Gísli Rúnar Jónsson, leikari, rithöfundur og þýðandi, fæddist í Reykjavík 20. mars 1953. Hann lést 28. júlí 2020, 67 ára að aldri.
Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Valgerðar Gísladóttur skáldkonu og Jóns Konráðs Björnssonar kaupmanns.
Hann stundaði leiklistarnám við Leiklistarskóla Ævars Kvaran 1969-70, var í námi og leikhústengdum störfum hjá LA 1970-71, í undirbúningsnámi við Leiklistarskóla leikhúsanna 1974 og leiklistarnámi þar 1974-75, stundaði framhaldsnám í leiklist við The Drama Studio í London og brautskráðist þaðan 1981.
Gísli hóf feril sinn sem skemmtikraftur í sjónvarpi með Júlíusi Brjánssyni í Kaffibrúsakörlunum, 1972-73, og lék síðan í, leikstýrði og skrifaði fjölda útvarps- og sjónvarpsþátta. Þá kom hann að tveimur tugum áramótaskaupa og gerði auglýsingar fyrir útvarp og sjónvarp.
Hann stofnaði og rak Gríniðjuna hf. í félagi við Eddu Björgvinsdóttur, Þórhall Sigurðsson (Ladda) og Júlíus Brjánsson á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Þá var hann leikari, leikstjóri, höfundur og þýðandi að leikritum, skemmtidagskrám, revíum og kabarettum fyrir Þjóðleikhúsið, LR, LÍ, LA, Alþýðuleikhúsið, Hitt leikhúsið, Útvarpsleikhúsið, Listahátíð o.fl. Einnig var hann flytjandi efnis á hljómplötum og mynddiskum af margvíslegu tagi og lék í kvikmyndum.
Bækur eftir Gísla eru m.a. Bo & Co - með íslenskum texta, Ég drepst þar sem mér sýnist – Gísli Rúnar & Grínarar hringsviðsins segja sögur úr sviðsljósinu – & skugga þess og Laddi: Þróunarsaga mannsins sem kom okkur til að hlæja.
Eiginkona og lífsförunautur Gísla var Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir leikkona. Synir þeirra eru Björgvin Franz og Róbert Óliver en Björgvin er giftur Berglindi Ólafsdóttur, börn: Edda Lovísa og Dóra. Róbert Oliver er í sambúð með Sigríði Gísladóttur. Stjúpdætur Gísla og dætur Eddu eru Eva Dögg, gift Bjarna Ákasyni, börn: Sara Ísabella og Fannar Daníel Guðmundsbörn og Bjarni Gabríel og Viktor Áki Bjarnasynir, og Margrét Ýrr gift Sigurði Rúnari Sigurðarsyni, börn: Karen Eva, Rakel Ýrr og Björgvin Geir.
Útför Gísla Rúnars fer fram 20. ágúst 2020, en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verður útförin aðeins fyrir nánustu, en henni verður streymt á netinu og í beinni útsendingu í sjónvarpi Símans. Útförin hefst klukkan 15.
Nánar um streymið á www.gislirunar.is.
Í fyrsta sinn sem ég hitti Gísla Rúnar var hann á gagnfræðaskólaaldri;
ég hafði verið fenginn til að taka þátt í skemmtun á árshátíð skólans sem
hann var í. Ég var kynntur fyrir honum eftir að hafa séð handverk hans á
skólaleikritinu: snilldarleikgervi, búninga, handrit, leik og leikstjórn,
og ég áttaði mig strax á því að hér var enginn meðalmaður á ferð.
Næst hitti ég Gísla í Glaumbæ, þar sem hann kom að heimsækja okkur sem
lékum í fyrstu útfærslunni á söngleiknum Hárinu; Gísli og félagar hans
vildu fá okkur með í að setja á svið Sandkassann eftir Kent Anderson og það
varð úr að við æfðum Sandkassann eftir að sýningum á Hárinu lauk á kvöldin.
Þar með var fyrsta leikstjórnarverkefni Stefáns Baldurssonar orðið til og
nánari vinátta okkar Gísla. Svo fengum við að halda á spjótum í
Þjóðleikhúsinu og kynnast Jóni Laxdal leika Óþelló.
Gísli hafði forframast í leiklist á Akureyri undir handarjaðri Þórhildar
Þorleifsdóttur og Arnars Jónssonar, hafði mætt til þeirra sem íhaldssöm
tildurrófa, nánast með montprik en sneri aftur til Reykjavíkur sannfærður
og auðmjúkur sósíalisti.
Hjá okkur Gísla tóku við lífleg skemmtanaár og traustari vinabönd. Það
þurfti að sjá til þess að fengið væri sem mest út úr allri skemmtun til
dæmis á gamlárskvöld: Hvar var besta partíið? Það var ekki gott að segja
nema að heimsækja þau sem flest; til þess var leigð rúta fyrir
vinina.
Svo varð Gísli landsfrægur í Ríkissjónvarpinu fyrir að leika Brúsakarl. Svo
mikið var að gera hjá þeim Júlla við skemmtanir að það þurfti að aka þeim á
milli margra staða. Gísla leist vel á gula Mustanginn hans pabba, svo pabbi
var um tíma einkabílstjóri Kaffibrúsakarlanna. Eitt sinn á 17. júní var
Júlli fjarri góðu gamni og Gísli fékk mig til að skemmta með sér í gervi
Brúsakarls á Arnarhóli; við höfðum samið nokkra brandara í Annexíu
Gljúfrasteins fyrir skemmtunina eða öllu heldur var það Gísli sem spreðaði
sköpunargáfu sinni út á miklum hraða.
Sumarið 1970 vann ég í Kaupmannahöfn og átti þar leið í plötubúð. Við Gísli
héldum mikið upp á Spike Jones og hljómsveit hans og ég fjárfesti þarna í
tvöföldum vínyl sem fljótlega var kominn til Gísla eftir að heim kom. Hann
fór með vínylinn til Halla og Ladda og úr varð einhver skemmtilegasta plata
sem komið hefur út á Íslandi. Upprunalega vínylinn sá ég aldrei
aftur.
Brúðukarlinn Palli í barnatíma Ríkissjónvarpsins varð til án þess að nokkur
tæki í raun eftir honum í fyrstu; ó-leikari nokkur léði honum rödd sína. En
svo datt einhverjum í Sjónvarpinu í hug að fá snilling til að setja nýja
rödd við brúðuna og Gísli Rúnar sló aftur í gegn í Sjónvarpinu svo um
munaði. Það endaði með stórgóðri Sveppaplötu og Sveppaleikriti. Algjör
Sveppa-success. Gísli var mikill aðdáandi Baldurs búktalara og sonar hans
Konna; ekki síst var það Konni sem heillaði Gísla og röddin sem Gísli léði
Palla var hálfbróðir Konna.
Árið 1973 voru Gísli og Júlli með skemmtiþátt í Ríkisútvarpinu þar sem
margt bar á góma, meðal annars buðu þeir mér í viðtal eftir að ég kom af
Heimsmóti æskunnar í Austur-Berlín. Þegar við vorum að undirbúa viðtalið
datt okkur í hug að útvarpa undirbúningnum; svo þegar kom að upptökum gall
í Júlla á bak við glerið: Árni, segðu okkur frá partíinu hjá Honecker
þegar þú varst að reyna við Angelu Davis. Ég man nú ekki hvernig ég sneri
mér út úr þessu, altént náði ég ekki að tala við Angelu þar sem við vorum
stödd í myndarlegri garðveislu. En ég náði hins vegar að fara þarna á
tónleika hjá Miriam Makeba.
Í London leigði Gísli eitt sumarið rúmgóða íbúð þar og vinir hans og
vinkonur komu í heimsókn eftir þörfum. Eftir eitt gleðikvöldið þurftum við
Gísli á leigubíl að halda til að komast í leikhús og þá kynntumst við húmor
breskra leigubílstjóra; vegna talsverðrar innri gerjunar eftir drykkjarföng
gærdagsins, uppástóð bílstjórinn að við hlytum að hafa étið dauðan
kött.
Gísli var mikill lestrarhestur en bókasafn foreldra hans var nokkuð
einsleitt. Honum þótti því mikill fengur í því, þegar hann leigði, ásamt
fleirum, íbúð á Óðinsgötu og við í vinahópnum héldum þar löngum til, að
betri helmingur minn, það er að segja bókasafnið mitt, fluttist þangað inn.
Löngu síðar minntist Gísli þessara daga og hvað hann hefði menntast mikið
af bókunum mínum. Og þarna lékum við okkur saman að því að herma eftir
Bessa Bjarnasyni og Val Gíslasyni þar sem þeir léku Húsvörð Pinters í
Ríkisútvarpinu: stundum var ég Bessi og stundum Valur og stundum var Gísli
Gunnar Eyjólfsson; allt tekið samviskusamlega upp á segulband. Skemmtileg
ár.
Þegar ég var að leika Kalla í Kertalogi Jökuls hjá Leikfélagi Reykjavíkur í
Iðnó í leikhússtjóratíð Vigdísar Finnbogadóttur kom Gísli að máli við
mig og spurði mig hvort ég þekkti Eddu Björgvinsdóttur sem hann hafði
nýlega kynnst. Ég sagðist þekkja þessa skólasystur mína úr Menntaskólanum
við Hamrahlíð; hún hefði komið að máli við mig á balli í Klúbbnum og spurt
mig út í leiklist vegna þess að hún hafði fylgst með mér leika í MH. En hún
þorði samt ekki að leika í skólanum, enda þótti það ekki neitt sérstaklega
töff. Hún gerðist því bara formaður Leikfélagsins, án þess að leika. Edda
var alltaf með mjög frumlega klippingu, toppurinn var ekki beinklipptur
heldar bogalaga í kröppum öfugum boga; svo fólk tók eftir henni sem
smekkmanneskju. Ekki þurfti ég að lýsa Eddu betur fyrir Gísla, hann lét til
skarar skríða og varð síðan einhver helsti kennari Eddu þannig að hún varð
okkar fremsta gamanleikkona og síðar tragedienne.
Gísli var aðstoðarmaður leikstjórans Bríetar Héðinsdóttur í Sjö stelpum
Þjóðleikhússins. En hann þurfti að bregða sér frá í nokkra daga og varð að
útvega sér varamann. Hann valdi mig og Bríet kom af fjöllum, vegna þess að
henni fannst eitthvað ólíklegt að við værum vinir. Ekki veit ég hvers vegna
en ég gladdist síðar yfir því þegar hún valdi mig til að leika Hrapp (The
Artful Dodger) í leikstjórn hennar á Óliver Twist Þjóðleikhússins.
Mesta afrek Gísla sem ég sá til hans á leiksviði var þegar hann lék
aðalhlutverkið í Blómarósum Ólafs Hauks Símonarsonar í Lindarbæ. Samstarf
hans og Þórhildar Þorleifsdóttur leikstjóra leiddi af sér leik hjá Gísla
Rúnari sem var langt fyrir ofan heimsmælikvarða. Gísli lék þarna
drykkfelldan forstjóra sem varð þeim mun drukknari sem lengra leið á
leikritið. Það var ekki síst meðferð Gísla á leikmunum sem var sú besta sem
sést hefur í íslensku leikhúsi sem lyfti þessari sýningu í hæstu listrænu
hæðir. Og ekki var hægt að finna eina einustu örðu að líkamsbeitingu Gísla
í sýningunni og textameðferð.
Gísli vann einnig að öðru verki Ólafs Hauks: hljómplötunni um Hatt og Fatt
í upptökustjórn Gunnars Þórðarsonar. Þá sá maður hversu tónviss og öruggur
söngvari Gísli var; aldrei kom það fyrir í upptökunum að hann héngi í
tóninum. Ég spurði Gísla hvort sonur hans og Eddu, Björgvin Franz, hefði
jafn öruggt tóneyra og hann: Miklu öruggara, sagði Gísli. Ég hafði heyrt
hversu auðvelt Björgvin Franz átti með að syngja lög eftir hljómsveitina
The Doors, en ég sannfærðist um að þetta svar Gísla væri rétt þegar
Björgvin fór að syngja lög sem Villi Vill og Raggi Bjarna höfðu sungið.
Ákveðið var að hafa nokkrar myndir af Hatti og Fatt á umslagi plötunnar og
þá var um að gera að reyna að útbúa þá í skemmtileg gervi. Gísla datt í hug
að sniðugt væri að túbera á mér hárið, svo hann tók það að sér, enda
sérfræðingur í leikgervum; ljósmyndarinn, Valdís Óskarsdóttir, er þekktari
í dag sem kvikmyndaklippari en ljósmyndari.
Af þeim aragrúa smáhlutverka sem Gísli skapaði í skemmtiþáttum og
Áramótaskaupum halda margir hvað mest upp á túlkun hans á Árna Johnsen, sem
varð fyrir því óláni að einhverjir hlutir festust við hann í Byko. Gísli
var fenginn til að túlka ósköpin með afar rýru handriti. Hvað gerði Gísli
þá? Hann bætti við handritið öllu því fyndna sem er í upptökunni, annars
hefði allt verið dautt og flatt. En þessi leikur hans hafði sérstæðar
afleiðingar. Sá sem hrifnastur var af túlkun hans gerðist náinn vinur og
hlóð gjöfum á Gísla nafn hans: Árni Johnsen.
Sem barn, unglingur og fullorðinn dáði Gísli list Bessa Bjarnasonar. Til
þess að víkka út list Bessa þýddi Gísli verk eftir Neil Simon og setti á
svið með Bessa og Árna Tryggvasyni. Þar þurftu þessir gömlu menn að fara í
spor heimsfrægra leikara úr annarri heimsálfu og ekki gott að segja hverjir
stóðu sig betur.
Ungur nemur, gamall temur. Gísli lærði mikið í list sinni af Bessa
Bjarnasyni; en Gísli átti líka nemanda í listinni sem færri hafa gert sér
grein fyrir. Það var Laddi. Og Gísli leiddi Ladda til mikils sigurs þegar
hann samdi með honum afmælishandrit að skemmtun sem gekk tíu sinnum lengur
en áætlað var. Svo munaði Gísla lítið um að draga saman upplýsingar í
ævisögubók um Ladda.
Síðustu árin vann Gísli við þýðingar á leikritum, söngleikjum og
skáldsögum. Einna best launaður við þessa vinnu var hann hjá Leikfélagi
Akureyrar þar sem réði slyngur leikhússtjóri sem vissi að borga ætti vel
fyrir snilldarþýðingar Gísla, frekar en að fá ódýran þýðanda sem myndi
eyðileggja verkin með lélegum þýðingum. Þessi formúla fleytti Leikfélaginu
áfram og upp í hæstu hæðir. Síðan tók annar leikhússtjóri við félaginu og
ákvað í samráði við framkvæmdastjóra félagsins að ekki skyldi þiggja vinnu
Gísla heldur fá ódýrari þýðanda til að vinna verkin. Og það var sem við
manninn mælt: Leikfélagið fór á hausinn.
Hjá okkur Gísla tóku við ár barneigna og ábyrgðar sitt í hvorri
fjölskyldunni þar sem hver þurfti að einbeita sér að sínu og sínum. En svo
lauk því tímabili og samverustundir okkar Gísla jukust aftur til muna þegar
hann bjó á Langholtsvegi. Júlli hafði gefið Gísla púsl í 1.000 hlutum og ég
skildi síst í því að Gísli hefði ekki sett þessa mynd af sínum
uppáhaldsleikara saman: Chaplin í The Kid. Skýringin var sú, að þó Gísli
væri samansettur af göldrum margra tegunda, vantaði eitt púsl í heila hans,
en það var púsl-púslið. Ég tók mig því til og skellti brotunum saman eftir
vinnu og við tóku skemmtilegar stundir samtala og hlustunar á jazz frá
Spotify og upplestur Gísla á nýjustu limrunum hans. Ef ég gaf frá mér, það
sem hann kallaði belly laugh við lestur hans, þá lifði limran af. Á
þessum tíma sýndi hann mér líka vinnu sína við einleikinn sem honum datt í
hug að leika, verk sem var unnið upp úr bók hans Ég drepst þar sem mér
sýnist. En af þeirri sýningu varð ekki þar sem þáverandi leikhússtjórar,
sem nú eru horfnir af sviðinu með skottið á milli lappanna, skildu ekki
snilldina í verkinu.
Gísli var mikill hugsjónamaður og hlýja hans og umhyggja gagnvart vinum
sínum var einstök. Þegar ljóst var að Stefán Karl ætti skammt eftir ólifað
og honum var boðið að leika einhver smáhlutverk í atvinnuleikhúsi að lokum,
reis Gísli upp á afturfæturna og sagði: Minn góða vin má ekki móðga með
smásálarhætti, honum skal reisa ærlegan minnisvarða; Stefán á að leika
stórt hlutverk í lokin og það á að kvikmynda það. Gísli bar hugmyndina
undir hinn farsæla leikhúsmann sem nú stýrir Þjóðleikhúsinu og úr varð að
Stefán gat fyllt vasa sína af grjóti.
En þegar kom að því að reisa minnisvarða um list Gísla var
smásálarhátturinn allsráðandi og Gísl drapst þar sem honum sýndist.
Sá aðdáandi að list Gísla sem hann mat hvað mest var Jón Viðar Jónsson
leiklistarfræðingur. Ég reyndi talsvert til að fá þá Jón og Gísla í
kaffispjall; mér hafði tekist slíkt á hliðstæðan hátt þegar ég hélt
kaffiboð fyrir Þorstein Ö. Stephensen og Helga Hálfdanarson með það að
markmiði að fá Þorstein til að lesa ljóðaþýðingar Helga í Ríkisútvarpið,
eins konar svanasöng Þorsteins. En niðurstaða Þorsteins var sú að rödd hans
væri ekki lengur nægilega hljómrík. Ef tekist hefði að fá þá Jón og Gísla
saman í kaffispjall, gæti ég bætt hér nokkrum skemmtilegum sögum við af
Gísla, en því miður varð ekki af því.
Síðustu mánuðirnir í lífi Gísla voru honum erfiðir. Einn daginn sendi hann
mér póst og sagðist þurfa að leggjast inn á sjúkrahús, ekkert alvarlegt.
Síðar kom í ljós að hann hafði ofnotað kvíðalyf og þurfti að fara í
afvötnun. Viku áður en Gísli dó sendi hann mér póst: Við verðum að fara
að hittast. Þennan tón hafði ég ekki heyrt áður hjá honum. Í þessari
síðustu heimsókn minni til Gísla trúði hann mér fyrir því að sumir dagar
hjá honum væru svo erfiðir að hann gæti vart hugsað sér að lifa
lengur.
Í næsta tölvupósti mínum til Gísla sendi ég honum áskorun um limruyrkingu
sem ég vissi að gæti glætt lífsvilja hans að glíma við: Búðu til limru með
rímorðunum meir og meyr. Benti líka á að ágætt viðbótar-rímorð væri Geir.
Daginn eftir kom:
Borgarstjóri & utanríkisráðherra Ísraels
- annó 1961
Það gleymast mun seint hve hann Geir
gat orðið bljúgur og meyr
- samt mismikið meyr
- og aldrei þó meir
en andspænis frú Goldu Meir.
Næsta verkefni sem ég sendi Gísla var gagnaukin limra eftir höfund bókar sem Gísli mat mikils: The Devil's Dictionary. Í þessari háðsku orðabók er skilgreiningin á Immortality svona:
A toy which people cry for,
And on their knees apply for,
Dispute, contend and lie for,
And if allowed
Would be right proud
Eternally to die for
En það kom ekkert svar frá Gísla. Ég hafði sent limruna einum degi of seint.
Árni Blandon.
Þegar ég var 9 ára fluttum við á Selvogsgrunn 26 við Laugarásinn sem varð æskuheimili okkar til fullorðinsára. Þarna bjuggum við þrír synir fæddir á sex ára fresti, ´47, ´53 og ´59 og Gísli í miðjunni. Nýja hverfið var ævintýraheimur, gömul býli hér og þar og gömlu sundlaugarnar álengdar sem gáfu hverfinu hlýlegan og forvitnilegan svip. Ósnortin fjara með þang og sjávarilmi frá Laugarnesi að Vatnagörðum. Allt um kring spruttu upp ný hús og sementslykt lá í loftinu. Grasskikar hér og þar voru nýttir í leik- og fótboltavelli. Í hverfinu var skari af börnum og við eignuðumst marga vini. Oft var farið með strætó í bæinn og Bæjarbókasafnið heimsótt sem var ævintýraheimur. Einnig lá leiðin í K.F.U.M. við Amtmannsstíg sem margir drengir sóttu. Síðar lá leið okkar bræðra í sumarbúðir sömu samtaka í Vatnaskógi. Það var oft mikið fjör á strákaheimilinu.
