Ása Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1936 í Reykjavík. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans þann 23. apríl 2020.
Foreldrar hennar voru hjónin Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, skrifstofustjóri Alþingis og þýðandi,  f. 18. febr. 1886, d. 31. okt. 1957, og Anna Guðmundsdóttir, f. 25. september 1902, d. 28. mars 1987. Foreldrar Jóns voru Sigurður Ólafsson, sýslumaður, og Sigríður Jónsdóttir. Foreldrar Önnu voru Guðmundur Hannesson, læknir og prófessor, og Karólína Margrét Sigríður Ísleifsdóttir. Ása varð stúdent frá M.R. árið 1956 og lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1958. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum árið 1963. Hún lagði stund á nám í menntunarleikhúsfræði í New School of Social Research í New York og lauk B.A. prófi árið 1975 en tók M.A. próf í sama skóla árið 1977. Hún stundaði á frönskunám í skóla Sameinuðu þjóðanna og Genfarháskóla á árunum 1979-1981. Hún var kennari í Hlíðaskóla í Reykjavík á árunum 1963-1974 en kenndi við Austurbæjarskóla frá árinu 1982 og síðast við Hvaleyrarskóla þangað til hún fór á eftirlaun. Systkini Ásu voru Sigríður Jónsdóttir, f. 17. september 1934, og Guðmundur Karl Jónsson, f. 20. nóvember 1940, d. 2. júlí 2009. Eiginmaður Ásu var Tómas Karlsson sendifulltrúi, f. 20. mars 1937, d. 9. mars 1997. Foreldrar hans voru Karl Guðmundsson, rafvélameistari og Margrét Tómasdóttir.
Börn Tómasar og Ásu eru Jón Frosti, leiðsögumaður, f. 2. apríl 1962, og Jökull, f. 15. júní 1965. Sonur Jóns Frosta er Tómas Fróði Frostason, flugvirki, f. 3. nóvember 1992; maki hans er Oddný Rún Karlsdóttir, f. 10. janúar 1994. Barnsmóðir Jóns Frosta, móðir Tómasar Fróða, er Hallgerður Thorlacius, sjúkraliði, f. 21. september 1966. Dóttir Hallgerðar og uppeldisdóttir Jóns Frosta er Silja Ívarsdóttir, f. 19. ágúst 1982. Sonur Jökuls er Finnur Kaldi Jökulsson, f. 7. desember 1999. Móðir hans og eiginkona Jökuls er Kathy June Clark, f. 23. ágúst 1957.
Útförin fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Ég hitti tengdamóður mína þegar ég kom til Íslands frá San Francisco til að giftast eiginmanni mínum á mjög snjóþungum vetrardegi í febrúar árið 1996. Ég myndi segja að það hafi verið fyrstu raunverulegu kynni mín af dæmigerðri íslenskri konu, fjölskyldu hennar og menningu. Ég kynntist margháttuðum lífsháttum Íslendinga og sjónarhorni þeirra á heiminn í gegnum Ásu tengdamóður mína. Við áttum merkilega margt sameiginlegt og í áranna rás nefndi hún það gjarnan. Við vorum báðar kennarar, listamenn og höfðum sterkt vinnusiðferði. Jafnvel þegar hún var komin á níræðisaldur fylgdist ég felmtri slegin með henni mála húsið sitt að utan uppi í stórum stiga og slá blettinn, klippa runnana, bera þunga poka, reyta mosa og fást við hið endalausa verkefni að lakka viðarpallinn og útveggina á sumarbústaðnum sem var henni svo kær. Því orða ég það gjarnan sem svo að Óðurinn til sumarbústaðarins hafi verið verk hennar í vinnslu síðasta sumarið í lífi hennar. Undanfarin 25 ár, eða lengur, hafði hún gróðursett mörg hundruð tré og runna sem mynduðu einkalegan, afvikinn, skjólsælan og þykkan skóg (það er varla hægt að ganga í gegnum hann í dag), svo ekki sé minnst á paradís fyrir tístandi sumarfugla. Þetta var ástríða hennar og það sem veitti henni mesta hamingju. Ása hafði unun af gönguferðum um þessa eign sína og varð tíðrætt um það mikla starf sem fyrir höndum væri einhvern daginn við að grisja þetta mikla trjáþykkni.
