Bjarni Andrésson fæddist í Ásgarði í Dalasýslu 24. júní 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. apríl 2020. Foreldrar hans voru Andrés Magnússon bifreiðastjóri, f. 29.10. 1904, d. 26.6. 1962, og Jóna Sigríður Sigmundsdóttir, f. 3.7. 1908, d. 2.8. 1989. Systkini Bjarna voru Erna Kristín Andrésdóttir, f. 21.10. 1934, d. 30.8. 1936, Sigmundur Magnús Andrésson, f. 14.8. 1939, Guðrún Sigurbjörg Andrésdóttir, f. 21.11. 1942, d. 24.11. 1942.
27. október 1963 kvæntist Bjarni eftirlifandi eiginkonu sinni Sigrúnu Helgu Guðlaugsdóttur, f. 7.8. 1942, frá Stóra Laugardal í Tálknafirði. Foreldrar Sigrúnar voru Guðlaugur G. Guðmundsson, f. 29.1. 1900, d. 28.2. 1988, og Hákonía J. Pálsdóttir, f. 4.8. 1907, d. 24.5. 1998. Börn Bjarna og Sigrúnar eru: 1) Stúlka Bjarnadóttir, f. 11.6. 1964, d. 11.6. 1964, 2) Andrés Bjarnason, f. 8.6. 1965, maki Kristjana Pálsdóttir, f. 1.5. 1960, börn þeirra: a) Sigrún Helga, sambýlismaður Andrei Cristea, dóttir þeirra Alexandra, b) Andrea Ruth og c) Agla Bettý, 3) Björk Bjarnadóttir, f. 2.9. 1967, maki Sölvi Steinarr Jónsson, f. 2.5. 1957, börn þeirra: a) Bjarni, sambýliskona Katrín Viktoría Leiva, dóttir þeirra Aþena Þöll, b) Jón Steinar, c) Ösp, unnusti Piero Raisi, og d) Hákon Ingi, 4) Jens Bjarnason, f. 3.12. 1969, maki G. Sigríður Ágústsdóttir, f. 24.1. 1974, börn þeirra Una Mattý, Ágúst, Hekla Björk og Bjarni Gunnar, 5) Hilmar Bjarnason, f. 8.6. 1973, maki Anna Björk Sverrisdóttir, f. 22.4. 1971, börn þeirra Sindri Már, Katrín Unnur og Konráð.
Bjarni ólst upp í Ásgarði og síðar í Búðardal hjá foreldrum sínum, hann lauk námi í vélsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík og fluttist til Tálknafjarðar eftir nám og hóf þar störf hjá Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar við vélgæslu. Áður en Bjarni hóf rekstur Vélsmiðju Tálknafjarðar síðar Skandi, sem varð hans ævistarf, sinnti hann ýmsum störfum, svo sem akstri rútubíla og sjómennsku. Samhliða rekstri Vélsmiðju Tálknafjarðar hóf hann útgerð með vini sínum Ársæli Egilssyni og réðust þeir félagar í smíði á togaranum Sölva Bjarnasyni BA-65 sem sjósettur var á Akranesi 1980 og gerður var út frá Bíldudal.
Bjarni var settur slökkviliðsstjóri á Tálknafirði og sinnti þeirri skyldu sinni í mörg ár ásamt ýmsum störfum fyrir sveitarfélagið.
Bjarni hafði mikinn áhuga á flugi, hann lét gamlan draum rætast á fimmtugsaldri, hann tók próf einkaflugmanns og var stofnfélagi í flugklúbbnum BYR og naut þess að fljúga um landið í góðum félagsskap.
Eftir að Bjarni lauk störfum dvöldu þau hjónin á Tálknafirði á sumrin og í Reykjavík á veturna þar sem þau nutu nærveru fjölskyldunnar.
Útför Bjarna fer fram í Fella- og Hólakirkju 16. apríl 2020.

