Kristbjörg Haraldsdóttir (Dodda frá Sandhólum) fæddist 6. desember
1922. Hún lést 22. júlí 2020.
Útför hennar fór fram 30. júlí 2020.

Elsku mamma mín. Hvar byrjar maður þegar á að lýsa konu sem hefur lifað nánast í heila öld? Ja, ef það eru minningar þá eru þær bæði margar og góðar frá öllum þeim 58 árum sem ég hef fengið að hafa þig. Og það sem ég er daglega þakklát fyrir að hafa valið þig fyrir móður. Ekki bara varstu falleg og góð heldur líka með svo skemmtileg og sterk gen sem ég fékk fullt af.


Mínar fyrstu minningar eru frá því að ég er að verða þriggja ára og þú komst heim á Sandhóla eftir að hafa legið á fæðingardeildinni á Sjúkrahúsi Húsavíkur að eiga Jenný. Ég var svo glöð og kyssti þig og knúsaði margoft fyrir að hafa gefið mér litla systur. Gleðin rann nú fljótt af mér þegar ég uppgötvaði að nú hefði ég ekki alla þína athygli óskipta heldur þyrfti ég að deila þér með þessum krakkaormi. Svo ég gerði mitt besta til að hjálpa þér að ala hana upp, tuktaði hana smá til annað slagið og svoleiðis.


Sveitaminningarnar eru ljúfar og miklu fleiri en bara að pína Jenný litlu og ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að alast þar upp til 10 ára aldurs. Ég hef alltaf saknað sveitalífsins.


Það er hins vegar stórt hlutverk að vera bóndakona í sveit og fyrir þig með þitt frjókornaofnæmi og astma var það eflaust ekki alltaf auðvelt.


En mig langar að tala meira um þín síðustu ár, eða síðan fyrir 16 árum þegar ég flutti til Spánar með syni mína tvo, Daða og Róbert.


Þú komst að heimsækja okkur á hverju ári alveg þar til fyrir einum 3-4 árum. Þú kunnir vel við þig í hitanum og sólinni og elskaðir að fara niður á strönd, sitja þar undir sólhlíf með handavinnu og sötra Tinto de Verano. Og allir Lookie Lookie-strákarnir frá Senegal elskuðu þig, því þegar þeir komu með hálsmenin sín, skartgripi og veski þá varstu alltaf svo góð við þá og keyptir alltaf eitthvað.


Bruno Bling Bling var í uppáhaldi. Þið urðuð bestu vinir og hann spurði alltaf eftir þér þegar hann sá mig. Hann gaf þér gjafir í hvert einasta sinn sem þú komst hingað og oft sendi hann mig með hálsmen eða annað þegar ég var að fara til Íslands. Hann elskaði að sjá hve iðin þú varst alltaf með handavinnu og hann dáðist að sokkunum sem þú prjónaðir og hvað gerðir þú? Nú, þú prjónaðir sokka á Bruno að sjálfsögðu og hann elskaði þig meira en nokkru sinni.


Ég á líka aðra dásamlega minningu frá einni ferðinni þinni hingað. Þetta var fyrir u.þ.b. 8-9 árum eða svo, þú þá 87-88 ára. Þú elskaðir að dansa, svo eitt kvöldið fórum við ásamt nokkrum góðum vinum til Marbella að borða. Eftir matinn vildu vinirnir finna dansstað þegar þau vissu af dansáhuga þínum. Við enduðum á einhverju kjallaradiskóteki sem var troðfullt af ungu fólki, okkur fannst við (öll um fimmtugt) vera gömul þarna inni, en okkur tókst að komast að barnum og panta drykki. Svo tökum við eftir því að þú ert horfin og það leist okkur ekki á, þar sem þú varst háöldruð og algjörlega mállaus nema á íslensku. Við fórum að leita og hvar fundunum við þig? Nú á dansgólfinu, dansandi við ungdóminn alsæl! Þér líkt. Alveg dásamleg sko. Það er oft búið að hlæja að þessu.


Svo má ekki gleyma að minnast á systraútileguna sem við höfum haft fyrir sið í 25 ár eða svo. Þú varst alltaf til í fíflalæti og glens og grín og tókst þátt í öllum leikjum og allri vitleysu sem við gerðum. Svo margar myndir til og minningar sem virkilega fá mann til að brosa.


Þú áttir hug og hjarta allra sem þú hittir á lífsleiðinni og það sem allir afkomendur þínir elskuðu þig og dáðu og það var alltaf gagnkvæmt. Þú vildir allt fyrir alla gera og alltaf gátu allir komið í heimsókn og fengið að kíkja í sokkakassann þinn og velja sér fallega handprjónaða sokka.


Það var erfitt að horfa upp á þig eftir fyrsta heilablóðfallið fyrir rúmum tveimur árum og sjá allt sjálfstæði hrifsað af þér. Þú gast hvorki prjónað né heklað, lesið né notið sjónvarps, dansað né spilað á spil, svo ekki sé minnst á að sjá um þig sjálf dags daglega, sem þú hafðir alltaf gert. En þrátt fyrir að allt þetta helltist yfir þig og þú værir bundin við hjólastól það sem eftir var tapaðist aldrei húmorinn, honum hélstu eins lengi og þú gast talað. Góða skapið og glaðværðin alltaf í forgrunni.


Lífið er dásamlegt láti maður ekkert aftra sér frá að njóta þess var setning sem þú gafst mér einu sinni, prentað á fallegan miða, og hef ég þessi orð alltaf uppi við. Þetta var algjörlega þitt lífsmottó, það geta allir sem þig þekktu verið sammála um.


Ég gæti haldið áfram og skrifað margar síður í Moggann um þig þar sem það er af svo mörgu að taka, þetta er aðeins brotabrot.


Það er erfitt á þessari stundu að vera svona langt í burtu í kílómetrum, en mér finnst þú nær mér nú en nokkru sinni elsku mamma mín, nú heyrirðu til mín og ég veit að þú dansar á himnum við alla sem vilja dansa og nú ertu heil aftur.


Takk fyrir öll árin sem við áttum saman, við sjáumst síðar. Þangað til: Elska þig alltaf.

Þín dóttir,

Birna.