Gísli Rúnar Jónsson, leikari, rithöfundur og þýðandi, fæddist í Reykjavík 20. mars 1953. Hann lést 28. júlí 2020, 67 ára að aldri.
Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Valgerðar Gísladóttur skáldkonu og Jóns Konráðs Björnssonar kaupmanns.
Hann stundaði leiklistarnám við Leiklistarskóla Ævars Kvaran 1969-70, var í námi og leikhústengdum störfum hjá LA 1970-71, í undirbúningsnámi við Leiklistarskóla leikhúsanna 1974 og leiklistarnámi þar 1974-75, stundaði framhaldsnám í leiklist við The Drama Studio í London og brautskráðist þaðan 1981.
Gísli hóf feril sinn sem skemmtikraftur í sjónvarpi með Júlíusi Brjánssyni í Kaffibrúsakörlunum, 1972-73, og lék síðan í, leikstýrði og skrifaði fjölda útvarps- og sjónvarpsþátta. Þá kom hann að tveimur tugum áramótaskaupa og gerði auglýsingar fyrir útvarp og sjónvarp.
Hann stofnaði og rak Gríniðjuna hf. í félagi við Eddu Björgvinsdóttur, Þórhall Sigurðsson (Ladda) og Júlíus Brjánsson á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Þá var hann leikari, leikstjóri, höfundur og þýðandi að leikritum, skemmtidagskrám, revíum og kabarettum fyrir Þjóðleikhúsið, LR, LÍ, LA, Alþýðuleikhúsið, Hitt leikhúsið, Útvarpsleikhúsið, Listahátíð o.fl. Einnig var hann flytjandi efnis á hljómplötum og mynddiskum af margvíslegu tagi og lék í kvikmyndum.
Bækur eftir Gísla eru m.a. Bo & Co - með íslenskum texta, Ég drepst þar sem mér sýnist – Gísli Rúnar & Grínarar hringsviðsins segja sögur úr sviðsljósinu – & skugga þess og Laddi: Þróunarsaga mannsins sem kom okkur til að hlæja.
Eiginkona og lífsförunautur Gísla var Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir leikkona. Synir þeirra eru Björgvin Franz og Róbert Óliver en Björgvin er giftur Berglindi Ólafsdóttur, börn: Edda Lovísa og Dóra. Róbert Oliver er í sambúð með Sigríði Gísladóttur. Stjúpdætur Gísla og dætur Eddu eru Eva Dögg, gift Bjarna Ákasyni, börn: Sara Ísabella og Fannar Daníel Guðmundsbörn og Bjarni Gabríel og Viktor Áki Bjarnasynir, og Margrét Ýrr gift Sigurði Rúnari Sigurðarsyni, börn: Karen Eva, Rakel Ýrr og Björgvin Geir.
Útför Gísla Rúnars fór fram 20. ágúst 2020,

