Ragnheiður Júlía Gísladóttir fæddist í Meiri-Hattardal í Álftafirði vestra 7. október 1923. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 21. mars 2020.
Foreldrar Ragnheiðar voru Hansína Sigurðardóttir, f. 16.10. 1900, d. 22.8 1965, og Gísli Júlíus Ólafsson, f. 29.8. 1889, d. 6.6. 1924.
Fyrri kona Gísla var Steinunn Ólafsdóttir, f. 24.4 1892, d. 11.10. 1922.
Þau áttu börnin Hallfríði, f. 1911, Ólaf, f. 1912, Ingva Líndal, f. 1915, Gunnar Ágúst, f. 1916, Sigrúnu, f. 1918, og Ósk, f. 1920.
Seinni kona Gísla var Hansína Sigurðardóttir og eignuðust þau börnin Steinunni Ósk, f. 1922, Ragnheiði Júlíu, f. 1923, og Gísla Ólaf, f. 1924. Hann lést síðastur þeirra systkina 20. apríl 2020.
Ragnheiður giftist árið 1947 Garðari Sigurgeirssyni, f. 8.5. 1922, d. 24.7. 2002.
Börn þeirra: Margrét Helga Garðarsdóttir, f. 17.1. 1942, d. 30.1. 1994. Fyrri maður Árni Þorgilsson og eignuðust þau tvær dætur. Með síðari manni sínum Birni Jónssyni eignaðist hún eina dóttur. Sigurgeir Garðarsson, f. 24.1. 1945, maki Jónína Hansdóttir og eiga þau 4 börn. Þráinn Ágúst Garðarsson, f. 1.7. 1946. Með fyrri konu sinni Önnu Gísladóttur, f. 17. júní 1949, d. 11.10. 2001, eignaðist hann þrjár dætur, elsta dóttirin Margrét Helga, f. 1.3. 1966, d. 23. desember 1984. Seinni kona Sawai Sara Kham. Gísli Garðarsson, f. 16.2 1952. Maki Kristín Jónsdóttir og eiga þau þrjá syni. Hansína Guðrún Garðarsdóttir, f. 27.9. 1954. Maki Finnbogi Hermannsson og eiga þau fjögur börn. Gerður Ragna Garðarsdóttir, f. 4.9. 1958. Maki Ægir Sigurgeirsson og eiga þau þrjú börn. Smári Garðarsson maki Karítas Ása Halldórsdóttir og eiga þau tvö börn.
Langömmubörnin eru 44 og langalangömmubörn 12.
Ragnheiður Júlía ól allan sinn aldur í Súðavík og var þar húsmóðir og fiskverkakona. Henni féll aldrei verk úr hendi á mannmörgu og gestkvæmu heimili. Hún var lengi elsti íbúi Súðavíkur.
Útför hennar verður gerð frá Súðavíkurkirkju í dag, 20. júní 2020, og hefst athöfnin klukkan 14.

Látin er í Súðavík Ragnheiður Júlía Gísladóttir húsmóðir og fiskverkakona. Ragnheiður fæddist í Meiri-Hattardal í Álftafirði vestra þann 7. október 1923, dóttir þeirra Hansínu Sigurðardóttur úr Furufirði í Grunnavíkurhreppi og Gísla Ólafssonar bónda í Meiri-Hattardal. Gísli kom ekkjumaður frá Kleifastöðum í Kollafirði norður að Djúpi. Hansína kom sem ráðskona til Gísla sem þá þegar átti fimm börn fædd vestra með eiginkonu sinni Steinunni Ólafsdóttur. Þau Hansína eignuðust þrjú börn saman; Steinunni, Ragnheiði Júlíu og Gísla.

Gísli Ólafsson varð ekki langlífur, lést á sóttarsæng frá konu og börnum í Meiri-Hattardal árið 1924 og heimilið í Hattardal var leyst upp. Ragnheiður var þá rétt tæplega ársgömul en Gísli í móðurkviði.



Hansína fluttist með tengdamóður sinni og syninum Gunnari út í Súðavík og síðar út í Hnífsdal með Steinunni og Gísla. Hún var í sambúð með Guðmundi Finnbogasyni og bjó lengst af í Hnífsdal.



Ragnheiði var komið í fóstur hjá þeim hjónum Þuríði Magnúsdóttur og Grími Jónssyni útgerðarmanni og kaupmanni í Súðavík. Þau sátu jörðina Súðavík og stunduðu bæði landbúskap og gerðu út. Var þetta mannmargt og líflegt heimili og alltaf nóg að starfa. Hálfsystkini Ragnheiðar fara á tvist og bast í Álftafirði, Ólafur hálfbróðir hennar fer til Bergsveins Ólafssonar í Súðavík, Hallfríður til Margrétar og Jóns Jónssonar sömuleiðis í Súðavík og Sigrúnu er komið fyrir hjá Óskari og Halldóru Þórðardóttur á Grund í Súðavík.



Lífið var enn saltfiskur um 1930 og Ranka fór snemma að taka til hendi á saltfiskreitunum og kynntist þá verðandi lífsförunaut sínum. Ungur sveinn spratt upp í Súðavík á þessum dögum og hét Garðar Sigurgeirsson, ljúfmenni sem ekkert aumt mátti sjá. Eitthvað hefur Ragnheiður séð við Garðar en þau felldu kornung hugi saman og fóru að búa um tvítugt. Keyptu lítið hús af Grími og Þuríði og fengu útmælda lóð í kaupbæti. Fyrsta barnið Margrét Helga fæddist þann 17. janúar 1941 og var þá stríð fyrir ströndum. Hún varð öllum harmdauði er hún lést eftir löng veikindi 30. janúar 1994. Sigurgeir kom næstur, þá Þráinn Ágúst, Gísli og Hansína Guðrún. Síðust í röðinni voru þau Gerður Ragna og Smári, samtals sjö börn.



Garðar sótti snemma sjóinn og vann það sem til féll í landi. Einnig átti fjölskyldan kindur sem aðrir þorpsbúar og varð hlutverk allra vinnandi handa að heyja fyrir féð sumartímann.



Þegar þrjú börn voru fædd, þótti þeim Rönku og Dabba, eins og þau hjón voru jafnan kölluð af sínum nánustu, ekki tjóa lengur að lifa í óvígðri sambúð. Garðar hafði verið á vertíð suður á Akranesi og Ragnheiður skellti sér suður. Þetta var vorið 1947. Séra Bjarni pússaði þau saman og var giftingardagurinn 22. maí. Síðan var haldið rakleitt vestur að stinga upp kartöflugarðinn og pota niður útsæði, það var þeirra brúðkaupsferð.

Ragnheiður Júlía og Garðar voru þrautgóð á raunastund þegar þau máttu yfirgefa heimili sitt þegar snjóflóðið vonda féll á Súðavík í janúar 1995 með miklu manntjóni. Eftir hrakninga komust þau til dóttur sinnar út í Hnífsdal um kvöldið og það segir svolítið um Ragnheiði þegar fréttastöðvar voru að hringja að hún sagði skilmerkilega frá atburðum eins og þjálfaður fréttamaður líkt og lítið hefði í skorist.



Það má með sanni segja að Ragnheiður Júlía hafi staðið sína plikt í þessu afskammtaða lífi. Síðustu árin prjónaði hún ullarsokka á afkomendur sína sem nú eru orðnir 84. Þegar hún heyrði af jarðskjálftum og snjóflóðum austur í Nepal sendi hún heilt partí af ullarsokkum til bágstaddra í Nepal þá á tíræðisaldri.

Þess verður að geta hér að Ragnheiður fór til starfa í íshúsi staðarins, Frosta, þegar börnin voru vaxin úr grasi utan tvö yngstu og togari kominn í plássið. Þar starfaði hún um langt skeið og lét ekki sitt eftir liggja innan um aðrar bónusdrottningar.

Það eru vissulega tímamót þegar Ragnheiður Júlía safnast til feðra sinna. Hún var óskoruð ættmóðir og afkomendur hennar báru óskipta virðingu fyrir henni og Garðari ættföður sínum. Eins og þetta hafi verið ástir samlyndra hjóna alla tíð enda ekki annað að sjá en að þau hafi verið jafn ástfangin og þegar þau fóru að draga sig saman upp úr fermingu í litla sjávarþorpinu fyrir 80 árum.

Ragnheiður lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði þann 21. mars 2020, 96 ára að aldri. Útför hennar fer fram í dag, 20. júní, frá Súðavíkurkirkju.

Finnbogi Hermannsson.