Kristján, eða Stjáni eins og hann var alltaf kallaður, fæddist á Bókhlöðustíg 6 12. september árið 1937, sonur hjónanna Unnar Guðjónsdóttur, starfskonu á Kleppi, og Steina Helgasonar verslunarmanns. Kristján lést á heimili sínu á Hrafnistu í Laugarási 23. maí 2020. Stjáni átti tvær eldri hálfsystur, dætur Steina, þær Agnesi Guðfinnu og Petrínu Helgu. Eru þær báðar látnar.

Stjáni lærði rennismíði og vann fyrst eftir það í Héðni. Síðar fór hann á sjóinn og vann yfirleitt í vélarrúminu og líkaði það vel – fór á vélstjórnarnámskeið, hafði hug á því að læra vélstjórn en af því varð ekki. Á árunum milli 1960 og '70 vann hann þó við vélstjórn á millilandaskipum.

Tuttugu og þriggja ára gamall, árið 1960, kynntist Stjáni Helgu Maríu Þorsteinsdóttur frá Skálanesi í Hraunhreppi á Mýrum. Þau giftust og eignuðust saman tvo syni, þá Steina og Þorstein Gunnar.

Afkomendur Steina eru Berglind, kennari á Akranesi, dóttir Steina og Kristínar Pétursdóttur, hennar sonur er Rafn; tvíburarnir Karólína sálfræðingur, hún á soninn Evan og annað barn í vændum, og Kristmundur, menntaður handritshöfundur og leikstjóri. Þau síðarnefndu eru búsett í Noregi, sem og foreldrar þeirra, Steini og Edda Herborg Kristmundsdóttir. Börn Þorsteins Gunnars eru Guðrún María, hjúkrunarfræðingur í Vestmannaeyjum, hennar móðir er Ingibjörg Einarsdóttir, og Ægir verkfræðingur, Ingunn nuddari og Erla nemi. Þeirra móðir er Margrét Erlingsdóttir. Þorsteinn Gunnar og Margrét skildu. Núverandi sambýliskona hans er Anna Margrét Stefánsdóttir.

Kristján verður jarðsunginn frá Áskirkju í dag, 23. júní 2020, klukkan 13.

Kristján Steinason rennismiður lést á heimili sínu á Hrafnistu í Laugarási 23. maí síðastliðinn. Kristján, eða Stjáni, eins og hann var alltaf kallaður, fæddist á Bókhlöðustíg 6 þann 12. september árið 1937, sonur hjónanna Unnar Guðjónsdóttur, starfskonu á Kleppi, og Steina Helgasonar verslunarmanns. Stjáni átti tvær eldri hálfsystur, dætur Steina, þær Agnesi Guðfinnu og Petrínu Helgu. Eru þær báðar látnar.
Óhætt er að segja að ævi Stjána hafi ekki verið neinn dans á rósum. Fyrsti hlutinn var þó góður, hann átti góðar minningar úr æsku, minntist oft á árin á Bókhlöðustíg, átti góðar minningar þaðan og talaði oft um þá daga þegar hann trítlaði til frændsystkina sinna á Njálsgötu 59 og lék sér við þau, en feður þeirra, Steini og Guðmundur, voru bræður, synir Helga og Guðfinnu á Hvítanesi í Kjós. Góða daga átti hann einnig sem ungur maður. Fyrstu árin í hjónabandinu voru góður tími líka en upp úr því fór að halla undan fæti hjá honum - afar erfiður andlegur sjúkdómur lagðist þungt á hann og varð ekki almennilega við hann ráðið það sem eftir var.

Stjáni lærði rennismíði og vann fyrst eftir það í Héðni. Ekki fannst honum það gefa nógu mikið í aðra hönd þegar til átti að taka og fór hann á sjóinn og vann yfirleitt í vélarrúminu og líkaði það vel - fór á vélstjórnarnámskeið, hafði hug á því að læra vélstjórn en af því varð ekki. Á árunum milli 1960 og 70 vann hann þó við vélstjórn á millilandaskipum.
Tuttugu og þriggja ára gamall, árið 1960, kynnist Stjáni Helgu Maríu Þorsteinsdóttur frá Skálanesi í Hraunhreppi á Mýrum. Þau giftust og eignuðust saman tvo syni, þá Steina og Þorstein Gunnar. Steini er innkaupastjóri, giftur Eddu Herborgu Kristmundsdóttur tanntækni og búa þau í Noregi. Þeirra börn eru tvíburarnir Karólína sálfræðingur, hún er í sambúð með Sigurd Hedberg og eiga þau soninn Even og annað barn í vændum, og Kristmundur, menntaður handritshöfundur og leikstjóri. Fyrir átti Steini dótturina Berglindi með Kristínu Pétursdóttur. Berglind er kennari á Akranesi, í sambúð með Birni Sigfússyni. Hún á soninn Rafn Ásgeirsson. Þorsteinn Gunnar rekur ferðaþjónustufyrirtækið Salty Tours, var giftur Margréti Erlingsdóttur og þeirra börn eru Ægir verkfræðingur, Ingunn nuddari og Erla nemi. Fyrir átti Þorsteinn Gunnar dótturina Guðrúnu Maríu. Hún er hjúkrunarfræðingur í Vestmannaeyjum, gift Jóni Helga Gíslasyni og þeirra börn eru Arnar Gísli og Svala Bríet. Móðir Guðrúnar Maríu er Ingibjörg Einarsdóttir. Núverandi sambýliskona Þorsteins Gunnars er Anna Margrét Stefánsdóttir, fyrrverandi bóndi, kennari og verkefnastjóri, nú leiðsögumaður og NPA-starfsmaður. Á hún eina dóttur, Sesselju Friðriksdóttur, sem nemur sálfræði og asísk tungumál við Yonsei University í Seoul.
Þegar Stjáni var orðinn fullorðinn fjölskyldufaðir og kominn út í atvinulífið átti hann tiltölulega fá, hamingjusöm ár áður en hann varð heltekinn af þeim veikindum sem mörkuðu allt hans líf upp frá því. U.þ.b. árið 1967 fara þau að láta á sér kræla. Leiddi það til þess að hann hætti á sjónum. Eftir það vann hann stopult, við rennismíðar og annað, mest hjá Landssmiðjunni og síðast hjá Jósafat Hinrikssyni, þar sem m.a. voru framleiddir toghlerar.
Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna þegar Stjáni veiktist. Drengirnir voru ungir og álagið á fjölskylduna mikið. Í þá daga var líka minni skilningur á andlegum veikindum en er í dag og úrræðin fyrir fjölskylduna færri og öðruvísi en nú og einkum fólgin í því að ráðstafa drengjunum í vistun utan heimilisins. Þannig æxlaðist það að synirnir voru mikið í sumardvöl og heimavistarskólum. Hjónabandið endaði svo með skilnaði. Staða Stjána var þá orðin mjög slæm - hann var mikið inni á Kleppsspítala, bjó síðan á ýmsum sambýlum fyrir geðfatlaða og að endingu á Hrafnistu í Laugarási. Þar sagði hann að sér hefði liðið best - e.t.v. var það að einhverju leyti vegna þess að eins og oft vill verða, þá róuðust geðhvörfin með öldruninni. Hann var samt stundum „í stuði“ eins og hann kallaði sjálfur uppsveiflurnar - og datt niður í öldudali - en ekkert í líkingu við það sem var þegar verst lét.
En sjúkdómurinn var ekki Stjáni. Stjáni var greindur maður með afar breitt áhugasvið. Hann hafði áhuga á bókmenntum, Laxness var í miklu uppáhaldi - hann hafði ótrúlega breiðan tónlistarsmekk, sótti nánast alla sinfóníutónleika og þekkti helstu meistarana og þeirra ævi og örlög - var með sérlega næmt tóneyra og fróður um tónlist af flestu tagi. Hann var fyrsti maður til að kaupa miða á nýjustu uppfærsluna á Rocky Horror og uppáhaldssamtímatónlistarmaðurinn hans var Lady Gaga. Hann elskaði fjölskyldu sína innilega þó hann hefði ekki heilsufarslega burði nema rétt inn á milli til að sýna það, spurðist alltaf fyrir um barnabörnin og fylgdist vel með því hvar hvert og eitt þeirra var statt í lífinu. Þeim þótti líka vænt um hann, þó þau hefðu aldrei þekkt afa sem heilbrigðan mann. Sést það best á því að síðasta kvöldið hans komu öll barnabörn og tengdabörn sem á annað borð voru í borginni til hans og voru hjá honum. Hann fékk svo friðsælt andlát með Þorstein Gunnar, son sinn, sér við hlið, þá um nóttina.
Við, sem næst honum stóðum, þökkum fyrir að hafa átt hann að, dáumst að þessum manni sem háði baráttu - oft upp á líf og dauða - við skuggaveröld andlegra veikinda og hafði betur, elskaði fjölskyldu sína, tónlistina og svo auðvitað enska fótboltann - þökkum honum fyrir samfylgdina í þessu jarðlífi og vonumst til að hitta hann geislandi og heilbrigðan á dansgólfi eilífðarinnar.

Farðu í friði,
friður Guðs þig blessi,

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V.B.)



Með kveðju frá aðstandendum,

Þorsteinn Gunnar Kristjánsson, Anna Margrét Stefánsdóttir.