Kristján Jakob Valdimarsson fæddist á Akureyri 21. maí 1951. Hann lést á líknardeild Landspítalans 18. ágúst.



Foreldrar Kristjáns voru Valdimar Jakobsson frá Hrísey, f. 24.7. 1928, d. 25.3. 1989 og Fanney Unnur Kristjánsdóttir frá Hólslandi, f. 18.2. 1927, d. 27.9. 1982.

Bróðir Kristjáns var Valdimar Valdimarsson, f. 18.2. 1954, d. 6.2. 1993.



Kristján giftist Örnu H. Jónsdóttur 1972 og slitu þau samvistum 1983. Sonur þeirra er Hrafn Kristjánsson, f. 30.10. 1972. Sambýliskona hans er Maríanna Hansen, f. 23.7. 1975. Synir þeirra eru Mikael Máni Hrafnsson, f. 21.1. 2004, Kristján Breki Hrafnsson, f. 31.10. 2007 og Alexander Jan Hrafnsson, f. 31.10. 2007.



Kristján giftist Ragnheiði Bóasdóttur 1999 og slitu þau samvistum 2005. Dóttir þeirra er Árný Eir Kristjánsdóttir f. 14.1. 1999.



Stjúpdóttir Kristjáns er Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir, f. 28.10. 1999.



Ástvinur Kristjáns síðastliðin 2 ár er Ásta María Björnsdóttir, f. 22.3. 1957.





Kristján ólst upp á Akureyri til fimm ára aldurs þegar hann flutti til Reykjavíkur. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1968, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1972, BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1976 og meistaraprófi (MPA) í opinberri stjórnsýslu 2003.



Kristján starfaði hjá Olíuverslun Íslands í skólaleyfum 1964-75, hjá KEA á Akureyri 1972-73, við rannsóknir hjá Félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1976 og var deildarfulltrúi þar 1976-79. Kristján var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsfélagsins í Reykjavík 1979-84, skrifstofustjóri Alþýðubandalagsins 1984-88 og framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins 1988-90. Hann var deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu 1991 og forstöðumaður starfsþjálfunarstaðarins Örva frá 1991-2016.



Kristján sat m.a. í stjórn Æskulýðssambands Íslands 1977-79, í Æskulýðsráði Reykjavíkur 1978-86, átti sæti í samstarfsnefnd Æskulýðsráðs Reykjavíkur og Fræðsluráðs 1982-86, var annar fulltrúi Íslands í Norræna æskulýðssjóðnum (Kommittén för nordiskt ungdomssamarbete) 1978-85, var varaformaður sjóðsins 1978-80, átti sæti í stjórn Neytendafélags höfuðborgarsvæðisins 1986-89 og jafnframt í stjórn Neytendasamtakanna. Hann var varamaður í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar 1998-2002. Hann var formaður Hlutverks – Samtaka um vinnu og verkþjálfun.



Útför Kristjáns fer fram frá Lindakirkju í dag, 31. ágúst 2020, kl. 13.  Vegna fjöldatakmarkana verða einungis boðsgestir viðstaddir athöfnina.

Elsku pabbi. Ég hef sagt sjálfum mér síðustu fjögur ár að ég myndi vera undirbúinn þegar þessi stund rynni upp. Nú þegar þú ert farinn stend ég eftir hálfumkomulaus og ringlaður. Þótt líf okkar saman hafi þróast á þann hátt að við værum á köflum fulllangt hvor frá öðrum tilfinninga- og landfræðilega er svo margt í mér sem þú átt skuldlaust. Mín gildi og lífsskoðanir koma að stórum hluta frá þér og fyrir það á ég þér svo mikið að þakka. Leit að jöfnuði og trú á samvinnu er nokkuð sem ég veit að ég lærði barnungur af þér þar sem ég fylgdist með öllu stjórnmálabröltinu og lagði á minnið.

Við erum um margt svo svakalega líkir. Við eigum það til að vera svolitlir einfarar, viljum ekki taka of mikið pláss eða láta hafa mikið fyrir okkur. Við erum sjálfum okkur nógir, stundum einum of, og finnst alls ekki óþægilegt að ferðast einir út í heim að kanna ókunnug lönd. Þegar eitthvað bjátar á og okkur finnst við þurfa að hugsa okkar gang og hreinsa hugann setjumst við oftar en ekki upp í bíl og keyrum um því þannig finnum við ansi oft ró sem við myndum ekki finna annars staðar.

Á þeim fimmtán árum sem ég bjó úti á landi kom fyrir að fulllangur tími liði án þess að við værum í sambandi. Þess vegna er ég svo innilega þakklátur fyrir síðustu 12 ár sem við áttum saman eftir að við fjölskyldan fluttum suður. Hvernig þú hjálpaðir okkur og varðst stór hluti af lífi okkar allra er nokkuð sem ég á alltaf eftir að meta ofar öllu og hugsa til á hverjum degi. Þú varst alltaf boðinn og búinn að aðstoða okkur Maríönnu í sambandi við drengina og varst tíður gestur á heimili okkar. Við strákarnir og Maríanna elskum þig svo mikið og öll jólin sem við höfum átt saman heima hjá okkur eigum við alltaf eftir að eiga í hjörtum okkar og minnast.

Ég og þú fengum líka tíma til að eyða stundum saman, tala um allt sem okkur vantaði að tala um og í raun finna hvor annan almennilega aftur. Ég var svo glaður fyrir þína hönd þegar þú sagðir mér að þú ætlaðir að hætta fyrr að vinna svo þú gætir einbeitt þér að því að njóta lífsins, ferðast og auðga andann. Áfallið varð þeim mun stærra þegar fréttirnar af veikindum þínum bárust stuttu síðar. Ég dáist svo að því hvernig þú tókst þeim fréttum pabbi. Þú tókst á við þetta verkefni af æðruleysi og gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að njóta þeirra ára sem þú áttir eftir þeim mun betur. Á þeirri vegferð hjálpaði hún Ásta María þín þér mikið. Að þið skylduð finna hvort annað er nokkuð sem ég þakkaði fyrir á hverjum degi og geri enn.

Þótt síðasta ár, þegar sjúkdómurinn sótti í sig veðrið, hafi verið þér erfitt varstu alltaf léttur og tókst á við hvern dag af einstökum dugnaði. Ég met svo mikils að hafa fengið að eyða síðustu nóttinni þinni með þér á líknardeildinni. Ég gat þar sagt þér allt sem ég þurfti og vantaði að segja, lítill strákur hjá pabba sínum.

Ég, Maríanna og strákarnir hugsum til þín og tölum um þig á hverjum degi. Það hefur verið gott og hollt fyrir okkur. Það er alltaf mikið hlegið, sérstaklega þegar við ræðum atvik sem sýndu hversu utan við þig þú varst ... sonur þinn er nefnilega nákvæmlega eins.

Hann Mikael Máni skrifaði til þín ljóð um daginn. Engar áhyggjur, ég er búinn að fara yfir með honum hversu vel hann sinnti afa sínum og að þú hafir svo sannarlega vitað hversu heitt hann elskaði þig.

Týndir tímar

Veit ekki hvenær ég kveð þig í seinasta skipti,
lítill strákur frá Akureyri, guð hluta af hjarta þínu svipti.
Þótt krabbameinið sé búið að taka yfir veit ég að þú ert mér ekki búinn að gleyma,
því innst í hjarta þínu eigum við á sérstökum stað heima.

Man ég eftir pössunum öllum sem einni,
elskandi afi sýndi ást þremur sveinum.
Ég eyddi ekki nógum tíma með þér og það er mín sök,
minning okkar saman mun mér vera einstök.

Paradísarbrekku þú munt bráðum niður skíða,
á vélsleðanum sem þú lést fyrir okkur sérsmíða.
Þó að tími okkar saman fari bráðum að enda,
mun ég vita að tanaði afi minn mun ávallt passa mig og vernda.
(Mikael Máni Hrafnsson)
Bless pabbi, ég elska þig. Skilaðu kveðju til afa Valdimars, ömmu Fanneyjar og Valda frænda. Ég veit þau taka vel á móti þér.

Hrafn Kristjánsson.