Gunnhildur Erla Þórmundsdóttir fæddist í Reykjavík 3.6.1930. Hún andaðist á Ljósheimum á Selfossi 24. júlí 2020. Foreldrar hennar voru Þórmundur Guðmundsson, f. 27.10. 1905, d. 25.2. 1991 og Vilborg Jónsdóttir, f. 24.11. 1924, d. 28.2. 1983. Systkini hennar voru Þórunn Þórmundsdóttir, f. 30.4. 1928, d. 21.1. 1949. Gunnar Þórmundsson, f. 30.7. 1929, d. 26.1. 1930. Þórmundur Þórmundsson, f. 5.12. 1932, d. 4.11. 2009. Fyrri maki Gunnhildar var Skúli Jakobsson Bergstað, f. 7.7. 1918, d. 17.11. 1963. Börn þeirra eru 1) Jakob Þór Skúlason, f. 14.7. 1947, maki: Pála Þrúður Jakobsdóttir, f. 25.4. 1948, d. 25.8. 2008. Þau skildu. Börn þeirra eru Skúli Jakobsson, f. 5.8. 1967. Kristinn Jakobsson, f. 11.6.1969. Sambýliskona Jakobs er Jóhanna Bryndís Hallgrímsdóttir, f. 15.11.1949. Hennar börn eru Hallgrímur Ingi Þorláksson, f. 19.5. 1968, Þorvaldur Þorláksson, f. 23.9. 1972. 2) Þórmundur Skúlason, f. 27.5. 1951, maki: Sólborg Rósa Hjálmarsdóttir, f. 29.6. 1957, d. 25.7. 2016. Börn þeirra eru Gunnhildur Erla Þórmundsdóttir, f. 14.12. 1982, Birna Hjördís Þórmundsdóttir, f. 28.6. 1985. Skúli Már Þórmundsson, f. 3.6. 1991. Barn Sólborgar Rósu er Hulda Hákonardóttir, f. 5.1. 1980. 3) Vilberg Skúlason, f. 11.3. 1957, maki: Guðlaug Skúladóttir, f. 14.1. 1955. Börn þeirra eru Arnór Brynjar Vilbergsson, f. 6.1. 1975, Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, f. 3.8. 1979. Skúli Steinn Vilbergsson, f. 7.4. 1984. Seinni maki Gunnhildar var Bjarni Eyvindsson, f. 3.5. 1920, d. 9.11. 2007. Börn Bjarna eru: Eyvindur, f. 5.10. 1949, maki: Þórdís Magnúsdóttir, f. 2.7. 1950. Kjartan, f. 18.5. 1951, maki: Sigfríður Inga Wíium, f. 1.1. 1951, Rakel Móna, f. 16.12. 1954, maki: Ármann Ægir Magnússon, f. 19.5. 1952, Gréta Mjöll, f. 10.10. 1958, maki: Björn Rafnar Björnsson, f. 16.4. 1958, Ingvar, f. 5.2. 1960, maki: Hrafnhildur Loftsdóttir, f. 14.4. 1966, Svanur, f. 4.3. 1965, maki: Gunnhildur Gestsdóttir, f. 26.5. 1965.
Gunnhildur fæddist í Reykjavík en fluttist ung með foreldrum sínum á Selfoss. Hún stundaði nám í Barnaskóla Selfoss og seinna í Kvennaskólanum á Blönduósi eftir að hún flutti þangað. Gunnhildur giftist Skúla Jakobssyni mjólkurfræðingi og bjuggu þau fyrstu árin í Reykjavík en fluttu á Blönduós árið 1949. Þau byggðu sér fallegt heimili á Húnabraut 34 og framtíðin blasti við þeim þegar Skúli féll frá 1963. Gunnhildur flytur á Selfoss í framhaldinu á sínar æskustöðvar. Hún starfaði hjá KÁ og lengst í apótekinu. Seinni maður hennar var Bjarni Eyvindsson byggingameistari og bjuggu þau í Hveragerði. Vinnustaður Gunnhildar í Hveragerði var NLFÍ. Gunnhildur var mikil félagsmálamanneskja, Sontaklúbburinn og Skátastarfið sem hafði fylgt henni alla ævi voru hennar helstu áhugamál ásamt kvennabaráttu allri og sat hún í stjórn Sunnlenskra kvenna um árabil. Gunnhildur var mikil hannyrðakona og komu mörg listaverkin frá henni allt til síðasta dags.
Útförin fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 12. ágúst 2020, klukkan 13. Vegna aðstæðna í samfélaginu er athöfnin einungis fyrir allra nánustu. Streymt verður frá athöfninni. www.facebook.com/hveragerdiskirkja
Þú varst ung að árum, mín kæra, þegar ég, frumburðurinn, fæddist, en það vafðist ekki fyrir ykkur foreldrunum, með aðstoð fjölskyldu þinnar, að gera það sem til þurfti svo allt gæti gengið upp.
Þú fæddist á Ljósvallagötu 24 í Reykjavík hinn 3. júní 1930, kreppuárið mikla, og erfiðleikar í þjóðfélaginu voru miklir á þeim tíma.
Miklar breytingar áttu sér stað í þjóðfélaginu á þessum árum. Samvinnuhreyfingin réð ríkjum á landsbyggðinni og sóttist eftir hæfum starfskröftum til að byggja upp atvinnu og þjónustu. Egill Thorarensen, kaupfélagsstjóri KÁ á Selfossi, hafði spurnir af foreldrum þínum, Þórmundi Guðmundssyni og Vilborgu Jónsdóttur, og bauð þeim að flytjast á Selfoss, sem þau og gerðu 1940. Afi tók við starfi á bílaverkstæði KÁ sem yfirmaður, en hann hafði menntun sem bifvélavirki. Því starfi sinnti hann fram á níunda áratuginn, landsþekktur fyrir störf sín.
Fyrst var búið á Jaðri, sumarhúsi norðan Ölfusár, en síðan byggt á Miðtúni 17 og það hús nefnt Skarð. Ung að árum byrjaðir þú að vinna í Mjólkurbúi Flóamanna.
Þar kynntust þú og pabbi, Skúli Jakobsson Bergstað, árið 1945. Hann var nýkominn úr námi sem mjólkurfræðingur frá Þýskalandi og Danmörku, en þar hafði hann lokast inn öll stríðsárin við vægast sagt erfiðar aðstæður.
Tvö fyrstu hjúskaparárin ykkar bjuggum við í Reykjavík og 1949 var flutt í heimabæ pabba, Blönduós, eins og hugur hans hafði stefnt að eftir námið í mjólkurfræðinni.
Þú fórst í Kvennaskólann á Blönduósi með mig, sem var ekki algengt, en gekk þó. Á Blönduósi bjuggum við fyrstu árin á Ólandi. Þar fæddist Þórmundur bróðir 1951. Fljótlega var hafist handa við byggingu einbýlishúss á Húnabraut 34, þar fæddist Villi bróðir 1957. Þrír sprækir strákar, mamma, vel af sér vikið.
Allt lék í lyndi; pabbi í Mjólkurstöðinni, þú við verslunarstörf í Vísi, við í skóla og sveit á sumrin og þjóðfélagið á uppleið. Þú varst alla tíð mikil félagsvera, mamma.
Þú komst með það frá Selfossi, því ung hafðir þú kynnst skátastarfinu. Eitt sinn skáti ávallt skáti!
Á Blönduósi stjórnaðir þú skátastarfinu, ásamt Jóni Ísberg. Skátastarfið var ykkar líf og yndi; fyrsta alvöruæskulýðsstarfið á staðnum. Oft var sungið hátt í stofunni heima og voru þar skátar vítt og breitt af landinu. Bræðralagssöngurinn á eftir rikkatikkinu var toppur kvöldsins.
Slysin gera ekki boð á undan sér. Pabbi var stjórnandi slökkviliðsins á Blönduósi. Hinn 17. nóvember 1963 var útkall vegna bruna skammt frá Blönduósi og reyndist það hans síðasta útkall. Hann lést þann dag.
Í framhaldinu fluttir þú með Munda og Villa á Selfoss, en ég var kominn þangað áður.
Fjölskyldan á Skarði, afi og amma, Bóbó bróðir þinn og Unnur, ásamt þeirra börnum, tóku okkur opnum örmum og reyndust okkur vel.
Lífið hélt áfram, þú í vinnu hjá KÁ, fyrst í vefnaðarvörudeildinni, en svo á þeim stað sem lengst hefur fylgt þér; apótekinu. Minný í apótekinu.
Um miðjan áttunda áratuginn flytur þú í Hveragerði. Þú hafðir kynnst góðum manni, Bjarna Eyvindssyni byggingameistara. Við Dynskógana bjugguð þið þar til Bjarni féll frá 9. nóv. 2007. Bjarni átti fyrir stóran barna- og barnabarnahóp sem ég veit að þú reyndist vel. Frábært að koma í heimsókn til ykkar Bjarna. NLFÍ-heilsuhælið var þinn vinnustaður í Hveragerði.
Kanaríferðirnar með okkur bræðrum og mökum eru eftirminnilegar. Takk fyrir þær.
Árin á Ási voru að mörgu leyti góð. Allt fólkið sem þar dvaldi og starfaði var vinir þínir. Ef við skruppum í verslunarferð á Selfoss varð að kaupa í leiðinni eitthvað fyrir þennan vin minn og þennan, því þá vantaði þetta. Þannig varstu bara.
Hægt væri að skrifa heila bók um hannyrðakonuna Gunnhildi. Alltaf að prjóna eða föndra. Peysur, vettlinga, sokka ... ótrúleg afköst fram til síðasta dags.
Félagsstarfið var þér nauðsyn. Zontaklúbburinn kom þér í kynni við skemmtilegar og víðsýnar konur. Skátafélag Hveragerðis var þér frábær félagsskapur. Maður yngist um áratugi þegar skátafundirnir eru, alltaf líf og fjör, sagði sú fullorðna. Kærar þakkir fyrir ykkar umhyggju, skátar.
Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar ævin er skoðuð að leiðarlokum. Ég hef stiklað á stóru í þínu og okkar lífi, mamma mín, og er stoltur af. Alltaf jákvæð, stutt í brosið og hjálpsemina. Þú máttir aldrei neitt aumt sjá því ef eitthvað var sem betur mátti fara þá varst þú til að aðstoða.
Jakob Þór Skúlason.