Dagný Harðardóttir fæddist á Siglufirði 5. maí 1963. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 10. ágúst 2020. Foreldrar hennar eru Gréta Guðmundsdóttir f. 22.1.39 og Hörður Arnþórsson f. 20.12.39 frá Siglufirði. Systur hennar eru Arna f. 1965 og Ólafía f. 1974. Maki Örnu er Njáll Hákon Guðmundsson f. 1964. Börn Örnu af fyrra hjónabandi eru Gréta f. 1996 og Viktor f. 1999. Börn Njáls af fyrra hjónabandi eru Andrea f. 1993 og Friðrik f. 1997.  Maki Ólafíu er Hannes Viktor Birgisson f. 1971. Synir þeirra eru Birgir Viktor f. 1994, Atli Hrafn f. 2005 og Pétur Kári f. 2007.

Fjölskylda Dagnýjar bjó á Siglufirði til ársins 1970 en fluttist þá til Reykjavíkur til að Dagný kæmist í sérskóla. Hún stundaði nám við Höfðaskóla árin 1970-1975 og Öskuhlíðarskóla árin 1975-1981.

Dagný starfaði á ýmsum virkni- og vinnustöðum fyrir fólk með fötlun, m.a. Bjarkarási, Örva og nú síðast á Hæfingarstöðinni á Dalvegi í Kópavogi.

Dagný bjó í foreldrahúsum til ársins 1984 þegar hún flutti á sambýli fyrir fatlaða í Kópavogi. Frá árinu 2006 bjó hún á sambýlinu við Ægisgrund 19 í Garðabæ.

Dagný var félagslynd og vildi gjarnan hafa vini og fjölskyldu í kringum sig. Hún hafði gaman að tónlist og sótti marga tónleika. Hún hafði áhuga á hannyrðum og naut þess að ferðast innanlands sem erlendis meðan heilsan leyfði.

Útför Dagnýjar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ fimmtudaginn 20. ágúst kl. 13.

