Gréta Guðjónsdóttir fæddist á Landamótum í Vestmannaeyjum 6. apríl 1938.
Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum 20. júní 2020.
Foreldrar hennar: Guðjón Ólafsson frá Landamótum, skipstjóri í Vestmannaeyjum, fæddur 30. janúar 1915, lést á Vífilsstöðum 4. maí 1992 og Sigríður Friðriksdóttir húsfreyja, ættuð frá Ólafsfirði, fædd 31. júní 1917, lést á Landspítalanum 27. febrúar 1995
Sonur Grétu, Guðjón Sigurbjörnsson, fæddur í Vestmannaeyjum 22. febrúar 1958, lést á heimili sínu í Hafnarfirði 2. maí 2006.
Eftirlifandi bróðir Grétu: Friðrik Ólafur Guðjónsson, fæddur á Landamótum 4. janúar 1948, kvæntur Sigrúnu Birgit Sigurðardóttur, fædd í Vestmannaeyjum 23. nóvember 1946.
Úför Grétu fór fram í kyrrþey að eigin ósk.
Athöfnin var falleg og ljúft að koma saman og eiga þessa kveðjustund.
Mér líður eins og hún hafi fengið vængina sína og fljúgi nú á vit dýrðlegri ævintýra. Sigga amma og Gaui afi, foreldrar Grétu frænku og Guðjón sonur hennar taka örugglega opnum örmum á móti henni. Það verður drekkhlaðið borð af fagurlega skreyttum hnallþórum og fagnaðarfundir eins og þeim einum er lagið. Ég verð að viðurkenna að ég væri alveg til í að vera með þeim, alla vega í anda, þau eiga stóran hlut í mínu hjarta enda var ég alltaf böðuð í mikilli ást hjá þeim öllum.
Þó það sé alltaf sárt að kveðja þá er eitthvað svo gott að vita að þau eru sameinuð á ný, það gerir dauðann bærilegri.
Hún þráði ekkert eins heitt síðustu árin og að vera með þeim aftur, enda hafði allt hennar líf snúist um þau. Ég hef aldrei þekkt neinn sem hefur helgað líf sitt því að hugsa svona vel um foreldrana sína eins og hún gerði, reyndar gerði hún líf okkar allra sem stóðum henni næst betra og ánægjulegra. Hún saknaði Guðjóns sem var einkasonur hennar þau fjórtán ár sem hún lifði eftir andlát hans og er mér ómögulegt að skilja hvernig það er hægt að lifa það af.
Það á engin að þurfa að fylgja barni sínu til hinstu hvílu.
En Gréta var einstök kona sem stóð alltaf keik sama hvað dundi á. Hún vílaði ekkert fyrir sér, reif sig upp frá Vestmannaeyjum og flutti suður eins og það kallast í Eyjum og kom sér vel fyrir í Hafnarfirði og starfaði lengst af hjá Íslandsbanka á Hlemmi í Reykjavík. Það hefur sennilega þurft heilmikið átak að fara frá litlum stað eins og Eyjunum en það stóð ekkert í henni.
Það ættu allir að fá að eiga eina Grétu frænku, hjá henni fengum við að baka, sulla og gera allskonar. Allar minningar sem ég á með henni eru gæddar svo miklum kærleika, það leyndi sér ekki hvað hún elskaði mig heitt og gaf mér endalausa umhyggju og hlýju. Faðmurinn sem hún breiddi út þegar hún kom í heimsókn var risastór, hlýr og yndislegur, hún hélt þéttingsfast utan um mig og svo var mér lyft upp í hæstu hæðir. Já, hún lyfti öllum upp með hvatningu og aðdáun sem ég nýt ennþá góðs af.
Hún var alltaf kölluð Gréta á Landó en það var lenska í Eyjum að gefa öllum skemmtilegri nöfn en fólk fékk í hefðbundinni skírn. Hún var ein af þessum sterku og sjálfstæðu konum sem svo sannarlega höfðu áhrif á mína lífssýn og ég var svo stolt af henni. Þó hún væri oftast ein þá var eins og hún gæti allt sem hún vildi og ég veit það í hjarta mínu í dag að ég lærði margt af henni og tók hana mér til fyrirmyndar.
Það var draumur einn að fá að vera hjá Grétu, gista í fínu íbúðinni hennar eða fara í heimsókn til hennar. Heimilið var prýtt fallegum munum frá útlöndum og ég man sérstaklega eftir því að hún átti fornaldardúkku sem var dýrmæt og brothætt eins og postulín og ég lærði að meðhöndla hana af mikilli nærgætni og bera virðingu fyrir dóti.
Við dönsuðum saman við lögin hans Presley sem ég hélt lengi vel að væri vinur hennar, en hún talaði um hann eins og hann hefði verið í kaffi hjá henni í gær og ég var ein augu og eyru. Love me tender Love me sweet var sungið hátt, ég skildi ekki þá hvað orðin þýddu en þau áttu vel við því svo sannarlega fékk ég að kynnast skilyrðislausri ást og dillandi gleði allt til síðasta dags. Það fylgdi henni alltaf viss kátína og léttleiki og hún þreyttist ekkert á að leyfa mér að skoða myndaalbúmin og útskýra ferðalögin sem mér þóttu svo framandi og mikilfengleg. Ég man hvað ég var upp með mér að segja frá því í skólanum að hún frænka mín fór með skipi til Evrópu og það er sko heljarinnar löng leið, mér fannst hún svo hugrökk og flott. Ég átti bestu og skemmtilegustu frænkuna og fann hvernig krakkarnir öfunduðu mig eða kannski vorkenndi ég þeim að eiga ekki svona föðursystur og leyfði þeim að koma með að heimsækja hana, já sennilega var það þannig og hún tók alltaf svo vel á móti öllum sem komu til hennar.
Brosandi út að eyrum með kræsingar og kakó með þeyttum rjóma, við vorum trítuð eins og kóngafólk og hlógum hamingjusöm og þakklát með brúnt kakóskegg.
Þegar ég varð unglingur vann ég í fiski og vá hvað mér þótti smart að hún væri bankamær, það var ekkert sem toppaði það. Ég elskaði jafn mikið að kíkja til hennar í vinnuna eins og að sitja með henni í eldhúsinu hjá henni að hlusta á sögur og gæða mér á bakkelsi og öðru góðgæti.
Börnin mín elskuðu að eiga Grétu frænku enda gæddi hún líf þeirra dýrmætum stundum og baðaði þau í kærleika rétt eins og hún ætti í þeim hvert bein. Með endalausri gjafmildi kenndi hún okkur þann fallega eiginleika og við munum eiga hugljúfar minningar til að ylja okkur á það sem eftir er.
Þó lífið hafi ekki endilega verið auðvelt hjá henni þá bar hún það ekki utan á sér. Það var henni virkilega þungbært að missa vinnuna í bankanum töluvert áður en kom að lífeyrisárunum enda dugnaðarforkur sem þekkti ekkert annað en að vinna mikið. Hún var samt alltaf í góðu skapi og það var hægt að hlæja að henni og með henni fram til síðasta dags. Hún dásamaði stúlkurnar og starfsfólkið á Hraunbúðum þar sem hún dvaldi síðustu árin. Alltaf svo ánægð með allt og alla, taldi sig vera svo lánsama að búa í svona lúxus og láta stjana við sig. Hversu stórkostlegt er það að sjá lífið alltaf út frá svona mikilli gleði og jákvæðni.
Hún hafði enn einu sinni rifið sig upp og flutti til Vestmannaeyja aftur vorið 2013, ég átti ekki til orð yfir þessum dugnaði og kjarki að ætla að vera ein í Eyjum. En þangað keyrði hún á litla bílnum sínum, spök og glöð.
Elsku Gréta, þakka þér dásamlega og af öllu hjarta mínu fyrir allt sem þú hefur gefið mér og börnunum mínum, alla þína gæsku og yndi. Þú skrifaðir alltaf í kortin til okkar megi gæfan fylgja þér og svo sannarlega var það gæfa að fá að lifa með þér.
Ég óska þess heitt og innilega að nú farir þú farsæl og glöð yfir í sumarlandið til þeirra sem þú elskar mest. Ég veit að þú munt breiða út faðminn þinn þegar ég kem.
Þín
Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir.