Ólöf Ingibjörg Haraldsdóttir fæddist 8. júlí 1931 á Seyðisfirði. Hún andaðist á hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi 8. febrúar 2020.
Foreldrar Ólafar voru Haraldur Jóhannesson vélstjóri, f. 22.10. 1903 á Eyrarbakka, d. 24.6. 1982, og Kristín Sveinsdóttir, húsfreyja og saumakona, f. 18.2. 1905 í Viðfirði, d. 23.11. 1991.
Alsystkini Ólafar eru Elín Sveindís, f. 23.11. 1929, d. 29.3. 2019, Óli Andri, f. 19.1. 1933, d. 27.8. 2009, Hreinn, f. 9.6. 1935, d. 10.8. 1985, Þórfríður Soffía, f. 22.2. 1937, Rósa, f. 27.6. 1938, Guðrún Elísabet Kjerúlf, f. 6.10. 1939, Jóhannes, f. 14.6. 1942, og Guðríður, f. 22.4. 1944. Hálfsystir samfeðra er Klara Sinkowits, f. 3.7. 1927, d. 8.7. 2015.
Þann 4. júní 1952 giftist Ólöf Þórarni Sigurjónssyni, bústjóra og alþingismanni, f. 26. júlí 1923, d. 20. júlí 2012. Foreldrar hans voru Sigurjón Árnason, f. 1891, d. 1986, og Sigríður Kristjánsdóttir, f. 1884, d. 1941.
Börn Ólafar og Þórarins eru: 1) Sigríður, f. 1953, gift Óla Sverri Sigurjónssyni, f. 1953. Börn þeirra eru Ólöf Inga, f. 1980 og Þórarinn, f. 1984. 2) Haraldur, f. 1954, kvæntur Þóreyju Axelsdóttur, f. 1949. Dætur þeirra eru Ólöf, f. 1982, og Dóra, f. 1988. Dóttir Þóreyjar er Svanhildur, f. 1970. 3) Kristín, f. 1956, gift Garðari Sverrissyni, f. 1959. Dóttir þeirra er Þorgerður Guðrún, f. 1990. Sonur Garðars er Sverrir, f. 1984. 4) Sigurjón, f. 1960, d. 1961. 5) Sigurjón Þór, f. 1962, d. 1964. 6) Ólafur Þór, f. 1965, kvæntur Malin Widarsson, f. 1969. Börn þeirra eru Elín Linnea, f. 1993, Anton Þór, f. 1996, Hanna Kristín, f. 1998, og Einar Árni, f. 2003. Barnabarnabörn Ólafar eru tíu talsins.
Ólöf ólst upp á Seyðisfirði og lauk þar skyldunámi. Að fermingu lokinni fluttist fjölskyldan í Kópavog. Eftir það vann hún ýmis störf, mest verslunarstörf. Einnig stundaði hún fimleika hjá fimleikadeild Ármanns. Ólöf stundaði nám við Hússtjórnarskóla Árnýjar Filippusardóttur í Hveragerði veturinn 1951-1952.
Vorið 1952 hófu Ólöf og Þórarinn búskap í Laugardælum, þar sem hún gerðist ráðskona og hann bústjóri við tilraunabú Búnaðarsambands Suðurlands. Hún starfaði um árabil sem ráðskona og sinnti jafnframt erilsömu húsmóðurstarfi á gestkvæmu heimili. Seinna leysti hún af ráðskonur þegar á þurfti að halda. Til margra ára starfaði hún á haustin hjá Sláturfélagi Suðurlands. Ólöf var einstaklega gestrisin og þótti fátt skemmtilegra en að fá fjölskyldu og vini í heimsókn. Í rúma fjóra áratugi sá hún um að halda Laugardælakirkju hreinni.
Ólöf var kvenfélagskona og tók virkan þátt í starfi Kvenfélags Hraungerðishrepps. Hún var formaður um árabil og gerð að heiðursfélaga þess 22. febrúar 2011.
Ólöf bjó í Laugardælum til ársins 2015 er hún flutti á hjúkrunarheimilið Fossheima á Selfossi.
Útför Ólafar verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 20. febrúar 2020, og hefst athöfnin kl. 13.