Það hefur verið eftirvænting hjá mömmu og pabba að eignast sitt fyrsta barn og mikil hamingja að fá fallega stelpu í fangið á Siglufirði vorið 1963. Engan grunaði þá að líf þessarar litlu prinsessu og foreldranna ætti eftir að vera fullt af krefjandi verkefnum ævina á enda. Þegar Dagný var þriggja ára kom í ljós að hún þroskaðist ekki eðlilega. Hún fór í ítarlegar rannsóknir á Barnaspítala Hringsins og á tveimur sjúkrahúsum í Kaupmannahöfn en engar niðurstöður fengust. Árið 1968 kom Sævar Halldórsson barnalæknir úr sérnámi og reyndist mikill bjargvættur. Með honum fóru hjólin að snúast og í ljós kom að um var að ræða arfgengan litningagalla sem þarna uppgötvast í fyrsta sinn á heimsvísu. Um þessa uppgötvun og það hvernig þetta birtist hjá Dagnýju og frænda hennar var skrifuð vísindagrein í erlent læknatímarit. Litningagallanum fylgdi m.a. þroskaskerðing og verulega skert sjón sem hafði mikil áhrif á hennar líf.
Á þessum tíma, seint á sjöunda áratugnum, var fátt um fína drætti í þjónustu við fólk með þroskaskerðingu og foreldrum okkar var sagt að það væri best fyrir alla ef hún yrði tekin frá fjölskyldunni og komið fyrir á stofnun. Sem betur fer tóku þau það ekki í mál, seldu fallega hæð sem þau höfðu nýlega byggt í Hafnartúni á Siglufirði, yfirgáfu fjölskyldu og vini og fluttu til Reykjavíkur til að Dagný gæti fengið þjónustu við hæfi. Á þeim tíma var að byrja sérskóli hluta úr degi í Höfðaskóla og nokkrum árum seinna kom svo Öskjuhlíðarskóli til sögunnar. Á þeim tæpu 60 árum sem Dagný lifði varð, sem betur fer, bylting á þjónustu við og virðingu gagnvart fólki með þroskaskerðingu.
Dagný naut þess að vera í skóla og lærði margt, meðal annars að lesa, skrifa, reikna, synda og prjóna. Mamma fylgdi henni í strætó í nokkra mánuði þegar hún byrjaði í skóla 7 ára og á endanum lærði hún að fara ein fram og til baka. Það kom reyndar fyrir einu sinni að hún skilaði sér ekki heim úr skólanum en fannst loksins seinnipartinn. Þá kom í ljós að hún hafði heldur betur nýtt tækifærið og skoðað heiminn og benti dauðskelkuðum pabba sínum stolt á alla strætóbílana sem hún hafði náð að keyra með þann daginn.
Dagný var mjög félagslynd og vildi hafa líf og fjör í kringum sig. Henni þótti vænt um fólkið sitt og eignaðist marga góða vini. Það var mikill missir þegar Auða vinkona hennar lést 2007 því þær voru nánar og brölluðu margt skemmtilegt saman.
Dagný byrjaði að stama sjö ára og stamið háði henni það sem eftir var ævinnar því það voru ekki margir sem höfðu þolinmæði til að bíða meðan hún kláraði að segja það sem henni lá á hjarta. En hún stamaði ekki alltaf. Þegar hún komst í uppnám og varð reið þá hvarf stamið. Og svo gat hún sungið án þess að stama, enda elskaði hún söng og tónlist og naut þess að fara á tónleika. Björgvin Halldórsson var í miklu uppáhaldi, hún fór á jólatónleikana hans á hverju ári og hlustaði á upptökur af tónleikunum þess á milli.
Heilladísirnar voru með okkur í liði þegar Dagný fluttist á sambýlið á Ægisgrund í Garðabæ fyrir fjórtan árum. Þar er einstakur andi sem maður finnur um leið og maður labbar inn um dyrnar, virðing, kærleikur og heimilislegur bragur ræður þar ríkjum. Heimilisfólkið er yndislegt og starfsfólkið frábært, margt með mjög langan starfsaldur. Við fjölskyldan erum ævinlega þakklát þeim fyrir alla þá alúð og væntumþykju sem umlukti Dagnýju á Ægisgrundinni. Okkur systrum langar sérstaklega að nefna Sigurbjörgu, sem var tengill Dagnýjar flest árin og Gígju sem var forstöðumaður lengst af.
Dagný hefur þurft að heyja margar baráttur en hún hefur alltaf verið svo sterk og náð að sigra, alveg þar til það kom að þessari síðustu. Heilsunni fór fyrst að hraka fyrir 25 árum og svo fyrir alvöru fyrir fjórum árum þegar hún greindist með krabbamein, sem ekki var hægt að lækna.
Þegar lítil börn koma í heiminn sjáum við fyrir okkur að þau muni þroskast og dafna undir okkar verndarvæng og fljúgi síðan úr hreiðrinu einn daginn á vit frelsis og ævintýra. Dagný flutti að heiman um tvítugt en það hefur verið hlutverk mömmu og pabba alla tíð að vaka yfir velferð hennar og þau hafa aldrei sleppt af henni hendinni. Mamma var kletturinn hennar, hún var vakin og sofin yfir stelpunni sinni öll þau 57 ár sem Dagný lifði.
Við erum þakklátar að hafa átt elsku Dagnýju sem stóru systur okkar, fyrir að hafa fengið að vera henni samferða í gegnum lífið og fyrir þá miklu væntumþykju sem hún sýndi okkur og frændsystkinum sínum alla tíð.
Það er komið að kveðjustund. Myndin sem kemur upp í hugann er af Dagnýju í fallegum fötum í glaðlegum litum, með naglalakk og gloss, rautt veski og fína hárspöng. Hún brosir til okkar og henni líður vel.

Arna og Ólafía.