Þann 28. júlí rak ég augun í að hægt væri að horfa á Fasta liði eins og venjulega á RÚV og ákvað að horfa á seríuna á meðan fríinu stæði í sumarhúsi fjölskyldunnar í Aðaldalnum. Daginn eftir var ég stödd í Ásbyrgi þegar símtal barst um að fjölskylduvinurinn, leiklistarséníið og þjóðardýrgripurinn Gísli væri látinn. Veröldin hrundi. Fastir liðir bernskunnar voru heimsóknir með pabba og Einari bróður til Gísla Rúnars og Eddu, forréttindi sem ég hef búið að alla tíð og áttaði mig snemma á að voru einmitt það, forréttindi. Í hvert sinn man ég að ég óskaði þess að stutt væri þar til við kæmum aftur og helst fannst mér vanta upp á að við kæmum mikið oftar og þá helst um hverja pabbahelgi. Það voru svo hlýjar og kærleiksríkar móttökur og alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast, hvort sem var á Óðinsgötunni eða annars staðar. Gísli oftast með opal skammt undan sem hann deildi örlátlega með litlum sælgætisgrísum og ógleymanlegur er mér kækurinn sem fólst í að setja eldspýtu í nefið til að hnerra, uppskeran hlátrasköll barnanna og ekkert flóknara en það. Þarna fór fram tilraunamennska með húmor og kækir nýttust sem efni í brandara og rötuðu oft inn í ógleymanlega persónusköpun. Alltaf leit og alltaf tilraunir og frumlegheit. Á Óðinsgötunni var herbergisskot með fullt af hárkollum og ýmiss konar snilldar gervum sem Gísli dundaði sér við að útbúa. Um tíma vídeóleiga í kjallaranum sem bjó yfir einstöku safni af gömlu klassísku Hollywood-myndunum og hægt var að njóta góðs af.
Sex ára gömul fylgdist ég yfir mig spennt með Föstum liðum eins og venjulega sem ég horfði á í beinni í línulegri sjónvarpsdagskrá á æskuheimilinu á Skógum undir Eyjafjöllum. Ég missti ekki af einum einasta þætti, svo kom Heilsubælið og Stella í orlofi þar sem Gísli lék tyggjóglaða flugstjórann svo eftirminnilega og afburða vel. Hattur og Fattur-platan og Algjör Sveppi var aldrei langt undan og alltaf var jafn gaman að fá að hitta Gísla og fjölskyldu af og til. Ég gleymi aldrei gleðinni sem Robert Oliver færði foreldrum sínum þegar hann mætti töluvert seinna en við hin í ungmennafélaginu en samdóma álit var um að þar væri á ferð fallegasta og hæfileikaríkasta barn sem fæðst hefði í heiminn. Ég er enn á þeirri skoðun.
Árið 2009 setti ég upp einleik í Borgarleikhúsinu og Gísli Rúnar Jónsson þýddi verkið. Það sem ég er þakklát fyrir að þeirri hugmynd var gaukað að mér að fá okkar allra besta þýðanda til liðs við mig en þá var Gísli búsettur í Los Angeles þar sem honum leið svo vel í sólinni. Hann snaraði sér í verkið og handritið kom fullbúið með neðanmálsgreinum mánuði síðar þar sem var að finna ótal aðra möguleika til að velja úr og römmuðu inn skapandi þýðingarferlið en í einum tölvupóstinum frá Gísla fylgdi með eftirminnileg tilvitnun í Thomas Mann A writer is a person for whom writing is more difficult than it is for other people. (Rithöfundar eru þeir sem þurfa að hafa meira fyrir því að skrifa en aðrir.)

Og svo síðar þegar við ræddum skrif frekar sagðist ég ekki ætla að sýna honum fyrstu bókina mína fyrr en ég hefði þráast við endurskrif sem ég viðurkenndi að reyndu á þolinmæði mína þá sló hann eins og svo oft á létta strengi og sagðist vera sjálfur með svo mikið ocd að endurskrif væru hans mesta kikk.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast Gísla aftur og betur á fullorðinsaldri. Hann vildi manni allt það besta, kallaði fólk engla og elskur og kunni betur en aðrir að hrósa og knúsa. Hann var mér fyrirmynd sem kenndi mér ungri að aldri að stórir listamenn eru með gullhjarta og finna sterkt til, eru uppteknir af grúskinu, leitinni og tilraunamennskunni, vilja öðrum vel og eru meðvitaðir um viðkvæma strengi og geta ekki gert að því að geta ekki gert neitt annað en að fást við listina.
Gísli var maður sem sá og skynjaði aðra og leið vel í kringum þá sem sáu hann, skynjuðu og skildu hve miklum kærleik hann hafði yfir að búa. Hann hafði ríka samkennd og var djúpt andlega þenkjandi og næmur. Fráfall Gísla var skyndilegt og söknuðurinn sker í hjartað en um leið halda minningar, leiksigrar og húmor hans áfram að töfra fram bros svo víða enda menningarleg áhrif hans ómæld í íslensku samfélagi. Gísli var mikill fjölskyldumaður og í mínu tilviki fjölskylduvinur sem hafði einstakan hæfileika til að láta vinum líða eins og þeir væru hluti af fjölskyldunni. Það stóra skarð sem hann skilur eftir verður ekki fyllt en ekki er hægt annað en að vera þakklátur fyrir kynnin því þau voru skrilljón sinnum betri en góð. List hans, skrif og leiknar persónur lifa áfram og minningin um stórbrotna nærveru einstaks öðlings er svo sterk að hún yljar um alla tíð. Mér er hugleikið hvernig einum manni tókst að gefa svo mikið af sér. Samúð mín öll og samkennd er hjá ástvinum og nánustu aðstandendum Gísla þeim Eddu, Evu. Margréti, Björgvin Franz, Roberts Olivers og barnabörnunum sem hann hefur alltaf verið svo stoltur af. Blessuð sé minning afburða fjölskyldumanns, stórkostlegs vinar, yfirburða fagmanns og mikilhæfs leiktúlkanda.



Þóra Karítas Árnadóttir.