Sigurlín Sigurðardóttir (Lína) fæddist 22. ágúst 1932 í Selárdal í Súgandafirði. Hún lést 27. mars 2020 á hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi. Móðir Sigurlínar var Guðmundína Jespersdóttir, f. 24. júli 1908, d. 24. maí. 1987.
Fóstursystkini Línu voru tvö: Jensína Ólafía Sigurðardóttir, fædd 26. september 1921, d. 7. júlí 2013. Hennar maður var Einar Þórðarson, f. 7. júní 1923, d. 12. júlí 2011. Börn þeirra: Guðlaug Þóra, f. 1945, Auðunn, f. 1947, og Bríet, f. 1957. Guðbjartur Gunnarsson, f. 11. febrúar 1928, d. 23. ágúst 2019.
17. október 1954 giftist Sigurlín Garðari Þorfinnssyni, f. 8. júlí 1925, d. 30. október 1994, þau skildu 1974.
Sigurlín og Garðar eignuðust tvö börn, Sigurð Kristján Garðarsson, f. 25. nóvember 1961, og Pálínu Kristínu Garðarsdóttur, f. 1. ágúst 1963, barn hennar og Gísla Guðnasonar er Óskar Gíslason, f. 10. júní 1980, unnusta hans er Jóhanna Kristín Aðalsteinsdóttir, sonur hans Garðar Orri, f. 30. júni 2013.
Pálína giftist Jóni Maríasi Arasyni, þau skildu. Börn þeirra: Steinunn Jónsdóttir, f. 6. ágúst 1983, og Arnar Jónsson, f. 23. júní 1989. Börn hans og Sjafnar Sæmundsdóttur eru Alexander Óðinn, f. 13. nóvember 2009, og Hrafnhildur Freyja, f. 7. nóvember 2016. Sambýlismaður Pálínu er Hjörtur Davíðsson, f. 13. janúar 1966.
Lína ólst upp í Selárdal til 15 ára aldurs, er móðir hennar, afi og amma fluttu á Suðureyri. Lína var nemi í grunnskóla Suðureyrar 13 og 14 ára eins og kennsla var á þeim tíma, og var í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði veturinn 1951-1952. Hún hóf búskap á Norðureyri með Garðari 1949-1956, einnig bjuggu þau í Önundarfirði og Dýrafirði, svo á Brimilsvöllum á Snæfellsnesi. Hættu búskap 1972 og fluttu á Suðureyri, hóf þá Lína að vinna í fiski og vann allflest árin í fiski á Hellissandi, Þorlákshöfn og Rifi með öðrum störfum til 70 ára aldurs.
Útför og bálför var í Akraneskirkju 3. apríl 2020.
Minningarathöfn um Sigurlín Sigurðardóttur verður í dag, 29. ágúst 2020, kl. 14 í Suðureyrarkirkju og verður duftker jarðsett hjá móður hennar við Staðarkirkju í Staðardal í Súgandafirði.

Mamma lést snemma morguns 3. apríl sl. og vorum við systkinin hjá henni. Þær voru svo indælar á hjúkrunarheimilinu að veita okkur þann tíma með henni síðustu daga hennar sem var dýrmætt en ekki sjálfgefið í mesta covid-19-ástandinu á þeim tíma enda 20 manna samkomutakmark. 11 manns voru við útförina, við fjölskyldan og nánir vinir, en í dag er minningarathöfn um kjarnakonuna Línu og duftker jarðsett. Lína ólst upp í Selárdal með móður sinni Guðmundínu Jespersdóttur og ömmu sinni Rósinkrönsu Sveinbjarnardóttur og fósturafa Sigurði Samsonarsyni. Henni þótti mjög vænt um fjölskylduna sína, hún elskaði Selárdalinn sinn og þó að lífsbaráttan á þessum árum væri hörð var samt alltaf nóg til af mat í sveitinni að hennar sögn. Á heimilið komu oft börn frá Suðureyri og dvöldu hjá gömlu hjónunum, en svo voru þar tvö börn til langdvalar (fóstursystkini) sem henni voru mjög kær, Jensína, alltaf kölluð Jenný, og Guðbjartur, kallaður Baddi Selli. Lína fór t.d. oft með Jenný og Einari, hennar manni, í ferðalög og á 50 ára afmælinu hennar fóru þau saman til Írlands sem Lína var í skýjunum með en hún var ekki mikið fyrir að fara utan, vildi frekar skoða landið sitt. Er Lína var 15 ára 1947 fluttu mamma hennar, amma og afi á Suðureyri, en þá voru Jenný og Guðbjartur flutt að heiman. Saknaði Lína ávallt sveitarinnar sinnar en gat ekki búið þar ein aðeins 15 ára gömul. Skólagangan á þessum árum miðaðist eingöngu við 13 og 14 ára aldur og þegar mamma fór í grunnskólann á Suðureyri bjó hún hjá móðursystur sinni, Kristínu Jespersdóttur. Þar undi hún sér vel og átti stóran vinahóp og var dugleg að læra og mikil námskona. Eftir grunnskóla vildi hún meiri menntun í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði. Gömlu hjónin leyfðu það ekki, hún gæti orðið ólétt, en fósturbróðirinn fékk að ganga menntaveginn. Svona voru tímarnir í þá daga. Lína kynntist manni sínum Garðari á Norðureyri í Súgandafirði enda stutt á milli bæjanna. Þau giftu sig 17. október 1954 heima hjá prestinum á Suðureyri, en þá voru þau byrjuð að búa á Norðureyri 1949-1956, voru með bú á móti fóstra Garðars, Kristjáni Sigurðssyni, svo réru Lína og Garðar saman til sjós á trillunni Drífu sem þau létu smíða fyrir sig. Einnig unnu þau á Suðureyri um tíma í fiski og réru yfir fjörðinn til vinnu um vetur enda enginn vegur til Norðureyrar. Eins og með ungt fólk vildu þau fara að búa sjálf á jörð og fluttu þá að Holti í Önundarfirði 1956-1960, leigðu þar, síðan keyptu þau jörðina Kot í Önundarfirði 1960-1963, sem var frekar lítil jörð svo þau fluttu að Neðsta-Hvammi í Dýrafirði 1963-1965 og þá voru tekjurnar betri. Þau keyptu góða og stóra jörð á Brimilsvöllum á Snæfellsnesi og bjuggu þar myndarbúi til 1972, þá var jörðin seld og fluttu þau aftur heim til Suðureyrar en slitu samvistum fljótlega (1974). Lína og Garðar voru gott fólk en ekki alltaf sammála enda sagt að Lína væri miklu meiri bóndi en Garðar, enda var hugur hans alltaf meira til sjós. Lína flutti með börnin á Hellissand og vann í fiskverkun, var strax orðin yfirmaður þar, var með afbrigðum dugleg, vandvirk og algjör víkingur í vinnu. Frystihúsinu var lokað á sumrin, þá dó Lína ekki ráðalaus og réð sig sem ráðskona í sveit með börnin, það gekk ekki að vera alltaf tekjulaus á sumrin. Hún flutti til Þorlákshafnar 1977, þar þekkti Lína nokkra Súgfirðinga og þar var nóga vinnu að hafa. Lína tók þátt í verkalýðsbaráttu og var alþýðubandalagskona, mátti ekkert aumt sjá. Lína var t.d. sú fyrsta sem opnaði vídeóleigu í Þorlákshöfn, var með opið á kvöldin og um helgar eftir aðalvinnuna sína. Var einnig með gistiheimili á Suðureyri sumarið 1992 og gaman að segja frá því að 9 árum síðar keypti ég þetta hús með hjálp mömmu. Hún vildi mér og barnabörnum sínum öruggt skjól. Árið 1989 flutti Lína til Mosfellsbæjar, vann um smátíma á Skálatúni, síðar í mörg ár í Húsgagnahöllinni, ein að þrífa allt og sjá um kaffi, hætti þar, var of erfitt (og það fyrir ofurkonuna) og vann um tíma í fiskbúðinni okkar í Kópavogi. Síðar fékk hún ekki vinnu, en leigði íbúðina sína og flutti til Ólafsvíkur og vann úti á Rifi hjá góðu fyrirtæki, fiskverkun Kristjáns Guðmundssonar, og vann þar til 70 ára aldurs. Eignaðist Lína góða vinkonu þar, Lillu, sem er nýlátin. Sumarið 2016 er Lína var 84 ára og bjó á Akranesi keyrði hún í heimsókn til Lillu vestur í Ólafsvík, geri aðrir betur á þessum aldri enda mjög hress þá. Átti Lína margar vinkonur, má þar nefna Erlu Steinþórsdóttur sem var 13 árum yngri en mamma, en lést aðeins 55 ára gömul árið 2000. Þær brölluðu ýmislegt saman, t.d. fóru þær á síldarvertíð 1980 á Hornafirði og fóru saman til Mallorca sumarið 1988, mamma saknaði hennar mjög mikið. Svo má nefna Árnýju Elsu Þorsteinsdóttur sem býr í Reykjavík og kynntust þær mjög ungar í Reykjavík er mamma var 16 ára hjá Jennýju og Árný 15 ára og fóru á böll saman og fleira skemmtilegt, svo hittust þær aftur mörgum árum seinna í Þorlákshöfn og héldu alla tíð sambandi eftir það.
Mér er minnisstætt er mamma heimsótti mig á Vopnafjörð 80 ára gömul, keyrði suðurleiðina frá Akranesi, langaði svo að fara hana enda ekki keyrt suðurleiðina í 30 ár. Hún dvaldi síðan hjá mér í nokkra daga en ekki mátti stoppa of lengi, alltaf nóg að gera og ekkert hangs á minni, voru allir orðlausir fyrir austan að hún keyrði alla þessa leið 80 ára gömul konan. Svo önnur ferðasaga er hún kom í heimsókn á Vopnafjörð 2 árum seinna, 82 ára, ásamt barnabarni sínu, Steinunni. Eftir heimsóknina keyra þær saman til baka á Akranes og ætlaði Steinunn að fljúga á Ísafjörð frá Reykjavík, mamma tók það ekki í mál og keyrði barnabarnið auðvitað heim á Ísafjörð, Steinunn bauð henni að sjálfsögðu að stoppa hjá sér í nokkra daga sem hún þáði en hún varð að vera komin aftur heim á Akranes fyrir mánaðamótin til að mæta í bankann. Hún tók það ekki í mál að hringja í bankann til að greiða reikningana og stóð við sitt og keyrði sjálf heim fyrir mánaðamótin og var mætt í bankann fyrsta dag mánaðarins.
Lína flutti á Akranes 2008 frá Ísafirði, henni líkaði vel vistin, var dugleg að fara í eldri borgara starfið og spilaði félagsvist og bingó, er hún var spurð hvort hún vildi ekki í handavinnuna, nei sko aldeilis ekki, alveg búin með þann pakka. Lína var alltaf svo orðheppin og gat svarað með háði en án þess að móðga neinn. Síðla árs 2015 fluttu hjón frá Bæ í Súgandafirði, Karl Guðmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir, plataði mamma Karl með sér í spilavistina og hafði hann gaman af því. Er gaman að segja frá því að hún passaði hann þegar hann var 2 ára gamall í Bæ og mamma hans og mamma góðar vinkonur og allar hennar systur, en Karl lést í október 2019 þá var mamma orðin heilsulaus síðan haustið 2016, kíkti Ingibjörg oft til hennar á Vallarbrautina og á Höfða og hugsaði vel um hana, svo yndisleg og dugleg vinkona mömmu, einnig var María Pálsdóttir frænka dugleg að kíkja til mömmu. Hún var smátíma hjá mömmu og pabba á Kotum 12 ára gömul er hún komst ekki heim um páskana vegna ófærðar eftir skólavist í Holti.
Það má nefna það að búskaparár mömmu og pabba í sveit 1949 til 1972 voru þau með mörg börn í sveit á sumrin, til að mynda voru lengst Steinþór Guðbjartsson, Kristvin Erlingsson, Gísli Hallbjörnsson, Kristinn Jónsson, Guðný Guðmundsdóttir, svo voru styttri tíma Auðunn Einarsson, Guðrún, Hörður, Helga Erlingsdóttir og örugglega mörg fleiri sem ég man ekki enda barn að aldri. Öll tala þau vel um mömmu og fannst gott að vera hjá henni í sveit.
Má einnig nefna að mamma var góður penni, skrifaði greinar t.d. í sunnudagtímann 2. des 1962 grein sem heitir: Vestfirsk húsmóðir á handfærum (semsagt hún) og einnig um ofsjónir sumra um jarðgangagerð á Vestfjörðum i Morgunblaðinu 1991, og aðra grein í BB, bæjarins besta, um vegakerfið og ódugnað alþingismanna og ráðamanna í kjördæminu um vestfirska vegi.
Mömmu líkaði ekki tvíverknaður, maður ætti að skipuleggja sig vel svo þyrfti ekki að gera hlutina oftar en einu sinni, alltaf svo hjálpsöm þegar þurfti á því að halda, bara drífa hlutina af - ekkert hangs.
Mamma var alltaf best að hjálpa mér í flutningum, fékkst ekki betri manneskja í þá, þvílíkur skipulagsfræðingur að pakka og munaði sko ekki um það að keyra dót fyrir mig alla leið vestur á firði er ég flutti þangað í nokkur ár. Sá mesti dugnaðarforkur sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, mamma var alltaf svo góð við barnabörnin sín og alltaf að gefa þeim t.d. skófatnað, reiðhjól eða húsgögn í herbergin og bara nefndu það og vildi að þau lærðu á hljóðfæri, sem þau gerðu. Óskar og Arnar á gítar og Steinunn á trompet, og skutla þeim á fótboltaæfingu, þau muna það með ást og hlýhug og í veikindum Steinunnar var mamma strax búin að kaupa dúnsæng fyrir hana þegar fóturinn var kaldur og dofinn og gaf henni einnig hægindastól svo hún ætti auðveldara með að standa upp. Einnig var mamma mjög stolt af langömmubörnum sínum og spurði t.d. 2 dögum áður en hún lést, hvort Garðar Orri væri orðinn læs enda í 1. bekk er ég var að segja henni að ég hefði sótt hann eftir skóla.
Eitt fyndið frá mömmu var oft að segja við okkur systkinin og barnabörnin að við yrðum að ná okkur í maka, vera ekki svona lengi ein eins og hún var eftir skilnað 41 árs, og sagði við mig að ég yrði helst að ná mér í yngri mann, það væru svo margar ekkjur í eldri borgara starfinu sem hefðu verið giftar eldri mönnum, þær lifðu þá, betra að þeir séu yngri og auðvitað hlustaði ég á hana og náði mér í mann sem er aðeins yngri.
Elsku mamma, þú ert fyrirmyndin mín, íslenska konan sem í mínum huga hefði átt skilið fálkaorðu fyrir sinn mikla dugnað. Ég sakna þín alla daga, svo erfitt að kveðja ástvin í þessu covid-ástandi eins og var í útförinni 2. apríl í Akraneskirkju, aðeins 11 aðstandendur og vinir, fámennt og góðmennt og mjög falleg athöfn, en núna í dag komum við saman aðeins fleiri í Suðureyrarkirkju og minnumst þín, kjarnakonan mamma mín, og verður þú jarðsett hjá mömmu þinni og við hliðina á ömmu þinni og afa sem voru þér svo kær.

Elsku mamma, nú fékkstu loks frið
Eftir stutta en jafnframt erfiða bið.
Ég veit að þú horfir á okkur niður,
Ég veit að í hjartanu nú ríkir friður.
Nú tómið í myrkrinu hræðist ei lengur,
Ég veit að það ert þú sem þarna gengur.
Ég gleðst yfir ótal minningum af þér,
Ég veit að þú munt ávallt vaka yfir mér.

( Hulda Þórarinsdóttir)


Elsku mamma, hvíldu í friði.
Minning þín lifir í hjarta mínu
Þín dóttir,

Pálína Kristín.