Sigurður Emil Ólafsson húsasmiður var fæddur á Eyrarbakka 16. júní 1944. Hann lést 12. ágúst 2020 á líknardeild LSH í Kópavogi.
Sigðurður Emil var fyrsta barn hjónanna Ólafs Guðsteins Magnússonar símaverkstjóra, f. 2.3. 1916, d. 25.1. 1975, og Sigrúnar Þorbjargar Runólfsdóttur, matráðskonu og húsfreyju, f. 20.8. 1920, d. 13.3. 2011.
Systkini Sigurðar Emils eru: 1) Sigmar Ólafsson, f. 25.10. 1949, kvæntur Úlfhildi Gunnarsdóttur, f. 4.11. 1948. 2) Hrefna Ólafsdóttir, f. 16.3. 1956, d. 13.2. 2015, eftirlifandi eiginmaður Hrefnu er Sveinbjörn Örn Arnarson, f. 3.7. 1959. 3) Auður Ólafsdóttir, f. 6.5. 1957.
Sigurður Emil kvæntist Ólöfu Sigurlaugu Guðmundsdóttur, f. 29.7. 1947, þann 8.10. 1966. Ólöf Sigurlaug lést 20.1. 1989. Börn þeirra eru: 1) Hildigunnur Jónína, f. 10.7. 1966, gift Jóni Grétari Hafsteinssyni, f. 23.12. 1960. 2) Ólafur Már, f. 31.1. 1970, kvæntur Heklu Hannibalsdóttur, 5.8. 1970. Börn þeirra eru Kjartan Helgi og Ólöf Arna, bæði fædd 12.2. 2001.
Sigurður Emil kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðnýju Ástu Ottesen, f. 14.8. 1951, þann 19.7. 1989. Börn Guðnýjar Ástu eru: 1) Oddgeir Reynisson, f. 21.5. 1969. Eiginkona hans var Herdís Guðmundsdóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru þrjú: Guðmundur Róbert, f. 22.7. 2000, Viktor Reynir, f. 24.2. 2003, og Stefanía Dís, f. 7.9. 2005. 2) Lilja Rut Grätz, f. 23.1. 1982, gift Christopher Grätz, f. 16.4. 1986. Börn þeirra eru: Ellen Ásta, f. 13.2. 2016, og Benedikt Bjarki, f. 30.11. 2017.
Á Eyrarbakka bjó Sigurður Emil ásamt foreldrum og bróður í húsi sem hét og heitir raunar enn Ingólfur. Um tólf ára aldur fluttist fjölskyldan að Smáratúni 18 á Selfossi í hús sem faðir hans byggði að mestu í frístundum með hjálp góðra vina. Hann fór ungur að vinna í símavinnu hjá föður sínum, en hugur hans stefndi þó annað en það og hann lærði húsasmíði hjá trésmiðju Kaupfélagsins á Selfossi og lauk því námi síðla árs 1965. Á þessum árum kynntist hann fyrri eiginkonu sinni Ólöfu Sigurlaugu ásamt mörgu góðu fólki sem hann hélt tryggð við allt til æviloka. Of langt mál yrði að telja fleira upp um unglings- og táningsárin, bílana sem hann eignaðist útsjónarsemi og margt fleira. Sigurður og Ólöf byggðu að nokkru og bjuggu sér sitt fyrsta heimili á Engjavegi 71 á Selfossi og þar fæddust þeim börnin tvö, Hildigunnur Jónína og Ólafur Már. Haustið 1973 fluttust þau til Reykjavíkur og eftir stutt stopp í Breiðholti fluttu þau, árið 1974, í vesturbæinn þar sem Sigurður bjó til æviloka. Ólöf Sigurlaug eða Lóló, eins og hún var alltaf kölluð, lést í janúar 1989. Rétt rúmu ári síðar kynntist Sigurður Guðnýju Ástu Ottesen og hófu þau sambúð fljótlega eftir það.
Útför Sigurðar Emils fer fram kl. 11 frá Fossvogskirkju í dag, 20. ágúst 2020. Það er sami dagur og móðir hans Sigrún Þorbjörg hefði náð 100 ára aldri. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu gilda fjöldatakmarkanir við athöfnina, en henni verður streymt á slóðinni https://tinyurl.com/y66fksdo.

Látinn er bróðir minn, Sigurður Emil Ólafsson. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi miðvikudaginn 12. ágúst sl. saddur lífdaga eftir erfið veikindi. Þó svo að á tímabili hafi samskipti okkar ekki verið mikil því ég bjó í áratugi á öðru landshorni, var alltaf gott samband á milli okkar bræðra. Á ferðum okkar fjölskyldunnar að norðan komum við ávallt við á Fálkagötunni og ósjaldan var skotið skjólshúsi yfir mig og mína þegar á þurfti að halda.
Þegar fólk sem hefur verið manni nákomið andast koma margvíslegar minningar upp í hugann, maður verður meyr og viðkvæmur og tamast að hugsa um það góða og jákvæða í samskiptum við þann látna. Þó vil ég fullyrða að okkur bræðum varð ekki oft sundurorða. Við fengum nokkuð strangt uppeldi og við komumst ekki upp með neitt múður, a.m.k hjá móður okkar. Það tel hafa orðið til að gera okkur að betri mönnum og hjálpað okkur að hafa góðan skilning á margvíslegum brestum í fari annars fólks og kennt okkur að umbera og horfa til jákvæðu hliðanna. Í mínum huga er það ekki tilviljun að útför Sigga fer fram á þeim degi sem móðir okkar hefði orðið 100 ára gömul.
Eins og gerist með bræður brölluðum við Siggi margt, þó svo að aldursmunurinn væri fimm ár hef ég örugglega verið litli óþolandi strákurinn, ekki síst á unglingsárum hans. Samt var samkomulagið alla jafna gott og minnist ég þess ekki að við höfum oft verið ósammála. Að sjálfsögðu er of margs að minnast til að hægt sé að geta um það allt hér og vitaskuld vorum við ekki alltaf sammála um allt.
Við ólumst upp við allsérstakar aðstæður þar sem faðir okkar var verkstjóri hjá Landssímanum og við fórum snemma að fylgja með í útilegurnar sem starfi hans fylgdu, en mamma var oftast ráðskona í vinnuflokknum og því vorum við mikið með foreldrum okkar, en hefðbundnar helgarútilegur voru ekki margar eftir að hafa verið næstum allt sumarið í útilegu. Snemma var farið að láta á það reyna hvort við gætum ekki orðið að einhverju liði og fljótlega urðum við fullgildir verkamenn í símavinnunni. En hugur Sigga stefndi annað og ungur fór hann að læra smíði í kaupfélagssmiðjunum á Selfossi. Hann lauk sínu smíðanámi síðla árs 1965 og starfaði við smíðar upp frá því.
Sigurður giftist fyrri konu sinni, Ólöfu Guðmundsdóttur, 8. október 1966. Hún lést langt um aldur fram 20. janúar 1973. Þau eignuðust tvö börn, Hildigunni Jónínu, starfsstúlku á hjúkrunarheimilinu við Dalbraut, og Ólaf Má, starfsmann Hagstofunnar. Hildigunnur er gift Jóni Grétari Hafsteinssyni prentara, þau eiga ekki börn, en Ólafur er giftur Heklu Hannibalsdóttur skólafulltrúa og eiga þau tvö börn. Siggi starfaði út starfsævina við smíðar, bæði sjálfstætt og hjá ýmsum verktökum. Hann giftist árið 1973 núverandi konu sinni, Guðnýju Ástu Ottesen, ættaðri úr Hveragerði.
Siggi byggði þeim Ólöfu (Lóló) heimili á Fálkagötu 29 og bjó hann þar alla tíð og síðan síðustu æviárin með Guðnýju Ástu Ottesen, síðari konu sinni sem reyndist honum ávallt vel vel, ekki síst á lokasprettinum.
Fljótlega eftir að þau Lóló fluttu til Reykjavíkur gerðist hann KR-ingur og var sínu félagi trúr og tryggur allt til æviloka og fylgdist vel með starfinu þar hvort heldur var í knattspyrnu eða körfubolta. Þar eignaðist hann góða vini og félaga fyrir lífstíð, ekki síst eftir að Óli Már sonur hans fór að stunda knattspyrnu af krafti.
Nú á kveðjustund viljum við Úlla og fjölskyldur okkar þakka samfylgdina og votta nánustu eftirlifandi ættingjum samúð og sendum héðan alúðarkveðjur. Við munum örugglega finna fyrir nálægð hans áfram eftir að hann er fluttur til nýrra heimkynna.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,
og þín er liðin æviönn,

á enda skeið er runnið.
Í hugann kemur minning mörg
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.
( Höf. óþ.)





Sigmar Ólafsson.