Hjónin Jóninna Margrét Pétursdóttir og Reynir Mar Guðmundsson létust á Landspítalanum í Fossvogi hinn 23. mars og 2. apríl síðastliðinn.


Jóninna fæddist hinn 4. júní 1948 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru Pétur Pétursson, sjómaður frá Tjörn á Skaga, f. 26. maí 1906, d. 18. júní 1990, og Sigríður Hansína Hannesdóttir frá Keflavík, f. 2. september 1924, d. 4. maí 2015. Hún bjó í foreldrahúsum í Hafnarfirði og síðar í Kópavogi þar til hún fór í húsmæðraskólann á Staðarfelli. Eftirlifandi systkini Jóninnu eru Vilhjálmur Björn Hannes Roe, f. 8. des. 1943, Guðmundur, f. 10. nóvember 1949, og Guðrún Maríanna, f. 11. júní 1953.

Reynir var frá Geirshlíð í Flókadal. Foreldrar hans voru Guðmundur Bergsson frá Lundi í Stíflu, Skagafirði, síðar bóndi í Hvammi, Ölfusi, f. 2. júní 1915, d. 26. júní 2000, og Ljótunn Jónsdóttir, saumakona frá Geirshlíð í Flókadal, Borgarfirði, f. 16. apríl 1914, d. 7. september 2008. Hann flutti ungur með móður sinni og eldri bróður, Pálma Jónssyni (sammæðra), f. 8. október 1938, til Reykjavíkur þar sem hann ólst upp í Vesturbænum. Hann lærði bifvélavirkjun og vann hjá Ræsi, síðar vann hann einnig hjá Vestfjarðaleið. Eftirlifandi systkini Reynis eru (samfeðra) Halldór Ómar, f. 28. apríl 1945, Lovísa Guðný, f. 31. mars 1947, Svanfríður Kristín, f. 24. júlí 1951, Lovísa, f. 15. des. 1951, Bergur Geir, f. 18. júlí 1954, Birna, f. 7. maí 1956, Pétur Benedikt, f. 10. janúar 1959, Erna Björk, f. 27. júlí 1960, og Guðni Kristinn, f. 12. des. 1967.

Synir Ninnu og Reynis eru: 1) Pétur, f. 10. febrúar 1967, kvæntur Áslaugu Einarsdóttur. 2) Jón Vilberg, f. 28. janúar 1971, sambýliskona hans er Guðný Elísabet Ísaksdóttir. 3) Þröstur, f. 23. nóvember 1975.

Ninna og Reynir fluttu til Hveragerðis árið 1974 og hóf Reynir þá störf hjá Kristjáni Jónssyni við rútuakstur og viðgerðir en Ninna fór fljótlega að vinna hjá Kjörís sem Reynir gerði líka nokkru síðar. Reynir starfaði alltaf í tengslum við bifreiðir, bæði við akstur og viðgerðir. Ninna var í vinnu hjá Kjörís í nokkur ár en síðustu 30 starfsárin var hún hjá Dvalarheimilinu Ási.

Útför þeirra fór fram hinn 15. apríl síðastliðinn.

Elsku mamma og pabbi.
Mikið er ótrúlega erfitt að skrifa þessi orð. Ég bara hreinlega trúi því varla ennþá að þið séuð farin og ég geti ekki komið í heimsókn og tekið utan um ykkur. Sest niður, fengið kaffi og rætt málin. Mig langar til að birta hérna orðin sem voru lesin við útförina ykkar, þau lýsa ykkur og ykkar lífshlaupi svo vel.
Fyrstu árin bjuggu mamma og pabbi í íbúð við Holtsgötuna í Vesturbæ Reykjavíkur. Þau giftu sig um jólin 1967. Áður en þau fluttu til Hveragerðis starfaði mamma við afgreiðslu í verslun í Kópavogi þar sem foreldrar hennar bjuggu. Pabbi lærði bifvélavirkjun hjá Ræsi sem var þá umboðsaðili Mercedes Benz á Íslandi, enda hefur Bens-stjarnan fylgt honum ætíð eftir það. Í einhver ár starfaði hann síðan hjá Vestfjarðaleið en fékk síðan vinnu hjá Kristjáni Jónssyni í Hveragerði þar sem hann sá um viðgerðir og akstur á rútum.
Mamma fór fljótlega að vinna í Kjörís og starfaði þar í mörg ár. Hún fór síðar að vinna hjá Dvalarheimilinu Ási og vann þar síðustu 30 árin áður en hún lét af störfum vegna aldurs. Þó að mamma hafi starfað lengst af hjá þessum góðu fyrirtækjum lét hún það ekki nægja, enda alltaf til í að prófa allt. Hún tók meðal annars rútupróf þegar hún var ófrísk að Þresti, hún keyrði leigubíl og rak Shell-skálann ásamt Reyni sínum um tíma. Mamma var alltaf hress og kát, hún var mikill vinur og mátti ekkert aumt sjá. Hún var alltaf tilbúin að hjálpa öðrum og standa við bakið á þeim sem þurftu.

Mamma var mikill meistarakokkur og eldaði besta mat í heimi. Enda gekk hún í húsmæðraskólann á Staðarfelli á sínum yngri árum. Ef hún og pabbi buðu til veislu var alltaf mikið í lagt. Eftir matinn var ekki óalgengt að sjá veislugesti liggja afvelta og dormandi í öllum stólum og sófum á meðan verið var að jafna sig eftir átið. Þessi menntun hennar frá Staðarfelli kom sér vel í öllum þeim störfum sem hún tók sér fyrir hendur í gegnum árin. Hún prjónaði líka mikið, peysur, húfur, sokkar og vettlingar hafa gengið barna á milli innan sem utan fjölskyldunnar árum saman. Mamma hafði alla tíð mikinn áhuga á andlegum málefnum en það var ekki fyrr en síðari ár að hún fór að sinna því að einhverju ráði. Hún ákvað að sækja sér menntun í þessum fræðum hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands, sem hún hafði mikið gaman af.
Pabbi starfaði í einhver ár hjá Kristjáni Jónssyni en hann flutti sig síðan yfir í næsta hús og fór að vinna fyrir Kjörís þar sem hann var verkstæðisformaður. Í gegnum árin starfaði pabbi við margt en þó alltaf tengt bílum. Hann rak verkstæði, keyrði rútur og vörubíla og vann hjá Frumherja við bifreiðaskoðun. Hann var alltaf ráðagóður og hjálpsamur, þau voru ófá símtölin sem hann átti við hina ýmsu bílakalla víðs vegar að af landinu sem hringdu til að fá ráð hjá honum í gegnum árin.

Það er óhætt að segja að þau hjónin hafi alltaf verið vinnusöm og það gekk oftast svo langt að útilegur og annað þannig vesen var látið sitja á hakanum eða þá að með einhverju snjallræði tókst pabba að tvinna saman vinnuna og útileguna. Enda með eindæmum vel skipulagður.
Það var einhverju sinni að pabbi hafði verið að gera við vörubíl fyrir einhvern á Ísafirði. Gert var við bílinn í Hveragerði en síðan þurfti náttúrlega að koma bílnum vestur til eigandans. Þá datt kallinum það snjallræði í hug að sameina samveru með fjölskyldunni og þetta skutl vestur á firði. Alveg fullkomið. Hann reddaði tjaldvagni undir frúna og drengina, sem frú Ninna átti svo að draga vestur á einhverjum af þessum Bensum sem hann átti. Eins og venjulega lét kallinn alla fjölskylduna bíða í nokkra klukkutíma áður en hægt væri að leggja af stað. Allir orðnir frekar óþolinmóðir og pirraðir. Það snerti ekki kallinn hið minnsta. Svo var loksins lagt af stað. Þar sem pabbi brunaði áfram á vörubílnum með fjölskylduna skröltandi í rykkófi fyrir aftan sig inn Hvalfjörðinn vildi ekki betur til en svo að annað dekkið undan tjaldvagninum ákvað að fara í sitt eigið ferðalag fram úr lestinni og síðan langt niður í fjöru. Sá gamli dó ekki ráðalaus. Hann dröslaði fjölskyldunni út úr Bensanum, sneri vörubílnum við, bakkaði að tjaldvagninum og lét alla lyfta tjaldvagninum upp á pallinn. Sótti dekkfjandann í fjöruna og svo var haldið heim á leið. Útilegan var búin. Svona samverustundir fjölskyldunnar voru ekkert einsdæmi heldur frekar regla.
Mamma og pabbi voru einstök hjón, þau áttu marga og góða vini sem minnast þeirra með hlýju. Þó svo að mamma hafi oft sagt við ástina sína æi mikið svakalega ertu leiðinlegur, kall og hann hafi álíka oft sagt við sína heittelskuðu vertu nú ekki alltaf með þetta vesen, Ninna, þá ríkti á milli þeirra gagnkvæm vinátta og virðing.
Ég kveð þau með ást, söknuði og hlýju. Þakka fyrir árin sem ég fékk að hafa þau hjá mér og minningarnar sem þau hafa gefið mér. Þótt það sé erfitt að sakna og tárin streymi bíð ég eftir þeim degi þar sem á undan tárunum kemur bros.
Með kærri kveðju, elsku mamma og pabbi.
Við sjáumst í Sumarlandinu.
Ykkar

Pétur.