Gaël Faye „Í sögunni er fjallað á áhrifaríkan hátt um hroðalega og raunverulega atburði.“
Gaël Faye „Í sögunni er fjallað á áhrifaríkan hátt um hroðalega og raunverulega atburði.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gaël Faye. Rannveig Sigurgeirsdóttir þýddi. Angústúra, 2020. Kilja, 233 bls.

Í búar þessa svæðis voru eins og jörðin. Undir rólegu yfirborðinu, á bak við brosin og löngu bjartsýnisræðurnar, voru myrkir kraftar, neðanjarðar, sem unnu sleitulaust og kyntu undir ofbeldisverkum sem komu alltaf aftur og aftur eins og illir vindar: 1965, 1972, 1988. Þungbúin vofa kom óboðin með reglulegu millibili til að minna mennina á að friður er ekkert nema stundarhlé á milli tveggja stríða. Þetta eitraða hraun, þessi þykki blóðstraumur var aftur reiðubúinn að koma upp á yfirborðið. (123)

Litla land , frumraun tónlistarmannsins Gaël Faye á sviði skáldsagnaritunar, sló í gegn þegar hún kom út í Frakklandi fyrir fjórum árum. hefur selst í yfir 800 þúsund eintökum, verið þýdd á 30 tungumál og kvikmynd verið gerð eftir henni. Og það kemur ekki á óvart. Í sögunni er fjallað á áhrifaríkan hátt um hroðalega og raunverulega atburði sem áttu sér stað í afrísku grannríkjunum Rúanda og Búrúndi fyrir rúmum aldarfjórðungi, atburði sem voru ekki einstakir því eins og sögumaður bendir á í tilvitnunni hér að framan þá hafði friðurinn sem áður ríkti á þessu fallega og frjósama svæði aðeins verið stundarhlé á átökum milli Hútúa og Tútsa, átökum sem breyttust í þjóðarmorð í Rúanda eins og sagan greinir frá með átakanlegum hætti.

Höfundurinn byggir söguna á eigin lífi að einhverju leyti. Rétt eins og sögumaðurinn Gabríel, sem er tíu ára gamall þegar frásögnin hefst, þá ólst Faye upp í öryggi og við áhyggjuleysi í úthverfi borgarinnar Bújúmbúra í Búrúndí. Feður beggja franskir og mæðurnar Tútsar sem höfðu ásamt fjölskyldum sínum komið yfir til Búrúndí sem flóttamenn stríðsátaka í Rúanda. En sakleysið entist ekki lengi og grimmdin og miskunnarleysið braust upp á yfirborðið.

Þetta er hefðbundin en vel skrifuð og byggð þroskasaga þar sem lesandinn kynnist heiminum með augum sögumannsins. Við kynnumst heimilisaðstæðum, ólíkum foreldrunum, vinnufólkinu sem hefur einnig ólíkan bakgrunn, og vinahópnum í stuttu götunni, strákum sem eru ýmist kynblendingar eins og Gabríel og eiga þá móður sem er Tútsi, eða eru börn Tútsa sem búa við öryggi ágætra efna. Stígandinn er framan af hægur, þar sem við lesum um leiki og allrahanda uppátæki piltanna, en lesandinn finnur sífellt betur fyrir nálægri ógninni. Ógninni sem er mögnuð upp af óttanum við „hina“, þá sem eru öðruvísi, eins og Gabríel áttar sig sífellt betur á; þeir vinirnir urðu að „hætta að treysta öðrum, sjá þá sem ógn og búa til þessi ósýnilegu landamæri að umheiminum með því að gera hverfið okkar að virki og botnlangann að afgirtu svæði.“ (89)

Það er sama hvað Gabriel reynir að taka ekki afstöðu, að vera ekki í liði, hann kemst ekki upp með það. Móðurbræður hans halda til Rúanda að taka þátt í eilífu stríðinu þar, vinnufólkið er af ólíkum uppruna og berst, og vinirnir taka líka afstöðu. Eins og segir: „Maður fæðist inn í hóp og tilheyrir honum til eilífðarnóns. Hútúi eða Tútsi. Maður er annaðhvort annar eða hinn. Framhlið eða bakhlið.“ (142)

Skriðþungi frásagnarinnar eykst sífellt og grimmdin eftir því, grimmdin sem sundrar fjölskyldum og eyðir lífum í löndum sem gætu úr lofti séð verið fyrirmyndin að paradís – og leysist heimurinn að lokum upp í enn einu stríðinu, hroðalegum fjöldamorðum. Sögumaður á sér undankomuleið þar sem hann er hálffranskur, rétt eins og höfundurinn á sínum tíma, og skildu báðir hroðalegan veruleikann að baki en líka ættingja, margræðar tilfinningar og sögur.

Þetta er fyrsta útgefna bókmenntaþýðing Rannveigar Sigurgeirsdóttur og afar vel leyst, málið á henni er lipurt og rennur vel. Þá ritar Maríanna Clara Lúthersdóttir stuttan en upplýsandi eftirmála um höfundinn og ástandið í Rúanda og Búrúndi, eftirmála sem er góð viðbót þegar lesendur hafa lokið sögunni, eflaust margir miður sín yfir hryllingnum og miskunnarleysinu sem Faye lýsir svo vel. Eftir lesturinn lagðist rýnir í að skoða gamlar frétta- og heimildamyndir sem og í lestur á skýrslum um það sem gerðist í Rúanda árið 1994, um allan þann hrylling sem umheimurinn gerði ekkert í að stöðva svo hátt í milljón manna var myrt. En galdur góðs skáldskapar getur fært okkur enn nær fólkinu en tölurnar einar; meðal annars þess vegna er uplýsandi og í raun mikilvægt að lesa þessa athyglisverðu og vel skrifuðu sögu.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson