Jónas Ingólfur Lövdal fæddist í Reykjavík 30. september 1982. Hann lést á heimili sínu 1. júlí 2020.

Foreldrar Jónasar eru Gunnar Ingi Lövdal, f. 25. febrúar 1964, d. 27. desember 2002, og Erla Hafdís Steingrímsdóttir, f. 8. mars 1965. Uppeldisfaðir Jónasar er Jóhannes Lúther Gíslason, f. 16. ágúst 1945. Systkini Jónasar sammæðra eru 1) Hulda Ólöf Einarsdóttir, f. 1. apríl 1985, eiginmaður Huldu er Sigfús Helgi Kristinsson og börn þeirra eru Pétur Jóhannes, Rebekka Klara og Sigþór Draupnir. 2) Gísli Trausti Jóhannesson, f. 1. febrúar 1988. 3) Daníel Guðni Jóhannesson, f. 10. mars 1997, sambýliskona Daníels er Karlotta Rós Þorkelsdóttir. 4) Eygló Fjóla Jóhannesdóttir, f. 5. desember 1998, maki Eyglóar er Friðrik Páll Hjaltested. Systkini Jónasar samfeðra eru 1) Sonný Norðfjörð Gunnarsdóttir, f. 16. maí 1991, unnusti Sonnýjar er Jón Karl Halldórsson og börn þeirra eru Krummi Júníus og Úlfrún Lilja. 2) Sunna Lind Lövdal, f. 4. ágúst 1992, unnusti Sunnu er Róbert Sigurðsson og börn þeirra eru Apríl Ósk Lövdal og Emilía Nótt Fitzgerald.

Jónas Ingólfur flutti ásamt móður sinni og systur að Bláfeldi í Staðarsveit árið 1986 og ólst þar upp alla sína barnæsku. Jónas var orkumikið barn en jafnframt sjálfum sér nægur. Hann fékk snemma ástríðu fyrir náttúru og lífríki jarðar og þekking hans á þessum sviðum þótti eftirtektarverð í gegnum skólagönguna í Lýsuhólsskóla og síðar. Jafnframt var Jónas einkar listrænn, jafnt sem barn og á fullorðinsárum, og prýða málverk hans veggi fjölskyldumeðlima og annarra samferðamanna. Samhliða námi í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og síðar sinnti Jónas ýmsum störfum, þar með talið gróðurræktunarstörfum, sölumennsku, myndlist, verkamennsku, iðjuþjálfun, einkaþjálfun og kennslu. Jónas var í sambúð með Þórunni Ellu á árunum 2003 til 2006 og bjuggu þau saman í Reykjavík. Í lok árs 2007 urðu stór tímamót í lífi Jónasar þar sem hann tilkynnti fjölskyldu og vinum með stolti að hann væri samkynhneigður. Þá taldi námsferillinn meðal annars myndlistanám, einkaþjálfaranám, háskólabrú og síðast landslagsarkitektúr við LbhÍ, en Jónas útskrifaðist þaðan í júní sl. Í kjölfarið fékk hann nýverið styrk til rannsókna á moltugerð orma og hafði verið boðið að hefja meistaranám tengt umhverfisbreytingum á norðurslóðum. Fjölbreyttur náms- og starfsferill lýsir einna best þeim kosti Jónasar að fara sína eigin leið í einu og öllu með þrjósku og vilja að vopni. Hans helsti kostur var þó næmni á fólk í kringum sig og sérstakur eiginleiki til að skapa sterka tengingu við þá sem stóðu honum næst – þá sem syrgja og kveðja hann nú.

Jónas verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 16. júlí 2020, og hefst athöfnin klukkan 13. Erfidrykkja fer fram í Grafarvogskirkju að útför lokinni.

Er þetta þá bless? spurðir þú mig. Ég játti og kvaddi. Þetta var þín hinsta kveðja. Hefði ég áttað mig á því að þetta yrði í síðasta sinn sem við myndum talast við hefði ég svarað því að þetta væri ekki bless, ég myndi ekki kveðja þig, heldur varðveita þig, minningu þína, vináttu okkar í dýpsta hólfi hjarta míns um ókomna tíð. Það mun ég gera.


