Sigfús Fannar Stefánsson fæddist 24. maí 1969. Hann lést á heimili sínu hinn 19. ágúst 2020. Foreldrar hans eru Anna Sigfúsdóttir, f. 21. júní 1951, og Stefán Pétur Jónsson, f. 3. maí 1951.

Systkini Sigfúsar samfeðra eru Bergþór Máni, Harpa Hrönn og Sigurður Sindri. Móðir þeirra er Árdís Sigurðardóttir. Sigfús var ókvæntur og barnlaus.

Sigfús eða Fúsi Fannar, eins og hann var gjarnan kallaður, var alinn upp á Selási 23 á Egilsstöðum hjá móðurforeldrum sínum þeim Sigfúsi Gunnlaugssyni og Láru Guðmundsdóttur. Fúsi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1991 og flutti í kjölfarið til Reykjavíkur til að stunda nám í kerfisfræði. Í framhaldinu hóf hann störf hjá hugbúnaðardeild Tæknivals. Eftir samruna nokkurra fyrirtækja endaði Fúsi sem starfsmaður Advania og starfað þar til ársins 2016 þegar hann flutti sig til Rarik.

Fúsi hafi mikinn áhuga á íþróttum. Stærstu hlutverki gegndi fótboltinn en hann ólst upp við að horfa á leiki í sjónvarpinu með afa sínum, en á seinni árum fór hann að stunda golf í góðra vina hópi. Tónlist átt einnig stóran sess í lífi Fúsa, sérstaklega á unglingsárunum en þá stofnuðu þeir félagarnir hljómsveitina Ýmsir flytjendur. Þeir töldu gjarnan í vinirnir ef þeir voru allir staddir fyrir austan.

Útför Sigfúsar Fannars verður gerð frá Egilsstaðakirkju í dag, 5. september 2020, klukkan 14. Vegna fjöldatakmarkana verður athöfninni streymt á egilsstaðakirkja.is. Virkan hlekk má nálgast á https://www.mbl.is/andlat

Siggi siturðu? Sestu ef þú situr ekki. Þetta var setningin sem mamma sagði áður en hún tilkynnti mér að Fúsi bróðir minn væri látinn. Það tók mig dálitla stund að átta mig á þessu, enda svo óraunverulegt að það er ekki hægt að lýsa því.
Fúsi var að verða 13 ára þegar ég, örverpið, kom í heiminn. Ein af mínum fyrstu minningum er af Fúsa í fermingarveislu Mána bróður okkar sem er 4 árum yngri en Fúsi. Ég var um það bil fimm ára og ég man hvað ég var feiminn en hann var það líka og eflaust alveg jafnskrítið fyrir hann og fyrir mig að eiga bróður og þekkja hann varla. Ég kynntist Fúsa frekar seint og í rauninni vissi ég það innst inni þar sem aldursmunurinn og það að Fúsi bjó ekki hjá okkur gerði það að verkum. Ég kynnist Fúsa ekki að neinu viti fyrr en ég var farinn að nálgast tvítugt.
Þegar ég byrjaði að spila á gítar þá var það Fúsi sem gaf mér góð ráð sem ég stend sjálfan mig að að gefa öðrum í dag, hann var nefnilega mjög flinkur í að miðla reynslu sinni og koma því þannig til skila að það sat eftir, þannig var það hjá mér að minnsta kosti.
Fúsi ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Egilsstöðum og fluttist í borgina til móður sinnar þegar hann var rétt rúmlega tvítugur. Það breytti því samt ekki að hann kom reglulega austur og var duglegur að koma í heimsókn. Alltaf var þetta svolítið skrítið en svo kom þetta allt eftir því sem maður varð eldri og við fórum að kynnast betur. Það kom á daginn að við áttum sérlega gott skap saman. Ég elskaði það þegar hann fór að stríða mér því það var gert á eitthvað svo fágaðan hátt að það var ekki séns að verða fúll eða reiður, heldur hló ég með honum.
Ég sá Fúsa aldrei skeyta skapi útaf nokkrum sköpuðum hlut, frekar sagði hann bara: Iss, það þýðir ekki neitt að velta sér uppúr svona. Ef ég var að segja honum frá einhverju leiðindum sem ég hafði lent í sagði hann þetta. Ein setning frá honum sem ég man alltaf er: Núna er þessi bók bara búin og þá opnarðu þá næstu og heldur áfram! Svona var Fúsi, það var bara ekki hans stíll að velta sér upp úr neikvæðum hlutum og svartsýni.
Ég var alltaf ákaflega stoltur af því að vera bróðir hans Fúsa, enda fannst mér hann óendanlega töff þegar ég var unglingur því hann var í hljómsveit. Ef ég rakst á einhvern sem ég vissi að þekkti Fúsa þá kynnti ég mig stoltur sem bróðir hans og geri enn.
Alltaf þegar leið mín lá til Reykjavíkur þá var slegið á þráðinn til Fúsa til að láta vita af því að litli bróðir væri í bænum. Alltaf var hann snöggur að bregðast við og til í að hittast og klikkaði ekki á því.
Eftir að ég eignaðist konu og börn og við vorum í bænum eða hann fyrir austan þá reyndum við alltaf að hittast. Einu sinni þegar við vorum í bænum höfðum við samband við Fúsa og spurðum hvort við ættum ekki að hittast, það stóð ekki á svarinu og hann segir: Á ég ekki bara að bjóða ykkur í mat? Ég var svolítið hissa þar sem ég vissi ekki að Fúsi kynni að elda, en við fórum til hans og bönkuðum uppá. Engin var matarlyktin en dreif hann okkur út og beint á Grillhúsið. Svona var þetta þegar við hittum hann í bænum, alltaf á Grillhúsið.
Fúsi var harður Manchester United-aðdáandi og það fór ekki á milli mála þegar bróðursynirnir komu í heiminn. Þá komu gjafir eins og United-peli og Red devil-samfella. Eftir að við fluttum í húsið okkar kom Fúsi færandi hendi með innflutningsgjafir handa strákunum, sem voru Man Utd.-plaköt, en þeir höfðu sagt honum að þeir héldu með Man City. En uppá vegg fóru plakötin að sjálfsögðu, því að Fúsi frændi gaf þeim þau og þá var þetta eins og gull! Fúsi þóttist auðvitað steinhissa á því að þeir skyldu ekki halda með United og hló sínum stríðnishlátri!
Fyrstu ár litlu frændanna lagði Fúsi í vana sinn að leggja upphæð inn á bankabækurnar þeirra, í fæðingargjöf og síðan jólagjafir. Honum fannst þetta þægileg lausn sem myndi koma sér vel seinna fyrir krakkana. En svo fyrir ein jólin hringdi hann og spurði hvað þeir vildu fá í jólagjöf því það að senda þeim pening skildi ekkert eftir sig, hann vildi nefnilega að strákarnir myndu tengja við Fúsa frænda. Ég held að hann hafi viljað vera í uppáhaldi hjá þeim. Þetta virkaði vel hjá honum enda rauk hann upp vinsældalistann hjá litlu frændunum og öll jól síðan þá hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu eftir því að pakkarnir frá Fúsa frænda kæmu í hús, en það stóð stundum tæpt að það næðist áður en jólin gengju í garð! Alltaf slógu pakkarnir í gegn og Fúsi hefur eflaust hlegið þegar hann var að versla leikfangahundinn með háværa geltinu eða bílinn með ærandi sírenunni. Þarna sló hann tvær flugur í einu, gladdi strákana og stríddi okkur foreldrunum.
Ég hefði gjarnan viljað kynnast Fúsa almennilega fyrr á lífsleiðinni en það þýðir lítið víst lítið að hugsa um það núna, heldur þarf að muna allar skemmtilegu stundirnar sem maður átti með honum og faðma allar þessar minningar sem koma upp. Við munum alltaf halda minningu Fúsa hátt á lofti í fjölskyldunni.
Söknuðurinn er mikill og sorgin nánast óbærileg en ég trúi því að Fúsi minn sé á stað þar sem hans er þörf, eða eins og konan mín sagði við einn drengjanna okkar að þá fór Fúsi að hjálpa Guði að skreyta regnbogana.
Elsku hjartans bróðir minn, ég treysti því að þú sért að stríða hverjum þeim Liverpool-manni sem þú hittir í Sumarlandinu.
Ég elska þig og sakna meira en orð fá lýst!
Góða ferð ....


Sigurður (Siggi), Tinna, Smári, Logi og Rökkvi.

í dag er ég búinn að eyða öllum deginum á rúntinum. Það hef ég ekki gert í mörg ár. Ástæðan er sú að einn af mínum albestu æskuvinum, Sigfús Fannar Stefánsson, er fallinn frá í blóma lífsins, allt of snemma.
Sorgin er yfirþyrmandi og erfitt að hugsa til þess að ég eigi aldrei eftir að hitta þig aftur Fúsi minn. Nú keyri ég um göturnar og rifja upp góðar minningar um góðan vin, og hlusta á lögin sem við hlustuðum sem mest á, á rúntinum á Egilsstöðum. Ég hlusta á AC/DC, Guns´n´Roses og fleiri bönd sem við gátum hlustað á klukkutímum saman. Loverboy og Foreigner voru í miklu uppáhaldi hjá þér og þegar ég spila Working for the weekend og Hot blooded get ég ekki haldið aftur af tárunum.
Í huganum situr þú í farþegasætinu hjá mér.
Þessi dagur er tileinkaður minni hinstu kveðju til þín, síðasti rúnturinn. Á þessum rúnti hringi ég í sameiginlega vini okkar, Simma og Jonna, og Eystein bróður og við rifjum upp frábærar minningar um Fúsa Fannar, okkar kæra vin, og sækjum styrk til hver annars um leið. Minningar eins og þegar ég, þú og Jonni fórum í stórkostlegar roadtrip-tónleikaferðir til Reykjavíkur á Kiss árið 1988 og Whitesnake árið 1990. Þeim ferðum gleymi ég aldrei. Eða þegar við sátum langt fram á nótt að klippa video af steggjun Jonna Fjalars, og bókstaflega veinuðum af hlátri allan tímann. Svona eru allar mínar minningar um þig, fullar af gleði og hlátri.
Okkar fyrstu kynni voru þegar ég var unglingur á Egilsstöðum og ég minnist þess að sjá þig þeysast um göturnar á Escortinum þínum með músíkina í botni og iðulega með fullan bíl af fólki. Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar ég labbaði upp að bílnum þínum og spurði hvort ég mætti koma með á rúntinn, þrátt fyrir að ég þekkti þig nákvæmlega ekki neitt á þeim tíma. Þú leist á mig stórum augum, frekar hissa, og eftir smá þögn sagðirðu já, ætli það ekki og upp frá þessari stundu urðum við miklir vinir og sú vinátta er og verður mér ávallt dýrmæt. Rúntarnir okkar áttu eftir að skipta hundruðum, en nú er ljóst að rúntarnir okkar verða ekki fleiri.
Fúsi var mjög músíkalskur og ég var alltaf stoltur af vini mínum þegar hann stóð á sviðinu með Rustikus og Ýmsum flytjendum og plokkaði bassann af lífi og sál. Ég held að Fúsa hafi hvergi liðið betur en með bassann í hendi að spila á balli með vinum sínum Elvari, Steina, Bjögga og Dóra.
Fúsi var mikill stríðnispúki og kom því vel frá sér, gat strítt endalaust án þess að særa. Máttu þá Liverpool-aðdáendur sérstaklega eiga von á hressilegri skothríð þegar þeir hittu Fúsa. Fyrst kom skotið, og svo langt haaaaa og svo var skellt upp úr. Allir sem þekktu Fúsa vita nákvæmlega hvað ég er að tala um. Og aldrei hló Fúsi meira en þegar hann fékk gott svar á móti. Gott dæmi um skemmtilega stríðni Fúsa er þegar hanni gaf Hauki syni mínum forláta trommusett í jólagjöf sem átti eftir að æra okkur Hörpu dögum saman, þangað til það týndist á dularfullan hátt. Ég gleymi aldrei brosinu á Fúsa þegar hann kom og færði Hauki þennan pakka. Hann var gjörsamlega að springa úr hlátri. Gleðileg tónlistarjól stóð á kortinu. Þegar Fúsi fór sátu allir eftir skælbrosandi, enda hafði hann einstakt lag á að skilja svoleiðis við fólk.
Fúsi var sannkallað gæðablóð, og það var mjög einkennandi fyrir hann að hann talaði aldrei illa um aðra, og gerði aldrei neinum mein á einn eða annan hátt. Að sama skapi hef ég aldrei nokkurn tímann heyrt neinn tala illa um Fúsa, sem segir eiginlega allt sem segja þarf um hvers konar manneskja hann var. Umfram allt, meinlaus og góður maður. Hann var mikill vinur vina sinna og hans vinátta var traust. Einstaklega hjálpsamur og vildi allt fyrir alla gera. Fúsi hafði alltaf mótandi og góð áhrif á mig í uppvextinum á Egilsstöðum. Ég mun alltaf vera þakklátur fyrir að hafa kynnst Fúsa, þakklátur fyrir allan þann tíma sem við eyddum saman um ævina, og þakklátur fyrir allar okkar gleðistundir.
Fjölskyldu og vinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Elsku Fúsi, þú varst sannkallað gull af manni og þín verður sárt saknað.
Megi minning þín skína skært.
Þinn vinur


Jón Hauksson.