Margrét Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 3. apríl 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans 24. janúar 2020.
Foreldrar hennar voru Jón Kristinn Ágústsson prentari, f. 9.9. 1917, d. 1.3. 1993 og Halldóra Ólöf Guðmundsdóttir, f. 21.9. 1914, d. 17.6. 1989. Bræður Margrétar voru Sigurður Grétar, f. 5.1. 1939, d. 20.12. 2014, Þórir Ágúst, f. 18.10. 1944, d. 6.11. 1944 og Þórir Ágúst, f. 25.12. 1946, d. 13.8. 2008.
Hinn 6.11. 1973 giftist Margrét eftirlifandi eiginmanni sínum, Friðjóni Alfreðssyni. Foreldrar hans voru Alfreð Friðgeirsson frá Húsavík, f. 14.7. 1908, d. 26.1. 1993 og Sólrún Jónasdóttir frá Sílalæk, f. 5.2. 1910, d. 11.10. 1986.
Börn Margrétar og Friðjóns eru: 1) Halldóra Þórdís hjúkrunarfræðingur, f. 7.1. 1967. Sambýlismaður hennar er René Andersen. Börn Halldóru með Þórarni Þórhallssyni eru Margrét Rut, f. 1992, Kolbrún Huld, f. 1993, Friðjón Þór, f. 1995 og Ásdís Birna, f. 2002. Börn René eru Sarah, f. 1996 og Christian, f. 2002. 2) Jón Arnar rafvirki, f. 22.5. 1972. Barn hans með Leslie Thomas er Alexandra Viktoria, f. 2000. 3) Þórhallur Hjálmar hótelstjóri, f. 28.6. 1979. Börn hans með Hildigunni Jónasdóttur eru Jónas Thor, f. 2009 og Hrafnhildur Thalía, f. 2011. Langömmubörnin eru 4.
Margrét var fædd og uppalin í Reykjavík. Hún stundaði nám við barnaskóla Austurbæjar og lauk gagnfræðaprófi frá Lindargötuskóla. Á yngri árum starfaði Margrét með móður sinni í prentsmiðju. Eftir það starfaði hún sem ritari og bókari á lögmannsstofum. Síðustu 17 ár starfsferilsins starfaði hún á lögmannsstofu Legalis/Juris Borgartúni.
Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 5. febrúar 2020, klukkan 13.

Mamma. Veröldin þín umturnaðist þegar þú varðst óvart ólétt að mér, nýorðin 17 ára. Hin stóru framtíðarplön þín eftir að hafa útskrifast með láði úr Lindargötuskóla breyttust og við tók móðurhlutverkið. Stutt fæðingarorlof eins og tíðkaðist þá og full vinna. Ég sé það núna fullorðin hversu mikil vinna það hefur verið að taka strætó með mig í leikskólann í Laugarásinn og svo áfram í vinnuna og sækja mig sömu leið síðla dags. Þú kvartaðir ekki frekar en fyrri daginn. Sama á hverju gekk þá varstu sterk kona ásamt því að vera metnaðarfull og ábyrg í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur.

Það var þér líka mikið kappsmál að ég stæði mig vel í öllu sem ég tæki mér fyrir hendur og varst svo metnaðarfull fyrir mína hönd. Þær eru óteljandi klukkustundirnar sem þú sast og hlýddir mér yfir fyrir próf. Alltaf hafðir þú tíma til að fylgja eftir próftöflunum. Það þýddi ekkert hálfkák þegar kom að menntun. Oftast fannst mér þetta nú óþarfi en þú gafst þig ekki og vildir spyrja mig út úr.

Það var gæfuspor þegar þú ákvaðst að koma litlu stelpunni þinni í dansskóla einungis tveggja ára. Ósérhlífin varstu með mér í danstímum fyrstu árin þangað til mér var treyst fyrir því að bæði muna eftir dansskónum og koma mér þangað sjálf. Þú og Heiðar Ástvaldsson kennduð mér að lífið væri meiri dans á rósum án áfengis. Ég man að ég sá þig í fyrsta og eina skiptið undir áhrifum áfengis þegar ég var 18 ára. Þú einfaldlega þurftir ekki á því að halda til að hafa gaman og njóta stundarinnar. Fyrirmynd alla leið.

Ein af uppáhaldsminningunum er þar sem við erum tvær í Langagerðinu að sinna sameiginlegri fíkn okkar að púsla við stofuborðið. Þar töluðum við um allt milli himins og jarðar svo tímunum skipti langt fram á nótt og gátum ekki hætt þó svo að skóli og vinna biði okkar morguninn eftir. Þvílíkar gæðastundir.

Ég man þegar þú fórst með mig í Iðnaðarbankann og sást til þess að ég stofnaði bankabók. Mikilvægi sparnaðar og virðingu fyrir peningum voruð þið afi dugleg að innprenta mér. Þegar ég fór að fá fyrstu útborguðu launin fyrir að bera út blöðin og barnapössun var alltaf fylgst vel með á hliðarlínunni.

Ég man að laugardagsmorgnar voru heilagir. Þá höfðu allir sitt hlutverk á heimilinu og þrifu saman. Þurrka af, ryksuga, strauja og skúra gólf voru eiginleikar sem áttu að prýða litlu stúlkuna og því kenndir þú mér handtökin. Vasapeningar og hrós ýttu undir námfýsi mína og metnað á þeim árum.

Vel virka stelpan ég skipti oft um áhugamál og ég man þegar ég var pennavinaóð hversu óeigingjörn á þinn tíma þú varst að hjálpa mér að skrifa á ensku og dönsku til jafnaldra minna út um allan heim. Svo ekki sé minnst á að greiða póstburðargjöldin. Eða þegar ég safnaði frímerkjum og fyrstadagsumslögum varstu komin með um hæl frímerkjabækur til að raða inn í. Sama átti við um glansmyndirnar.

Þú áttir ógrynni af servíettum síðan þú varst ung og auðvitað erfði ég þá söfnunaráráttu. Ég gekk milli húsa með vinkonunum og fékk gefins servíettur. Þegar heim var komið beiðst þú spennt og svo sátum við, röðuðum í box og það var sem lottóvinningur þegar við fengum sett (litla og stóra servíettu í stíl).

Ég man að ég átti ekki að verða ótímabært ólétt og því þegar ég eignaðist fyrsta kærastann voru málin rædd og ítrekað mikilvægi getnaðarvarna. Í beinu framhaldi fórum við saman til heimilislæknisins og fengum pilluna fyrir mig.

Ég man að þú vaktir eftir mér eftir böll eða um helgar. Varst ekki í rónni fyrr en ég var komin heim heilu og höldnu.

Ég man þegar þú tókst þér frí frá vinnu og passaðir Kolbrúnu mína svo ég gæti klárað háskólann. Ég man líka að þú pikkaðir inn heila ritgerð fyrir BS-gráðuritgerðarhópinn minn.

Ég man að þú stóðst alltaf við hlið mér og studdir í einu og öllu, sama hvað ég tók mér fyrir hendur. Eins ákveðin og þú varst reyndirðu alltaf að sjá til þess að ég tæki nú réttar ákvarðanir.

Þú kenndir mér að skarta þeim eiginleikum sem prýddu þig. Að vera góð við dýr og menn, kurteis, gjafmild og bera virðingu fyrir öðrum. Alltaf að hjálpa þeim sem minna mega sín og alltaf gera sitt besta í öllum aðstæðum.

Þú fékkst þinn skerf af veikindum og verkjum, sér í lagi síðustu sex ár. Sjúkdómsferlið var erfitt og krefjandi en þú tókst á við það með æðruleysi, auðmýkt og bjartsýni á aðdáunarverðan hátt. Ég man þegar þú sagðir á afmælisdaginn minn nú í byrjun árs að ég ætti að vera þakklát fyrir að hafa haft þig í öll þessi ár. Ég væri orðin 53 ára en þú hefðir nú bara verið fertug þegar þú misstir þína mömmu.

Já og ég er það. Þakklát fyrir allt og allt í gegnum árin okkar saman, allt súrt, sætt og fallegt. Þakklát fyrir þinn þátt í að fæða, klæða, ala og styðja mig í einu og öllu frá fyrstu mínútu. Þakklát fyrir styrk þinn og stuðning ávallt og fyrir það að vera alltaf til staðar fyrir mig og mína. Þín fótspor lifa um ókomna tíð í börnunum mínum, sem hafa fengið sinn skerf af ráðleggingum, leiðbeiningum og þeim eiginleikum sem þú innrættir mér og bjóst sjálf yfir.

Þín ávallt,

Halldóra Þórdís Friðjónsdóttir (Dóra Dís).