Helga Jóna Ásbjarnardóttir (Lilla Hegga) fæddist í Reykjavík 26. júlí 1943. Hún lést þriðjudaginn 18. febrúar 2020 á gjörgæsludeild Landspítalans.

Foreldrar: Ásbjörn Ó. Jónsson málarameistari, f. 20.júlí 1901 í Innri-Njarðvík, d. 24. apríl 1967 og Jórunn Jónsdóttir matráðskona, f. 2. mars 1920 í Bygggörðum, Seltjarnarnesi, d. 12. maí 2006. Helga Jóna átti fimm samfeðra systkini: Alma, f. 10. mars 1926, d. 18. júlí 2016, Bragi, f. 2. maí 1929, Þorbjörg Helga Ask, f. 25. maí 1932, d. 15. janúar 2002, Gyða, f. 8. desember 1935 og Pétur, f. 12. júní 1940, d. 17. júní 1941.

Helga Jóna giftist fyrri eiginmanni sínum, Agli Gunnlaugssyni dýralækni, f. 29. september 1936, d. 31. ágúst 2008, 15. febrúar 1964. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Auðunn Jóhannesson og Anna Teitsdóttir. Börn Helgu og Egils eru: 1) Þórbergur lyfjafræðingur, f. 29. mars 1963, maki: Guðbjörg Halldórsdóttir, f. 26. mars 1969. Börn þeirra: Hugrún, f. 9. maí 1990, maki: Birgir Þór Harðarson, f. 2. júlí 1989, Ólafur Jóhann, f. 11. febrúar 1992, maki: Sylvía Björgvinsdóttir, f. 10. janúar 1993, Ásdís Helga, f. 16. desember 1994, maki: Eiríkur Ingi Magnússon, f. 8. ágúst 1991. 2) Jórunn Anna flugfraktmiðlari, f. 10. febrúar 1965, fyrri eiginmaður Robert Rydland, f. 1. ágúst 1959, börn þeirra: Silje Marie Rydland, f. 19. nóvember 1990, maki: Mats Andreas Karlsen, 19. júlí 1992, barn þeirra: Óðinn Karlsen, f. 29. apríl 2019; og Egill Rydland, f. 27. júní 1995. Sambýlismaður Jórunnar: Thomas Evegård, f. 22. ágúst 1968. 3) Gunnlaugur landbúnaðartæknifræðingur, f. 19. maí 1971.

Seinni eiginmaður Helgu var Grétar Leví Jónsson smiður, f. 1. júlí 1936, d. 24. maí 2013. Foreldrar hans voru Jón Leví Sigfússon, f. 6. maí 1885, d. 8. febrúar 1957 og Bogey Ragnheiður Guðmundsdóttir, f. 12. desember 1905, d. haustið 1943. Börn Helgu og Grétars eru: 1) Ragnheiður Jóna Leví, ferðamálafræðingur og húsasmiður, f. 31. janúar 1975, maki: Gísli Rafn Jónsson bifreiðarstjóri, f. 20. apríl 1964. Börn þeirra eru: Grétar Rafn Leví, f. 18. júní 2014 og Bogey Björk Leví, f. 28. nóvember 2016. Fyrir átti Gísli þrjú börn. 2) Ásbjörn Leví, 9. mars 1976, trésmiður og tæknimaður.

