Eygló Svava Kristjánsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 22. apríl 1977, hún lést á heimili sínu 27. mars 2020. Foreldrar hennar eru Hrefna Óskarsdóttir, f. 30. apríl 1951 og Kristján Ingólfsson, f. 29. nóvember 1950.
Systkini Eyglóar Svövu eru Kristín Kristjánsdóttir, f. 30. júní 1968 og Ingólfur Kristjánsson, f. 8. apríl 1972.
Eygló Svava bjó sín uppvaxtarár í Vestmannaeyjum, hóf skólagöngu í Hamarsskólanum og síðan í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.
Hún flutti til Reykjavíkur 1996 og hóf störf í Byko, fyrst í Hafnarfirði en síðan lá leiðin á skrifstofu Byko þar sem hún vann til ársins 2006, er hún varð að hætta að vinna.
Útför Eyglóar Svövu fór fram í kyrrþey.
Kveðjustund Eyglóar Svövu kom allt of snemma. Á stundu sem þessari er
hollt að líta um öxl og minnast góðra stunda og heiðra minninguna um
stúlkuna sem við þekktum og það höfum við, gamli bekkurinn hennar Eyglóar,
verið að gera síðustu daga. Bekkurinn okkar taldi tæplega 20 nemendur, sum
stoppuðu stutt við í bekknum en flest vorum við saman í 10 ár. Við vorum
nokkuð samheldin þó samskipti og vinatengsl okkar á milli væru allskonar og
tækju breytingum eftir þroska og áhugamálum hverju sinni. Ýmislegt var
brallað í skólanum en í heildina má samt segja að við höfum verið ósköp
þægilegur bekkur. Við bekkjarsystkinin vorum heppin að fá að kynnast Eygló
Svövu í bernsku og skapa með henni dýrmætar minningar upp alla okkar
grunnskólagöngu og mörg okkar mun lengur en það. Þau voru óteljandi kvöldin
sem við vörðum í útileikjum og var hist t.d. á Kirkjugerði og Hamarsskóla
eða bara í því hverfi þar sem hver og einn bjó. Þar var farið í hina ýmsu
leiki, svo sem hring og punkt og kiss kiss og útaf. Öll bekkjarafmælin og
hittingarnir og það sem var brallað þar. Það eru ófáar sögurnar sem poppa
upp þegar litið er til samverustunda með Eygló. Eftirminnilegt er þegar hún
ásamt fleiri stelpum í bekknum fann upp á leynimáli sem var notað óspart í
einhvern tíma og flestar kunna enn þann dag í dag. EyGabbaLabbaÓ. Flest
okkar muna eftir Eygló Svövu sem litlu indíánastelpunni með sveipinn sinn
og fallega fíngerða svarta englahárið, aðeins úfið, bundið í tagl.
Hlaupandi um í íþróttagalla með bolta undir hendi. Eygló sem átti auðvelt
með að eignast vini og var ein af fáum stelpnanna sem gat vingast jafnt við
strákana og stelpurnar í bekknum. Kannski hjálpaði til hvað hún leikin með
boltann og skoraði hún þar ófá stig hjá drengjunum fyrir það. Hún var fyrir
það auðvitað alltaf valin fyrst í lið í fótbolta í skólanum, en ófáar
frímínúturnar fóru í fótboltakeppni milli bekkja. Eygló æfði lengi vel
fótbolta með Tý og fór meðal annars í eftirminnilega æfingaferð til
Danmerkur með félaginu. Hún eignaðist einnig marga vini í gegnum fótboltann
og þekkti jafnvel marga af eldri krökkunum í skólanum sem sum okkar þorðu
nú ekkert allt of mikið að eiga samskipti við.
Við tóku unglingsárin með öllu því sem þeim fylgja og þá var
aðalsamverustaðurinn félagsmiðstöðin. En Eygló var einmitt í unglingaráðinu
í Féló í einhvern tíma, sem þótti mega kúl. Þegar Eygló fékk bílpróf fékk
hún að hafa bílinn út í eitt rauðu Toyotuna. Sum okkar minnast þess að
taka rúntinn með Eygló með tónlistina í botni og kitla pinnann í
bókstaflegri merkingu því það var nokkurskonar tölvuleikjastýripinni sem
hún gat keyrt með. Eygló sá yfirleitt til þess að enginn sat aðgerðalaus
þegar vinahópurinn var á leið út á lífið. Hún fékk liðið til að spila
saman, taka þátt í ýmsum leikjum og hlusta á alls konar tónlist, sem aðrir
höfðu jafnvel ekki heyrt, enda hafði hún sko sinn smekk á tónlist og þá
helst spænskri eða annarri suðrænni tónlist og var tónlistarmaðurinn Eros
Ramazzotti þar ofar öllum. Eygló var mjög heimakær og því fengu vinkonur
hennar að kynnast fjölskyldu hennar vel, enda var heimilið alltaf opið og
allir velkomnir. Er dæmi um að ein hafi lagt leið sína frá Breiðholti yfir
í Kópavog til þeirra frekar en að vera ein heima. Margar minningar tengjast
heimili Eyglóar. Má nefna minningar í eldhúsi Hrefnu og Stjána þar sem
vinkonurnar skemmtu sér oft konunglega við að dansa mömmudansinn
(Hrefnudans) og óborganlegu mómentin þegar pabbi hennar var að reyna að
hlera spjallið hjá þeim vinkonunum með því að snúast merkilega mikið í
kringum okkur í hæfilegri fjarlægð. Eygló og vinkonur hennar gátu fíflast í
foreldrunum endalaust og eitt grínið var að þriðjudagar væru dodo-dagar hjá
hjónunum. Eygló átti það til að komast upp með ýmsa hluti enda mikið krútt
og náði að heilla marga. Eitt sinn kom hún með grænan Salem til vinkonu
sinnar eftir utanlandsferð og sagði henni að þær gætu reykt saman inni því
það fyndist engin lykt. En faðirinn fann engu að síður lyktina, en allt var
fyrirgefið þar sem það var Eygló. Já Eygló var líka prakkari og má nefna
þegar hún og ein vinkonan prufuðu að reykja te og njóla. Við munum líka
eftir nautnaseggnum henni Eygló, hvað henni þótti gott að láta klóra sér á
bakinu og höndunum. Hún var líka mikill fagurkeri og jafnvel þegar hún var
krakki var herbergið hennar alltaf svo fallega uppraðað. Eygló var gædd
mörgum kostum og var margt til lista lagt, hún var ótrúlega fljót að öllu,
óvenju fljót að læra t.d. í stærðfræði og tileinka sér nýja hluti varðandi
ýmis tölvumál. Hún hafði góða blöndu af húmor og væntumþykju. Hún var laus
við hégóma og tók öllum eins og þeir voru. Eygló lét sig varða um náungann
og fylgdist vel með heilsu og líðan þeirra sem hún þekkti. Hún átti líklega
auðveldara en margur með að setja sig í spor þeirra sem voru að glíma við
alls konar, þar sem hún sjálf var búin að glíma við veikindi sín síðustu
ár. Það var aðdáunarvert að þó svo að hún hefði ekki hitt eitthvert okkar í
mörg ár þá var hún óhrædd við að hafa samband t.d. í gegnum netið til að
spjalla um sameiginlegt áhugamál eins og Eurovision og veita andlegan
stuðning ef hún skynjaði að þess þurfti. Það sýnir dálítið hvernig
manneskju Eygló Svava hafði að geyma.
Okkur finnst við hæfi að enda þessa kveðju á texta sem við staðfærðum
lauslega yfir á íslensku úr laginu Cosas de la vida eftir Eros
Ramazotti.
Gangur lífsins
Þannig er víst gangur lífsins. Minningar sem hjá okkur munu lifa. Fjarlægðin okkar á milli, reyni að finna skýringu á. Í dag, eins og alltaf, ég hugsa til þín.
Það er ýmislegt sem veldur, að fólki líði ekki vel. Að degi sem og nóttu, vaknar fortíðarþrá eða söknuður. Í dag, eins og alltaf, ég hugsa til þín.
Mér fannst eins og tími okkar væri ekki enn liðinn. Segðu mér, hvar erum við, hvað gerðist. Hjörtu brostin hvert á sinn hátt. Nú er það sorgin sem við þurfum að klífa. Ég hugsa til þín.
Svona er víst gangur lífsins, því fáum við ekki breytt. Það tekur á og krefst styrks, að standa hér í dag. Í dag lít ég til himins, með báða fætur á jörðunni, ég reyni að hugsa raunsætt. En teygi samt hendur í átt til þín.
Þetta er víst gangur lífsins, ég mun seint venjast því. Það er sárt að hugsa til þess, að hjarta þitt það sjái ei. Í dag eins og alltaf, ég aðeins hugsa til þín.
Þessi nótt sem líður svo hægt, er að rífa mig í sundur. Ég reyni að takast á við sorgina, horfast í augu við hana. Ég finn fyrir pirringi í hjarta því ég vil vekja þig, svo þú vitir að ég er að hugsa til þín, já ég hugsa til þín.
Við bekkjarsystkini Eyglóar úr Hamarsskóla, viljum votta aðstandendum
innilega samúð.
Megi minningin um Eygló Svövu lifa.
Heiðrún Björk Sigmarsdóttir.