— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Og bók sem skrifuð er um lífsreynslu lítils drengs í Rúanda segir meira, hefur dýpri áhrif á okkur en þúsund fréttir og þúsund skýrslur. Hún gefur okkur sýn inn í okkar heim, ekki síður en þann sem lýst er.

Ekki vissi ég það. Ég heyrði náttúrlega eins allir aðrir fréttir af morðöldu í Rúanda fyrir rúmum aldarfjórðungi. Talað var um þjóðarmorð, hvorki meira né minna, og að stjórnvöld væru ábyrg. Svo heyrðum við að settur hefði verið á fót alþjóðlegur glæpadómstóll til að rétta yfir þeim sem taldir voru bera þyngstu sökina. Allt var þetta skilmerkilega tíundað í fjölmiðlum heimsins.

Samt fór þetta fyrir ofan garð og neðan hjá okkur flestum.

Ég gerði mér grein fyrir því þegar ég las bókina Litla land sem bókaútgáfan Angústúra gaf út fyrir fáeinum vikum. Höfundurinn, Gaël Faye, fæddur 1982, var tólf ára þegar þessir atburðir áttu sér stað. Frásögn hans hefst í aðdraganda óaldarinnar. Þegar hryllingurinn varð mestur var drengurinn kominn til Frakklands en þaðan var faðir hans; móðirin frá Rúanda.

Á bilinu átta hundruð þúsund til milljón manns, konur, karlar og börn, voru myrt í Rúanda á innan við eitt hundrað dögum frá 7. apríl til 15. júlí árið 1994. Tíu þúsund manns á dag í landi sem að stærð er á við fjórðunginn af Íslandi. En þrátt fyrir frásagnir í fjölmiðlum gerðist þetta frammi fyrir sinnulausum heimi. Enginn lyfti svo mikið sem litla fingri hinum ofsóttu til bjargar.

Þetta var einhvers staðar langt í burtu og náði aldrei að verða meira en tölur um lifendur og dauða. Nú voru það Hútúar sem drottnuðu og drápu Tútsa. Áður höfðu Tútsar drottnað yfir Hútúum. Þetta fengum við að heyra í fréttaskýringum. Svona væri gangur sögunnar.

Í Litla landi fáum við hins vegar nálægðina. Við lestur bókarinnar rann það upp fyrir mér hve lítið ég hafði vitað – hve lítið ég hafði skilið.

Lesandinn fylgir ellefu ára dreng sem smám saman er að byrja að skilja:

„Ég veit eiginlega ekki hvernig þetta byrjaði allt saman. Samt hafði pabbi skýrt þetta allt fyrir okkur einn dag í bílnum... Svo eru það Tútsar, eins og mamma ykkar. Þeir eru miklu fámennari en Hútúar, þeir eru hávaxnir, með fíngert nef og maður veit aldrei hvað þeir eru að hugsa... Á þessu augnabliki vissi ég ekki sjálfur hvað ég átti að halda. Hvað getur maður haldið um svona mál? Þannig að ég spurði:

– Stríðið á milli Tútsa og Hútúa, er það af því að þeir eiga ekki sama land?

– Nei, það er ekki það, þeir eiga sama land.

– En... tala þeir ekki sama tungumál?

– Jú, þeir tala sama tungumál.

– En, trúa þeir þá ekki á sama guð?

– Jú, þeir trúa á sama guð.

– En af hverju eru þeir þá í stríði?

– Af því að nefin á þeim eru ekki eins.

Þarna lauk umræðunum. Þetta var allt mjög undarlegt. Ég held að pabbi hafi ekki botnað neitt í þessu. Upp frá þessum degi fór ég að taka eftir nefi og hæð fólks úti á götu...“

Svo fór drengurinn að sjá hvernig friðsælt samfélag er rifið í sundur, fólki att hverju á móti öðru, hvernig illvilji, en ekki síður vanmáttur og veikleiki, brýst út í grimmd og ofbeldi.

Og í huga okkar koma upp myndir úr mannkynssögunni sem minna á hve grunnt er á óargadýrið í manneskjunni og hve fyrir bragðið siðmenningin – jákvæð og umburðarlynd öfl, samúð og samkennd – er okkur lífsnauðsynleg.

Á sinn hátt hefur veirufárið smækkað heiminn. Veira skýtur upp kollinum austur í Kína og leggur okkur í rúmið hinum megin á hnettinum. Það sem gerist á einum stað hefur afleiðingar á öðrum.

Og bók sem skrifuð er um lífsreynslu lítils drengs í Rúanda segir meira, hefur dýpri áhrif á okkur en þúsund fréttir og þúsund skýrslur. Hún gefur okkur sýn inn í okkar heim, ekki síður en þann sem lýst er.

Svona geta bókmenntirnar stækkað heiminn um leið og þær smækka hann.

Angústúra-útgáfan hefur fært til okkar bókmenntir úr heimshlutum sem ekki hafa verið í alfaraleið á okkar fjölförnustu menningarbrautum; Mexíkó, Nígería, Egyptaland, Sýrland, Kína, Norður-Kórea, Nýja-Gínea, Suður-Afríka og fleiri lönd hafa hafnað á náttborðinu hjá okkur sem erum áskrifendur útgáfunnar.

Þakkir ber að færa skáldunum og rithöfundunum sem með andagift sinni færa út sjóndeildarhringinn og dýpka hugsun okkar og skilning með orðum sínum.

Og Angústúrum þessa heims þökkum við fyrir að færa okkur orð þeirra.