Börn Grétars af fyrra hjónabandi og stjúpbörn Helgu Jónu eru: 1) Jón Leví vélstjóri, f. 19. mars 1959. Börn hans með fyrri maka: Jón Grétar Leví, f. 27. febrúar 1981, maki: Ösp Ásgeirsdóttir og þeirra börn: Hreiðar Ægir Leví, Óðinn Logi Leví og Iðunn Vala; Aníta Linda Leví, f. 4. október 1985, maki: Stefan Schulz, börn þeirra: Emilý Rós Schulz og Andrea. Núverandi eiginkona Jóns: Harpa Rannveig Helgadóttir, f. 15. mars 1975. Eiga þau soninn Andra Leví, f. 23. janúar 2010. Stjúpdóttir Jóns: Sylvía Dröfn, 28. júlí 1975, börn hennar: Sunna Mjöll, hennar börn: Lydia Mary og Benjamin Hayde; Fannar Andri og Katrín Ósk. 2) Bogi Elvar Grétarsson, starfsmaður íþróttahúss, f. 17. júlí 1960, maki: Bryndís Bragadóttir, f. 11. desember 1959. Synir: Eysteinn Sindri, f. 11. ágúst 1985, maki: Kara Tryggvadóttir og synir þeirra Björn Bogi og Maron;  Frans, f. 14. ágúst 1990 og dóttir hans Amelía Mist. 3) Björn Rósberg stýrimaður, f. 14. júlí 1967. Börn hans: Sunneva Mist, f. 23. september 1993; Brando Blance, f. 28. janúar 2001; Alexía Karen, f. 3. janúar 2004; Arín Hekla, f. 16. febrúar 2009; Elmar Axel, f. 10. júní 2010.

Helga Jóna stundaði nám í Ísaksskóla 1949-1950 og Melaskóla 1950-1956. Helga Jóna varð gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1960. Hjúkrunarforskólanám í Hannover 1960-1962. Útskrifuð úr Sjúkraliðaskóla Íslands 1981. Sérnám í almennri geðheilsufræði 1988. Námskeið: Hjúkrun krabbameinssjúklinga 1991, hugmyndafræðilegur grunnur að skipulagsbreytingum á Kópavogshæli 1994, aðhlynning mikið veikra í heimahúsum 1995, lyfhrifafræði, nám í geðhjúkrun 1999. Og ýmis önnur námskeið.

Vann sem sjúkraliði á St. Jósefsspítala, Hafnarfirði; Vífilsstöðum; Hrafnistu, Hafnarfirði; endurhæfingar- og hæfingardeild Landspítala, Kópavogi;  geðdeild, Vífilsstöðum; Geðdeild 13, Kleppi, hún vann þar til 2008 en lét svo af störfum vegna veikinda og aldurs.

Var í ritnefnd og skemmtinefnd Sjúkraliðafélags Íslands 1982-1986. Yfirtrúnaðarmaður sjúkraliða á Vífilsstöðum og Hrafnistu 1981-1990. Sat í stjórn starfsmannaráðs Landspítala og í orlofsbústaðanefnd Ríkisspítala. Og ýmis önnur trúnaðarmannastörf og stjórnunarstörf í gegnum starfsævina.

Helga Jóna, Lilla Hegga, var fræg sögupersóna í bókinni Sálmurinn um blómið eftir Þórberg Þórðarson, sem kom út í tveimur bindum, árin 1954-1955.

Útför Helgu Jónu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 28. febrúar 2020, og hefst athöfnin kl. 11.

Á lífsleiðinni mætum við mörgu fólki sem hefur áhrif á líðan manns og tilfinningar. En örfáir fá þann sess að verða eilífir, eins og þeir verði alltaf til og muni fylgja manni ævina á enda. Í mínum huga er Helga Jóna Ásbjarnardóttir ein af þeim, þessi hressa, einlæga og ákveðna kona, sem alltaf kom á móti mér með opinn faðminn, hlæjandi og skínandi af væntumþykju og ástúð. Það var á milli okkar einhver ósýnilegur þráður spunninn saman af virðingu fyrir hinu liðna, lífsreynslu hennar sem tengdist Halauppeldinu og samverustundum með Þórbergi og Margréti og ástríðu minni fyrir stórkostlegum frásögnum Þórbergs Þórðarsonar af litlu manneskjunni í Sálminum um blómið, svo og öðrum óskyldum verkum hans.


Helga Jóna var sögupersóna sem ég kynntist fyrst af afspurn, en hún dvaldi mörg sumur á Hala í Suðursveit sem barn og unglingsstúlka. Samskipti okkar hófust fyrir alvöru þegar ákveðið var að reisa minningarsetur um Þórberg Þórðarson og verk hans. Þá fékk ég einn daginn skemmtilegt símtal. Ég heyri enn hvella rödd Helgu Jónu þar sem hún spyr skýrt og skorinort: Hvað á að fara að gera á Hala? Síðan segir hún: Ég verð að segja þér draum sem mig dreymdi. Ég var á Hringbrautinni hjá Þórbergi og Margréti, þau voru að fara að halda veislu. Margrét var aldrei þessu vant svo róleg, sagðist ekki þurfa að gera neitt og Þórbergur svo glaður og reifur. Helga mín þú verður að vera með í veislunni, sagði Þórbergur. Þess vegna hringi ég nú í þig. Þau vilja að ég verði með.
Þetta samtal var dæmigert fyrir Helgu Jónu, og hún fylgdi okkur svo sannarlega eftir á þessari göngu og hvatti okkur með ráðum og dáð. Alltaf mátti finna hve mjög hún elskaði og dáði Mömmugöggu og Sobbeggi afa og hversu viss hún var um að þau væru ávallt að leiðbeina henni í gegnum lífið. Þegar hún sagði sögur af þeim varð rödd hennar einlæg og svolítið titrandi, hún varð undirleit og svipurinn kankvís, - en andlitið ljómaði og oftar en ekki kom léttur hlátur í lokin. Hún var litla stelpan í lífi þeirra, en um leið var hún sögupersóna í frægri bók, sem var ekki alltaf auðvelt hlutskipti fyrir barnið, unglingsstúlkuna né fullorðna konuna að takast á við. Litla manneskjan varð ,heimsfræg um allt Melahverfið og líka á Grímsstaðarholtinu, og jafnvel í Kamp Ox, þar sem er þó erfitt að vera heimsfrægur.

Suðursveitin á líka sínar sögur er tengdust lífinu hennar Lillu Heggu. Sobbeggi afi sagði nefnilega alltaf, að heimurinn hefði tvær hliðar, og það var með þær eins og hliðarnar á tunglinu, önnur þeirra sést bara ekki. Halasögurnar þeirra spaughjúanna Þórbergs og Lillu Heggu eru því ómetanlegar lífsreynslusögur, þar sem sagt er frá báðum hliðum, þær hafa mikla dýpt eins og fallegt málverk. Þar er sagt frá sálarlífi hundaþúfnanna, draugnum í hlöðunni, skuplugrautnum á Kálfafelli, útburðinum í Ullarhraunsgjögrinu, kríulandinu og Kvennaskálasteininum sem talar, Virðingarbala og Helghól, dásemdum Öræfajökuls, en einnig frá öllu hinu smáa í daglega lífinu sem varð að stórviðburðum á vörum fólksins.

En nú er lífið alltaf að verða öðruvísi og öðruvísi á Íslandi. Þegar Helga Jóna kom síðast í heimsókn í Þórbergssetur fann ég að hún var sátt við að vera persóna í því einstaka listaverki sem Sálmurinn um blómið er, hlutverk sem reyndar hlýtur að hafa mótaði allt hennar líf, - hverja stund. En um leið var hún þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast öllu þessu góða fólki sem umkringdi hana, að heyra sögurnar og njóta lífspeki Þórbergs og Margrétar og að taka þátt í allri gleðinni og skemmtilegu stundunum á Hala. Það voru hennar fallegu orð þegar hún kvaddi okkur. Þau orð ylja nú þegar lífið varð ,allt í einu svo hverfult að hún er ekki lengur meðal okkar. Ekki datt mér þá í hug að við værum að faðmast í síðasta sinn, því það var svo margt ósagt. En eins og hendi er veifað er sálin hennar Helgu Jónu, - eins og sál snjóstúlkunnar í ævintýrinu fagra, - nú svifin á vængjum vestanvindsins til þeirra sem hún elskar, þar sem alltaf er sólskin og eilíft sumar. Blessuð sé minning Helgu Jónu Ásbjarnardóttur.

Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergssetur.