Inga Guðmunda Magnúsdóttir fæddist á Hofteigi, Vesturgötu 23 á Akranesi 11. desember 1933. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi 26. ágúst 2020.
Inga var dóttir hjónanna Friðmeyjar Guðmundsdóttur, f. 15. feb. 1908, d. 26. júlí 1965, og Magnúsar Gunnlaugssonar f. 25. ágúst 1893, d. 16. jan. 1970. Ári eftir að Inga fæddist fluttist fjölskyldan að Vesturgötu 25 þar sem þau hjónin Friðmey og Magnús ráku sitt eigið fyrirtæki, Bifreiðastöð Magnúsar Gunnlaugssonar, sem sá um fólksflutninga um Borgarfjarðarhérað. Friðmey og Magnús eignuðust sjö börn og var Inga næstelst í þeim hópi. Systkini Ingu eru Gunnlaugur, f. 4. des. 1932, d. 8. apríl 2015, Anna Ósk, f. 23. mars 1935, d. 15. júní 1935, Erla Von, f. 23. mars 1935, d. 22. júní 1935, Anna Erla, f. 22. jan. 1937, Baldur Ármann, f. 5. júlí 1944, og Leifur Helgi, f. 25. júlí 1947.
Inga giftist hinn 25. maí 1963 eiginmanni sínum, Reimari Snæfells, f. 26. júní 1924, d. 17. maí 2014. Móðir hans var Kristensa Jakobína Guðmundsdóttir, f. 7. október 1891, d. 15. janúar 1972.
Reimar og Inga eignuðust fimm börn og bjuggu lengst af á Vesturgötu 134, Akranesi. 1) Stúlka er fæddist andvana 1962. 2) Kristinn Jakob, f. 11. desember 1964, býr á Akureyri og á fimm börn. 3) Guðrún Kristín, f. 19. nóvember 1965, gift Aðalsteini Víglundssyni, f. 19. júlí 1965, þau búa í Danmörku og eiga saman tvo syni. 4) Inga Snæfells, f. 22. ágúst 1968, býr í Reykjanesbæ og á tvo syni. 5) Linda, f. 22. júní 1972, gift Sveini Ómari Grétarssyni, f. 21. maí 1973, þau búa í Garðabæ og eiga alls þrjú börn. Fyrir átti Inga tvö börn með Sigurði Hreini Ólafssyni, f. 14. september 1933, d. 18 júní 1978: 1) Erling Viðar, f. 29. nóvember 1951, d. 10. apríl 2018, bjó lengst af í Noregi, átti tvö börn. 2) Fríða, f. 30. desember 1952, gift Þórði Þ. Þórðarsyni, f. 27. október 1949, þau búa á Akranesi og eiga saman þrjú börn. Börn Reimars og stjúpbörn Ingu eru tvö: 1) Pétur, f. 9. mars 1951, giftur Heru Sigurðardóttur, f. 27. apríl 1960, þau búa í Reykjavík og eiga alls sex börn. 2) Gréta, f. 13. mars 1953, býr í Reykjavík og á tvö börn. Langömmubörnin eru 35 og langalangömmubörnin eru tvö.
Eftir að grunnskólanámi lauk stundaði Inga vinnu við ýmis þjónustustörf auk örfárra ára hjá Pósti og síma á Akranesi en þó lengst af við fiskvinnslustörf. Hún vann einnig í mörg sumur sem ráðskona hjá vinnuflokki eiginmanns síns Reimars en hann var símaverkstjóri og vann við línulagnir víða um land en þó mest á Vesturlandi og á Vestfjörðum.
Hún var einn vetur í Húsmæðraskólanum Laugalandi 1957-1958.
Útför Ingu fer fram frá Akraneskirkju 4. september 2020 klukkan 13.
Þau lyfta mér upp að hurðinni og ég teygi mig í átt að gyllta ljóninu; bank, bank, bank. Ég stend á stéttinni fyrir framan hurðina og bíð með eftirvæntingu eftir að það komi hreyfing á útskorna hurðarhúninn sem er staðsettur rétt fyrir ofan höfuð mitt. Hvort þeirra mun opna? Það skiptir ekki öllu því tilhlökkunartilfinningin er svo sterk, og viðbrögðin munu verða þau sömu; opinn faðmur, bros og hlátur.
Við vorum velkomin hjartanlega velkomin. Þetta er ein besta tilfinning
sem hvert mannsbarn getur fundið. Að vera tekið opnum örmum af áhuga og
ást. Svona var þetta alltaf þegar við komum til ykkar, og tilfinningin óx
með manni. Elsku amma, við sem syrgjum þig munum geyma akkúrat þetta í
hjarta okkar og vonandi getum við miðlað því áfram til barna, barnabarna og
allra sem á vegi okkar verða. Takk fyrir að gefa svona mikið af þér.
Lífsgildi þín einkenndust af ást og virðingu. Þú varst nærgætin, en á sama
tíma kærleikinn uppmálaður og það geislaði svo skært í gegnum bros þitt. Ég
sakna nærveru þinnar. Hún var hlý. Róandi. Þú varst svo góð.
Ég trítla upp teppaklæddan stigann. Loftið er hreint og birtan skín inn um
gluggann. Ég stelst til þess að setjast fyrir framan snyrtiborðið þitt í
svefnherberginu. Í græna ullarstólinn. Ég er hefðarfrú í nokkrar mínútur
þar til þú kallar á mig: Tinna, eigum við að spila á gítarinn? Gítarinn
er falskur. Þú slærð á þráðinn til Leifa bróður þíns sem með sinni einstöku
snilligáfu hjálpar þér að stilla gítarinn í gegnum símtólið. Og svo hefst
samsöngurinn:
Ég lonníetturnar lét á nefið, svo lesi gæti ég frá þér bréfið. Ég las það
oft og mér leiddist aldrei, og lifað gæti ég ei án þín. Tra la la la la la
ljúfa. Tra la la la la la ljúfa. Ég las það oft og mér leiddist aldrei og
lifað gæti ég ei án þín. Þetta endurtókum við aftur og aftur. Þú hafðir
mikla þolinmæði. Eina sem skipti máli var staður og stund. Að mér fannst.
Þú hefur sjálfsagt verið með þínar áhyggjur af hinu og þessu. Ég fann það
ekki þá en skildi þær eftir því sem árin liðu. Þú barst hag afkomenda þinna
fyrir brjósti. Það var það eina sem skipti þig máli. Að okkur myndi farnast
vel.
Þú signir kross á lítinn kropp eftir kvöldbaðið. Litla dúkkan, sem felur
klósettpappírinn undir heklaða kjólnum sínum, heiðrar okkur með nærveru
sinni. Ég skríð upp í rúmið ykkar afa, sem er prúðbúið hreinum,
nýstraujuðum sængurfötum. Hvítum. Loftið er hreint og tært. Þú varst
húsmæðraskólagengin og heimilið eftir því. Þú lest fyrir mig sögu, syngur
lög úr vísnabókinni á meðan litlu fingurnir mínir strjúka þér um
handlegginn. Húðin var mjúk, aðeins komin til ára sinna. Stundin var
notaleg og ég sofnaði vært.
Ég syng oft úr vísnabókinni fyrir börnin mín og hugsa til þessara stunda
sem ég átti með þér. Ég fæ hlýju í hjartað, stundum tár í augun. Eitt sinn
ákvað ég að slá á þráðinn til þín og segja þér frá hversu vænt mér þótti um
þessar stundir og að lögin minntu mig á þig. Þér þótti vænt um að heyra
það.
Þú áttir alltaf heimabakað bakkelsi í frystinum til að bera fram þegar gest
bar að garði. Viljið þið ekki fá ykkur aðeins meira? ... og það kom sko
ósjaldan fyrir að maður lægi afvelta í sófanum að matartímanum loknum. Það
átti enginn að fara svangur frá borði hjá þér. Þú elskaðir að gera vel við
okkur og sérstaklega bera fram eftirrétt að loknum kvöldverði; ís með
heitri toblerone-sósu, ískex on the side. After eight ef þannig lá við.
Spjall og góðar sögur við matarborðið. Dýrmætt.
Þú misstir mikið við fráfall afa. Hann var þín stoð og stytta.
Gledespreder eins og þeir segja hér í Noregi. Hann var orðheppinn og
leikinn við að ýta á ákveðna takka hjá fólki svo að hláturinn átti greiða
leið út í andrúmsloftið. Og alltaf skelltir þú jafnmikið upp úr að
bröndurunum hans; ... hah, Reimar! Hann var stoltur af þér og þakklátur
fyrir allt sem þú gafst honum og gerðir fyrir hann. Eitt sinn gerði ég
verkefni í fjölbraut þar sem ég átti að taka viðtal við heldri manneskjur,
skrifa einhvers konar æviágrip út frá sálfræðilegu sjónarhorni. Ég valdi að
taka viðtal við ykkur. Þú vildir nú ekki gefa mikið fyrir ævistörf þín, en
afi hafði þá tök á að lyfta þér upp á hærra plan, á þann stall sem þú áttir
skilið. Það var fallegt að verða vitni að því. Fyrir honum varstu einstök
og ástin var sönn ykkar á milli.
Veðurguðirnir deila sorginni með mér nú sem ég skrifa til þín. Við erum
mörg sem grátum þig enda hefur þú skilið eftir djúp spor í hjörtum
okkar.
Ég vildi að ég gæti heimsótt þig einu sinni enn, tekið utan um þig, fundið hlýjuna. Ég vildi að ég gæti talað við þig í síma einu sinni enn, þótt ekki væri nema bara til að spjalla um veðrið og fá að heyra þig segja jæja, Tinna mín.
Ég vil trúa að það sé til einhvers konar líf eftir þetta líf. Að þú sért
komin til afa og barnanna þinna sem þú varst svo óheppin að missa áður en
þinn tími leið, og að einhvern tímann munir þú taka mér opnum örmum á
ný.
Og loks þegar móðirin lögð er í mold,
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.
(Ómar Ragnarsson)
Hvíl í friði elsku amma mín og takk fyrir ógleymanlegar stundir.
Þín
Tinna Björg.