Þorbjörg Elsa Magnúsdóttir fæddist að Laugavegi 70 í Reykjavík 1.9. 1928. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund við Hringbraut 1.3. 2020.

Foreldrar hennar voru hjónin Magnús Skúlason, vélstjóri og trésmiður, frá Fossi í Mýrdal, f. 1896, d. 1963, og Guðrún Magnúsína Valgerður Pétursdóttir húsmóðir, f. á Stuðlum í Reyðarfirði 1905, d.1987. Elsa var elst þriggja systkina, Gunnar Sigurður, listmálari í Reykjavík, f. 1930, d. 2015, og Ásdís Sigrún, húsmóðir í Reykjavík, f. 1932, d. 2017. Fóstursystir og frænka var Rakel Kristín Malmquist, húsmóðir í Skerjafirði, f. 1924.
Elsa giftist 29.7. 1948 Ásmundi Friðriki Daníelssyni, flugvirkja og síðar flugvélstjóra í Reykjavík, f. 4.9. 1919, að Dalsá í Gönguskörðum, Skagafirði, d. 19.12. 2001. Foreldrar hans voru hjónin Daníel Davíðsson úr Vatnsdal, ljósmyndari á Sauðárkróki, síðar bóndi, síðast að Syðri-Ey, A-Hún. og Magnea Aðalbjörg Árnadóttir húsmóðir úr Fljótum í Skagafirði.
Elsa og Ásmundur eignuðust þrjú börn: 1) Valgeir Már, vélstjóri, f. 2.12. 1948. Var kvæntur Rósu Kristmundsdóttur, bókari og skrifstofumaður, f. 13.4. 1956. þau skildu. Dætur þeirra eru: a) Bryndís, f. 27.8. 1976, eiginm. Styrmir Geir Jónsson, f. 22.9. 1976. Þeirra börn: Valgeir Rafn, f. 8.10. 2007, Katrín Rósa og Margrét Silja f. 1.2. 2012. b) Ása Björg, f. 24.12. 1978, sambýlism. Sverrir Freyr Þorleifsson, f. 10.3. 1975. c) Salvör, f. 24.4. 1985, sambýlism. Gísli Bjarki Guðmundsson Gröndal, f. 31.3. 1984. 2) Magnea Þórunn, myndlistarmaður og kennari, f. 7.12. 1952. Var gift Pétri Hauk Guðmundssyni, tæknifræðingi, f. 6.7. 1948. Þau skildu. Dætur þeirra og fóstursonur eru: a) Ásdís Elva, f. 5.11. 1972. Eiginm. Hallgrímur Ólafsson, f. 23.4. 1970. Þeirra börn: Ísabella Ýrr, f. 24.5. 1997, Kormákur Logi, f. 2.1. 2001. b) Árdís Ösp, f. 21.4. 1981. Eiginm. Destiny Mentor Nwaokoro, f. 16.2. 1988. Þeirra barn: Pétur Uzoamaka Mentor Destinysson, f. 5.7. 2018. c) John Michael Doak, f. 26.9. 1964. Sambýliskona Ágústa Erla Þorvaldsdóttir, f. 14.8. 1965. 3) Friðrik Smári, tölvunarfræðingur HÍ, MSc DCNDS frá UCL, f. 22.1. 1965. Sambýlisk. Vigdís Þórisdóttir bæklunarskurðlæknir, f. 7.3. 1965. Þeirra dóttir: Snædís Eva, f. 9.12. 2004.
Elsa flutti í Skerjafjörð á fyrsta mánuði með foreldrum sínum að Þrúðvangi í Skildinganesi og hafði þar um slóðir heimilisfesti síðan, að undanskildum 2 árum um fermingu og síðustu 5 árunum sem hún dvaldi á Grund við Hringbraut. Í bernsku og æsku dvaldi hún á sumrum að Hólmum í Reyðarfirði hjá móðurömmu sinni og fósturafa frá 12 til 14 ára allt árið og gekk þá í farskóla. En hér syðra gekk hún í Skildinganesskóla. Fór 1944 ásamt Gunnari bróður í skólann á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, þaðan sem hún dúxaði. Síðan í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og Húsmæðraskólann í Reykjavík. Elsa tók meirapróf bifreiðarstjóra og rútupróf. Vann hún m.a. í matvöruverslunum og hjá Íslenskum heimilisiðnaði. Einnig við að bera fram veitingar í veizlum. Hannyrðir og söngur voru henni hugleikinn. Hún söng í kór kvennadeildar Slysavarnafélagsins, síðan í kirkjukór Hallgrímskirkju og í kirkjukór Langholtskirkju. Náttúruunnandi var hún mikill og blóm og kisur í miklu uppáhaldi. Hún naut sín vel í ferðalögum innanlands með fjölskyldu og vinum. Og þau hjónin ferðuðust einnig víða erlendis.
Útför Elsu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 12. mars 2020, klukkan 15.

