Ásdís Edda Ásgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 9. janúar 1956. Hún lést 17. júlí
2020 á Landspítalanum við Hringbraut.
Foreldrar hennar voru Ásgeir J. Sigurgeirsson, f. 8. júlí 1932, d. 2. október 1967, og Margrét J. Hallsdóttir, f. 16. júlí 1935, d. 23. nóvember 2010.
Systur hennar eru Hafdís Halla, f. 23. júní 1961, og Jóhanna Bára, f. 12 febrúar 1963. Eiginmaður Ásdísar Eddu er Andrés Helgason, f. 27. maí 1954. Foreldrar hans voru Helgi Magnússon, bóndi í Tungu, f. 13. maí 1895, d. 25. október 1981, og Elísabet Andrésdóttir, f. 13. nóvember 1912, d. 28. janúar 2006.
Ásdís Edda giftist Andrési 11. júní 1977. Börn þeirra eru: 1) Ásgeir Már, f. 11. apríl 1978, barn hans Víkingur Þór, f. 31. desember 2003, úr fyrra hjónabandi, unnusta Ásgeirs er Sandra Rós Ólafsdóttir, f. 11. apríl 1977, og börn þeirra a) Ólafur Andrés, f. 9. október 2015, og b) Edda Sirrý, f. 25.
janúar 2017, 2) Elísabet Rán, f. 7. desember 1980, maki Benedikt Egill Árnason, f. 2. desember 1980, börn þeirra eru: a) Elísabet, f. 13. nóvember
2011, b) Árni, f. 8. ágúst 2013, og c) Andrés Þórólfur, f. 5. júní 2017, 3) Gunnar Þór, f. 29. mars 1983, maki Elisa Helena Saukko, f. 4. nóvember 1986, og barn þeirra, Óskar Otto, f. 8. desember 2015.
Ásdís Edda ólst upp á Melabraut 47 (í dag nr. 9) á Seltjarnarnesi til tvítugs. Hún gekk í Mýrarhúsaskóla og útskrifaðist 16 ára með gagnfræðapróf. Ásdís vann við veitingastörf og einnig á Hagstofu Íslands þar til hún réði sig sem kaupakonu í Tungu í Skagafirði sumarið 1976 tvítug að aldri. Þar kynnist hún Andrési og flutti í Tungu í kjölfarið. Um haustið hóf hún störf á skrifstofu Kaupfélags Skagfirðinga en skipti fljótlega um starfsvettvang og vann lengst af hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands við umönnun og símavörslu í móttöku þar til hún lét af störfum àrið 2015 af heilsufarsástæðum. Ásdís Edda útskrifaðist með verslunarpróf frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Ásdís Edda hafði dálæti á hestum og ræktun þeirra og einnig hafði hún mikinn áhuga á tónlist. Hún var mikill fagurkeri og nýjungaglöð og vildi hafa fallegt í kringum sig. Henni fannst gaman að taka þátt í félagsmálum og var meðal annars virkur þátttakandi um tíma í Leikfélagi Sauðárkróks og
Kvenfélagi Skarðshrepps. en eitt af aðaleinkennum hennar var félagslyndi.
Ásdís Edda lagði mikla alúð í uppeldi þriggja barna sinna og í seinni tíma hlúði hún vel að sínum Barnabörn hennar eru sjö talsins og von er á áttunda barnabarninu í lok árs og amma Ásdís var einstaklega barngóð og vinsæl meðal þeirra.
Útför Ásdísar Eddu fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 29. júlí, og hefst athöfnin klukkan 14.
Streymt verður frá útförinni á YouTube. Stytt slóð á streymið: https://tinyurl.com/y45264wr
Slóðina má einnig nálgast á
mbl.is/andlat
Við vorum bara smá peð þegar við kynntumst. Á þeim árum streymdi unga fólkið m.a. vestur á Seltjarnarnes, byggði sér ból og settist þar að. Kornungir foreldrar okkar tóku þátt í nýja ævintýrinu sitt hvoru megin við Melabrautina. Fyrstu minningar mínar af Eddu minni voru að þar fór einstaklega ljúf og glaðleg skotta með sína dökku dansandi lokka og sitt bjarta og breiða bros. Hún var frumburður foreldra sinna Margrétar og Ásgeirs kennara. Síðar komu svo systur hennar, Hafdís Halla og Jóhanna Bára. Edda var öll í föðurættina og þótti alltaf mjög lík pabba sínum. Föðuramma hennar bjó einnig með fjölskyldunni fyrstu árin. Ég man vel eftir henni og hversu blíð og góð hún var við augasteininn sinn sem bar Ásdísarnafnið hennar.
Hverfið okkar óx hratt upp inni í miðri náttúrunni og iðaði allt af kátum og frískum krökkum allt frá Valhúsahæðinni og niður að fjöru. Á sumrin fóru mörg þeirra í sveitina og þar á meðal Edda. Hún dvaldi mörg sumur í Skagafirði, m.a. hjá ættingjum sínum að Hraunum í Fljótum og á Reykjavöllum. Áhugi hennar á hrossum og hrossarækt kom fljótt í ljós á þessum árum og átti eftir að fylgja henni út lífið. Edda gekk í Mýrarhúsaskóla alla sína skólagöngu eins og flest börnin á Nesinu. Hún var dugleg að læra og annálaður lestrarhestur. Henni þótti vænt um og bar mikla virðingu fyrir skólanum sínum og kennurum. Sérstaklega skal þó nefna Ólöfu Pétursdóttur barnakennara, sem var fyrsti barnaskólakennari hennar og mikil fyrirmynd. Edda tók einnig virkan þátt í félagslífinu á skólaárunum, t.d. Skátunum, KFUM, Barnastúkunni, Skólakórnum (1969) og ýmsu fleira. Við drógumst fljótt hvor að annarri. Eitt helsta áhugamál okkar var að syngja og við elskuðum að syngja saman. Okkur fannst ekki leiðinlegt þegar fleiri krakkar bættust í hópinn. Hvar sem við vorum, heima, á skólagöngunum, á skólalóðinni, í strætó, á röltinu í miðbænum eða þar sem við fundum góðan hljóm, þá tókum við lagið. Að sjálfsögðu sungum við með öllum nýjustu smellunum í Lögum unga fólksins á Gufunni en ættjarðarlögin og rútubílasöngvarnir voru líka á listanum. Og ekki má gleyma diskókvöldunum í anddyri íþróttahússins sem þá var verið að byggja. Þar dönsuðum við og sungum eins og enginn væri morgundagurinn. Ekki er langt síðan við Edda rifjuðum upp, okkur til mikillar kátínu, þegar við stöllurnar fjórar; ég, hún, Begga og Alla Vilhjálms. stigum á svið, tólf til þrettán ára gamlar, á einni af skemmtunum skólans og sungum nokkur vel valin lög. Við höfðum samið við leikfimikennarann okkar, Hlín Torfadóttur, að sjá um undirleikinn en hún spilaði á píanó. Hún var hins vegar vant við látin á sjálfri skemmtuninni en lét okkur hafa píanóundirleikinn á segulbandi, þökk sé tækninni. Vert er að geta þess að Hlín varð síðar m.a. kórstjóri Barnakórs Mýrarhúsaskóla og árið 1979 kom út gullfalleg hljómplata með kórnum, sem hét ABCD í tilefni af Barnaárinu. Á þeim tíma sungum við vinkonurnar hins vegar með Selkórnum og er sá kór enn í fullu fjöri. Okkur fannst æðislegt að spá í nýjustu tískustraumana og að eignast ný og smart föt. Við vorum fastagestir m.a. hjá Eddu saumakonu á Miðbrautinni á milli þess sem við kíktum í Karnabæ og Faco, sem voru aðal tískubúðirnar í þá daga. Sextán ára og sjálfráða ákváðum við að fara tvær saman í fyrstu utanlandsferð okkar, í þrjár vikur, til Englands og Spánar. Á sameiginlegum fundi með mæðrum okkar var okkur treyst til að stíga varlega til jarðar, skemmta okkur skynsamlega, en umfram allt að fara gætilega. Alla tíð síðan hugsuðum við með stolti um það traust sem okkur var sýnt og tækifærinu sem okkur var gefið sem við sannarlega fórum vel með.
Edda var framsýn og hafði fjárfest í fyrsta bíl sínum áður en hún tók við ökuskírteininu sínu á sautján ára afmælisdegi sínum. Þær voru óteljandi ferðirnar sem við vinkonurnar rúntuðum á Cortínunni hennar um götur og stræti borgarinnar.
Stærsta gæfusporið sem Ásdís Edda mín steig í lífinu, rétt rúmlega tvítug, var þegar hún flutti alfarin norður í Tungu í Gönguskörðum í Skagafirði og giftist unga bóndasyninum þar, öðlingnum og skörungnum honum Andrési Helgasyni. Betri eiginmann gat hún ekki eignast. Þar bjuggu þau, samheldu hjónin, myndarlegu fjárbúi alla tíð með yndislegu börnum sínum þremur, sem ólust upp á ástríku heimilinu, ásamt foreldrum og bróður Andrésar. Í gegnum tíðina hafa margir krakkar dvalið á sumrin í Tungu, sum skemur og komu önnur ár eftir ár. Einn þeirra var systir mín, Hrafnhildur Jóna, sem kom þar fyrst um 10 ára gömul til að taka við kaupakonuhlutverkinu af Eddu sem þá var orðin húsfrúin í Tungu. Ég veit fyrir víst að Tunga í Gönguskörðum á enn sinn stóra stað í hjarta systur minnar. Hún minnist enn á sumrin sem hún átti þar og þau ótal skipti sem hún kom þar síðar meir, með hlýhug og þakklæti.
Á ákveðnum tímabilum í sínu lífi héldu hjónin Edda og Andrés tvö heimili, bæði á búinu sjálfu og niður í Krók m.a. á meðan börnin gengu í skóla. Eftir að þau fóru að heiman fluttu hjónin alfarið aftur heim í Tungu, sem þau höfðu endurgert að miklum hluta.
Eins og áður sagði var Edda mjög gefin fyrir hesta og fylgdist vel með í hrossaræktinni, sem hún lagði stund á í mörg ár, sér og fjölskyldunni til yndis og ánægju.
Edda var alltaf mjög ástrík og hjartahlý. Hún elskaði fjölskylduna sína skilyrðislaust sem endurgalt í sömu mynt. Ömmuhlutverkið fór henni líka einstaklega vel og þar blómstraði ástin á báða bóga. Allir sem þekktu Eddu vissu að hún var einstaklega tryggur og traustur vinur. Því miður glímdi elsku glaðlynda og brosmilda Edda mín við heilsuleysi sem ágerðist með árunum. Ég sé það nú hversu innilega þakklát ég er fyrir að hún treysti sér með mér og æskuvinunum á Mýró-árgangamótið sem haldið var æskuslóðunum, í Félagsheimilinu á Nesinu rétt fyrir Covid-19. Sú stund er nú ómetanleg með öllu.
Ég minnist hennar nú með miklum söknuði en líka miklu þakklæti. Ég minnist hennar sem mikillar vinkonu og heiðurskonu sem elskaði lífið, fjölskyldu sína, ættingja og vini. Hún var mikill fagurkeri sem heimili hennar m.a. báru alltaf vitni um. Hún hafði mjög ríka réttlætiskennd og þoldi ekki misrétti af einu eða neinu tagi. Hún var líka húmorísk, pólitísk, listelskandi, tæknisinnuð og það sem ég held að allir séu sammála um, hún var nýjungaglöð; þ.e. hún var alltaf til í að prófa og tileinka sér nýjustu stefnurnar og straumana, Þannig var Edda mín. Allt hennar samferðarfólk; fjölskylda, ættingjar og vinir á nú um sárt að binda. Ég og fjölskylda mín vottum ykkur öllum, nær og fjær okkar dýpstu samúð.
Hvíl í friði elsku Edda mín.
Valgerður Anna Þórisdóttir (Lóa).