaði lengst af í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli þar sem honum líkaði mjög vel.
Árið 1964 kynntist hann lífsförunaut sínum, Keflvíkingnum Ásdísi Minný Sigurðardóttur, og giftu þau sig árið 1966. Hjónabandið varð mjög farsælt og voru þau hjónin mjög samrýnd. Sigurður og Minný byggðu hús á Vesturgötu 34 í Keflavík og hófu sinn búskap þar. Árið 1970 flutti fjölskyldan síðan á Háteig 10 í Keflavík og hefur búið þar síðan. Móðir Minnýjar, Karólína, flutti með fjölskyldunni á Háteiginn þar sem eiginmaður hennar, Sigurður, var nýlátinn. Kom Sigurði og Karólínu mjög vel saman og varð aldrei sundurorða í gegnum árin.
Sigurður verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju í dag, 31. janúar 2020, klukkan 13.
Eitt af því óhjákvæmilega í lífinu er að deyja en þó er það alltaf jafn sárt þegar dauðann ber að garði. En minningarnar hrannast upp og þær munum við, sem elskuðum hann, alltaf eiga. Í minningunni vann pabbi minn í Paradís. Hann fór oft með mig og systur mína litlar í heimsókn á vinnustaðinn sinn. En til þess að komast þangað varð maður fyrst að fara í gegnum hlið þar sem stóð vörður sem spurði okkur hvert við værum að fara. Vörðurinn tók síðan ákvörðun um hvort okkur yrði hleypt inn eða ekki. Og síðan var maður skyndilega kominn inn í Paradís. Þar var einungis gott fólk og maður skynjaði að öllum þótti vænt um pabba. Vinnustaðurinn var eins og ein stór fjölskylda: elskurnar mínar, eruð þið komnar, má ekki bjóða ykkur nammi? Þetta var alltaf kærkomin setning. Ef þetta var ekki Paradís, hvar þá? Og síðan erum við skyndilega komin inn í Keflavíkurkirkju, sunnudagaskólinn. Ég sit á einum af fremstu bekkjunum og sveifla fótunum í takt við tónlistina. Ég kann alla textana og handahreyfingarnar utan að. Ég sé að pabbi horfir ástúðlega á mig. Á þessum tíma fóru yfirleitt bara mömmur með börnin sín í sunnudagaskólann og svo var pabbi líka. Hann fór einnig oft með okkur í bíó. Honum fannst Bugsy Malone aðeins skemmtilegri en Grease sem var mín uppáhalds. Þegar fríhafnarbíllinn skutlaði pabba heim eftir langan vinnudag sátu oft fimm kettir eins og móttökunefnd fyrir utan útidyrahurðina: Hvað eru allir þessir kettir að gera hérna, Steinunn? Ég veit að þú ert að gefa þeim að éta. Ég vil ekki að þú pínir mömmu þína til þess að fá sér kött. En mér tókst hins vegar að telja þeim báðum trú um að það væri algjör snilld að fá sér páfagauk og Dúlli, snjóhvítur albínói, kom inn á heimilið. Dúlli leit umsvifalaust á Sigurð Þorsteinsson sem pabba sinn líka. Og ef það var ekki búið að hleypa honum út á mínútunni sjö þegar fréttatíminn var í sjónvarpinu trylltist hann og byrjaði að öskra hástöfum í búrinu. Þó svo hann ætti ekkert úr og kynni ekki á klukku. Síðan sátu þeir félagarnir saman í húsbóndastólnum og nutu fréttatímans. Dúlli bjó til hreiður úr hárinu á pabba og kom sér þægilega fyrir í því. Og núna er ég skyndilega stödd í höll í Kóngsins Köbenhavn og ég sit í drottningarstól úr skíragulli. Ég er bara eitthvað svo þreytt í fótunum, bara fjögurra ára og hallir eru svo ansi stórar og margir gangar. Ókunnugur maður stendur fyrir framan mig, hann er greinilega mjög reiður og mér skilst á handahreyfingum hans að ég megi ekki sitja í þessum stól. Ég horfi illu auga á manninn, merkileg með mig á svipinn. Þessi maður hlýtur að vera eitthvað mjög skrýtinn. Til hvers að vera með stóla sem ekki má sitja á? Ég er heldur ekki að gera neitt af mér, bara að hvíla lúin bein um stundarsakir, en þá kemur pabbi skyndilega hlaupandi og bjargar mér. Ég heyri rödd hans segja við íslenska konu sem við hittum á förnum vegi í Kaupmannahöfn: Það er betra að sleppa ekki hendinni af þessari. En einu sinni lítur hann af mér eina mínútu og finnur mig aftur þar sem ég er að kyssa tvo dobermann-hunda sem pönkari nokkur er með í bandi. Pabbi sagði mér seinna að pönkarinn hefði virst mjög miður sín að stöðutáknin hans skyldu bregðast honum svona hrapallega og vera fyrir að kyssa pelabarn. Hvorki ég né doberman-hundarnir réðum okkur fyrir kæti yfir að vera loksins búin að hittast en þetta fór hins vegar alveg með ímynd pönkarans: Félagar pabba hafa gantast með það, í gegnum árin, að pabbi hafi verið eini maðurinn í kalda stríðinu sem leigði íbúð bæði Bandaríkjamönnum og Rússum. Júdófélag Suðurnesja hringdi eitt kvöldið í hann og bað um íbúðina fyrir rússneskan afreksmann í júdó sem væri að fara að kenna júdó hérna á Suðurnesjunum, og Viktor flutti inn í húsið. Nágrannakona okkar tekur mig á eintal, hún er alveg miður sín: Steinunn, er það satt að pabbi þinn sé búinn að leigja Rússa íbúðina? Steinunn, þú veist að Rússar eru þvílíkir vígamenn og drepa börn. Það er eins gott að hann nái ekki í ykkur. Ég á mjög erfitt með að skilja að faðir minn myndi nokkurn tíman leigja slíku illmenni íbúðina sem hætta væri á að myndi drepa börnin hans. En Bandaríkjamenn eru góðu gæjarnir, ég hef áþreifanlega reynslu af því. Gefa manni amerískt sælgæti og tyggjó sem maður hefur aldrei séð áður. Það hlýtur því að vera eitthvað til í þessu með Rússana. Mér tekst að bjarga lífi mínu í dágóðan tíma. Hleyp eins og fætur toga í hvert skipti sem ég sé Rússann, stekk inn í garða og fel mig á bak við bíla. Ég veit nákvæmlega hvenær Rússinn fer í vinnuna og kemur heim. Síðan einn sólríkan daginn er ég í parís á stéttinni fyrir framan húsið. Skyndilega heyri ég þrusk í trjánum og eitthvað skyggir á sólina. Rússinn stendur skyndilega, vígalegur í stálgráum júdógalla, fyrir framan mig. Þetta er mín hinsta stund upp runnin, fætur mínir standa frosnir við stéttina og ég get mig hvergi hrært. Núna verð ég drepin af Rússa. Skelfingin skín út úr andlitinu á mér. Og aumingja manninum verður einnig svo um þetta að hann stendur grafkyrr líka. Mínúturnar verða að klukkustundum þangað til Viktor brosir skyndlega og flýtir sér framhjá mér og heim til sín. Eftir þetta er ég aldrei hrædd við Rússann og veit að maður á ekki að trúa öllu sem maður heyrir. Pabbi hafði rétt fyrir sér, Viktor er góður maður. Minningarnar eru ótal fleiri og sem ég mun ávallt geyma í hjarta mér. Sigurður Þorsteinsson var alveg einstakur maður. Æskuvinkona mín sagði eitt sinn eftir að við vorum orðnar fullorðnar: Steinunn, pabbi þinn er alveg einstakur maður. Manstu þegar við vorum litlar og ég fékk að gista hjá ykkur, þá las hann fyrir okkur textann í sjónvarpinu af því við kunnum ekki að lesa. Og þegar litli bróðir minn varð veikur og var lagður inn á sjúkrahús í Reykjavík fékk hann frí í vinnunni og dvaldi í höfuðborginni dag og nótt og vakti yfir honum. Hjónaband pabba og mömmu var einstakt og honum og móðurömmu minni sem bjó hjá okkur varð aldrei sundurorða. Hún tók mig meira að segja stundum afsíðis og sagði: Steinunn, þú mátt ekki vera svona erfið við hann pabba þinn og vera að stríða honum. Eins og t.d. að sauma ermarnar á jakkanum hans saman. Fyrir gamlárskvöld keypti hann stjörnuljós, ekki bara fyrir börnin sín heldur fyrir alla krakkana á Háteignum. Þegar ég var að fara í próf í Háskóla Íslands og var stressuð sagði ég stundum við pabba: Ég er svo kvíðin, ég held að ég sé skítfallin. Þá sagði hann: Ég held það líka, örugglega skítfallin og það er allt í lagi. Það deyr enginn og verður ekki heimsendir þótt þú myndir falla. Þá hætti ég alveg að vera stressuð og gekk alltaf vel. En þú, elsku pabbi, ert sko ekki fallinn. Lífsins skóli er æðstur allra skóla og ég gef þér fullt hús stiga, þú færð 10 frá mér.
Steinunn Björk Sigurðardóttir.
Sigurður Þorsteinsson, móðurbróðir minn, verður jarðsunginn síðasta dag
janúar 2020. Hann var yngsta barn ömmu minnar, Steinunnar Guðbrandsdóttur,
ættuð úr Skáleyjum og Svefneyjum, og afa míns Þorsteins G. Sigurðssonar,
skólastjóra og kennara frá Strjúgsá í Eyjafirði. Ég fæðist þegar Sigurður
er tíu ára, sem fyrsta barnabarn ömmu minnar og afa, á Skólavörðuholti 140
í Reykjavík. Ungur var ég mikið hjá afa mínum og ömmu, allt til þess að
Þorsteinn afi minn lést 1954. Ég er eina barnabarnið sem man afa minn.
Samband okkar Sigurðar var því meira eins og hann væri stóri bróðir, fremur
en frændi og hélst þannig alla tíð. Mér verður því tíðræddara um kynni
okkar ungra á Skólavörðuholtinu, sem önnur barnabörn afa og ömmu muna ekki.
Þessi tími var allt annað Ísland en frændsystkini mín muna. Skólavörðuholt
140 var upphaflega baðhús fyrir breska hermenn, steinhús. En á holtinu var
braggahverfi. Það var kolakynding í húsinu, en hitaveita lá meðfram því,
það var víst eitthvað um skipulag og útlenska óhelgi að hitaveita kom ekki
inn. Ráðamenn hugsuðu öðruvísi. Í eldhúsi var stór kolaeldavél með rörum
fyrir ofna í þrem herbergjum af fjórum. Það var kveikt upp á morgnana með
Tímanum og Alþýðublaðinu og með kolum úr kolakjallara að breskri fyrirmynd.
Það var alltaf hlýtt í þessu húsi. Morgunmatur var súr hvalur og
hafragrautur. Afi minn hafði verið bókhneigður og komst upp með það í
fátækt nítjándu aldar, með því að hann gat prjónað undir borði meðan hann
las, sokka og undirfatnað. Hann varð kennari með próf frá Gagnfræðaskólanum
á Akureyri, sem varð MA. Hann var þrettán árum eldri en amma. Hafði verið
kennari víða um land og þekkti víða til. Hann gat lesið fyrir börn sín
beint af dönsku, talandi fram íslensku. Að lesa fyrir var fjölmiðlun þess
tíma, Útvarpið var fréttir, veður og jaðarfarir. Ég var víst fremur baldinn
og móðursystkini mín lærðu að lesa upphátt það sem þau höfðu mestan áhuga á
sjálf og varð ég þá kyrr við að hlusta.
Sigurður frændi minn var helstur til þess að passa mig og lesa fyrir mig, einnig síðar í Keflavík eftir að amma fluttist þangað. Við vorum því alltaf mikið samvistum. Til þess að ég gæti verið til friðs úti að leika, þá fór Sigurður með mig niður í verkfæraverslunina Brynju og keypti tommunagla, eftir vigt, fyrir túkall. Ég dundaði svo við að negla alla naglana í einu og sömu spýtuna.
Það komu strákar af holtinu til Sigurðar frænda míns, það var alltaf allt fullt af fólki hjá afa mínum og ömmu. Mest var gaman þegar ég fékk að fara með Sigga í fimmbíó. Þá var alltaf keypt prógramm með bíómiðunum, þar var útdráttur úr atburðarás kvikmyndarinnar, Siggi safnaði þessu um tíma. Svo þurfti að lesa prógrammið til að vita hvað sjóræningjarnir voru að gera í myndinni.
Í þá daga keypti amma mikið af dönskum blöðum og þegar ég átti ekki að skilja þá töluðu afi og amma dönsku, en pabbi og mamma ensku, einhverra hluta vegna þá skildi ég allt saman, en lærði að láta ekki á því bera.
Siggi fór aldrei á bak við mig, þar var alltaf allt á hreinu. Jafnaldri minn, Ásgeir, var í öðrum enda hússins, og ef kom fyrir að við stungum af þá var Siggi sendur til leitar. Það var verið að byggja Iðnskólann og heilsuverndarstöðina við Barónsstíg í þá daga. Þar sat ég fastur við blikkrör í grunninum niður í kjallarann. Þetta er ein af fyrstu minningum mínum um hræðslu, ég fór niður en komst ekki upp en þá kom Siggi og bjargaði mér. Bílaumferðin gekk þá yfir Skólavörðuholtið frá Frakkastíg niður á Egilsgötu. Þá var margt öðruvísi og ég man að pabbi hélt því fram að í Reykjavík í þá daga hefði Jónas frá Hriflu keyrt Pakkardinn sinn á fimmtán kílómetra hraða í eina gírnum sem hann notaði, en fyrir aðra giltu umferðarlög. Sjálfsagt rangt, tíðarandinn var þó þannig, að það hefði getað verið.
Að fara í ferðalag var að ná í prívatbíl sem var leigubíll og fara upp að Silungapolli eða Álafossi með kaffi og kökur og teppi. Í slíkum ferðum hljóp ég um nágrennið og Sigurður frændi minn á eftir. Í þá daga hét árekstur ástím, gangstétt hét fortóv upp á dönsku, ástím alveg upp á fortóvi þýddi árekstur alveg upp á gangbraut.
Síðar í Keflavík, eftir að Sigurður hóf störf hjá flugþjónustunni, þá var hann með aukavinnu fyrir Pan American-flugfélagið, að sjá um borðbúnaðarlager. Hnífapör á fyrsta farrými voru silfur, tvenn mundu kosta um 200 dollara per farþega, eitthvað svipað og ódýr farmiði til Ameríku í dag. Ég var stundum með honum í að vaska og raða þessu upp.
Þegar ég var strákur og fór í veiðitúra vorum við Siggi alltaf saman. Siggi keyrði okkur strákana, félaga mína út í sveitir og við gistum í sumarbústað Egils bróður hans. Það var þegar pabbi var úti á landi og við fengum Edselinn hans. Við fórum hringferð með Esjunni þegar ég var fjórtán ára. Ferðalög í þá daga voru ekki skottúr milli staða eins og nú er, heldur var ferðin hæg, maður var fótgangandi, við gengum til útsýnis og ferðin sjálf var upplifunin. Í dag þeysist fólk á milli staða á sem stystum tíma. Í þá daga sóttist fólk fremur í hægari ferðir og vildi njóta umhverfisins hægar en nú tíðkast. Þetta var svona þegar gengið var um Tvídægru og Arnarvatnsheiði milli vatna að leita fiskjar. Það var gengið í bíó en ekki farið í bíl, það var farið stutt á bíl og svo gengið um landslag. Að fara með skipi í hringferð og koma við í öllum höfnum og fara í land aðeins og stoppa í sólarhring á Akureyri. Þetta var allt önnur upplifun.
Ég á Sigurði frænda mínum mikið að þakka fyrir bernsku og unglingsár og held mig við þann tíma, því færri muna Sigurð þess tíma. Ég fékk að fara með í bíó á Keflavíkurflugvelli, sem var kallað gamla bíóið og kynntist Bandaríkjamönnum og þeirra háttum. Sigurður frændi minn tók stóran þátt í bernsku minni. Ég er alinn upp við, í raun, þrjú tungumál. Dönsku afa og ömmu, en þeirra uppvaxtarhöfuðborg var Kaupmannahöfn, og amma kunni skil á kóngum og drottningum. Að vera í Innri-Njarðvík með þriðjung íbúanna Ameríkana en þar ríkti enskumælandi menning, þar voru jafnframt margir Færeyingar sem sögðu sumir að Ísland væri stærsta eyjan í Færeyjum.
Við þetta, óska-skipakomur í Keflavík, þá vorum við Sigurður fremur alþjóðlegir borgarar, sem gerði mann svolítið frábrugðinn fólki úti á landi, við vorum með sjónvarp tíu árum áður en allt Ísland fékk sjónvarp til dæmis. Vinnuharkan var mikil og ég á Sigurði frænda mínum mikið að þakka fyrir bernsku mína og unglingsár.
En leiðir skilur, ég fer á síld 1964 og svo í skóla á Akureyri og í Reykjavík og kem heim í Njarðvíkur bara sem gestur til 1975. Sigurður kvæntist Ásdísi Minný Sigurðardóttur 1966, það ár sem ég kynntist eiginkonu minni. Það varð strjálla á milli okkar en alltaf samband. Hjónaband Sigurðar og Minnýjar var farsælt og ástríkt alla tíð og heimilið öruggt skjól fyrir börnin þrjú.
Ég votta þeim samúð mína og virðingu þegar ég kveð Sigurð frænda minn hinstu kveðju.
Þorsteinn Hákonarson.