Jóhanna Erlingsdóttir fæddist 7. janúar 1957. Hún lést á Landspítalanum 14. maí 2020.


Foreldrar hennar voru Erlingur B. Magnússon og Ásdís Helga Höskuldsdóttir, þau eru bæði látin. Jóhanna var elst sjö systkina. Systkini hennar eru: Ragnar, f. 4. apríl 1958; Höskuldur, f. 7. október 1960; Hinrik, f. 23. september 1962, d. 23. nóvember 1989; Guðbjörg, f. 14. nóvember 1964; Ellen Ásdís, f. 4. ágúst 1970; María Erla, f. 8. janúar 1972.

Jóhanna eignaðist tvær dætur, þær Tanyu Helgu, f. 5. júlí 1983, og Alexöndru Guðrúnu, f. 19. nóvember 1989. Börn Tanyu Helgu eru Natalía Sif og Viktor Logi.


Útför Jóhönnu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 3. júní, klukkan 13:00.

Minningar frá Melbæ

Tileinkað kærri vinkonu, Jóhönnu Erlingsdóttur.
Það var einhvern veginn svo sjálfsagt að við Jóhanna yrðum vinkonur, mömmur okkar voru jú bestu vinkonur í heimi. Samt bjuggu þær langt hvor frá annarri, önnur átti heima úti í sveit en hin í Reykjavík.


Mamma tók bílpróf þegar yngsti bróðir minn af fjórum systkinum var um það bil ársgamall. Þá áttum við Skóda-bifreið og pabbi kenndi mömmu að keyra. Ástæðan fyrir því að mamma vildi læra að keyra bíl var að hana langaði að geta farið vestur á land í Króksfjarðarnes, í heimsókn til Helgu vinkonu sinnar sem bjó á Melbæ í Króksfirði. Helga, vinkona mömmu, átti fimm börn eins og mamma. Þegar mamma lagði af stað vestur þá raðaði hún okkur í bílinn, öllum nema elsta bróður mínum sem var farinn norður í land í sveit. Svo lögðum við af stað. Þessi leið sem í dag tekur kannski tvo og hálfan tíma að aka tók þá um sex tíma ef vel gekk. Árið var 1965 og við þurftum að aka Hvalfjörðinn og Borgarfjörðinn og að sjálfsögðu Gilsfjörðinn. Þá voru vegir ekki mikið malbikaðir og aksturshraðinn því kannski 45-50 km á kl. Mamma var bara 27 ára, fimm barna húsmóðir sem var nýbúin að læra á bíl en lét það ekki trufla sig og lagði af stað með fullan bíl af börnum og ók vestur til vinkonu sinnar. Þetta gerði hún aftur og aftur ár eftir ár til að heimsækja Helgu Höskuldsdóttur, húsmóður í Melbæ.
Melbær í Króksfirði.

Þegar við komum að Melbæ urðu alltaf mikil fagnaðarlæti því þær mamma og Helga þurftu að faðmast, kyssast og heilsast. Svo þurfti að koma okkur fyrir. Húsið var auðvitað fullt af börnum.


Ég fékk inni í herbergi hjá Jóhönnu enda vorum við jafnöldrur, svo var systkinum mínum deilt niður á herbergi með heimilisbörnunum en svo skemmtilega vildi til að flest þeirra voru á svipuðum aldri og mín systkini.


Við Jóhanna náðum strax vel saman, urðum góðar vinkonur og byrjuðum strax að skipuleggja ýmiss konar brall og hrekkjabrögð. Við náðum það vel saman að ég man lítið eftir veru systkina minna þessi sumur sem ég dvaldi á Melbæ. Jóhanna sýndi mér strax alla leynistaði hússins en þeir voru margir. Við gátum meðal annars farið á milli herbergja og njósnað ef við þurftum, sem gat verið bráðnauðsynlegt.

