Guðmundur Haukur Gunnarsson lögfræðingur fæddist í Kaupmannahöfn 4. janúar 1971 og lést á heimili sínu í Reykjavík 16. ágúst 2020 eftir baráttu við krabbamein. Foreldrar hans eru Ragnheiður Hulda Hauksdóttir, f. 03.09. 1948, og Gunnar Guðmundsson, f. 22.10. 1944, d. 03.03. 2002. Systir Guðmundar er Erla Gunnarsdóttir, f. 17.07. 1973, maki hennar Pálmi Jónasson, f. 07.06. 1972. Börn þeirra eru Hugrún Ragna, f. 13.09. 1997, og Viktor, f. 19.12. 1998. Guðmundur kvæntist 21.06. 2003 Maríu Dóru Björnsdóttur deildarstjóra, f. 08.02. 1963. Börn þeirra eru Diljá, f. 14.07. 1993, og Breki, f. 04.12. 1997. Unnusti Diljár er Elías Guðni Guðnason, f. 29.09. 1994, dóttir þeirra er María Ýr, f. 15.01. 2020.
Foreldrar Guðmundar fluttu heim frá Kaupmannahöfn þegar hann var kornabarn og bjó fjölskyldan fyrstu árin í Kópavogi. Á aldrinum sjö til fimmtán ára bjó Guðmundur með foreldrum og systur á Blönduósi en þá fluttist fjölskyldan í Garðabæ. Guðmundur stundaði íþróttir af kappi fram eftir aldri og spilaði á saxafón í æsku. Tónlist var alla tíð mikilvægur þáttur í lífi Guðmundar og um tíma lagði hann stund á nám í klassískum gítarleik. Hann átti auðvelt með að kynnast fólki og eignaðist marga góða vini og félaga um ævina. Guðmundur varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1995, lauk embættisprófi í lögfræði (Cand.jur.) frá Háskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist sem lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins árið 2005. Á starfsferlinum vann Guðmundur lengst af sem lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem hann vann í nokkur ár hjá embætti sérstaks saksóknara og tollstjóranum í Reykjavík. Útför Guðmundar fer fram í Háteigskirkju föstudaginn 28. ágúst klukkan 13. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu gilda fjöldatakmarkanir við athöfnina en henni verður streymt á vefslóðinni https://youtu.be/H59lv9sk9UI.

Jæja, komdu með mína þrjá, sagði Guðmundur Haukur Gunnarsson og beið varla viðbragða minna áður en hann fiskaði sígarettuna fimlega úr hendi mér og saug af áfergju sína umsömdu þrjá aðdrætti af tóbakinu. Við sátum þarna yfir kaffibolla í kjallara Landsvirkjunar við Háaleitisbraut fagra júlínótt sumarið 1997, á eina staðnum í húsinu þar sem reykingar leyfðust, en Guðmundur starfaði þar sem öryggisvörður um nætur á vegum Securitas þar sem við reyndar báðir störfuðum á þessum tíma.
Þarna var Guðmundur við það að kveðja reyktóbak fyrir fullt og allt en sú hefð stóð, að þegar ég leit til hans í kaffi saug hann þrisvar af hverri sígarettu sem ég reykti og gekk hart eftir þeim rétti sínum. Þegar Guðmundur hafði að lokum reykt sína síðustu sígarettu fyrir meira en tuttugu árum tók hann slíku ástfóstri við nikótíntyggjó að ég hef ekki séð annað eins hjá nokkrum manni þótti það miklu betra en helvítis sígaretturnar og tuggði árum saman.
Kynni okkar Guðmundar, sem í kjölfar fangbragða við krabbameinið gekk hægt í þá góðu nótt, eins og segir í leiftrandi þýðingu Þorsteins Gylfasonar á ljóði Dylan Thomas, hófust þó ekki á þessum eftirminnilegu árum okkar hjá Securitas, sem með réttu hefði mátt kalla fjölskyldufyrirtæki hans megin þar sem foreldrar hans báðir störfuðu þar, heiðursfólkið Ragnheiður Hulda Hauksdóttir og Gunnar heitinn Guðmundsson, auk þess sem Guðmundur kynntist þar eftirlifandi eiginkonu sinni og mikilli sómakonu, Maríu Dóru Björnsdóttur.
Við Guðmundur kynntumst hins vegar í Garðabænum, en þangað, í Holtsbúðina, flutti hann með foreldrum sínum og systur, Erlu Gunnarsdóttur, frá Blönduósi árið 1986. Tvö ár voru á milli okkar í skóla og þrjú í aldri og ekki urðu kynni okkar í einu vetfangi, þótt vel vissi ég af þessum snaggaralega ljóshærða kappa, sem ósjaldan sást að knattleikum í frímínútum í Garðaskóla, klæddur skærgrænni peysu og skartaði auk þess, einn fárra íslenskra karlmanna, síðu hári veturinn 1986 '87 sem varð til þess að bekkjarbróðir hans, Magnús Baldvinsson, síðar læknir, veitti honum viðurnefnið Síði sem festist svo rækilega við Guðmund að með tímanum var tekið að rita það með stórum staf þvert á ritreglur.
Sumarið 1990 hóf Guðmundur störf hjá verktakafyrirtækinu Pétri og Kristni með Hilmari Veigari Péturssyni, skólabróður mínum og vini, og miðast kynni okkar við það sumar. Meðal þess sem sameinaði okkur var smekkur fyrir Bubba Morthens þótt Guðmundur hefði reyndar ávallt bundið sitt trúss við Megas umfram aðra íslenska listamenn, stofnaði meðal annars aðdáendaklúbb, lét gera fyrir sig stuttermaboli með mynd og lagði hart að okkur vinahópnum að kaupa af honum boli því Guðmundur var lunkinn í viðskiptum og lét ógjarnan fé fara í súginn.
Kom þetta til dæmis berlega í ljós þegar við sóttum rokktónleika í Laugardalshöll að hausti 1997 og varð atgangurinn slíkur að ég týndi öðrum skónum mínum og haltraði með Guðmundi heim til þeirra Maríu í Bólstaðarhlíðina þar sem við fengum okkur hjartastyrkjandi og sleiktum sárin, ég í handónýtum sokk á öðrum fæti.
Ekki var nú lengi verið að bjarga því, Guðmundur gekk inn í svefnherbergi sitt og kom þaðan með glænýtt og ónotað sokkapar úr Hagkaupum og sagði Gjörðu svo vel, Atli minn, ég skal selja þér þessa sokka fyrir tvö hundruð krónur. Þar með var ég sokkaður á ný og þegar mamma var búin að senda mér skópar með leigubíl úr Garðabænum var ég fær í flestan sjó. Sokkana sem Guðmundur seldi mér átti ég í mörg ár og var kannski ekki sem verst fjárfesting er upp var staðið.
Með Guðmundi og móður minni sálugu tókust reyndar góð kynni snemma á vinskapartíð okkar Guðmundar og varð þeim vel til vina. Svo vel að þegar Guðmundur hringdi heim og átti erindi við mig byrjaði hann gjarnan á að tala við mömmu í 20 mínútur áður en hann talaði svo við mig í kannski fimm. Brást þá ekki að mamma hrópaði þegar spjalli þeirra lauk: Atli! Síði er í símanum!
Haustið 1990 sat Guðmundur í öldungadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti að hella sér í stúdentsnám sem hann hafði áður gert hlé á. Ég var á sama tíma í 4. bekk í MR og vildi svo til að við vorum báðir í líffræði þá önnina þar sem hinn mikli doðrantur M.B.V. Roberts, Lífið, var lesinn. Áttum við þá gjarnan löng símtöl þar sem við ræddum meðal annars undur líffræðinnar og tókum stíft í nefið hið goðsagnakennda brúna neftóbak Medicated No. 99 Snuff sem á þessum tíma naut slíkrar hylli í íslenskum framhaldsskólum að margur námsmaðurinn grét það helst að hafa ekki fleiri nasir.
Tónlistin lá vel fyrir Guðmundi sem hafði lagt stund á nám í klassískum gítarleik og höndlaði hljóðfærið af listfengi, lék meðal annars á gítar í eigin brúðkaupi á Þingvöllum sumarið 2003 ásamt Erlendi Eiríkssyni fjöllistamanni og lífskúnstner sem einnig annaðist þar matseld. Í einhverri teitinni þar sem Guðmundur lék á hljóðfærið snerum við gamla Bubbaslagaranum Aldrei fór ég suður upp á þýsku, Nie bin Ich süd gegangen, og sungum við raust þótt ekki stæði nú alls staðar í hljóðstafnum með nýjum texta. Ekki er öll vitleysan eins.