Mér hefur, síðan ég frétti að þú hefðir kvatt Hótel Jörð, verið hugsað til okkar stunda síðustu ár. Þú komst eins og stormsveipur inn í líf mitt. Þegar við hittumst í fyrsta sinn var ég að hitta móðurbróður þinn hann Bergþór í Fiskislóðinni. Ég fór upp á efri hæðina og þar varst þú. Með tusku á lofti að þrífa, sem ég sá þig svo oft gera eftir þetta. Þú leist á mig og spurðir með hvellri röddu Get ég aðstoðað þig?. Mér fannst þú fremur sérstakur og furðaði mig hvaða maður væri mættur þarna, með tuskuna á lofti. En stuttu síðar vorum við orðin vinir. Minn kærasti vinur. Við eyddum ófáum stundum saman, héngum í Fiskislóðinni tímum saman, töluðum saman í síma oft á dag þess á milli. Þú varst þriðji einstaklingurinn í sambúðinni minni. Villi þurfti oft að hlusta á mig spjalla við þig í síma, oft á dag. Það komu dagar þar sem við ræddum saman allt að sex klukkustundum á dag í síma yfir daginn. Við unnum saman í ýmsum störfum fyrir Pírata. Fórum í ráð og nefndir saman. Skipulögðum heilu heimsáætlanirnar saman. Vorum oft spurð hvort við værum par. Það skemmti okkur mjög.


Þegar þú fékkst inngöngu í landslagsarkitektúr í LBHÍ var ég svo stolt af þér. Á sama tíma fyllist ég ákveðinni sorg, vitandi að þú myndir flytjast á annað landshorn. Okkar daglegu samvistir yrðu ei meir. Þú hafðir ekki mikla trú á sjálfum þér þegar þú byrjaðir í náminu. Ég ræddi oft við þig um það og sagði við þig að frá því að við kynntumst hefði allt sem þú tókst að þér verið svo meistaralega gert. Það var ekki verkefni sem þú tókst að þér sem varð ekki að meistaraverki. Þú kunnir svo ótrúlega margt að ég spurði þig oft hvað þú kynnir ekki. Mannleg samskipti svaraðir þú. Mannfólk er óskiljanlegar verur. Og kettir. Kettir eru algjör furðudýr. Þó skildir þú mannfólkið og mannleg samskipti betur en nokkur sem ég hef kynnst. Þú last mig eins og opna bók. Gast orðað tilfinninguna sem ég bar áður en ég náði að opna munninn. Um tíma átti ég ekki bjarta daga og þú varst ávallt til staðar. Þú stóðst við bakið á mér eins og klettur og leiddir mig í gegnum þrautir mínar á þann veg sem ég mun aldrei gleyma. Ég gat aldrei lýst þakklæti mínu nægilega og þú sagðir ávallt við mig að þú hefðir svo sem ekki gert neitt.


Það var oft sem þú sagðist svo sem ekki hafa gert neitt, þótt þú hefðir innt eitthvað af hendi sem aðeins þú gast leyst af hendi. Þú gafst af þér skilyrðislaust og af svo miklu örlæti. Það var erfiðara að gefa þér á móti. Ég sagði öllum frá þér sem ekki höfðu hitt þig. Ég var ákveðin í að kynna þig fyrir fólkinu sem hafði tekið sér hjartastað í mér, eins og þú. Þú skildir ekkert í því og fannst það eitthvað ómerkilegt að kynnast þér. En þeim fannst mjög merkilegt að kynnast þér. Þú hittir þá svo mjög í hjartastað. Ég var svo glöð i hjarta mínu að þú hefðir látið það eftir mér að kynnast Unnari og Oktavíu. Vinátta við þau varð þér síðan dýrmæt. Mér enn dýrmætari. Vini þínum sinntir þú ávallt af svo miklum heilindum, vinátta var nokkuð sem þú gafst þig allan í.


Þegar við ræddumst við síðast, áður en við kvöddumst í síðasta sinn, vorum við að ræða vesturferðina okkar. Við sem ætluðum að keyra á Vestfirði saman, fara saman í roadtrippið okkar sem við ræddum svo oft um. Við ætluðum að vera saman í herbergi og vaka fram á morgun að ræða um öll heimsins mál, sem þú áttir svo auðvelt með að ræða við allt og alla. Við ætluðum að ganga um sveitina og skoða náttúruna sem þú unnir svo mjög. En þú fórst í annað ferðalag.


Finni ég þig einhvers staðar, þá ferðaðist þú í náttúruna þína. Í þitt Nangijala þar sem allar plöntur þessa heims eru, allar fuglategundir og trjátegundir þessa heims. Öll skordýrin sem nokkru sinni hafa verið til. Fjörur með steinum þessa heims.

Þú værir eflaust að hanna og endurskipuleggja heilu vistkerfin. Kortleggja hvern kima og hverja gjótu. Þú myndir fussa og sveia yfir hvers kyns kaós í þinni Nangijala, bretta upp ermar og taka til. Þú værir að mála náttúruna. Mynda allt lífið. Ávallt verður þú í hjarta mér. Ávallt mun ég hugsa til þín þegar ég geng um í náttúrunni og hugsa til þín þegar ég rekst á blóm eða jurt sem ég þekki ekki sem þú gast frætt mig óendanlega um.

Takk elsku Jónas, hjartans Sólfeti minn. Takk fyrir þetta dýrmæta ferðalag sem þú ákvaðst að bjóða mig með þér í. Takk elsku kærasti vinur minn.

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir.