Ívar Örn Hlynsson fæddist 2. október 1990. Hann lést í Reykjavík 11. mars 2020. Útför Ívars Arnar fór fram 24. mars 2020.
Í litlu bæjarfélagi er manni sem barni eiginlega gert að vingast við
ákveðna aðila vegna smæðar samfélagsins. Þegar við stálpumst og
fullorðnumst getum við valið hverjum við höldum vinskap við. Við Ívar
völdum að eiga samskipti og halda vinskap. Við þoldum ruglið hvort í öðru
og áttum margar skemmtilegar minningar. Eins og einhver hafði á orði á
bekkjarhittingi stuttu eftir andlát Ívars, þá erum við '90-árgangurinn og
fleiri úr Fellaskóla uppeldissystkini. Mér þykir það fallegt og lýsandi
orð. Þó svo að við séum ekki öll í reglulegum samskiptum í dag getum við
sýnt samheldni og samstöðu á erfiðum tímum sem þessum. Við getum deilt
minningum, huggað og hughreyst því þegar til kastanna kemur er það fólkið í
kringum okkur sem skiptir höfuðmáli. Ég er svo lánsöm að hafa fengið að
stíga fyrstu skrefin með Ívari og verða samferða honum í gegnum lífið en
það var erfiðara en orð geta lýst að leiða hann síðasta spölinn.
Þegar ég frétti af andláti Ívars var ég stödd fyrir utan vinnustaðinn minn,
sem er einmitt staðurinn sem við hittumst fyrst. Á leikskólanum í Fellabæ.
Mín fyrsta minning af Ívari er þegar við erum fjögurra eða fimm ára í
einhverjum ærslaleik í salnum á leikskólanum. Minningin er skýr. Við erum
að hlaupa í hringi, ásamt fleiri börnum. Ég sé andlitið hans Ívars og síðan
er ég í gólfinu, komin með mitt fyrsta og eina glóðarauga sem ég hef fengið
á lífsleiðinni. Ívar átti eftir að gera mér bilt við mörgum sinnum eftir
þetta bæði viljandi og óviljandi. Honum þótti gaman að stríða og gerði í
því að læðast aftan að fólki, kitla það og sjá það hoppa upp. Ég sé hann
ljóslifandi fyrir mér flissa að uppátækjum sínum. Eitt uppátækið hans átti
þó eftir að verða það sem ég hélt að yrði mitt síðasta. Það var í einum af
reglulegum bíltúrum okkar þegar við vorum bæði búsett fyrir austan, ég man
ekki hvaða ár það var, en finnst eins og það hafi gerst í gær. Ívar var
búinn að gera mig þokkalega bílveika með því að spóla með mig um götur
Egilsstaða og var ég búin að biðja hann að slaka aðeins á, því hausinn á
mér höndlaði þetta eitthvað illa. Hann lofaði því og kveikti sér í einni
rettu. Það var svo sem ekki til að bæta ástandið en ég sat þegjandi því mér
þótti gott að spjalla við hann og vildi ekki enda bíltúrinn alveg strax.
Við keyrðum niður Einhleypinginn og tókum Austurlandsveg til suðurs og
vorum að nálgast gömlu Dekkjahöllina í Fellabæ þegar ég finn að bílnum er
allt í einu rykkt til hægri og niður bratta brekku í átt að gömlu
Dekkjahöllinni. Ég varð hvít og græn í framan, hélt mér rígfast í allt sem
ég gat haldið í og sjálfsagt hef ég öskrað eitthvað, ég man það ekki. Ég
vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, en eitt andartak hélt ég að bíllinn
myndi velta og þetta yrði mitt síðasta. Ég var heldur dramatísk, því þegar
niður á jafnsléttu var komið og allir í heilu lagi leit ég á Ívar, sem rak
upp öskurhlátur sem átti eftir að endast restina af bílferðinni. Ég var
frekar veik þá nótt, en eins og Ívar sagði þarna í lok bílferðarinnar:
Núna veistu að þú ert á lífi. Heldur betur.
Leiðir okkar fylgdust að einhverju leyti að næstu ár á eftir. Við fluttum
bæði suður og hittumst af og til og athuguðum stöðuna hvort hjá öðru. Í
eitt skiptið bað hann mig að koma til sín því hann væri með gjöf handa mér.
Áður var ég búin að kvarta yfir einhverjum skorti á lífsgæðum vegna þess að
ég átti ekki pening til að kaupa það sem hugurinn girntist. Þegar ég kom
til hans var hann með fullan poka af rófum sem hann hafði fengið sendar að
austan og lét mig hafa, því mig skyldi nú ekki skorta gott og hollt nasl
yfir lærdómnum. Hann hló, því í raun var þetta eitt af uppátækjum hans í
bland við ósvikna manngæsku, því auðvitað langaði mig að kaupa súkkulaði og
bíómiða og hann vissi það, en hann vissi líka hvað var mér fyrir bestu.
Rófurnar voru kærkomnar og þær entust vel sem nesti næstu daga í
skólann.
Þessar minningar og margar til mun ég varðveita og læra af. Ég mun minnast
Ívars sem brosmilds, uppátækjasams vinar sem þótti vænt um sína
nánustu.
Ég vil votta fjölskyldu og vinum Ívars samúð mína. Hugur minn er hjá ykkur.
Helga Sjöfn Hrólfsdóttir.