Hrafnhildur Magnúsdóttir fæddist á Patreksfirði 21.9.1947, hún lést á Vífilsstöðum 19.8.2020.
Foreldrar hennar voru María Fanndal Sigurðardóttir, f. 24.3.1921, d. 1.11.1981, og Magnús Ingimundarson (Jóhannes Magnús Thoroddsen Ingimundarson), f. 18.12.1914, d. 9.10.1997, börn þeirra: Kristín Jóhanna Sigrún Magnúsdóttir, f. 15.7.1938, d. 27.1.1997, gift Hlyn Ingimarssyni og eiga þau fjögur börn. Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, f. 21.6.1942, d. 9.8.2018, gift Trausta Þorlákssyni og eiga þau fjögur börn. Ragnhildur Magnúsdóttir, f. 31.8.1950, d. 28.1.2016, gift Jóhanni Steinssyni og eiga þau þrjú börn. Ingimundur Magnússon, f. 13.2.1961, kvæntur Sigurlínu Guðrúnu Sigurðardóttur og eiga þau þrjú börn ásamt dóttur Ingimundar frá fyrra hjónabandi.
Útförin er frá Lindarkirkju í dag, 4. september 2020, klukkan 15.
Í dag kveð ég Hrafnhildi mágkonu mína og vinkonu sem hefur verið afar
stór partur af lífi mínu undanfarin ár. Ég kom inn í fjölskyldu Hrafnhildar
þegar ég kynntist eiginmanni mínum, Ingimundi, bróður Hrafnhildar, en þá
bjó hún ásamt föður sínum í Æsufelli. Þau voru fimm systkinin, fjórar
systur og einn bróðir. Ég naut ekki þeirrar gæfu að kynnast móður þeirra en
hún lést fyrir aldur fram áður en ég kom inn í fjölskylduna, Hrafnhildur
missti mikið þegar móðir hennar féll frá.
Habba, eins og hún var gjarnan kölluð, ólst upp á Patreksfirði að
táningsaldri en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur, Habba leit hins
vegar alltaf á sig sem Vestfirðing enda átti hún góðar bernskuminningar frá
Patró og þangað lágu rætur ættarinnar. Hrafnhildur hafði mjög gaman af
samkomum þar sem ættin kom saman enda var hún stolt af forfeðrum sínum og
öllu sínu fólki, hún var ótrúlega fróð um sína ætt, las bækur um
vestfirskar ættir og fór á samkomur hjá Barðstrendingafélagi þegar hún
gat.
Við tökum öll á móti ólíkum verkefnum í gegnum lífið, sum eru auðveld og
taka skamman tíma, önnur verkefni eru erfið og taka langan tíma, stundum
stærstan hluta lífsins. Hrafnhildur fékk í sinn hlut erfitt verkefni að
glíma við. Hún var aðeins tveggja ára þegar hún fékk heilahimnubólgu og var
vart hugað líf, en litli líkaminn vann á þessum ófögnuði enda konan sterk,
þetta hafði hins vegar afleiðingar eins og baktería af þessari gerð hefur
gjarnan. Hrafnhildur missti alveg sjón á öðru auga og lifði við skerta sjón
á hinu auk þess að takast á við margar aðrar afleiðingar
heilahimnubólgunnar. Hún var hins vegar einstaklega lagin við að láta þetta
ekki hindra sig í því sem hana langaði að gera einsog að föndra með
örlitlar perlur, hún bjó til ótrúlega fallega hluti úr perlunum, hún
saumaði líka falleg gjafakort og málaði á postulín. Ein jólin gaf hún okkur
jólamatarstell með skálum og öllu tilheyrandi, á þetta hafði hún málað mjög
skemmtilegar myndir af jólasveinum, þegar hún kom með gjöfina innpakkaða
fyrir jól tók hún af okkur loforð um að við opnuðum pakkann áður en
aðfangadagur rynni upp, eftir það er hefð hjá fölskyldunni að nota
jólastellið hennar Höbbu á aðfangadag.
Það er vert að geta þess að þrátt fyrir ýmsa annmarka vegna lélegrar sjónar
þá þók Hrafnhildur bílpróf og átti bíl í nokkur ár sem hún ferðaðist mikið
á, þetta lýsir kannski best ákveðni hennar í að yfirstíga hindranir sem á
vegi hennar urðu. Þegar sjóninni fór að hraka meira þá lagði hún bílnum og
ferðaðist eftir það með bíl frá Ferðaþjónustu fatlaðra á meðan hún gat
það.
Ef sjónin hefði verið í lagi hjá Höbbu þá hefði hún verið hin mesti
lestrarhestur, hún hafði mjög gaman af bókum og hlustaði mikið á hljóðbækur
frá Blindrabókasafninu. Hrafnhildur hlustaði á allar tegundir bókmennta og
var búin að hlusta nokkrum sinnum á allt sem til var á geisladiskum hjá
bókasafninu.
Hrafnhildur hafði gaman af ferðalögum innanlands, hún hafði hins vegar
lítinn áhuga á ferðum til útlanda, hún ferðaðist aðeins einu sinni erlendis
og ákvað að þessi ferðalög væri ekki hennar tebolli, hún átti hins vegar
hjólhýsi á Laugarvatni og eyddi þar mörgum stundum yfir sumartímann á meðan
heilsan leyfði. Þangað flutti hún á vorin með dýrin sem hún átti og kom til
baka á haustin.
Hrafnhildur átti nokkur dýr í gegnum ævina, bæði hunda og ketti, hún hafði
mikinn áhuga á öllum tegundum dýra og horfði gjarnan á dýralífsmyndir þegar
það var í boði, ég veit ekki hvað var í mestu uppáhaldi hjá henni,
dýralífsmyndir, góðar bíómyndir eða handboltinn, en hún fylgdist alltaf vel
með þeirri íþrótt og átti það til að hringja í mig og minna mig á að nú
væri einhver handboltaleikurinn að byrja í sjónvarpinu.
Hrafnhildur var stór þáttur í lífi barna okkar hjóna enda tók hún að sér
hlutverk ömmu þar sem föðuramma þeirra var ekki til staðar, þau kölluðu
hana Höbbu ömmu og hún sinnti þessu hlutverki af einstakri alúð og fylgdist
alltaf vel með hvað þau voru að gera, hundarnir á heimilinu voru líka í
miklu uppáhaldi og hún passaði að þeir fengju alltaf jólapakka, engan
skyldi undanskilja á jólunum.
Hrafnhildur var afar sérstakur persónuleiki, hún var hrein og bein, sagði
yfirleitt það sem henni fannst og kom sér stundum í vandræði með
hreinskilninni en þú gast verið alveg viss um að fá hreinskilið svar frá
henni.
Það er með söknuði sem ég kveð mágkonu mína, við áttum margar góðar stundir
saman sem vert er að minnast, samtala um lífið yfir kaffibolla, allra
símtalanna, ferðanna á kaffihús og ekki má gleyma ísbíltúrunum en Höbbu
þótti ís mjög góður þá sérstaklega í einni ákveðinni ísbúð. Hrafnhildur
glímdi við mikil líkamleg veikindi á síðustu árunum sem heftu hana
verulega, það er því gott að hugsa til þess að nú er hún frjáls á nýjan
leik og nýtur þess alveg örugglega. Elsku Habba, megi Guð blessa þig og
varðveita, við sjáumst síðar.
Þín vinkona,
Sigurlína.