Bjarni Júlíusson fæddist 15. nóvember 1925 í Reykjavík en hann lést á dvalarheimilinu Seljahlíð 1. mars sl. Foreldrar hans voru Emanúel Júlíus Bjarnason húsasmíðameistari, f. 1886 á Eysteinseyri við Tálknafjörð, og Jóhanna Jóhannesdóttir, f. 1889 í Fjósakoti í Miðneshreppi. Þau áttu sex börn auk Bjarna; Júlíönu Júlíusdóttur, f. 1913, sem Jóhanna átti fyrir, Katrínu Júlíusdóttur, f. 1915, Unni Júlíusdóttur, f. 1917, Júlíus S. Júlíusson, f. 1920, Bjarna Júlíusson eldri sem lést á 1. ári, f. 1923, og Magnfríði Júlíusdóttur, f. 1924. Öll hin systkinin náðu háum aldri, en Bjarni sá yngsti, fer nú þeirra seinastur.
Bjarni kvæntist Guðrúnu Helgu Kristinsdóttur, f. 15. febrúar 1923 í Hafnarfirði, en hún lést 1966. Foreldrar hennar voru Kristinn Brandsson, f. 1887 í N-Múlasýslu, og Ingibjörg Árnadóttir, f. 1886 í Garðasókn í Gullbringusýslu. Bjarni og Helga áttu saman fjögur börn, en fyrir átti Helga eina dóttur sem Bjarni gekk í föðurstað.
1. Margrét Guðrún Guðmundsdóttir, f. 5.11. 1945, gift Guðmundi Ó. Þórðarsyni en börn þeirra eru; Guðrún Helga, f. 1963, Yngvi Freyr, f. 1970, og Eva Dögg, f. 1984.
2. Jóhanna Bjarnadóttir, f. 22.1. 1950, látin 1995, gift Jóni Sveinbirni Guðlaugssyni, en börn þeirra eru; Bjarni Þór, f. 1973, Guðlaugur. f. 1975, Guðrún Helga, f. 1982 og Pétur. f. 1986.
3. Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 28.2. 1951, gift Hauk Ólafssyni, en börn þeirra eru; Helgi, f. 1970, dáinn á fyrsta ári, Birgir, f. 1972, Hrafnhildur, f. 1975, og Helga, f. 1976.
4. Skúli Bjarnason, f. 15.12. 1953, kvæntur Sigríði Lillý Baldursdóttur, en börn þeirra eru; Erla, f. 1975, Helga Margrét, f. 1979, og Benedikt, f. 1984.
5. Bjarni Bjarnason, f. 4.6. 1956, kvæntur Svanhildi Kr. Sverrisdóttur. Bjarni var áður kvæntur Björgu Árnadóttur, þeirra börn eru; Bogi, f. 1980, Ásgeir, f. 1983 og Brynja f. 1991.
Bjarni hóf sambúð 1970 með Guðrúnu Jónsdóttur, æskuvinkonu Guðrúnar Helgu, en þá var yngsta barn hennar, Ósk Knútsdóttir, f. 7.3. 1961, enn á heimilinu og gekk Bjarni henni í föðurstað. Bjarni lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild MR og hóf nám í lögfræði en fann sig ekki þar. Bjarni var mikill tungumálamaður og áhugamaður um íslenska tungu. Þess nutu börn hans og barnabörn en starfskrafta sína helgaði hann lengst af textíliðnaðinum. Hann rak Sokkaverksmiðjuna Papey hf. til margra ára en þar áður Fatagerðina hf. á Akranesi sem hann átti í félagi við tvo aðra. Þrátt fyrir þátttöku í atvinnurekstri var Bjarni ávallt ákafur vinstrimaður og fannst raunar ekki taka því að ganga af trúnni við fall járntjaldsins. Bjarni og Helga bjuggu sína búskapartíð með barnahópinn í sumarbústaðabyggðinni í Fossvogi en Helga lést skömmu eftir að þau fluttu þaðan í Árbæinn 1966.

Látinn er föðurbróðir minn, Bjarni Júlíusson á nítugasta og fimmta aldursári. Hann var yngstur sex systkina sem upp komust og lifði þeirra lengst. Á honum og pabba, Júlíusi Sigurðssyni Júlíussyni, var 5 ára aldursmunur. Mikill samgangur var milli fjölskyldna bræðranna. Eitt árið bjuggum við í sama húsi, Fossvogsbletti 22. Húsið átti afi minn Emanúel Júlíus Bjarnason. Það stóð hátt í suðurhlíðum Fossvogsdalsins á þeim slóðum þar sem Bústaðakirkja stendur nú. Í því voru þrjú herbergi, við fjölskyldan, foreldrar mínir Júlíus og Þóra Karólína, Þórormur bróðir minn og ég, bjuggum í einu þeirra, austara herberginu. Bjarni, Helga kona hans og Gréta dóttir þeirra í öðru, vestara herberginu og þriðja herbergið var stássstofa sem þau höfðu. Þar voru mjög falleg húsgögn, maður fylltist andakt við að koma þar inn. Í janúar árið 1950 bættust tveir nýir fjölskyldumeðlimir við, bróðir minn, Hörður fæddist í húsinu tólfta og Jóhanna Bjarnadóttir fæddist tuttugasta og annan. Í húsinu bjuggu þar með níu manns, fjórir fullorðnir og fimm börn. Ég var elst barnanna, fædd 1944. Um vorið fluttist mín fjölskyldan í húsið okkar á Kópavogsbraut 25 (nú 49).

Það er bjart yfir minningum þessa árs. Bjarni og Helga voru sérlega góð við mig, enda bæði barngóð. Eitt sinn hafði ég tínt mikið af hundasúrum vegna þess að ég hafði heyrt að sjóða mætti úr þeim graut. Mamma sagði mér að fara með þær út aftur, en Helga eldaði fyrir mig grautinn og við borðuðum hann saman með mjólk út á. Hann var áþekkur rabarbaragraut.

Eftir að við vorum flutt í Kópavoginn keypti Bjarni mikið undratæki, plötuspilara, sem var að sjálfsögðu í stássstofunni. Þá var hægt að velja það sem maður vildi hlusta á. Þegar við komum í heimsókn, og svo bar við, settumst við prúðbúin í fína sófann og hlustuðum á tónlistina, sem Bjarni kynnti fyrst fyrir okkur. Það var eins og helgistund. Tónlistarsmekkurinn var breiður en mér er sérstaklega minnisstætt dálæti hans á Paul Robeson og Jussi Björling. Heima hjá okkur urðum við að hlusta á það sem boðið var upp á í útvarpinu hverju sinni.

Mestallan starfsaldur sinn vann Bjarni við fatagerð á tímum þegar íslenskur fataiðnaður stóð í blóma. Ég kom með pabba til Bjarna í fataverksmiðjuna á Bræðraborgarstígnum þar sem Bjarni vann ásamt Jónasi Sölvasyni mági þeirra. Reyndar vann pabbi þar einnig um sinn en það átti ekki við hann og hann sneri sér aftur að leigubílaakstri. Við hjónin fórum líka til Bjarna í Sokkaverksmiðjuna Papey til þess að kaupa okkur góða sokka og spjalla ögn. Þegar ég sagði Evu dóttur okkar frá láti Bjarna mundi hún vel eftir ferðunum í Papey og því hvað sokkarnir voru góðir og hversu gaman var að koma til Bjarna í verksmiðjuna því hann talaði líka við hana.

Bjarni var mikið fyrir sætar kökur og allt bakkelsi með kókósmjöli þótti honum sérlega gott. Mér finnst það reyndar líka og man ennþá eftir lýsingum hans á hve góð honum þótti ný tegund af súkkulaðismákökum með kókósmjöli. Við fengum uppskriftina frá þeim og þær baka ég enn fyrir jólin. Þegar ég heimsótti hann í Seljahlíð fyrir um tveimur árum brást ekki að í kaffinu var snarað fram tertu sem hann gerði góð skil. Borðaði tvær stórar sneiðar, en ég torgaði bara einni.

Bræðurnir og konur þeirra ferðuðust saman innanlands og utan og með okkur börnunum innanlands. Eftir tveimur ferðum sem fjölskyldurnar fóru í saman man ég sérstaklega. Annarri þeirra var heitið vestur í Tálknafjörð þar sem afi fæddist og ólst upp og var hann með í för. Við vorum á tveimur bílum, Bjarni og fjölskylda á gömlum Ford-bíl sem teldist nú til fornbíla og var með farangurskistu aftan á, þar var nestið þeirra. Við vorum á nýjum Ford 55, fyrsta bílnum sem pabbi keypti nýjan úr kassanum. Mikið var um það rætt fyrir ferðina og í ferðinni á áningarstöðum hvort gamli Fordinn myndi komast alla leið. Við áðum meðal annars við Ölver, kúrðum okkur niður í kjarrinu og borðuðum nestið. Eftir því sem nær dró Vestfjarðakjálkanum lifnaði meir og meir yfir afa. Því miður komumst við ekki lengra en í Þorskafjörðinn því þar bilaði gírkassinn í nýja Fordinum og við urðum að snúa við heim. Afi komst ekki aftur á æskuslóðirnar.

Aðra ferð fórum við að Gullfossi og Geysi. Þá var afi líka með og gekk við staf. Við röðuðum okkur upp á hverbarminn, Geysissvæðið var ekki afgirt og horfðum á hvernig kraumaði í hvernum. Bjarni sagði sjáið þið krakkar það sýður í honum eins og í stórum grýlupotti við sáum það og horfðum hugfangin á. Svo sauð meir og meir, í hvernum risu vatnsúlur hærra og hærra. Allt í einu sagði Bjarni það er að byrja gos, hlaupið þið við hlupum öll, líka afi með stafinn á lofti og rétt sluppum undan myndarlegu gosi.

Samband bræðranna var ætíð gott. Þegar þeir gátu ekki lengur komist um eins og í gamla daga töluðust þeir við í síma. Það var athyglisvert hversu sammála þeir voru alla tíð um menn og málefni. Ég fylgdist með Bjarna og fjölskyldu hans í gegnum frásagnir pabba úr þessum símtölum.

Takk, kæri Bjarni, fyrir ljúfar bernskuminningar og Papeyjarsokkana góðu sem við gengum í fram á þessa öld. Enda voru þeir ekki aðeins slitsterkir heldur líka mjúkir og notalegir við hörundið. Með þessu leiftri úr fortíðinni vil ég votta börnum, tengdabörnum og barnabörnum samúð.


Stefanía Júlíusdóttir.