Guðjón Einarsson, fyrrverandi lögregluvarðstjóri, fæddist á Moldnúpi í Vestur-Eyjafjallahreppi 16. júlí 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 18. apríl 2020. Foreldrar hans voru Einar Sigurþór Jónsson, f. 26.4. 1902, d. 31.10. 1969, og Eyjólfína Guðrún Sveinsdóttir, f. 9.1. 1897, d. 27.5. 1967. Guðjón var elstur í röð sex systkina, hin eru: Sigríður, f. 11.8. 1930; Eyþór, f. 13.8. 1931, d. 4.10. 2015; Baldvin, f. 22.3. 1934, d. 8.5. 2018; Guðrún, f. 23.9. 1935; Sigurjón, f. 29.5. 1938.

Guðjón kvæntist 25.12. 1954 Þuríði Kristjánsdóttur, f. 16.7. 1926, húsmóður. Hún er dóttir Kristjáns Ólafssonar, bónda og oddvita á Seljalandi í Vestur-Eyjafjallahreppi, og Arnlaugar Samúelsdóttur, bónda og húsfreyju. Börn Guðjóns og Þuríðar eru: 1) Kristján Arnar, f. 2.9. 1955, d. 21.10. 1956. 2) Rúnar Þór, f. 27.11. 1958, húsasmiðameistari. Dætur hans eru Sara Ósk, f. 4.10. 1990, og Laufey Rún, f. 7.6. 1992. Móðir þeirra er Laufey Björnsdóttir, f. 25.12.1950. Fyrir átti hún Þorbjörgu Maríu Ómarsdóttur og Magnús Ómarsson.

Laufey Rún er í sambúð með Hrannari Bjarka Hreggviðssyni. Börn þeirra eru Eyrún Dís og Eyþór Örn.

Guðjón var sjómaður í Reykjavík og Vestmannaeyjum 1947-54, verslunarmaður hjá Kaupfélagi Rangæinga á Hvolsvelli 1954-74, jafnframt héraðslögreglumaður í Rangárvallasýslu frá 1960, lögreglumaður þar í fullu starfi frá 1974 og lögregluvarðstjóri frá 1990-97. Með lögreglustarfinu hafði Guðjón verið sjúkraflutningamaður í Rangárvallasýslu frá 1972 og sá um rekstur sjúkrabifreiða Rauðakrossdeildar Rangárvallasýslu í um tuttugu ár. Guðjón starfaði mikið að slysavarna- og Rauðakrossmálum og sat í aðalstjórn Rauða kross Íslands 1986-94. Hann var sæmdur gullmerki SVFÍ 1991 og gullmerki Rauða krossins 1996.

Útför fer fram í Stórólfshvolskirkju þriðjudaginn 28. apríl klukkan 14:00. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fer útförin fram í kyrrþey. Streymt verður frá útför á facebookhópnum Útför Guðjóns Einarssonar.

Gangur lífsins er nú einu sinni þannig að samferðamenn hverfa af sjónarsviðinu og þannig er það nú með fyrrverandi lögregluvarðstjórann Guðjón Einarsson sem lést 18. apríl síðastliðinn á 91. aldursári. Við sem komin erum vel á miðjan aldur og uppalin á Hvolsvelli þekkjum vel til Guðjóns en hann var á sínum tíma yfirmaður pakkhússins hjá Kaupfélagi Rangæinga á Hvolsvelli en pakkhúsið hafði aðdráttarafl á okkur peyjana sem ólumst upp á Hvolsvelli á þessum árum. Þar var mikið um að vera og gaman að leika sér í bröggunum og á plönum pakkhússins innan um sekkjarvöru ýmiss konar. Guðjón var sem vonlegt er ekki hrifinn af þessum leik okkar því hættur voru um allt, lyftarar og flutningabílar á ferð m.a. Sumir okkar voru meira að segja hálfsmeykir við Guðjón því hann gat haft hátt þannig að af honum stóð nokkur gustur sem á okkur virkaði þá sem skammir. Á þessum árum var hann jafnframt það sem kallað er héraðslögreglumaður, vann við löggæslu í kringum dansleiki m.a. En flokkur héraðslögreglumanna varð til í Rangárþingi 1960 í tengslum við nýtt Félagsheimili á Hvolsvelli. Þar voru á árum áður haldnir landsþekktir og fjölmennir dansleikir. Guðjón snéri sér síðan alfarið að löggæslustörfum árið 1974, fór á miðjum aldri í Lögregluskólann sem hann lauk með miklum sóma 1976. Mál æxluðust þannig að sumarið 1985, rétt rúmlega tvítugur, þá réð ég mig sem héraðslögreglumaður við embætti Sýslumannsins í Rangárþingi og þar var fyrir í fastaliði lögreglunnar Guðjón Einarsson þá lögreglumaður númer 1. Ungi maðurinn sem var að stíga sín fyrstu spor á vettvangi löggæslunnar var hálftvístígandi, minnugur tíma Guðjóns sem yfirmanns í pakkhúsinu, en það hvarf mjög fljótt. Guðjón sem og hinir sem fyrir voru í lögregluliðinu sem ekki var fjölmennt tóku unga manninum afar vel og fólu honum fljótlega mikilvægar skyldur, m.a. sjúkraflutninga en í þá daga sinntu lögreglumenn í Rangárþingi sjúkraflutningum jafnhliða löggæslustörfum. Fremstur í flokki fór Guðjón Einarsson, umsjónarmaður sjúkrabíla og flutninga. Upp frá þessum tíma störfuðum við Guðjón mikið og náið saman allt til ársins 1999 er hann lét af störfum fyrir aldurssakir. Ég minnist þessa tíma með hlýhug og var Guðjón annar af mínum daglegu stjórnendum sem varðstjóri í hartnær 14 ár í lögreglunni og sjúkraflutningum. Guðjón reyndist mér vel sem góður stjórnandi, leiðbeinandi og ekki síst sem félagi. Reglu- og vanafastur var hann, hafði hlutina á hreinu og ljóst til hvers var ætlast. Guðjón hafði lag á að stjórna mannskapnum og leituðu lögreglustjórar í Rangárþingi til hans við úrlausn ýmissa mála og skipti þá miklu máli hvað hann lagði til, á það var hlustað. Guðjón var þannig gerður að hann hafði mikla vigt þegar til skoðanaskipta kom. Guðjón var fróður um menn og málefni, landið þekkti hann vel, var náttúruunnandi mikill og eru eftirlitsferðir um hálendið t.d. minnisstæðar. Guðjón var það sem kallað er frístundabóndi, var með sauðfé og hross á húsi. Hann var mikill blómaunnandi og bar garður þeirra Þuríðar eiginkonu hans þess glöggt vitni við heimili þeirra að Hlíðarvegi 13 á Hvolsvelli. Margverðlaunaður garður sem ferðamenn sóttu í að skoða. Síðla vetrar var hann farinn að huga að garðvinnu og ræktun. Þegar vor og sumar gengu í garð og sól var á lofti mátti oft á tíðum sjá hann beran að ofan í stuttbuxum að vökva, snyrta blómabeð eða slá grasflötina. Á mínum árum sem lögreglumaður í Rangárþingi sá Þuríður um öll þrif á lögreglustöðinni og leysti það afar vel af hendi. Guðjón kom að félagsmálum, þá sérstaklega á vettvangi Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, en hann var á fyrstu árum hennar formaður sjóbjörgunarflokks og líflínuskytta úr fluglínutækjum fyrir björgunarstól. Af Guðjóni er til þekkt ljósmynd Ottós Eyfjörð þar sem hann er að skjóta líflínu úr fluglínutækjum frá Landeyjarsandi að pólskum togara strönduðum 1964. Hann var um árabil stjórnarmaður og gjaldkeri Rauðakrossdeildar Rangárvallasýslu og sat um árabil í landstjórn Rauða kross Íslands. Hlaut m.a. viðurkenningar fyrir störf sín fyrir Slysavarnafélag Íslands, gullmerki SVFÍ 1991 og Rauða krossinn, gullmerki RKÍ, 1996. Hann bar sterkar taugar til þessara félaga og ekki síst til Rauða krossins. Guðjón var framsýnn, m.a. þegar ný lögreglustöð var byggð á Hvolsvelli en sjúkrabílar fengu þar inni sem og félagsaðstaða fyrir Rauðakrossdeildina í fundarherbergi. Ef ekki hefði til þess komið þá væri húsið mun smærra í sniðum í dag. Þá var hann síðar hvatamaður að því að Rauðakrossdeildin fengi sitt eigið húsnæði á Hvolsvelli. Guðjón var formaður kjörstjórna í Hvolhreppi um árabil og skoðunarmaður reikninga Kaupfélags Rangæinga. Þar sem Guðjón Einarsson kom að málum naut hann mikillar virðingar og trausts. Ég er sannfærður um að ef Guðjón hefði kosið sjóinn sem starfsvettvang sinn þá hefði hann orðið afbragðsskipstjóri, hann hafði áhuga á sjósókn og sjávarútvegi, var til sjós sem ungur maður bæði í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Guðjón var heljarmenni að burðum, handtakagóður, sannkallaður jaxl. Hann var fastagestur sundlaugarinnar á Hvolsvelli þar sem tekið var á því. Hann hugsaði um skrokkinn og naut þess þegar tími gafst til að skreppa í ljós. Honum var í mun að líta vel út og vera vel klæddur þegar svo bar við, hann var snyrtimenni. Það var gott að vera í návist hans, sérstaklega þegar lögreglan varð að taka til hendinni t.d. í tengslum við slagsmál á dansleikjum og á erfiðum vettvangi löggæslunnar eða sjúkraflutninga. Að leiðarlokum að sinni a.m.k. vil ég votta Þuríði eiginkonu hans, syni, barnabörnum og fjölskyldu allri einlæga samúð með þökk fyrir samfylgdina

Gils Jóhannsson