Edda Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 6. ágúst 1940. Hún lést 10. júlí 2020.
Foreldrar hennar voru Gunnþóra Björgvinsdóttir, f. 11. nóvember 1916, d. 12. febrúar 2006, frá Fáskrúðsfirði og Óskar Björnsson, f. 19. apríl 1913, d. 15. júlí 1995, frá Berunesi við Reyðarfjörð. Edda var elst fjögurra systkina. Hin eru Iðunn, f. 1945, Oddný, f. 1948, og Óskar, f. 1952, d. 2013.
Edda giftist Halldóri Hannessyni, f. 14.11. 1940, árið 1961. Foreldrar hans voru Jóna Björg Halldórsdóttir, f. 1914, d. 2010, og Hannes Björnsson, f. 1900, d. 1974. Börn Eddu og Halldórs eru: 1) Gunnþóra, f. 1963, maki Kjartan Guðmundsson. Börn Gunnþóru úr fyrra hjónabandi eru Edda og Hallur. Sonur Kjartans er Guðmundur Karel. Barnabörnin eru Ari Liljan, Víkingur Árni, Lýra Ösp og Stormur. 2) Arnar Hannes, f. 1966, maki Helga Lúðvíksdóttir. Börn þeirra eru Íris og Snorri. 3) Jósef, f. 1969, maki Sólveig Arnarsdóttir. Börn þeirra eru Halldór Dagur, Arnar og Egill. 4) Katrín, f. 1972, maki Einar Árnason. Börn Katrínar úr fyrra hjónabandi eru Oddur og Nanna Bríet. Saman eiga Katrín og Einar soninn Tjörva. 5) Guðlaug Ósk Forant, f. 1974, maki Mark Forant. Börn þeirra eru Andrés og Jóna. 6) Jóna Björg.
Edda ólst upp í Reykjavík og gekk í Melaskóla, Gaggó Vest og síðar Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist 1960. Hún stundaði nám í íslensku og norsku við Háskóla Íslands á áttunda áratugnum. Edda var lengst af heimavinnandi húsmóðir en þó starfaði hún um árabil við þýðingar auk þess sem hún rak veitingastaðinn Betri sæti í Hafnarfirði.
Edda og Halldór hófu búskap sinn í vesturbæ Reykjavíkur en fluttu til Hafnarfjarðar árið 1972 og hafa búið þar alla tíð síðan.
Útför Eddu verður frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. júlí 2020, klukkan 13.

Hún Edda tengdamóðir mín var stór manneskja.


Með stórt hjarta, stórt skap, stóran faðm og stórar gáfur.


Ég var 14 ára þegar ég fyrst fór að venja komur mínar í Gunnarssundið, þá sem vinkona Katrínar dóttur þeirra Halldórs. Ég man hvað mér þótti það ævintýralegt, heillandi og framandi að koma þangað og kynnast fjölskyldulífinu þar. Svolítið einsog að ganga inn á ítalska stórfjölskyldu búsetta fyrir einhverja tilviljun í Hafnarfirði. Þessi risastóra krakkahjörð, Halldór með fíflagang og Edda stjórnaði öllu með harðri hendi, samt hálfflissandi og kímin. Og húsið, Gunnarssundið eins og það er alltaf kallað, almáttugur, þvílíkt hús! Svo fallegt, skemmtilegt, öðruvísi og dásamlegt. Ég vissi það ekki þá en komst að því síðar að allt sem hún Edda kom nálægt varð einmitt þannig. Hún hafði einstaka hæfileika til að gera allt fagurt í kringum sig, listfengi hennar og óbrigðull smekkur settu mark sitt á allt. Oft er sagt, sérstaklega um konur, að allt leiki í höndum þeirra. Auðvitað mætti segja það um Eddu en hæfileikar hennar og sköpunarkraftur var slíkur að í mínum huga var hún listakona. Hún saumaði, smíðaði, vann í gler og stein, óf, sútaði, pússaði, plantaði, prjónaði og eldaði listavel. Henni tókst að taka það hversdagslega og hefja það upp á annað stig. Meðan aðrir úðuðu tómatsósu á ostasamlokur setti Edda banana og óreganó og einhverja töfra á sínar, ég minnist þess varla að hafa bragðað betri samloku. Venjulegir námsmenn lufsa kannski einhverjum Billyhillum yfir hafið, Edda fyllti sinn gám af frægum hönnunarmublum sem þá var hægt að kaupa á viðráðanlegu verði. Hún og Halldór sóttu leikhús, tónleika, myndlistarsýningar, lásu allan fjandann á hinum ýmsustu tungumálum, fylgdust með pólitík í mörgum löndum, ferðuðust um allan heim (og Edda bar heim með sér í handfarangri heilu búslóðirnar af fögrum munum), hún var vel að sér í svo mörgu og hafði áhuga og skoðanir á næstum öllu. Kannski naut hún sín samt best á Hærunni, fallegu húsi sem þau Halldór gerðu upp austur í Álftafirði. Þar voru þau flestöll sumur undanfarin ár og þar var Edda í essinu sínu. Gerði að aflanum sem Halldór dró í hús, sútaði skinn, smíðaði og lagaði og með sínum ótrúlega grænu fingrum fékk hún allt til að gróa, vaxa og dafna.


Þegar við Jósef, sonur þeirra, felldum hugi saman reyndist hún mér góð tengdamamma. Við ákváðum með þriggja vikna fyrirvara að gifta okkur og veislan var haldin í Gunnarssundinu. Hún riggaði upp glæsilegri veislu, studdi okkur og styrkti á alla lund og virtist alla tíð nokkuð sátt við ráðahaginn. Drengjunum okkar þremur var hún góð amma. Börn löðuðust að henni, kannski ekki síst vegna þess að hún kom fram við börn eins og fullorðið fólk, talaði við þau og tók mark á þeim og skoðunum þeirra. Egill, yngsti drengurinn okkar, sagði aðspurður um hvers hann minntist um ömmu sína: Hún var góð, hlý og skemmtileg. Sem eru orð að sönnu.


Það gustaði af Eddu, hún gat verið hornótt en hún var heiðarleg, nennti aldrei að þykjast eða mjálma með fjöldanum, stóð á sínum skoðunum og þoldi ekki tilgerð eða uppdiktaða tilfinningasemi. Hún stóð með sínum í gegnum þykkt og þunnt en hikaði samt ekki við að segja sína meiningu, jafnvel þótt hún gengi í berhögg við skoðanir annarra, sem er kostur. Þess vegna var líka hægt að treysta henni.


Það er varla hægt að minnast Eddu án þess að nefna líka hann Halldór tengdaföður minn. Þau voru órjúfanleg heild, urðu kærustupar á unglingsárum og hafa verið saman alla tíð síðan. Lífsins þræðir eru margslungnir og þeirra fléttuðust saman svo úr varð þykkt og sterkt net. Þau vógu hvort annað upp, stóðu saman og gerðu svo margt gefandi og skemmtilegt í sameiningu.
Hugur minn nú er fyrst og fremst hjá Halldóri og svo börnunum þeirra sex.
Ég minnist Eddu tengdamóður minnar með hlýhug, þakka allt og allt og óska henni góðrar ferðar inn í Eilífðarlandið þar sem ég er viss um að hún mun láta til sín taka, gera það aðeins upp, pota niður nokkrum jarðarberjaplöntum, henda í dásamlegt konfekt um miðnæturbil og setjast svo niður með rauðvínsglas og njóta.

Sólveig Arnarsdóttir.