Ragnar Bjarnason fæddist í Reykjavík 22. september 1934. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 25. febrúar 2020. Foreldrar hans voru Bjarni Böðvarsson tónlistarmaður, einn af stofnendum og fyrsti formaður FÍH, fæddur 21. nóv. 1900, látinn 21. nóvember 1955 og Lára Ingibjörg Magnúsdóttir, húsfreyja og söngkona, fædd 4. okt. 1903, látin 25. des. 1989. Systkini hans eru: Ómar Örn Bjarnason, fæddur 16. des. 1932, látinn 18. ágúst 1946 og Dúna Bjarnadóttir, fædd 11. júní 1936.
1954 kvæntist Ragnar fyrri eiginkonu sinni, Gerði Ólafsdóttur. Börn þeirra eru: 1) Bjarni Ómar, eiginkona hans er Ragna Kristín Marinósdóttir. Börn þeirra: 1) Ragnar Bjarnason, 2) Sævar Bjarnason, látinn, 3) Hrönn Bjarnadóttir. Bjarni og Ragna eiga tvö barnabörn. 2) Kristjana Ragnarsdóttir, eiginmaður hennar er Örn Ingi Ingvarsson. Börn þeirra eru: 1) Þorgerður Anna, 2) Ingvar, 3) Kolbrún, 4) Hjördís, 5) Örn. Kristjana og Örn eiga þrettán barnabörn og tvö barnabarnabörn.
1966 kvæntist Ragnar eftirlifandi eiginkonu sinni, Helle Birthe Bjarnason. Sonur þeirra er Henry Lárus, eiginkona hans er Kristbjörg Ragnarsson. Börn þeirra: 1) Lára Ingileif, 2) Aron Ragnar, 3) Alex Evan.
Ragnar á langan feril að baki sem tónlistarmaður og hóf feril sinn sem trommari upp úr fermingu og spilaði m.a. með hljómsveit föður síns. Ragnar söng fyrst opinberlega með Sigurði Ólafssyni og hljómsveit föður síns í útvarpssal 16 ára.
Hann söng með mörgum hljómsveitum. Á árunum 1955-56 söng hann með Hljómsveit Svavars Gests, 1957-59 söng hann með KK sextettinum en fór þá yfir í Hljómsveit Björns R. Einarssonar. Árið 1960 söng hann lagið sívinsæla „Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig“ inn á plötu. Árið 1962 fór hann til Danmerkur og flutti tónlist víðs vegar um Norðurlöndin ásamt Kristni Vilhelmssyni. Ragnar flutti aftur til Íslands 1964 þegar Hljómsveit Svavars Gests varð húshljómsveit í Súlnasal Hótels Sögu og tók við sem hljómsveitarstjóri 1965 þegar Svavar hætti. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar var húshljómsveit í Súlnasal í 19 vetur. Ragnar stofnaði Sumargleðina 1972 sem fór um landið og skemmti landsmönnum í 15 ár með skemmtidagskrá og dansleikjum. Á þessum árum söng Ragnar inn á fjölmargar hljómplötur og var tíður gestur í útvarpi og sjónvarpi.
Þegar Ragnar hætti á Hótel Sögu sinnti hann ýmsum störfum, m.a. var hann sölumaður hjá Sveini Egilssyni, rak söluturn, bílaleigu og var útvarpsmaður á Aðalstöðinni og FM957.
Hann hætti nánast að syngja um tíma eftir þetta, en um sjötugt byrjaði hann af fullum krafti að nýju í góðu samstarfi við vin sinn Þorgeir Ástvaldsson. Hann gaf út nokkrar hljómplötur á þessum tíma, sem flestar fengu frábærar móttökur. Síðan þá hefur hann haldið tónleika, sungið og skemmt landsmönnum við hin ýmsu tækifæri. Sérstaklega er eftirminnilegt lagið „Þannig týnist tíminn“ eftir Bjartmar Guðlaugsson sem hann söng með Lay Low og var valið óskalag þjóðarinnar af áhorfendum sjónvarpsins. Sýningin Elly var sýnd fyrir fullu húsi nokkur misseri og kom Ragnar fram í lok nánast allra sýninga og söng lög með Katrínu Halldóru Sigurðardóttur sem lék Elly. Síðustu tónleikar Ragnars voru haldnir fyrir fullum Eldborgarsal Hörpu 1. september sl. þegar hann fagnaði 85 ára afmæli sínu en áður höfðu tvennir tónleikar verið haldnir sl. vor.
Ragnar hlaut margar viðurkenningar, m.a. viðurkenningu Stjörnumessu DV og Vikunnar 1980 sem söngvari ársins í 30 ár, heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 1994, sæmdur gullmerki FÍH 2004, sæmdur fálkaorðu 2005, borgarlistamaður Reykjavíkur 2007 og nú síðast heiðurslaun listamanna samkvæmt tillögu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis 2019.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Vorið 2015 greindist ég með góðkynja heilaæxli sem tókst að fjarlægja
en hafði þær afleiðingar að ég missti sjónina þar sem báðar sjóntaugar
eyðilögðust. Líf mitt gjörbreyttist, en ekki allt til hins verra því ég
ákvað við þessi kaflaskil að láta gamlan draum rætast og fór að vera með
uppistand og semja og leika í grínmyndböndum. Ég hef fengið marga
mæta menn til að leika með mér þar á meðal Ara Eldjárn, Kristján
Jóhannsson, Kára Stefánsson og sjálfa goðsögnina Ragnar Bjarnason.
Í maí 2018 hringi ég í Ragga Bjarna og spyr hvort hann sé til í að
leika með mér í grínmyndbandi sem ég muni síðan sýna í
sjálfsbjargarheimilinu í Hátúni 12 þar sem ég bý. Raggi segist strax vera
til í að koma og skemmta íbúum heimilisins og spyr hvort sé píanó á
staðnum. Ég segi svo vera og að vissulega væri gaman ef hann gæti
komið þangað síðar og skemmt en nú snúist þetta um að taka upp
myndband. Raggi tekur vel í það og ég segist geta komið til hans en hann
segir minnsta mál að koma til mín þar sem hann sé alltaf á ferðinni. Ég
segi honum að annaðhvort munum við taka upp í Hátúni eða á
Seltjarnarnesi hjá móður minni. Hann segir að það sé mikið að gera hjá
honum núna og biður mig að hafa samband síðar til að ákveða dag.
Í júní hringi ég aftur í Ragga Bjarna til að athuga hvenær sé best að taka
upp en þá kemur í ljós að hann hefur fengið skurð á höndina. Nánar til
tekið þá vinstri sem er í umbúðum. Við erum hjartanlega sammála um
að ekki sé við hæfi að vera með höndina í umbúðum á myndbandinu og
ákveðum að fresta tökum í nokkrar vikur. Í millitíðinni fer ég með móður
minni Önnu Valdimarsdóttur til Edinborgar þar sem hún fagnaði
stórafmæli og ég fjárfesti í stökum sparijakka sem mér fannst upplagt að
klæðast í myndbandinu með Ragga Bjarna. Enda mjög flottur jakki.
Í júlí hringi ég aftur í goðið og hann segist vera orðinn góður í hendinni og til
í slaginn. Ég nefni að upptökur muni fara fram heima hjá móður minni á
Seltjarnarnesi og hún ætli að bjóða upp á kaffi og pönnukökur. Ragga líst
vel á það. Segist vera vel kunnugur á Nesinu þar sem fjölskylda hans hafi
átt sumarbústað þar í den og við ákveðum að hittast á frídegi
verslunarmanna klukkan fjögur. Raggi biður mig um að hringja í sig upp
úr hádeginu þann sama dag til að minna sig á og með það kveðjumst við.
Frídagur verslunarmanna rennur upp og tíu mínútur yfir eitt hringi ég í
Ragga til að minna hann á að nú sé stóra stundin að renna upp. Hann
spyr hvort það sé píanó á Sjálfsbjargarheimilinu svo að hann geti
skemmt íbúunum en ég segi að þetta snúist um að gera myndband sem
við tökum upp heima hjá móður minni. Og þá segir Raggi: Nú, þú ert þá
að gera þetta fyrir móður þína. Ég neita því og segi sem satt er að ég sé
að gera þetta fyrir íbúana í Hátúninu. En mér tekst ekki að sannfæra
Ragga sem spyr að bragði: Viltu ekki bara segja eins og er? Þú ert að
gera þetta fyrir hana móður þína. Og þá kemur á mig hik. Ég fæ á
tilfinninguna að Raggi sé að fara að hætta við og met því stöðuna þannig
að ekki sé um annað að ræða en fórna mömmu. Jú, þetta er alveg rétt hjá
þér, segi ég upphátt. Ég er að gera þetta fyrir móður mína. Raggi þegir
stundarkorn en segir síðan: Jæja ég var víst búinn að lofa þessu þannig
að ég verð að standa við það. En konan mín kemur með. Alveg
sjálfsagt, segi ég og anda léttar. Hringi í mömmu sem hefur gaman af
framvindu mála þótt hún fái smástresskast yfir að ekki sé nógu vel til
tekið hjá henni, nú þegar von sé á frúnni.
Ég er mættur út á Nes með Bjarnfreði einum af mínum bestu vinum sem
ætlar að smella mynd af Ragga og móður minni. Einhverra hluta vegna
treystir hún mér ekki til þess Á slaginu fjögur birtast Raggi og frú og
þau eru varla stigin inn úr dyrunum þegar Raggi lýsir yfir að hann sé á
hraðferð, þurfi að vera mættur á fund í Hörpu klukkan hálffimm. Ég læt mér ekki
bregða, þykist vita að hann vilji bara tryggja sér útgönguleið ef á þurfi
að halda. Klæði mig í jakkann og næ í móður mína inn í eldhús þar sem
hún er enn að sýsla við pönnukökurnar. Ég og Raggi stillum okkur upp
með hangandi hendi, móðir mín stillir símann á upptöku og Raggi byrjar
að syngja Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig meðan ég horfi á hann
í blindri aðdáun. Hann biður mig um að taka undir í lokalínunum og þarf
svo sannarlega ekki að biðja tvisvar. Að loknum tökum spyr móðir mín
hvort hún megi ekki bjóða hjónunum að taka með sér nokkrar
pönnukökur en þá er Raggi orðinn allur afslappaðri og segir þau hafa
tíma til að setjast niður smástund. Og við vorum ekki fyrr sest við
uppdekkað borðið með rjúkandi kaffi og rjómapönnsur og upprúllaðar
pönnsur fyrir framan okkur en Raggi komst í essið sitt. Minntist ekki orði á
fund í Hörpu heldur sagði okkur hverja skemmtilegu söguna á fætur
annarri. Og þegar kom að kveðjustundinni féllumst við í faðma.
Valdimar Sverrisson, ljósmyndari/uppistandari.