Ólöf fæddist árið 1931 í Bláhúsi á Seyðisfirði í húsi Elínar langömmu og
Jóhannesar langafa. En þau Elín og Jóhannes fluttu austur á Seyðisfjörð frá
Eyrarbakka árið 1903 með Harald afa okkar sem þá var á fyrsta ári. Bláhús
var kannski ekki háreistasta hús kaupstaðarins en þar var nokkurn veginn
alltaf rúm fyrir alla, fjölskyldan var stór en mjög samheldin. Þar ólst
Haraldur afi okkar upp ásamt 11 systkinum sínum. Foreldrar Ólafar, þau
Haraldur og Kristín, áttu samtals níu börn saman. Sjö börn fæddust á
Seyðisfirði en Elín sem var elst fæddist í Norðfirði og Guðríður sú yngsta
fæddist í Viðfirði. Afi og amma bjuggu á Seyðisfirði fyrstu búskaparár sín,
fyrst í Bláhúsi, síðan á Strönd og svo fluttust þau árið 1936 í Fjarðarsel
þar sem afi var vélstjóri.
Ólöf var næstelst systkina sinna en fór mjög ung að árum að bera ábyrgð á
barnahópnum og víst er að það hefur verið ærinn starfi og mikið lagt á
ungar herðar. Ólöf var hlý kona og umhyggjusöm og var móður sinni og
systkinum stoð og stytta. Leiksvæði barnanna í Fjarðarseli voru
lyngbrekkur, árbakkar og áin. Systkinin voru áræðin og úrræðagóð og það
munu víst vera ófá skiptin sem Ólöf dró bræður sína á þurrt land eftir
misheppnaðar tilraunir þeirra að ganga á vatni. Árið 1944 flutti
fjölskyldan að austan í Kópavoginn. Mikill húsnæðisskortur var í Reykjavík
á þessum tíma og húsnæði í boði var ýmist braggar frá hernum eða sumarhús í
útjaðri höfuðborgarinnar en það var einmitt sumarhús á Digraneshæðinni í
Kópavogi þar sem nú stendur Gerðarsafn sem varð heimili fjölskyldunnar
þegar þau komu að austan. Þegar fjölskyldan flutti suður varð Ólöf eftir
hjá langömmu á Seyðisfirði þar sem hún kláraði barnaskólann og fermdist en
kom svo ári síðar eða 1945 í Kópavoginn með Gauju yngstu systur sinni.
Fjölskyldan byggði svo íbúðarhús á Borgarholtsbraut í Kópavogi. Ólöf sinnti
ýmsum störfum þegar hún kom suður, vann í verslun, var í fimleikum hjá
Ármanni, var í Húsmæðraskólanum í Hveragerði. Hún réð sig sem kaupakona í
Mýrdalinn, í Pétursey, þar sem leiðir þeirra Þórarins lágu saman.
Ólöf giftist Þórarni Sigurjónssyni frá Pétursey og tóku þau við rekstri
tilraunabús Búnaðarsambands Suðurlands í Laugardælum árið 1952. Þórarinn
var bústjóri og Ólöf annaðist heimilishaldið sem var stórt. Það var gott að
vera í vist hjá þeim Ólöfu og Þórarni og ungt fólk laðaðist að staðnum og
oft var mikið fjör. Mikill gestagangur var í Laugardælum bæði í tengslum
við Laugardælabúið og eins vegna trúnaðarstarfa Þórarins sem þingmanns
Sunnlendinga og setu hans í stjórnum og nefndum víða um kjördæmið. Þau voru
af þeirri kynslóð sem byggði upp Ísland og lagði hornstein að
þekkingaruppbyggingu í landbúnaði, eins að byggja upp innviði samfélagsins
og það velferðarkerfi sem við njótum í dag og óhætt að fullyrða að þau hjón
lögðu mikið af mörkum í því sambandi.
Alla jafna var fjölmennt í Laugardælum, þar bjuggu einnig tvær systur
Ólafar, þær Rósa og Þórfríður, auk Einars og Klöru og barna þeirra og svo
starfsmanna tilraunabúsins. Í þessu fjölskyldusamfélagi ólumst við upp,
samtals 26 börn, við mikið frjálsræði og umburðarlyndi en sjálfsagt hefur
oft þurft ríkulegan skammt af þolinmæði þegar uppátæki og athafnasemi
krakkaskarans fór að verða með hressilegra móti.
Heimili þeirra Ólafar og Þórarins stóð opið fyrir öllum og allir voru þar
velkomnir. Umhyggjusemi Ólafar frænku okkar var mikil og það var alla tíð
sterkur strengur á milli hennar og systkinanna og fjölskyldna þeirra sem
voru tíðir gestir í Laugardælum. Þegar eitthvert barnanna veiktist kom hún
gjarnan í heimsókn með góðgæti, t.d. sínalkó og lakkrísrör sem hafði
ótrúlega jákvæð áhrif á heilsufarið og eins átti hún til að koma með
gúbbífiska svamlandi um í sultukrukku til að stytta sjúklingum stundir.
Reyndar var það nú svo að eftir því sem heilsa sjúklinganna fór batnandi
fór heilsufari gúbbífiskanna í þeirra umsjón verulega hrakandi. Þegar við
börnin vorum bólusett var barnahópnum í Laugardælum smalað saman á heimili
þeirra Ólafar og Þórarins. Það voru skrautlegar samkomur í minningunni. Við
sem vissum hvað var í aðsigi reyndum að sæta færi og fela okkur undir
rúmum, laumast út eða á bak við gardínur til að losna undan Bjarna gamla
lækni sem með sínar stórgripasprautur og nálar var kannski ekki sá
laghentasti að meðhöndla nálar og börn. Þá var nú gott að eiga góða að
þegar barnaskarinn háskælandi tókst á við þetta mikla áfall barnæskunnar.
Ólöf var þá tilbúin með kakó og köku og opinn faðm handa hverjum sem á
þurfti að halda.
Seinni árin þegar okkar börn fóru um hlaðið að hitta Laugardælabændur og
skoða hundana, kettina, hestana, kanínurnar og kýrnar kom Ólöf gjarnan út á
tröppur og kallaði á mannskapinn og nestaði með kleinum, íspinnum,
súkkulaði eða einhverjum álíka huggulegheitum. Það vantaði ekki í hana
frænku okkar að heimili hennar stóð öllum opið sem þangað komu og alltaf
tími í að taka móti gestum og spjalla enda gestrisni hennar mikil og hún
hafði einlægan áhuga á velferð fjölskyldunnar. Hún var góðviljuð og
frændrækin en gat einnig verið hnyttin í tilsvörum og kunni alveg að koma
fyrir sig orði en það var alltaf gefandi og ánægjulegt að vera í návist
hennar.
Ólöf stóð með sínu fólki og tók ávallt málstað fjölskyldunnar. Einhverju
sinni þegar minnst var á við hana að hann Sveinn afi hennar í Viðfirði
hefði jafnvel átt fullmikið af börnum á sama árinu með kannski of mörgum
konum, þá stóð Ólöf frænka með afa sínum. Skýringarnar voru augljósar. Hann
Sveinn afi hennar í Viðfirði hafi verið mjög fallegur maður og konur
almennt mjög áhugasamar um að kynnast honum vel. Hann hafi því lítið getað
að þessu gert en hann hafi alltaf viljað kannast við þau barnsbein sem
hann koma að og öll börn hafi verið velkomin! Þetta er dæmi um jákvæða sýn
Ólafar á aðstæður fyrri tíma sem enginn gat breytt.
Ólöf var elst þeirra systkina sem bjuggu hér á landi og var akkeri í lífi
systkina sinna og áhrifavaldur. Þau Óli Andri, Þórfríður og Rósa unnu á
Laugardælabúinu og settust síðar að í nágrenni við systur sína.
Frændgarðurinn var stór og sótti mikið í návist við þau Ólöf og Þórarin í
Laugardælum. Ólöf bjó í Laugardælum í tæp 65 ár og minning um hana og
Þórarin er samofin staðnum. Ólöf frænka okkar var mikilsvirt kona sem við
bræður minnumst með miklum hlýhug.
Blessuð sé minning hennar.
Haraldur og Ólafur Jónssynir