Strax í barnæsku hafði Gísli Rúnar mikið dálæti á því að skapa ýmsa karaktera með förðun og tilheyrandi sminki sem hann lék síðan fyrir okkur fjölskylduna. Hann var mjög flinkur að móta í leir þekktar persónur og í öndvegi í herbergi hans var afar vel gert líkan af sjálfum Chaplin.
Gísli Rúnar var daglegur gestur á heimilum margra nágranna okkar og skemmti heimilisfólki og var þá á aldrinum sex til tíu ára. Þetta var mikið ágætisfólk og synir þess voru æskufélagar Gísla Rúnars. Hann fékk útrás fyrir leiklistarbakteríuna þegar hann skemmti í veislum þeirra, oft fyrir fjölda manns, þar sem hann hermdi listavel eftir séra Bjarna, séra Jóni Auðuns og Bjarna Ben. Þá var Gísli auðfús gestur í nágrannahúsum í gervi jólasveinsins.
Gísli Rúnar gekk í barnaskóla í Laugarnes-og Laugarlækjaskóla. Hann átti gott með að læra en hugurinn var alltaf við leikhúsið. Gísli Rúnar var 5 ára þegar hann sá sitt fyrsta barnaleikrit í Þjóðleikhúsinu sem var Undraglerið með Bessa Bjarnason í aðalhlutverki. Ég man að hann sagði strax að þarna vildi hann vera. Foreldrar okkar höfðu áhyggjur af því að Gísli legði fyrir sig þetta óarðbæra starf sem þeim fannst það vera.
Eitt sinn í barnaskóla var Gísli í teiknitíma. Bekkurinn spreytti sig á myndefni sem kennarinn hafði teiknað á töfluna. Hann gekk um og virti fyrir sér árangur nemenda og staldraði lengi við fyrir aftan Gísla. Áður en tímanum lauk kom kennarinn að máli við Gísla, hvort hann mætti eiga verkið sem var auðsótt. Þar hafði Gísli teiknað mynd nauðalíka teiknikennaranum.
Það tíðkaðist á okkar yngri árum að sum börn í höfuðborginni voru send í sveit eins og sagt var. Slík dvöl gat staðið frá vori og fram á haust. Flestir sem rifja upp þessa lífsreynslu lýsa henni sem bestu stundum ævinnar. Gísli Rúnar dvaldi nokkur sumur að Mælifellsá í Skagafirði hjá Birni Hjálmarssyni. Hann kunni vel að meta þennan tíma og sagði mér skemmtilegar sögur af Birni bónda.
Leiklistarnám Gísla Rúnars hófst hjá Ævari Kvaran og þar strax kom fullkomnunarárátta hans í ljós. Hann var skemmtikraftur af guðs náð, algjört séní en þó enginn nörd en hann léði íslenskri tungu það nýyrði. Afkastamikill leikritaþýðandi, rithöfundur, leikstjóri og teiknari. Hagyrðingur, jafnvígur á ýmsa braghætti og afbragðsgóður leikari. Hvert einasta verkefni og viðfangsefni tók Gísli Rúnar föstum tökum með sínu lagi. Samstarfs fólk naut góðs af því, þrátt fyrir svita og tár. Gísli Rúnar las ekki gagnrýni þó hann væri ekki yfir hana hafinn. Hann einsetti sér ávallt að skila fullkomnu verki og var staðráðinn í að standa við það. Ferilskrá Gísla Rúnars er greipt inn í vitund þjóðarinnar.
Ég var stoltur af Gísla Rúnari, við bræður höfðum um margt ólíkar skoðanir og lífsstíl. Það skyggði aldrei á vináttu okkar. Við gátum alltaf tekið tal saman og rætt hlutina í bróðerni. Oftast var undiraldan kímin og gleðin réði ríkjum.
Guð blessi minningu þína um alla eilífð elsku bróðir.
Baldur Jónsson.