Hún hélt áfram sínu mikla starfi allt fram á síðustu mánuðina eftir að hún greindist með krabbamein og rakaði síðustu laufin sem féllu af trjánum aftan við húsið. Ég var steinhissa á að hún skyldi svo mikið sem reyna að takast á við þetta verk í öllum sínum veikindum. Ég dáðist virkilega að staðfestu hennar og viljastyrk. Hún var sannkölluð drottning í að koma hlutunum í verk og gera þá vel. Sami andi ríkti í fjölskyldu minni og ég kunni að meta þennan eiginleika og ráðvendnina sem Ása bjó yfir.
Í áranna rás voru sögurnar margar sem tengdamóðir mín sagði mér um ævi sína og þær voru tilkomumiklar. Til dæmis frá því þegar hún var sendiherrafrú og hélt ótal veislur fyrir tignarmenn, forseta og kóngafólk, um hvernig það var að búa í Bandaríkjunum og fara í formlegan kvöldverð í Hvíta húsinu og hitta Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Nancy Reagan forsetafrú. Að mörgu leyti lifði hún mögnuðu lífi en á sama tíma hélt hún í sín jarðbundnu gildi og nýtnu
lífshætti.
Sem útlendingur á Íslandi lærði ég ýmislegt af Ásu og það mikilvægasta var að elda lambalæri og allt meðlætið sem fylgir þjóðarrétti Íslendinga. Hún eldaði fyrir okkur lambalæri oftsinnis á ári og sagði að íslenska lambakjötið væri það besta í heimi. Ég heyrði hana oft segja að hún væri stolt af að vera Íslendingur og þætti gott að búa á Íslandi. Hún var fastheldin á skoðanir sínar og lét sjaldan telja sig ofan af þeim. Hún var klárlega sterk og sjálfstæð kona með ákveðnar hugmyndir um lífið sem áttu djúpar rætur í sannfæringu hennar og lífsskoðunum. Manneskjur sem þekkja sjálfar sig og láta ekki sannfærast auðveldlega hafa sitthvað til brunns að bera. Þrátt fyrir alla sína þrjósku vildi Ása öllum vel og var ákaflega örlát og elskuleg við syni sína, ömmusyni sína og ömmudóttur. Hún var ætíð vingjarnleg við vini og fjölskyldumeðlimi og sérstaklega við foreldra mína sem þótti mjög vænt um hana.
Ása var kennari fram í fingurgóma. Mér þótti undurvænt um hvernig hún hélt utan um íslenskukennslu sonar míns þegar við fluttum fyrst til Íslands. Hún var staðráðin í að taka hann í einkatíma nánast daglega eftir skóla og kenna honum að lesa og skrifa og hjálpa honum við námið. Þau mynduðu sterk tengsl sín á milli og þau tengsl náðu út yfir heimanámið. Ég er mjög þakklát fyrir það að sonur minn og amma Ása hafi átt þennan sérstaka tíma saman.
Síðasta hamingjusama minning mín um Ásu var þegar hún bað mig og mágkonu mína að hjálpa sér við að fara í gegnum persónulega muni sína til að koma þeim í lóg. Við vorum marga daga að fara í gegnum fötin hennar á meðan hún lá í rúminu og rifjaði upp minningar tengdar hverri flík, tengingu þeirra við ólík tímabil og sögur um hvar og hvenær hún klæddist þeim. Við hlógum allar og nutum þess að skiptast á tilteknum flíkum og rifja upp Ásu, fyrir 20 árum eða meira. Mér fannst ég virkilega vera hluti af fjölskyldusögunni þegar við áttum þennan dásamlega tíma saman.
Að lokum langar mig að þakka tengdamóður minni fyrir að hafa reynst mér sterk og elskuleg manneskja og okkur öllum. Þér var sannarlega annt um fjölskyldu þína og þín verður minnst fyrir alla þá einstöku og sérstöku eiginleika sem þú bjóst yfir, kæra Ása mín.


Kathy Clark.