Hrafnhildur Halldórsdóttir fæddist í Hafnarfirði 8. febrúar 1931. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 14. mars 2020. Foreldrar hennar voru Margrét Sigurjónsdóttir, f. 20.9. 1906, d. 22.2. 1998, og Halldór M. Sigurgeirsson, f. 27.10. 1902, d. 8.11. 1997. Systkini: Þorleikur, f. 1932, d. 1940, Jónfríður, f. 1942, maki Tómas Guðnason, og Margrét f. 1944, maki Magnús Jónsson.
Hrafnhildur gekk í hjónaband með Jóhannesi Péturssyni, f. 1.11. 1926, d. 11.4. 1989, loftskeytamanni og harmonikkuleikara, hinn 10. desember 1960. Þau hófu búskap í Eskihlíð 15 en fluttu í nýbyggt hús sitt á Lindarflöt 8, Garðabæ, í ágúst 1965. Eftir að Jói féll frá hélt Hadda heimili að Lyngmóum 5 þar til hún flutti á Sóltún í lok árs 2018.
Börn þeirra eru: 1) Hildur, f. 10.3. 1961, maki Jóakim Hlynur Reynisson. Dætur: a) Lydía Rósa, f. 1985, dóttir hennar og Ernu Georgsdóttur: Emilía Rós, b) Helga, f. 1988, maki Erlendur Sveinsson, dóttir: Melkorka Úa, c)Una Sólveig, f. 1992, maki Daniel Byung-chan Roh, d) Hrafnhildur, f. 1994, unnusti Thomas Whitehead. 2) Þorleikur, f. 22.4. 1962, maki Helga Melsteð. Börn: a) Jóhannes, f. 1985, maki Elín Arna Aspelund, dóttir: Helga Daðína, b) Helgi, f. 1990, maki Maarja Nuut, c) Þórhildur, f. 1994, maki Björgvin Andri Björgvinsson. 3) Halla Margrét, f. 24.3. 1965, maki Sólmundur Már Jónsson. Börn: a) Jóhannes Kári, f. 1997, b) Laufey, f. 2002, c) Teitur, f. 2004. 4) Ólafía Ása, f. 9.7. 1971, maki Sigurður Garðar Kristinsson. Börn: a) Steiney, f. 1996, unnusti Finn Schofield, b) Garðar, f. 1997, unnusta Margrét Snorradóttir, c) María Kristín, f. 2003, d) Hrafnhildur Halla, f. 2006.
Hrafnhildur lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla vorið 1948. Haustið 1949 fór hún til náms í Húsmæðraskóla í Stokkhólmi og vann svo nokkur misseri í Loftskeytastöðinni í Gufunesi. Hún útskrifaðist húsmæðrakennari frá HKÍ 1956 og fór til framhaldsnáms við Háskólann í Árósum veturinn 1956-57. Hún kenndi við Húsmæðraskólann á Laugalandi 1957-58 og við Flensborgarskóla 1958-60. Einnig kenndi hún við Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Hún var heimavinnandi meðan börnin voru yngri og sá um kynningar og fræðslu fyrir ýmis matvælafyrirtæki. Hrafnhildur kenndi heimilisfræði við Valhúsaskóla í nokkur ár og tók þátt í að setja á laggirnar kennslueldhús í Garðaskóla og kenndi þar til ársins 1999.
Hrafnhildur sinnti börnum og heimili af elsku og útsjónarsemi og naut menntunarinnar sem hún hafði aflað sér. Hún var í fallegum og styðjandi samskiptum við foreldra sína allt þar til þau dóu í hárri elli. Þá var hún boðin og búin að aðstoða með heimili og börn barna sinna. Hún var í saumaklúbbi með skólasystrum úr HKÍ í rúma sex áratugi og spilaði bridge á efri árum. Hún var virk í félagsstarfi eldri borgara í Garðabæ, tók þátt í smíðum, handavinnu, sundi, leikfimi og bókaklúbbi. Hrafnhildur unni ljóðum og tónlist og naut þess líka að ferðast.
Útför Hrafnhildar verður gerð frá Garðakirkju í dag, 24. mars 2020, klukkan 13 að viðstaddri nánustu fjölskyldu.
Á Lindarflöt 8 um miðjan sjöunda áratuginn hékk á vegg í skálanum, rými á milli stofu og eldhúss annars vegar og svefnherbergisálmu hins vegar, hnakkgjörð fléttuð úr mismunandi litu snæri. Ég hafði verið í sveit og ég þekkti hnakkgjarðir en að hengja slíkt upp á vegg og leyfa fegurð handverksins að ljóma hafði ég aldrei séð og fannst óendanlega smart.
Fjölskylda mín flutti inn í áþekka herbergjaskipan og að ofan var lýst í húsið á númer 10 við Lindarflöt seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta voru erfiðir tímar, flutt inn í húsin hálfköruð, oft kallað hurðalaust helvíti og reynt að skapa falleg heimili um leið og húsin voru byggð til enda og barnaskarinn heimtaði sitt. Engum tókst eins og Höddu að skipa fegurðina í fyrsta sæti. Allt innanstokks á Lindarflöt átta var ekki aðeins vandlega valið heldur líka vandlega valinn staður. Ég var nýorðin unglingur með eigið herbergi í fyrsta sinn á ævinni og að koma inn til Höddu á númer átta var mér opinberun. Fram að þessu hafði ég upplifað heimili þar sem búið var þröngt og þurfti að koma fyrir mörgum rúmum og borði til matast við, hvorki tóm né rými fyrir interiör design. Auðvitað hafði ég líka komið á íburðarmeiri heimili með þungum plusshúsgögnum, útskornum innskotsborðum og postulínsstyttum. Það höfðaði ekki til mín. Hjá Höddu voru línur skýrar, hlutir og húsgögn hvort heldur skálar, styttur, stólar eða sófi allt var einfalt og í stíl hvort heldur til að gleðja fegurðarskynið eða út frá því hvernig viðkomandi hlutur skyldi brúkaður. Ég veit í dag að þetta var skandinavískur módernismi í innanhússarkitektúr en þegar ég var þrettán ára var þetta fyrst og síðast fallegt en líka svo praktískt og þægilegt fyrir allt það sem þarf að eiga sér stað á heimili. Kynni mín af Höddu og heimilinu á Lindarflöt 8 voru m.ö.o. mikilvægur þáttur í mínu fagurfræðilega uppeldi.
Og svo kunni hún svo vel að vinna á heimili, stundum þegar ég bankaði
þvottahúsmegin til að fá lánaðan lítra af mjólk eða hveiti í skál sem
tilfallandi vantaði heima hjá mér og verslunin - þessi eina - búin að loka
fannst mér gott að standa í eldhúsinu og fylgjast með henni vinna hvort sem
hún var bara að vaska upp, skella köku í form eða að klára að skúra út úr
búrinu. Hadda gerði allt svo vel, af svo mikilli alúð, fagmennsku og
virðingu. Já líka húsverkin eiga skilda virðingu. Og handavinnan, maður
minn, húfur og peysur sem systkinin á átta klæddust, allt svo einstaklega
fallegt og öðruvísi. Hadda kenndi mér að hægt væri að prjóna það sem maður
sá fyrir sér, breyta uppskriftum í blöðum, enda var hún lærður
hússtjórnarkennari.
Hún var svo örlát hún Hadda, örlát á kunnáttu sína og miðlaði svo vel og
fallegar voru gjafir hennar. Bollarnir tveir úr Kúnígúnd sem hún gaf mér í
stúdentsgjöf fylgdu mér í áratugi og fleira mætti telja.
Minnisstæðast er mér þó þegar ég, þá búsett í Þýskalandi, dvaldi á
heimili foreldra minna á númer tíu og fyrir dyrum stóð skírn yngsta sonar
míns. Í mörg horn var að líta, útbúa veisluföng, dekka borð, stilla upp
stólum og ég ekki búin að klára að prjóna skírnarfötin sem drengurinn átti
að fara í þegar hann væri búin að sofna í skírnarkjólnum. Hvar átti ég að
byrja? Birtist þá ekki Hadda í gættinni milli þvottahússins og eldhússins:
Á ég ekki að taka í þetta, Jórunn mín, og þar með var hún horfin með
prjónlesið. Verkin gengu eins og í sögu og í eftirmiðdaginn kom Hadda og
var búin ganga frá endunum á vestinu, prjóna hina skálmina á buxurnar og
pressa allt saman. Þannig var Hadda, hæglát en effektíf.
Hadda var einstakur nágranni og oft stóð hún í eldhúsinu á Lindarflöt 10 og
hellti upp á hverja könnuna á fætur annarri þegar þessar klassísku veislur
fermingar, stórafmæli, stúdentsveislur voru haldnar og hvunndags beið
stundum skál með rjúkandi ástarpungum á horninu á eldhúsbekknum. Hvaðan
skyldi hún hafa komið!
Það var alltaf mikill samgangur á milli húsanna á númer átta og númer tíu,
hvort heimilið fyrir sig miðlaði því sem það best kunni og gat. Aldrei
metingur heldur gagnkvæm virðing og væntumþykja, sem kannski var aldrei
orðuð. Þess þurfti ekki. Systir mín og bróðir eru enn í dag bestu vinir
jafnaldra sinna á númer átta.
Og Hadda keyrði bíl, það gerðu sko ekki allar konur á þessum tíma. Ég sé
hana enn fyrir mér bakka svarta bensinum út úr innkeyrslunni og fara sinna
ferða ein og óháð. Og auðvitað fylgdumst við öll með þegar Hadda fór að
gildna og Ása bættist í hópinn. Jói var viðstaddur fæðinguna.
Það var eitthvað að gerast, eitthvað að breytast í veröldinni, einhver nútími að verða til, sem ég, unglingur í svefnbænum Garðahreppi á sjöunda áratugnum og byrjun þess áttunda, tengi svo sterkt við húsið á Lindarflöt 8 og Höddu sem kenndi mér margt sem hefur nýst mér í lífinu. Haf heila þökk, góða grannkona. Með samúðarkveðju til ykkar allra, Hildur, Halla Margrét, Þorleikur, Ása og fjölskyldur.
Jórunn Thorlacius Sigurðardóttir.