Páll Sigurjónsson fæddist 17. júlí 1944. Hann lést á 12. ágúst 2020. Útför Páls fór fram 21. ágúst 2020.

Og hvað hefur þú lært? spurði karlinn Páll, eldri bróðir pabba, þar sem hann sat gegnt mér á bekknum við eldhúsborðið á Galtalæk í Landsveit. Á milli okkar var taflborð þéttskipað sandgulum og plastbrúnum lágvöxnum og miðju- og niðurdigrum taflmönnum, snjáð af fjölda orusta, korgkenndra og jafnvel göróttra drykkja (eftir að ungviði hafi boðið góða nótt) og sígarettuösku. Það var ákveðinn heiður að vera nægilega gamall til að fá að tefla með taflinu hans Páls. Dökku reitir skákborðsins höfðu máðst út líkt og yfirstaðnar áskoranir. Ljósu reitirnir sem gátu táknað sigur ljóssins yfir náttmyrkri huga og heims höfðu jafnt og dökku reitirnir gengist við að fátt var eins og það sýndist í fyrstu, voru sumir hverjir máðir og yrjóttir. Ég sagðist vera búinn vera að lesa Jónas og fór með fyrsta erindið:

Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.
(Jónas Hallgrímsson)


Heyrt fallegra ort, en þetta skil ég frændi, sagði hann, nefmæltur að venju. Ég lét það ógert að spyrjast frekar út í hvað það var sem karlinn Páll skildi svo vel. Var það þráin og hryggðin, næturskýin, eða var ástarstjarnan hans hulin að einhverju leyti?

Hann setti herping á efri vör hægra megin og velsældarkurrhljóð, sem minnti á rjúpukurr, fór að berast neðst úr hálsi og innan úr haus. Með þessu fylgdu ósjálfráðir og taktfastir taugakippir sjöunda hálsliðs sem snéru höfði ákveðið og tvisvar í senn, líkt og hann væri að neita hljóðlaust í samtali. Það var öðru nær. Þegar hann var nývaknaður eða mikið lá við átti hægri höndin til með að stífna og hnefinn að rekast fram og niður að læri og olnbogi að vindast upp og niður inni í skyrtunni og snúast um öxl, án þess að hnefinn hreyfðist mikið. Honum leið vel, mettur af steinbít í raspi, sméri og smælki, sem borið var á borð og gengið frá eftir af öðrum en honum, því almenn heimilisstörf voru kvennastörf í þeim menningarheimi sem Páll tilheyrði. Á sama hátt náði umhyggjusemi með smáfólki einungis til eldhúsborðs og fjóss.
Skákin hafði þróast og hann var kominn með yfirhönd á skákborðinu eftir að hafa leyft mér og minni sjötta bekkjar skákþekkingu að spreyta sig og hafa gefið mér drottningu í fimmta leik. Hægri höndin var farin að hvíla slök til skiptis um filterslausan Camel og kaffibolla. Vinstri höndin nuddaði af og til augntóftina með glerauganu, en lífræna auganu tapaði hann við handfjatl með riffil þegar þeir voru tíu og tólf ára strákar að kanna heiminn hann og pabbi. Nú var það skákin, samveran, samtalið.

Það er hollt að læra að tapa frændi, þá metur þú sigurinn betur.

Páll var handstór miðað við hæð, með þykka hönd og þykkur undir hönd. Á hillunni fyrir aftan bekkinn á Galtalæk var að finna handafegrunarsett Páls, sem oftast nær samanstóð af lítið notuðum olíusandpappír og júgursmyrsli. Pappírinn var nýttur við að slípa niður barma á dauðadjúpum sprungum handarbaka og kjúka. Misdjúpum eftir árstíð. Júgursmyrslið var nýtt til að bera á eftir slípivinnu eftir mjaltir og fyrir kvöldmat borinn fram af ömmu. Áður en við tóku fréttir og veður, þar sem tónstyrk tækisins var stýrt með kubbóttri fjarstýringu haldinni saman með heftiplástri. Án þess að ég þyrði að álykta sökum barnsaldurs, var ljóst að frændi hafði meiri áhuga á þekkingunni og samfélaginu en því að vera beinlínis í framlínu þeirrar framleiðslu sem átti sér stað á því býli sem hann síðar erfði formsins vegna, sem elsti sonur í átta systkina hópi. Því kom það fyrir að júgursmyrslið á hillunni var jafn mikið nýtt til að mýkja upp sár á höndum eftir raunir og jafnvel klaufsku hversdagsins, og að milda ættgengan handarþurrk.
Ég, og við hin krakkarnir, vissum reyndar sem var, að Páll hafði lítið á móti því að næturský hyldu hverja morgunkomu, þó ekki væri nema um örfá stundarkorn. Því var það ærið verkefni í heimsóknum á Galtalæk að spara stafblindri föðurömmu ferðina og fara upp á Norðurloft að vekja hann Pál í morgunmjaltir. Ferðirnar gátu orðið þrjár áður en hrokkinn kollurinn reis frá kodda. Þetta var árum áður en ég heyrði skilgreiningu á a- og b-manneskjum í fyrsta skipti. Páll stóð ávallt keikur fyrir X-B.
Sökum þess hvar í veraldarsögunni heimilishaldið var rekið, fóru öll helstu viðskipti búsins fram í gegnum Sambandið. Sama var um félagslíf. Því rötuðu mannamót Páls oftar en ekki yfir þröskulda Bændahallar og á Framsóknarflokks- og Búnaðarþing, eða í önnur félagsstörf. Á örskotsstundu viku dagleg dökkgræn og slitin hermannaföt heimaverkanna keypt á Sölu varnarliðseigna fyrir jakkafötum, bindi og Camelpakka ofan úr skáp í hvorum boðung. Þar naut hann sín hvað mest utan heimsins á Galtalæk og gat rætt við samferðamenn og konur af sérfræðiþekkingu um búskaparhætti, málefni líðandi stundar, fortíð og framtíð.
Því gat jafnvel verið hægt að færa rök fyrir því að hryggð drengsins í djúpa dalnum fælist í hælaböndum ættarveldis aldarinnar sem frændi fæddist á. Að þráin fælist í að starfa frekar fyrir samfélagið í heild sinni, en að sinna einu búi í Landsveit, án þess að slíkt yrði nokkurn tímann rætt í heyranda hljóði.
Eftir að ég fermdist fóru ljóðin í heimsóknum mínum á Galtalæk, og kvöldvökur okkar frænda með skákborðið á milli okkar, að umbreytast úr yfirferð yfir hefðbundin skólaljóð. Þá kom jafnframt sá dagur að frændi hætti alfarið að gefa mér drottningu á skákborðinu möglunarlaust. Við tók meðferð á neðanbeltis- og drykkjukveðskap Skaftfellinga, enda fór ég að sækja æ meira austur fyrir Mýrdalssand. Þá fóru heimsóknir á Galtalæk einnig að strjálast. Í einni af slíkum heimsóknum fór Páll með eina frumsamda kvæðið eftir sig sem ég skráði hjá mér. Yrkisefnið var um eitt af kraftaverkum Krists:

Við Biblíulestur er auðvelt að sanna:
að Drottinn ýmist réð, lofa, banna.
Sá að utan vætu ei þrifist neinn gróður,
og sáðblómið þarf víst til vökva og fóður.

Í árdaga Drottinn vor vatninu breytti.
Varlega drykkjarins templarinn neytti.
Hinir, sem trúðu, þeir glöddust í andanum;
alsælir settust að mysunni, landanum.

Undu í gleðinni Lausnarann lofandi:
Liggjandi alsælir, blindfullir, sofandi.
Tilvísun Káins á kærleikann trúandi;
titrandi svelgjandi, rúllandi, spúandi.

Vakna að morgninum tifandi, titrandi,
teygandi vatnið úr krananum glitrandi.
Með æðaslátt höfuðið harðlega lemjandi
hreinlega trúlausir, næstum því emjandi

En þegar Eygló að vestrinu kemur,
okkur, og Drottni, strax mun betur semur:
Því Hann bjó til lyfið sem leitað er eftir.
Lofa menn Skaparann síðkvöldin, þéttir.
(Páll Sigurjónsson)


Síðan þá hefur þetta kvæði verið mér hugleikið á þeim forsendum að væntanlega sé hið hornrétta meðalhóf bilið á milli þeirra öfga sem kvæðið Páls lýsir. Sumsé að njóta lífsins án ofstopa, án oflofs eða lasts. Sjálfur átti Páll sín tímabil með breyttu vatni Drottins. Tímabil sem gátu hafist með jafn mikilli væntingu og setning bændaþings. Án þess þó að nákvæm niðurstaða fengist í þinghaldið. Brími án blossa.

Eftir að ég fór á samning í húsasmíði austan við sand, hélt ég áfram tengingu við samverustundir og helgarheimsóknir á Galtalæk. Heimsóknirnar urðu enn færri en áður, en jafn dýrmætar eftir á að hyggja. Ég nýtti einnig tímann til að aðstoða frænda við að dytta að ýmsu smáræði, enda maður að meiri að mér fannst að vera á samning í smíði. Þó var mér ljóst að vinnuleg afköst lengdra helgafría af minni hálfu skiptu minna máli í huga frænda. Það var samtalið, vinskapurinn, hugarflugið, hugarreiknifimin, skákirnar.
Í einni af þrautum unglingsáranna minna leitaði ég til Páls um málefni þar sem auðveldara hefði verið fyrir mig að fara á svig við sannleika málsins sem vitni. Þá lagði Páll til að ég færi satt og rétt með í einu og öllu, þó slíkt væri erfitt, því hvernig ætlaði ég annars að muna annað?

· Samkvæmt þessu heilræði gengst ég við eigin yfirsjónum.
· Samkvæmt þessu minnist ég samtalsins góða og lýsi föðurbróður mínum sem því breyska ljúfmenni sem hann var.

Í framhaldi af andláti Sigurjóns afa míns og pabba Páls á páskadag 1997, dvaldi ég á Galtalæk um tveggja mánaða skeið. Þessi tími gerði okkur báðum nokkuð gott, þar sem ég hafði um vorið tapað sjálfum mér tímabundið handan næturskýja höfuðborgarinnar og þurfti sálin til baka og til upprunans, þrátt fyrir að hafa staðið á sviði í menntaskólauppfærslu á ævi Jónasar sjálfs, leikið Jónas, og flutt meðal annars kvæðið Ferðalok í anda Páls fyrr um veturinn. Á sama tíma hafði Páll horft á eftir föður, húsbónda og leiðtoga og þurfti að takast á við nýtt hlutverk sem leiðtogi búsins en ekki sá þjónustulundaði sérfræðingur sem ég sá hann vera. Einmitt þá sótti ég fast eftir því að komast í vélavinnu inni í Virkjunum en endaði á því að fara austur yfir sand að smíða í millitíðinni og hef enn í dag ekki komist í þessa vélavinnu.

Í þögn okkar yfir skákinni, milli umræðna um stjórnmál, iðnað, ættfræði og kveðskap, mátti greina útlínur svarta rakkans hans Churchill. Rakki þessi átti eftir að telja sig þjóna frænda að einhverju marki. Þá sótti frændi á stundum í breytta vatnið sem hann orti um í kvæði sínu.

Svo komu aldamót. Tíminn mátaði kvöldvökur og við tefldum ómeðvitað síðustu skákina hvor við annan. Mitt líf breyttist eftir að ég flutti alfarið í höfuðborgina og ég fór sjálfur meðal annars að sinna uppeldishlutverki, þar sem ég hef fram á þennan dag nýtt þau verkfæri í samtalsfærni sem karlinn Páll innrætti ómeðvitað. Það var enginn betri en Páll í að sýna mér fram á að mögulegt er að taka eftir og hlusta og leiðbeina ungviði með virkri hlustun, án þess að hafa sjálfur getið. Við reyndar tókum það fyrir í einu spjalli minna unglingsára að bestu kennararnir væru þeir sem ekki gætu sjálfir, en hvað vissum við?

Svo frétti ég af atburðum sem ég skýrði út fyrir sjálfum mér sem ágengni á góðsemi Páls, löngun til að tilheyra og síðar einsemd hans. Kom sá dagur að hann þáði boð um að koma að Hellum í Landsveit til systur og systurdóttur, þar sem einsemdar og áhrifa rakkans gætti síður og hann var í kringum börn að nýju. Það var vel. Þar fékk hann einnig tækifæri til að njóta sín og sinna hugðarefnum og félagsmálum, endurnýja og efla kynni við bændur og búalið í sveitum Suðurlands.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.
(Jónas Hallgrímsson)


Nú er þín Eygló í vestri, kæri frændi, þú vonandi sæll og sofandi. Taflmenn þessarar jarðvistar verða óhreyfðir okkar á milli líkt og frá aldamótum.
Arfleifð þín, skákbyrjanir og gleði í auganu alsjáandi lifir.

Í faðmi feðra og mæðra,
í fögnuði Guðs í æðra.
Hvíldu Páll í hjartans friði,
sem hrókur í himins liði.

Kveðja,

Sigurjón Jónsson, systkini og fjölskyldur.