Ég man eftir afaherbergi, en þessi afi var löngu látinn og nú var herbergið notað sem gestaherbergi. Þar inni höfðu ýmsir gestir fengið að gista og skilið margt skrítið eftir sig. Eitt skiptið komust yngri systkin á bænum yfir góss í skúffum; blöðrur sem þar höfðu verið skildar eftir. Litlu krakkarnir reyndu mikið að blása þessar blöðrur upp en þegar ekkert gekk þá reyndu þau að fá
aðstoð fullorðinna sem hlupu upp til handa og fóta þegar þau sáu blessuð börnin með smokka.
Ég man eftir því þegar við fórum ásamt bræðrum Jóhönnu og fönguðum silung eða urriða og komum fisknum fyrir í keri í hlöðunni. Þar ætluðum við að hafa hann sem gullfisk. Daglega heimsóttum við fiskinn og gáfum honum gras að éta. Einn daginn kom föðurbróðir Jóhönnu og bjargaði fisknum frá okkur og kom honum á betri stað.
Ég man þegar við krakkarnir tókum köttinn á heimilinu og klæddum hann í föt. Því næst tjóðruðum við hann niður í kerru og keyrðum hann um allt eins og lítið barn. Það var alveg sama hversu mikið kötturinn klóraði og beit, hann hafði ekkert í okkur krakkana.
Ég man eftir Ragnari bróður Jóhönnu, hann var næstur henni í aldri og minnst gefinn fyrir ólæti. Hann var hæglátur og rólegur og það þurfti svolítið að peppa hann upp í prakkarastrikin. Þegar það hins vegar tókst var hann til í allt.

Ég man eftir litlu bræðrum Jóhönnu, Hössa og Hinna. Þeir voru báðir með svo dásamlegan gaurasvip og alltaf til í prakkarastrik. Sterkast í huga mér er þegar þeir komu hlaupandi inn á gang í forugum stígvélum með flugur og orma í höndunum og buðum öllum sem vildu sjá hvernig þeir borðuðu orma og flugur. Yndislegir prakkarar.
Ég man vel eftir Guggu litlu, sem hafði miklu fínlegri hreyfingar en hin systkinin og var eiginlega prinsessan í hópnum. Hún hét eftir ömmu sinni sem kom á hverju ári í heimsókn á glæsikerru. Guðbjörg amma var enda mikil glæsikona, eiginlega með blátt blóð í æðum. Þegar hún kom akandi á bílnum sínum var hún alltaf með bílstjóra og bílstjórinn með kaskeiti. Í bílnum hennar Guðbjargar ömmu var meira að segja plötuspilari. Það var þvílík upplifun að fá að sitja aftur í bílnum, jafnvel bara út í kaupfélag og til baka, og hlusta á plötu spilaða í bílnum. Jóhanna var alltaf leiðtoginn, hún var jú elst, bæði í sínum systkinahópi og svo var hún auðvitað hálfu ári eldri en ég. Það skyldi alltaf haft í heiðri að þó við værum fæddar sama ár þá átti hún afmæli í janúar en ég í júní og þess vegna var hún eldri en ég og miklu klárari og þroskaðri. Þegar báðir systkinahóparnir voru samankomnir þá vorum við samtals níu og hún að sjálfsögðu foringinn.
Ég man þegar Jóhanna skipulagði að við skyldum öll klæðast sem útigangsmenn eða rónar. Og það gerðum við. Við leituðum að fötum sem voru allt of stór á okkur og fóru okkur illa, settum á okkur hatta og húfur og tróðum heyi inn undir húfurnar. Svo fórum svo í ósamstæða skó og bomsur. Næst fundum við okkur vínflöskur og brúsa og lögðum af stað eftir þjóðveginum þar sem við lékum okkar hlutverk til fullnustu þegar einhver bíll kom akandi. Ekki veit ég hvort vegfarendur skemmtu sér en við skemmtum okkur stórkostlega.


Oft í viku bakaði Helga mamma Jóhönnu dýrindis skúffukökur sem hún setti svo á borð í búrinu en þar var sérinngangur sem við nýttum okkur óspart þegar hungrið svarf að. Þá laumuðumst við inn í búrið og fengum okkur sneið og hlupum svo út aftur. Aldrei vorum við skömmuð fyrir þetta og innst inni held ég að Helga hafi ætlast til að við laumuðumst í kökuna í búrinu því þá slapp hún við að fá okkur inn á skónum.
Ég man þegar Helga og mamma sátu við eldhúsborðið og töluðu saman á kvöldin. Það fannst okkur Jóhönnu svo spennandi að við reyndum að hlera og komum meira að segja fyrir upptökutæki á bak við gardínurnar. Svo hlupum við skellihlæjandi upp á loft, vissar um að við myndum heyra eitthvert gríðarlega spennandi leyndarmál.
Ég man þegar Helga rétti okkur box og sendi okkur upp í brekkur til að tína ber, en það var svo stutt að fara eftir berjum. Þá fórum við í kapp um hvor yrði fljótari að fá botnfylli. Sú sem varð fyrri til hrópaði þá upp yfir sig; BOTNFYLLI! Svo mikið var kappið að aldrei smakkaði maður berin fyrr en heim var komið og þá með skyri og rjóma.
Ég man líka eftir fallegum sólardögum þegar Helga pakkaði niður handklæði og nesti og allur hópurinn rölti niður í fjöru. Þar breiddi Helga út handklæðið í góðu skjóli og lagðist á sólarströnd. Á meðan hlupum við um í fjörusandinum og horfum á fæturna hálfsökkva í sandinn því hann var svo vatnsmettur. Rétt undan fjörunni var eyja eða hólmi og freistandi að fara þangað á fjöru. Það gat þó líka verið hættulegt því þegar flæddi að varð strax ófært til baka úr eyjunni. Þetta voru yndislegir dagar og okkur Jóhönnu leið vel.

Ég man þegar Helga rétti okkur mjólkurbrúsann og sendi okkur Jóhönnu yfir á næsta bæ að Kambi að sækja mjólk enda engar kýr á Melbæ. Kalli á Kambi fyllti glaður á mjólkurbrúsann fyrir okkur. Þótt leiðin milli bæja væri stutt gat það tekið okkur nokkurn tíma að ganga leiðina því við þurftum að spjalla um
landsins gagn og nauðsynjar. Eitt skiptið kom það í ljós að ég hafði aldrei keyrt traktor eða jeppa! Jóhanna hafði auðvitað oft keyrt þess konar ökutæki. Hún bar vandamálið upp við Kalla á Kambi og honum fannst þetta auðvitað hneykslismál, að stálpuð stúlkan hefði aldrei sest undir stýri! Svo nú skyldi því bjargað við. Úti á túni settist ég undir stýri að jeppanum hans Kalla og fékk viðeigandi leiðbeiningar en eitthvað hef ég tekið illa eftir eða verið of glöð á bensínfótinn því allt í einu stefndum við hraðbyri út í næsta skurð.
Sem betur fer náði Kalli að kippa í stýrið og sveigja með naumindum frá skurðinum. Þar með lauk þessari ökukennslu en Jóhanna hló og skemmti sér dásamlega þótt sjálf væri ég skekin af þessari reynslu.


Þegar við urðum eldri fengum við meiri ábyrgð og Jóhanna eignaðist fleiri systkin þegar Ellen Ásdís og María Erla bættust í hópinn. Jóhanna varð næstum fullorðin og fór að vinna á Hótel Bjarkalundi. Á þessum tíma þurfti Helga að leita sér lækninga í Reykjavík svo ég fór vestur á Melbæ til að líta til með börnunum. Þennan tíma vorum við Jóhanna eins og lítil hjón. Ég var heima með börnin en Jóhanna ók daglega til vinnu á Hótel Bjarkalund. Yngstu systurnar voru bara pínulítil kríli og þurftu móðurlegt eftirlit. Einn daginn var komið að skoðun telpnanna á heilsugæslunni. Okkur Jóhönnu fannst ekkert eðlilegra í okkar mömmó en að fara með þær í eftirlit og sprautur eins og ábyrgir foreldrar. En ég man hve okkur þótti erfitt að eiga við eftirköstin, rjóðar kinnar og mikinn grát hjá blessuðum börnunum.


Við Jóhanna fórum saman á böll og skemmtum okkur konunglega. Þá útvegaði hún far með einhverjum töffaranum í sveitinni og síðan var farið yfir
Tröllatunguheiði og í Sævang. Mikið sem manni fannst maður vera orðinn fullorðinn þá, og þvílíkan þroska sem maður hlýtur að hafa tekið út.


Jóhanna var alltaf potturinn og pannan í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Oftast vorum við sammála því hún var svo lífsglöð og hreif mig alltaf með sér. Það hefði verið auðvelt að reyna að vaða eld og brennistein með henni því sannfæringarkrafturinn og sjálfstraustið var svo mikið.


Mikið þótti mér vænt um það að Jóhanna og öll systkini hennar skyldu mæta í jarðarför mömmu þegar mamma kvaddi árið 2015. Tengslin milli okkar hafa verið slitrótt en samt byggjast þau á afar sterkum grunni.


Elsku Jóhanna. Nú er komið að kveðjustund. Við vorum mikið saman sem börn en ekki eins mikið sem fullorðnar manneskjur. Þó áttum við okkar stundir. Ekki er langt síðan við áttum langt og gott samtal og þá kom skýrt fram sú sterka kona sem þú varst alltaf, Jóhanna mín. Allt sem ég hef skrifað hér að ofan og meira til hefur runnið í gegnum huga minn frá því að ég frétti af brottför þinni. Þegar þú nú hittir mömmu mína og mömmu þína þá leggurðu eyrum eftir því hvað þær eru að bralla og segir mér af því þegar ég kem. Góða ferð, kæra vinkona. Þín æskuvinkona, Ditta.

Sigríður Arna Arnþórsdóttir.