Kveðjustund. Við vitum það öll að okkur er gefinn takmarkaður tími í þessu lífi. Við vitum að á endanum þurfum við að kveðja. Þegar við svo fáum vitneskju um að tíminn sé farinn að styttast hjá ástvini teljum við okkur vera undir það búin að kveðja af því að við vitum að svona er lífið, tíminn er takmarkaður. En svo rennur stundin upp og við erum ekki tilbúin. Það er ekkert sem undirbýr okkur undir brotthvarf ástvinar úr lífi okkar, sama hver aðdragandinn er. Missirinn er aldrei eins því sporin sem viðkomandi skilur eftir í okkar lífi eru einstök líkt og manneskjan sjálf. Í dag er komið að kveðjustund. Þegar ég kvaddi Bjarna tengdapabba daginn fyrir heimsóknarbann á Landspítala var það hversdagsleg kveðja, þessi hefðbundna sjáumst aftur kveðja ... en við sáumst ekki aftur. Mig langar því að skrifa nokkur kveðjuorð til hans. Bjarni var einstakur maður. Allt frá því ég kynntist honum, fyrir 23 árum, hef ég borið gríðarlega virðingu fyrir honum. Hann var fróður, staðfastur, rökræðinn, verklaginn, framsækinn í hugsun, tækjaáhugamaður, rólegur, jákvæður, umhyggjusamur, traustur og einstaklega góður maður bara svona rétt til að telja upp brotabrot af hans góðu eiginleikum. Sporin sem hann skilur eftir í lífi okkar eru ótalmörg. Kaffispjall, matarboð, bíltúra-innlit, samvera á Tálknafirði og í Gaukshólum - allt voru þetta hversdagslegar athafnir sem í dag öðlast nýja merkingu og verða að dýrmætum minningum. Sum sporin sem hann skilur eftir eru dýpri en önnur. Eitt slíkt er flugtúrinn - það var ekki hversdagsleg athöfn. Ætli þetta hafi ekki verið með fyrstu skiptunum sem ég fór í heimsókn til Tálknafjarðar. Bjarni flaug með okkur Hilmar frá Reykjavík og vestur. Áður en hann lenti vélinni mjúklega á Patreksfjarðarvelli flaug hann yfir Miðtúnið á Tálknafirði þar sem tengdamamma beið okkar, lét hana þannig vita að við værum alveg að koma. Mögnuð upplifun og yndisleg minning sem gleymist seint. Þessi flugtúr er skýrt dæmi um hversu mikið traust ég bar til Bjarna strax í upphafi. Fyrir ferðina snerist minn eini stressfaktor um það hvort ég gæti keypt maskara fyrir vestan ef ég skyldi nú gleyma mínum fyrir sunnan (!). Ég veit, gefur ekki bestu myndina af mér en ég var ung ... ja, ok yngri - en sko, málið er að ég hafði aldrei áhyggjur af því að fljúga í lítilli rellu með honum. Ástæðan er svo ofureinföld - hann bar þetta djúpstæða traust utan á sér og að sjálfsögðu flaug hann líka listavel. Það var hans helsta einkenni að gera hlutina vel og af vandvirkni. Já, sporin sem Bjarni skilur eftir sig eru mörg og hvað greinilegust þegar kemur að Hilmari, syni hans. Samband þeirra feðga var einstakt og það var ósjaldan sem síminn var tekinn upp til að leita ráða hjá pabba eða bara til að spjalla og fá annað sjónarhorn. Missir Hilmars og fjölskyldunnar er mikill. Mig langar að telja upp fleiri minningarbrot því þau eru svo ótalmörg morgunte á Tálknafirði, tækjaáhuginn og allt það jákvæða sem honum fylgdi, hádegisfréttir í botni - en það væri bara til að reyna, í lengstu lög, að fresta hinni óumflýjanlegu stund sem nú er runnin upp, kveðjustundinni. Elsku tengdapabbi, takk fyrir allar dýrmætu stundirnar. Þær létu nú ekki mikið yfir sér margar hverjar en það eru einmitt þær sem mér þykir svo vænt um og skilja eftir sig fallegar minningar. Ég veit að það var ætíð hápunktur sumarsins hjá Sindra Má, Katrínu Unni og Konráði að heimsækja afa og ömmu á Tálknafirði þá var lífið svo einfalt og svo ljúft því það snerist um það sem gefur lífinu gildi nærveru og samveru með þeim sem okkur þykir vænt um. Það er þeim erfið lífsreynsla að þurfa að kveðja þig, afa sinn, með svona stuttum fyrirvara og á þessum fordæmalausu tímum sem nú eru. Ég ætla að halda mig við okkar síðustu kveðju, þessa hversdagslegu sjáumst aftur kveðju - því að ég mun sjá þig aftur og aftur í öllum þeim minningabrotum sem ég er svo endalaust þakklát fyrir að eiga. Minning þín lifir í hjörtum okkar. Elsku tengdamamma, Andrés, Björk og Jens mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldna ykkar. Það er undarlegt að kveðja ástvin á tímum samkomubanns og fjarlægðar og mikið tekið frá fjölskyldu og vinum í sorgarferlinu. Það er því von mín að þegar þessu undarlega ástandi er lokið þá munum við koma saman og fagna lífinu með þakklæti í huga. Þakka fyrir lífið og stundirnar sem við áttum með Bjarna, því þakklætinu eru engin takmörk sett.




Anna Björk Sverrisdóttir.