Sigurjón Guðjónsson vélfræðingur fæddist í Reykjavík 6. júlí 1930. Hann lést 17. apríl 2020 á Landspítalanum í Fossvogi.
Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson húsgagnasmiður, f. 1894, d. 1952, og Jónína Vilborg Ólafsdóttir húsfreyja, f. 1903, d. 1970.
Sigurjón var næstelstur átta systkina. Jón Vilberg, f. 1922, d. 2012, Ólafur, f. 1932, Brynhildur, f. 1934, d. 2016, Vilborg, f. 1937, d. 2017, Gyða, f. 1937, maki Magnús Fjeldsted, f. 1934, Guðrún, f. 1938, Sverrir, f. 1942, d. 2008,
Sigurjón ólst upp í Ásgarði í Grímsnesi frá sex ára aldri, fór í Íþróttaskólann í Haukadal árið 1949, Iðnskólann í Reykjavík, lauk sveinsprófi í járnsmíði 1954, vélstjóraprófi frá Vélskólanum í Reykjavík 1955 og rafmagnsdeild 1956.
Hann var vélstjóri hjá Skipaútgerð ríkisins frá 1956-1962, vélstjóri við rafstöðina að Írafossi 1962-80, flutti síðan til Reykjavíkur þar sem hann starfaði áfram hjá Landsvirkjun þar til hann fór á eftirlaun.
Sigurjón kvæntist J. Magneu Helgadóttur f. 1933, í Reykjavík, þann 31. des. 1956. Foreldrar hennar voru Guðlaug Jóhannesdóttir klæðskeri, f. 1902, d. 1990, og Helgi Jón Magnússon húsgagnasmiður, f. 1904, d. 1982. Börn þeirra eru 1) Ragna Jóna, f. 1955, maki Magnús Matthíasson, f. 1954, börn þeirra eru Sigurjón, Telma og Rakel. 2) Helgi, f. 1957, maki Freydís Ármannsdóttir, f. 1960, börn þeirra eru Magnea, Guðbjörg, Hafdís og Pétur Már. 3) Ingibjörg, f. 1960, maki Grímur Þór Gretarsson, f. 1959, börn þeirra eru Gretar Már, Sandra Ósk, Sævar Örn og Sindri Már. Langafabörnin eru orðin nítján.
Útför Sigurjóns fer fram 6. maí 2020 frá Árbæjarkirkju. Sökum aðstæðna verður eingöngu nánasta fjölskylda viðstödd athöfnina. Athöfninni verður streymt frá þessari vefslóð: https://youtu.be/K_iuVR84_AM. Styttri slóð: https://n9.cl/lxz4. Slóðina má nálgast á www.mbl.is/andlat.
Það var gott að Binna frænka sendi bróður sinn Sigga í Dansskóla Rigmor
Hansson. Hann hefði annars aldrei hitt Möggu eða Magneu sem varð konan
hans.
Siggi eða Sigurjón var elsti bróðir pabba en þau systkini voru átta, pabbi
elstur og Sverrir yngstur og tveimur mánuðum yngri en ég. Þetta var stór
barnahópur og þegar tvíburarnir fæddust, Vilborg og Gyða, þurfti að létta á
heimilinu. Afi fór þá með Sigga austur að Ásgarði í Grímsnesi en þar átti
hann góða að. Þegar átti að sækja Sigga og fara með hann í bæinn vildi hann
ekki fara og varð um kyrrt í Ásgarði. Þar ólst hann upp ásamt Ásmundi
Eiríkssyni en þeir tveir ólust upp hjá Guðrúnu og dóttur hennar Guðbjörgu
sem var símstöðvarstjóri og organisti í Úlfljótsvatnskirkju.
Í Ásgarði var búskapur og ólst Siggi upp við sveitabústörf. Ég spurði hann
eftir að hafa farið á Byggðasafnið á Akranesi hvað tækið héti sem var notað
til að mylja tað áður en það var borið á tún. Safnverðirnir vissu ekki hvað
það hét en Siggi svaraði um hæl þegar ég spurði hann: taðkvörn. Einmitt
þetta var taðkvörn. Þótt Siggi frændi minn væri farinn að missa minnið þá
mundi hann vel gömlu dagana og það var unun að tala við hann um þá. Hann
sagði mér frá því þegar tekinn var mór fyrir neðan Ásgarð, hvað það voru
margar skóflur niður og var mógröfin mannhæðardjúp. Mórinn var þurrkaður og
notaður sem eldiviður og til að reykja við t.d. hangikjöt. Hann sagði mér
líka frá veiðinni í Soginu fyrir neðan Ásgarð svo það hefur verið nóg að
borða í Ásgarði.
Hinum megin við Sogið var Grafningurinn og Siggi þurfti einu sinni að
flytja hest á milli Ásgarðs og Bíldsfells í Grafningi og þetta var áður en
búið var að brúa við Ljósafoss. Hann gekk alla leið milli þessara bæja.
Leiðin lá með fram Soginu að Sogsbrúnni og alla leið að Bíldsfelli sem var
álíka langt frá og Ásgarður.
Menntun Sigga hófst, fyrir utan að menntun barna í bændasamfélaginu var á
heimilinu eða býlinu, í Barnaskóla Grímsneshrepps og lauk hann þar prófi
1944. Hann fór síðan í Íþróttaskólann í Haukadal og lauk þar prófi fimm
árum seinna. Hann var alltaf vel á sig kominn.
Starfsmenntun Sigga til vélfræðings hófst 1952 og lauk 1956. Störf hans
hófust hjá Skipaútgerð ríkisins, síðan vélstjóri í Rafstöðinni á Írafossi
sem varð svo Landsvirkjun sem lauk í stjórnstöð Landsvirkjunar við
Bústaðaveg 1995. Þennan hluta þekki ég ekki svo vel.
Ég man hann sem frænda minn sem var alltaf hljóðlátur og stilltur og kom
til ömmu í Miðtúni í jólaboðin á jóladag. Alltaf ljúfur og góður þótt oft
gengi mikið á í jólaboðunum með mörgum krökkum og spiluð félagsvist. Þeir
voru líkir í útliti en ólíkir bræður pabbi og Siggi. Siggi hægur,
hljóðlátur og feiminn, þess vegna var það gott að Binna sendi Sigga í
dansskólann.
Minningar mínar um Sigga frænda minn eru þegar ég flutti til Kaupmannhafnar
í ágúst 1962 og Siggi var vélstjóri á m/s Heklu og ég sat í káetunni og
prjónaði og heklaði alla leiðina út til að halda út sjóveikina. Ég man líka
eftir þegar þau Magga og Siggi bjuggu með börnum sínum á Írafossi og Ragna
elsta dóttir þeirra var fermd. Mínar ferðir voru ekki margar á Írafoss því
ég átti ekki bíl.
Árin liðu og þau fluttu í Árbæinn. Við frænkurnar föðursystur mínar og
dætur Guðjóns ömmubróður ásamt Möggu byrjuðum að hittast í frænkukaffi
fyrir rúmum 20 árum. Það var gaman að hittast og þarft því við miðluðum
fréttum af fjölskyldunni. Magga var svo framtakssöm að hún fór að taka
saman ættartöluna okkar og 7. júní 2003 var haldið ættarmót. Þá voru liðin
100 ár frá fæðingu Jónínu ömmu.
Ég kom stundum og vann í ættartölunni með Möggu og Siggi hellti upp á
könnuna. Það var unun að sjá hvernig þau leystu saman athafnir daglegs
lífs, hann farinn að gleyma og hún farin að missa sjón. Hann sagði einu
sinni þegar hann vissi ekki hvort hann fengi endurnýjað ökuskírteinið: Ég
vil fá að keyra mína konu. Þau studdu hvort annað.
Seinna átti ég erindi í Stangarhylinn hjá FEB og kom þá stundum í kaffi á
eftir í Vorsabæinn. Það voru margar ánægjustundir með kaffibolla með Möggu
og Sigga frænda, þeim mæta manni og uppáhaldsfrænda mínum.
Megi minning hans lifa með okkur samferðafólki hans lengi.
Elísabet Jónsdóttir.