Fleiri listamönnum en Morthens sameinuðumst við Guðmundur í, þótt á öðrum vettvangi væri, en skáldið frá Gljúfrasteini, Halldór Laxness, stóð okkur löngum hjarta nær og fór margt símtalið á næturvöktum okkar hjá Securitas fyrir tæpum aldarfjórðungi í að ræða ódáinsheima verka Nóbelskáldsins. Guðmundur tók miklu ástfóstri við Vefarann mikla frá Kasmír og hafði enda nokkrum árum áður valið dóttur sinni nafn eftir sögupersónunni Diljá, eina verðuga keppinauti guðs um sál Steins Elliða í Vefaranum.
Guðmundur kynntist konu þeirri, er átti eftir að verða eiginkona mín, Rósu Lind Björnsdóttur, er þau störfuðu saman hjá tollstjóranum í Reykjavík svo við hjónin eigum hvort sitt aðflugshornið að Guðmundi, úr Garðabænum og tollinum þar sem ég starfaði svo með þeim báðum um nokkurra ára skeið í byrjun aldarinnar. Stöldruðum við Rósa jafnan við í Skipholtinu hjá Guðmundi og Maríu í Íslandsheimsóknum okkar frá Noregi síðustu ár og höfðum uppi gamanmál minningatengd.
Að lokum er varla hægt annað en að segja frá því þegar Guðmundur yfirgaf embætti tollstjóra, þá að loknu embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands, og hélt til náms í Lögregluskóla ríkisins. Beið hans þar inntökupróf með ýmsum þrekraunum og var ég þegar ráðinn sem einkaþjálfari með það fyrir augum að umsækjandinn gæti lyft 50 kílógrömmum í bekkpressu tíu sinnum stórslysalaust.
Vildi þá svo vel til að líkamsræktarstöðin Slippurinn við Mýrargötu átti einmitt sitt stutta æviskeið á meðan Guðmundur undirbjó prófið og skutumst við þangað úr tollinum í hádeginu og létum stálið taka sinn toll. Hafði próftakinn lítið fengist við lóðalyftingar um dagana en varð býsna öflugur hlaupari þegar hann var upp á sitt besta. Leist Guðmundi nú miður vel á að leggjast í bekkpressuna og hafði uppi ýmsar afsakanir. Bíddu, ég er að fá svimakast!, Nú fæ ég hjartaáfall! var meðal yfirlýsinga.
Til að gera langa sögu stutta sigraðist Guðmundur á sjálfum sér í bekkpressunni og, það sem meira er, náði í fyrsta sinn tilskildum tíu endurtekningum í prófinu sjálfu sem hann stóðst og vel það. Fljótlega kom þó í ljós að upphífingar voru borin von svo ég bað Guðmund að hanga þá bara öskrandi á upphífingastönginni í prófinu til að sýna rétt viðhorf. Aldrei spurði ég hann hvort hann hefði fylgt þeim ráðum. Síðar lauk Guðmundur lögregluskólaprófi með æðsta láði.
Minningarnar um 30 ár með Guðmundi, miklum spaugara og sannarlega vini vina sinna, væru auðveldlega efni í nokkur bindi enda af nógu að taka, reyndar misprenthæfu. Þótt ekki næði hann fimmtugu auðnaðist honum þó að verða afi í janúar á þessu ári þegar Diljá fæddist dóttirin María Ýr og átti hann vart orð til að lýsa hamingju sinni, en sjaldan varð Guðmundi Hauki þó orða vant. Ég þakka fyrir þann eftirminnilega tíma sem mér var úthlutað með þessum góða vini mínum, hans skarð verður aldrei fyllt, enda eru það bestu skörðin.
Ég bið fjölskyldu Guðmundar Hauks Gunnarssonar allrar blessunar á ögurstundu, Maríu, Diljá, Breka, Erlu skólasystur minni, Ragnheiði og dótturdótturinni nýkomnu. Öll él birtir upp um síðir.



Atli Steinn Guðmundsson.