Ég velti því fyrir mér hvernig best sé að setja minningar um ömmu Elsu á blað. Það má að minnsta kosti ekki vera leiðinlegt né of venjulegt. Því amma var hvorugt. Kannski er best að lýsa henni sem litríkri manneskju sem lét sér annt um samferðafólk sitt. Hún hafði mörg áhugamál og flokkast í mínum huga sem eftirminnileg manneskja. Að vera með ömmu var eins og að vera í ævintýri. Ekki rökrétt, en alltaf áhugavert.
Þegar ég var lítil minnti heimili hennar mig á frumskóg. Í hennar augum var húsið fullt af fjársjóðum. Skart, föt og garn fylltu marga poka. Hvert sem litið var var fullt af dóti. Það bjuggu einnig alltaf nokkrir styggir kettir hjá ömmu og afa. Blóm, afleggjarar og fræ voru áberandi. Á eldhúsbekknum voru raðir af litlum krukkum með afleggjurum í. Í stofunni voru blóm í hverri hillu sem og í öllum gluggakistum. Helmingur þess sem var í ísskápnum hennar var fræ. Fræ sem ég handlék í hvert sinn sem ég fékk leyfi til að þrífa ísskápinn og henda löngu úreltum hlutum. Hún vissi alveg upp á hár hvaða fræ voru í hvaða poka, gat sagt mér allt um þau og hvernig þau myndu blómstra, en ég man ekki eftir að neitt þeirra færi lengra en í ísskápinn.
Það var auðvelt að gleðja ömmu, bara að færa henni blóm sem mér hafði næstum tekist að drepa gladdi hana mjög. Hún nostraði við það og kom nokkrum mánuðum síðar með glæsilega plöntu sem hryllti sig við að lenda aftur í minni umsjón.
Amma átti ekki alltaf auðvelt líf. Erfiðast var örugglega þegar mamma hennar yfirgaf fjölskylduna þegar amma var unglingur. Eins veit ég að hún, líkt og margar konur, lenti í fordómum og var stoppuð þegar hún reyndi að láta drauma sína rætast. En amma stoppaði sig nú líka sjálf.
Ég tók eftir því að amma gaf alltaf góð ráð en fór sjaldan eftir annarra manna ráðum. Hún vildi ekki vera til ónæðis en tókst samt alltaf að vekja á sér athygli. Amma kunni öll þrifnaðarráðin en þreif helst ekki. Amma fylgdist líka með tísku, straumum og stefnum en klæddi sig í furðulegustu litasamsetningar sem ég hef séð.
Hún var ætíð með puttann á púlsinum þegar tónlist var annars vegar. Þegar hún heyrði nýja íslenska tónlist spilaða í útvarpinu spurði hún ætíð hver væri að syngja eða hvaða hljómsveit þetta væri. Hún var einlægur aðdáandi Bjarkar alveg frá fyrstu tíð. Amma áttaði sig nefnilega strax á ef einhver var að fara á móti straumi. Væri að koma með nýja stefnu og sýn. Best þótti henni ef fólk var svolítið á móti. Smá anarkismi var aðdáunarefni hennar. Sjálf samdi hún fegurstu ljóð og sumt var gefið út. En ömmu fannst ljóðin sín oft ekki nægilega góð. Líklega vildi hún vera róttækari.
Amma var aktívisti. Ég og hin barnabörnin eignuðumst hlutabréf í Kvennalistahúsinu og fengum að heyra ýmislegt um málefni kvennahreyfingarinnar. Hún fylgdist vel með framgöngu kvenna á Alþingi og studdi þær eins mikið og hún gat. Eflaust hafa því fylgt væn fjárútlát. Því að amma gaf ef hún gat. Eflaust gaf hún þeim aðeins of mikið. Amma gaf nefnilega stundum of mikið.

Amma var söngkona, ljóðskáld, steinasafnari, kvennréttindabaráttukona, kattakona, með græna fingur, húsmæðraskólagengin hannyrðakona, með meirapróf, fyndin, þrjósk, eyðslusöm og nægjusöm. Og alltaf tilbúin að læra eitthvað nýtt. Annaðhvort nýtt fag eða bara eittthvað um heiminn almennt. Já hún amma var mjög gáfuð kona. Þó ég væri stundum hissa hvernig hún notaði þær gáfur. Á stundum var hún með í öllu. Hún tók þátt í kórastarfi, skrifaði ráðamönnum pistilinn ef hún taldi þá geta gert betur, heimsótti vini og ættingja (oftast án þess að gera boð á undan sér), leit til með nágrönnunum og var lítið heima við. Aðra daga fór hún varla út úr húsi og var lítið á ferð, sást varla. Nema á næturnar þegar hún naut þess að vera ein með blómunum sínum. Þá söng hún heilu aríurnar fyrir blómin og samdi ljóð og pistlana góðu. Hún gat einnig tekið upp á því að vekja einhvern af djúpum svefni til að lesa fyrir þá það sem hún hafði samið. Við mismikla gleði þess sem var vakinn. En það var ekki hægt að vera ömmu reiður, hún vildi engum neitt illt.
Hún var alltaf sönn. Ef hún sýndi þér áhuga þá hafði hún alvöru áhuga, amma var aldrei með neina tilgerð. Mesta athygli fengu þó þeir sem urðu undir í þjóðfélaginu. Þú fékkst óskipta athygli ef amma taldi sig geta hjálpað. Það átti við fólk, málleysingja og plöntur.
Ég held að amma hafi ekki vitað hve flott kona hún var í raun.
En ég veit það!
Við sjáumst í Paradísardalnum amma mín.


Syngdu

Ef þér finnst þín veröld vera,
vonlaus eins og ónýtt blað.
Syngdu eins og lungun leyfa,
líka dálítið eftir það.

Mun þá aftur sól þig sveipa
sinni fögru geisladýrð.
Í þig andblæ, orku hleypa.
Orkan verður naumast skírð.

Söngur er í sinni þínu
sífellt bæði dag og nótt.
Burtu hrekur hverja pínu,
hverfa sorgir allar skjótt.

Syngdu eins og lungun leyfa,
líka dálítið eftir það.
Syngdu eins og lungun leyfa.
Líka mikið eftir það.

(Þorbjörg Elsa.)

Ásdís Elva Pétursdóttir.